En leiðsögumenn sömdu í dag ... og ég á inni 700 kr. eingreiðslu

Í Félagi leiðsögumanna eru um 600 félagsmenn. Þar af hafa um 150 rétt til að greiða atkvæði um kjarasamninga, þeir 150 sem hafa á síðustu 12 mánuðum greitt félagsgjöld af a.m.k. fjórum dagsverkum.

Póstkosning var höfð um samningana sem undirritaðir voru 29. maí sl. Talning fór fram í dag. 67 nýttu sér réttinn til að kjósa, 35 sögðu já, 30 sögðu nei, 2 skiluðu auðu. Kjörnefnd Félags leiðsögumanna: Berglind, Stefán, Þórhildur

Starfandi leiðsögumenn horfa til ólíkra hluta í samningunum. Sumir skoða launaliðinn, sumir uppsagnarákvæðin, sumir ákvæði um aðstöðu, sumir kannski veikindarétt og sumir allt þetta.

Ég er lítið sem ekkert í langferðum og ég lít helst til launaþáttarins. Samkvæmt samningunum sem runnu út um áramót fékk ég um 1.450 kr. á tímann í dagvinnu og 2.200 í yfirvinnu. Ég kann ekki að reikna nákvæmlega burtu orlofið, sem er innifalið í taxtanum, og kostnaðarliðina en það lætur nærri að dagvinnan sé 1.200 kr. Það losar þá í mánaðarlaun 200.000 kr. en ég þekki varla leiðsögumann sem vinnur fulla vinnu hjá sama fyrirtækinu allt árið. Leiðsögumenn sem vilja vinna við það allt árið þurfa því að prjóna við.

Nú les ég um afbókanir og versnandi afkomu í greininni. Flugumferðarstjórar, sem einhver sagði að væru með 850.000 kr. á mánuði, ætla að lulla nokkra virka morgna, olíufurstarnir geta í krafti hagfræðireglunnar um framboð og eftirspurn hækkað eldsneyti eins og þeim hugnast á syfjulegum morgnum, gengið er eins og jójó og veðrið er árviss óvissuþáttur. Náttúruöflin hafa sín áhrif sem sást t.d. á því um daginn að a.m.k. einn þýskur hvatahópur hætti við að koma til landsins af ótta við að jörðin gleypti hann. Þar misstu fyrirvaralaust einhverjir spón úr aski sínum.

Ja, ég segi bara það að óbilgirni leiðsögumanna er ekki til að dreifa og það eru ekki óviðunandi launakröfur okkar sem valda samdrættinum.

Ég er dús við að samningarnir voru samþykktir með næstminnsta mun.

Og ef 700-kallinn minn - brúttó - skilar sér ekki af sjálfsdáðum mun ég ekki fara í innheimtuaðgerðir.

Bunkinn góði, 1/3 atkvæðisbærra kaus


mbl.is Áhyggjur af haustinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er eflaust mjög skemmtilegt starf og margir sem að mundu eflaust vilja starfa í túristabransanum en þú segir allt sem að segja þarf um þetta launin eru vægast sagt hörmung og ég veit ekki hvernig fólk fer að því að lifa á þessu klinki.

Ómar Ragnars og co halda að þetta sé það sem að "bjargi" þjóðinni fremur en álver en ég efast stórlega um að það ágæta fólk viti hversu skammarleg launin eru.

Ég vinn ekki í álveri og er enginn sérstakur stuðningsmaður þeirra en að benda sífellt á ferðamannaiðnaðinn sem mótsvar við álinu finnst mér kjánalegt því að það eru ekki margir sem að græða á túrismanum.Tímabilið er of stutt og verðlagið hér of hátt til að þetta skili okkur  störfum sem að fólk getur lifað mannsæmandi lífi á.

En gangi þér annars vel.

fýlupúki (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 21:45

2 identicon

Hvað er rétt og hvað er rangt? Álver selja afurðir sínar háu verði - eins og Olíufurstarnir. Álverin á Íslandi bjóða mjög góð laun, meira að segja fyrir verkamannavinnu, en fá ekki Íslendinga til að vinna vinnuna.

Hugsjónir á móti hagsýni - langtími á móti skammtíma. Hvar standa Íslendingar eiginlega?

Ísbjarnamálið skiptir þjóðinni. Fólkið sem býr nálægt Ísbjarnaslóðum og "bændur" eru pro dráp (aftöku, deyðingu, lógun, morð), þeir sem fjær búa og hafa aldrei deytt dýr eru anti.

Mér finnast allir vera að missa sig einhvern vegin. Þurfum við ekki bara að fara að slappa aðeins af? Það kemur dagur eftir þennan dag, með eða án okkar.

Kveðja, Káta

KátaLína (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 02:36

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Farðu nú varlega með 700 krónurnar þínar, Berglind... ef þú færð þær. Margur hefur nú orðið af aurum api fyrir minna, eða hvað?

Ef þú ættir bíl fengirðu fyrir þetta rúma 3 bensínlítra og kæmist kannski milli hverfa. Ef þú reyktir nægði þetta fyrir einum pakka og blandi í poka fyrir afganginn. Þú færð 7 mjólkurlítra fyrir aurinn og sirka 1/2 kíló af sæmilegu lambakjöti.

Mikið ertu nú rík! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.6.2008 kl. 10:13

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Síðast sendi IT mér samviskusamlega 20-kallinn þannig að ég á ekki von á öðru en skilvísum hundraðköllum.

En ég fæ enga 7 lítra af mjólk þegar skatturinn hefur slæmt klónni í aurinn, ónei.

Annars, fýlupoki (ekki huglægt ávarp), ætlaði ég að segja að ég er ekki talsmaður þess að skipta atvinnunni annað hvort í ferðaþjónustu eða þungaiðnað. Mér finnst að við eigum að selja náttúruna dýru verði og þá er ég að tala um að horfa, ekki traðka. Og ég veit um einn mann sem makar krókinn á ferðaþjónustunni. Hann er voða indæll en hann græðir á tá og fingri af því að hann á skipin næstum með húð og hári, getur pakkað farþegunum í rúturnar og þannig hámarkað arðinn af hverjum einasta Gullhring.

Ef ég fer í Kraum og kaupi mér flottar sparilegar ermar á 15.000 er það vegna þess að ég ákveð að spreða þessu á mig. Eins verðum við að veðja á þá ferðamenn sem eru tilbúnir að borga mikið fyrir úrvalsgæði, bæði í hreinu lofti, ómældri náttúrufegurð og öndvegisþjónustu. Borgar þú ekki með glöðu geði væna summu fyrir exótískan mat sem þú færð einu sinni á ævinni? Hvað er eðlilegt að borga fyrir strútskjöt?

Fólk borgar 2.300 krónur til að busla í Bláa lóninu þótt það geti synt í sundlaugunum fyrir 350-kall. Fólk borgar fyrir einstaka lífsreynslu. Við erum bara svo lítilþæg og þrælslunduð að við erum ekki farin að verðleggja okkur í neinni alvöru í samræmi við það sem við eigum skilið.

Og, Káta, ég er svo mikill sveitamaður í mér greinilega þótt ég búi í 101 að mér finnst út í hött að tipla í kringum ísbjörn þegar fólk er að veði.

Berglind Steinsdóttir, 25.6.2008 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband