Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Ég er smáborgari
Ég er ekki hreykin af því en hef ákveðið að horfast í augu við smáborgaraskap minn.
Ég hélt að Björgólfur Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson væru vænir menn. Mér fannst ekki einu sinni afleitt að Björgólfur yngri ætlaði að kaupa hús (lang)afa síns og breyta því í safn. Trúði því m.a.s. eins og nýju neti að tilgangur hans væri göfugur.
Ég hélt að það væri verslandi við Bónus þótt ég sæi gjörla að ekki væri verslandi við 10-11. Og ég hef keypt geisladiska, föt og stígvél í Hagkaupum til viðbótar við ógrynni af mat í gegnum árin. Uss.
Ég lét mér í léttu rúmi liggja þótt ég vissi að Íslendingar væru látnir niðurgreiða flug með Flugleiðum sem sást kannski best á því að Danir sem flugu til Bandaríkjanna (og heim) með millilendingu á Íslandi borguðu mun minna fyrir sinn miða en Íslendingar sem flugu bara frá Íslandi til Danmerkur (og heim). Og hvernig stóð líka á því að það var ódýrara að kaupa miða fram og til baka en bara fram? Reyndar flýtti ég mér í viðskipti við IcelandExpress þegar þau buðust.
Þegar Íslandsferðir fóru að fljúga flaug ég alltaf með þeim til Sauðárkróks (og til baka) frekar en að fljúga með Flugfélagi Íslands. Ég vildi styðja samkeppnina.
Ég skipti úr Símanum í Íslandssíma og svo Tal þegar það bauðst. Ég vildi styrkja samkeppnina.
Ég keypti í nokkur ár einhver bréf rétt fyrir áramót vegna þess að þannig fékk ég skattaafslátt. Skamm.
Ég fékk vinnu á Valhöll (Þingvöllum) í gegnum pabba þegar ég var 15 ára, í SS-sjoppunni í Glæsibæ þegar ég var 16 ára og hjá Nóa-Síríus í gegnum mág minn þegar ég var 18 ára. Eftir það sótti ég um og fékk vinnu hjá póstinum og í banka, og svo í Heimilistækjum í gegnum mág minn þegar ég var tvítug. Fékk vinnu sem næturvörður á Hótel Lind í gegnum vinkonu bróður míns þegar ég var 22ja. Ég var gómuð í net spillingarinnar. Það var vissulega þægileg vist.
Hnussaði þegar fréttir bárust af frændhygli stjórnmálaflokkanna. Alltaf á kaffistofu, við eldhúsborð, inni á klósetti meðan ég sturtaði niður. Svona eins og Íslendinga hefur verið siður.
Kannski byrjaði að rofa til fyrir á að giska átta árum þegar ýmis ríkisfyrirtæki voru seld við vægu verði. Íslenskir aðalverktakar, banki, banki, banki. Og það mætti ætla að sýn mín hefði orðið skýrari þegar hinn og þessi keypti af sjálfum sér og lánaði sjálfum sér - var ekki ein fyrirsögnin um daginn: Glitnir lánaði Glitni til að kaupa í Glitni og FL Group? - en svo gott er það ekki. Sýnin dofnaði og ég held að það sé vegna þess að mjög markvissar og velheppnaðar tilraunir voru gerðar til að slá ryki í augun á mér (þori ekki að tala fyrir aðra) með krosseignum, skuldavafningum og öðrum útspekúleruðum talnaleikjum.
Veruleikinn sem blasir núna við mér er að enn er reynt að halda dulu fyrir augum mér, enn má ég sem minnst vita og þarf þar að leiðandi að taka framtíðarákvarðanir í myrkri.
Fóru milljarðar út úr Kaupþingi í vikunni áður en bankinn féll? Voru persónulegar skuldir afskrifaðar hjá starfsmönnum Kaupþings? Lánaði Ólafur Ólafsson - eða fékk lánað - milljarða til að auka tiltrú markaðarins á liðónýtu fyrirtæki í gegnum sjeikinn? Og það sem meira er: Bitnar það á skattgreiðendum að einkafyrirtæki fari svo illa að ráði sínu?
Stofnaði Sigurjón Árnason Icesave-reikninga í Hollandi eftir að búið var að setja ensku reikningana í gjörgæslu? Var haldið áfram að taka á móti fé þótt vitað yrði að það færi beint í stóru hítina? Og á ég að gjalda fyrir það með skattfé mínu til næstu ára?
Eyddi ekki FL heilum milljarði í annan kostnað - sem fellur síðan á skattgreiðendur?
Er það ekki þannig að allir óreiðumennirnir stofnuðu til skulda sem ég á síðan að borga? Er það ekki rétt skilið?
Og er til of mikils mælst að ég fái upplýsingar? Er frekt að ætlast til gagnsæi og heiðarleika?
Ég legg svona mikla áherslu á skuldirnar sem óreiðumenn hafa stofnaði til í mínu nafni af því að það mælist illa fyrir hjá sumum að fólk mótmæli ástandinu ef það er sjálft ekki farið að borga skatta. Ég borga skatta með glöðu geði, bara ekki þá sem fara í að bóna stélið á Ólafi Ólafssyni og álíka kónum.
Athugasemdir
Stundum skrifar þú alveg það sem ég vildi sagt hafa! Það er gott að eiga þig að.
Ásgerður (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 23:35
Ó, hvað þú ert góð við mig. Ég var doltið tvístígandi yfir þessum pistli, sko.
Berglind Steinsdóttir, 20.1.2009 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.