Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Hvað sagði Ari Matthíasson á sunnudaginn?
Sagði hann ekki að Sigurður Einarsson í Kaupþingi hefði í nokkuð fjölmennu (20-30 manna) ... matarboði á Holtinu um aldamótin - sem Ari slysaðist í sem fulltrúi vinar síns, kvótakóngs - kynnt til sögunnar Hreiðar Má Sigurðsson sem hafði það verkefni að kynna fyrir ríku mönnunum vogunarsjóð með góðri ávöxtun? Greifunum var síðan í lófa lagið að ráðstafa ágóðanum inn á erlenda reikninga í gegnum einkahlutafélög án þess að þurfa að greiða af arðinum. Og fjárins var aftur aflað hvaðan??? Já, alveg rétt, með því að hirða peninga út úr sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum á Íslandi!
Ari sagði að peningunum hefði kerfisbundið verið skotið undan og óskaði þess heitt að þessir menn fengju ekki Kaupþing í Lúxemborg til að halda áfram uppteknum hætti.
Ari sagði að skattrannsóknarstjóri vissi af þessum fundi - einhvers konar námskeiði, ekki satt? En greifarnir vissu sem var að þeim voru allir vegir færir, undir, yfir og allt í kring um lög og reglur, skeyttu hvorki um skömm né heiður, reyndu varla að leyna glæpnum, a.m.k. ekki ef það er að marka þessa sögu og allan þann hroða sem fréttastofurnar hafa þó haft uppi á um huldulán til huldumanna.
Og á ekkert að gera í þessu???
Mér finnst eðlilegt að spyrja líka hvað Ara finnist um sinn vafasama vin. Fannst honum kannski þá - og nú? - sjálfsagt að vinur hans hirti peninga út úr sjávarútveginum og margfaldaði í skattaskjóli?
Svo hrósa ég Ara fyrir að vera með í umræðunni í vettvangi dagsins, þá meina ég ekki síður eftir að hinir fengu orðið. Mér finnst verra þegar fjögur sitja í vettvangi dagsins og eiga öll bara sitt einkaspjall við Egil. Ari tók áfram þátt og var í lokin með gagnrýnar spurningar um efni sem hann var ábyggilega hlynntur heilt yfir, þ.e. að umbylta lýðveldinu.
Það er átak að vera gagnrýninn.
Athugasemdir
Já, það er merkilegt hversu lítið hefur verið fjallað um þessa sögu Ara - kannski kannast allir við álíka sögur frá gróðæristímanum, ég veit það ekki. Kannski var það sem þarna fór fram allt saman löglegt ... en siðlaust.
Annað sem mér finnst merkilegt að enginn ætli að gera sér (blogg-)mat úr; Gunnar Páll Pálsson fékk yfirgnæfandi stuðning trúnaðarmannaráðs VR í formannskjöri. ERU TRÚNAÐARMENN VR EKKI ALVEG Í LAGI??? Gunnar Páll hefur t.d. mjög líklega vitað af margra milljaraða kr. lánum til bresks fjárglæframanns rétt fyrir hrun bankanna (sjá Kastljós nú í kvöld um frétt Kompáss) og nú lenda skuldirnar (vegna þessara lána) á íslensku þjóðinni. HALLÓ! VAKNA!
Ásgerður (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 23:30
Jújú, ýmsir hafa skrifað um Gunnar Pál í kvöld. Af 10-fréttum heyrðist mér sem hann hefði ekki vitað að þetta hefði verið í Kastljósi en keppinautur hans var samt búinn að sýna honum sms um það - sennilega vissu trúnaðarmennirnir ekki af umfjölluninni. Nema hann sé einfaldlega búinn að kaupa trúnaðarmennina með kruðeríi.
Svo ætti þetta lán UPP Á 280 MILLJARÐA eitt sér að vera nóg til að senda þessa kóna lengst út í buskann - og skilja féð eftir. Ætli Jón Jóhannesson hafi látið segja Kompási upp til að reyna að halda hlífiskildi yfir vinum sínum? Ekki veit ég, veit bara að ég er orðin yfirgengilega tortryggin.
Babel, félag þýðingafræðinema, 27.1.2009 kl. 23:50
Já, neinei, Babel hefur ekki svona afgerandi skoðanir - ég er alteregóið þess ...
Berglind Steinsdóttir, 27.1.2009 kl. 23:51
Ég er sammála Babel (hver sem stendur þar á bak við) - ég er orðin sjúklega tortryggin. Ég held að annað eins eigi eftir að koma undan Landsbanka-steinunum og Glitinis-steinunum sem að einhverju leyti á eftir að líta undir og það finnst örugglega meira undir Kaupþings-steinunum.
Ásgerður (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 22:33
Ánægjulegt að sjá að skattrannsóknarstjóri hefur horft á Silfrið. Kannski við Ásgerður getum endurheimt trú okkar á ný ...
Berglind Steinsdóttir, 30.1.2009 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.