Sunnudagur, 20. júlí 2008
sundlaugar.is
Sund hlýtur að vera vinsælasta íþróttin á Íslandi. Að vonum. Ég þekki bara eina manneskju sem fer ógjarnan í sund og hún er stútfull af hestamennsku. Við höfum engar strendur en eigum hins vegar hitaveituvatn sem vegur upp á móti. Sund er dásemd á sumrin í góðu veðri og líka í ofankomu á veturna. Hvað getur verið betra en að tipla yfir nýfallinn snjóinn, sjá gufuna stíga upp af yfirborðinu og stinga sér út í undir flóðljósum?
Prrr. Mesta dekur.
Nú er útlenskur námsmaður á Íslandi búinn að taka saman ýmsar upplýsingar um íslenskar sundlaugar. Spennandi. Ég var aðeins að fletta og sá að sundlaugin í Stykkishólmi fær hæstu meðaleinkunn. Ég hef synt þar og held að mér finnist hún ekki betri en Laugardalslaugin. Hvað besta minningu á ég þó frá Dalvík þar sem ég var einu sinni á frábærum sumardegi og útvarpið var á. Það þótti mér kósí.
En mér finnst athyglisvert með Stykkishólm að laugin þar er opin lengi sem er frábært, ferðamenn koma oft ekki fyrr en undir kvöldmat, og verðið er svipað og í Reykjavík. Flestar laugar utan höfuðborgarsvæðisins hafa rukkað meira en Laugardalslaugin. En þá má rifja upp að 1. janúar 2007 lét þáverandi borgarstjóri hækka aðgangseyrinn VEGNA ÞESS AÐ ÚTLENDINGUM ÞÆTTI SVO HLÆGILEGA ÓDÝRT Í SUND. Og í Stykkishólmi er hægt að kaupa 30 miða kort sem er ekki lengur hægt í Reykjavík - með engum rökum.
En ég á margar sundlaugar eftir, það er augljóst mál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.