Þórbergur 119 ára í dag?

Ekki var hann viss um fæðingarár sitt, hann Þórbergur Þórðarson, þannig að það er ekki nema von að ég sé í vafa. Hann var víst fæddur 1888 eða 1889 þannig að það er um að gera að halda upp á það núna til öryggis. Ég mætti í Þórbergssmiðjuna á sunnudaginn en entist ekki mjög lengi. Er nú komin með Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (eftir ÞÞ) í þremur bindum í kallfæri. Í dag er dagurinn, er bara svo grefilli bissí að ég efast um að ég klári þríbindið fyrir helgi.

Meðal þess sem gerðist í smiðjunni á sunnudaginn (fyrir utan að hlusta á erindi og hjala aðeins við Ármann og Kristínu og Ursulu og Hermann og Ragnheiði Margréti og Bergljótu o.fl.) var upptroðsla Baggalúts. Sá með appelsínugulu húfuna söng í lokin sósutexta Þórbergs, sóló. Ég bara vissi ekki fyrr en þá að Þórbergur hefði ort um sósuna sem kom frá vinstri, hægri, að ofan, utan o.s.frv. Veit það núna.

Baggalútur í Þórbergssmiðju

Þá tók við þriggja manna tal á senunni, þeirra Þrastar Helgasonar, Matthíasar Johannessens og Vilborgar Dagbjartsdóttur. Ekki vissi ég fyrr en þau ljóstruðu því upp að Þórbergur hefði verið mikill kvennamaður. Svo sögðu þau hvort sína söguna af því hvernig hann heillaðist af henni Margréti sinni. Þórbergur sagði Vilborgu að hann hefði fallið fyrir því hvernig Margrét notaði þumalinn þegar hún skúraði! Þá skellti Matthías upp úr og sagði að Þórbergur hefði sagt sér að hann hefði vissulega fallið fyrir henni þegar hann sá hana við skúringar, aðkoman hefði bara verið lítils háttar öðruvísi.

Þröstur, Matthías, Vilborg

Svo komu dr. Gunni og Heiða og ætluðu að kenna börnum að meta Þórberg:

Dr. Gunni og Heiða

Og eins og gefur að skilja eru Vilborg og Matthías aftur mætt á sviðið, nú til Egils Helgasonar í sömu erindagjörðum. Gaman að arfinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, Þórbergur svíkur engan.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.3.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband