Jón Ásgeir landráðamaður?

Það er eiginlega alveg sama hvar ég kem, alltaf berst talið að efnahagsástandinu, skuldsetningu sakleysingjanna, mótmælum, jöklabréfum, Icesave, myntkörfum o.s.frv. Í gær hlustaði ég á kokk sem er hlynntur frelsi í viðskiptum segja mér að í upphafi þessa árs hefði hann fundið að brátt drægi til tíðinda. Hann umbreytti eldhúsinu hjá sér, varði til þess peningum sem reksturinn átti, og hagræddi þannig að hann þyrfti minni mannskap en ella. Mér finnst endilega eins og einhver sem átti að vita betur hafi sagt fram á harðahaust, fram til 29. september, að hér væri allt í koppalogni.

Þessi kokkur hefur enn mikið að gera en hefur í allt haust verið alveg sannfærður um að í janúar og febrúar komi ekki kjaftur inn á veitingastaðinn hans. Hann hefur vonandi rangt fyrir sér í því. Hann er líka algjörlega viss um að þegar Baugsmálið var undir hafi ýmislegt misjafnt fundist sem hafi þó verið löglegt. Hann heldur að fleiri en Jón Ásgeir hafi stungið undan gríðarlegum peningum, geymi þá í útlöndum og ætli að kaupa allt dótið fyrir slikk þegar þjóðinni þverr móðurinn og allt verður komið á brunaútsölu.

Hann heldur að eina leiðin til að ná þessum mönnum sé að dæma þá fyrir landráð.

HVAR ERU T.D. PENINGARNIR, ÞEIR BEINHÖRÐU, SEM VORU LAGÐIR INN FRAM Á SÍÐASTA DAG? Hvar er rannsóknin? Hvar eru niðurstöðurnar? HVAR ERU LAUSNIRNAR?

Það er náttúrlega ekki fyndið að einn maður hafi verið handtekinn eftir bankahrunið og, eins og einhver benti á, fyrir meintan glæp frá því áður en öll ósköpin dundu yfir, ósköpin sem til þess bærir menn áttu að sjá fyrir.

Millifærðu Jón Ásgeir og kumpánar gríðarlegar fjárhæðir sem þjóðin á? Situr þjóðin uppi með skuldir sem hún hefur ekki unnið til? Hvað á að gera við lánið frá AGS? Hver verður verðbólgan? Hversu margir verða gjaldþrota? Hvert verður atvinnuleysið?

Mikið vildi ég geta hugsað þetta í lausnum en það er eins og að standa beggja vegna við stækkandi sprungu og velta fyrir sér hvernig maður eigi að koma í veg fyrir sólbruna.

Arg.

Og næst þegar ég les þá athugasemd frá nafnlausum bjána að einhver flokkur hafi smalað fólki á mótmæli hlýt ég að hætta að lesa þá síðu. Að flokkshestar hvar í flokki sem er geti ekki litið upp úr fötunni þar sem hafrarnir eru geymdir dregur úr mér þann kraft sem við þurfum einmitt á að halda.

Eru annars allir svo sjálfhverfir að þeir sjái ekkert nema iðrin í sér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og þú hefur væntanlega séð í fréttum eru landráðamennirnir byrjaðir að bjóða í sömu eignirnar og voru upphafið af þessu öllu (þ.e. bankana). Talandi um landráðamenn þá finnst mér lágmarkið að dæma þessa menn fyrir landráð af gáleysi. Þeir geta eflaust brugðið fyrir sig vörnum eins og „skorti á ásetning“.

Þetta orðalag er til í lögfræðingamálinu en útkoman af gjörðum þeirra voru landráð. Hvort sem þeir stefndu að þeim eða ekki þá átti þeim að vera fullkunnugt um að með því að leika sér þannig að þjóðartekjunum, sem allt bendir til að þeir hafi komist upp með, þá stefndu þeir að sjálfsögðu þjóðarbúinu öllu í stórkostlega hættu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 04:32

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, þetta er ömurlegt ástand. Verst er hins vegar að stjórnvöld eru ákveðin í að bíða þar til öldurnar lægir og láta þá allt deyja út af sjálfu sér eins og venjulega.

Steingerður Steinarsdóttir, 24.11.2008 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband