Strætó dregur úr þjónustu í dag

Rakalaus snilld er það hjá Strætó bs. að lengja í leiðum, breyta þeim og fækka ferðum, les: draga úr þjónustu. Ætli þetta sé ekki fjórða breytingin á þremur árum með tilheyrandi hrókeringum á strætóskýlum og breytingum á vaktatöflum - en að þessu sinni sýnist mér Strætó ætla að spara auglýsingakostnaðinn enda mjög neyðarlegt að geta ekki staðið við plön í eitt ár.

Í dag, 1. febrúar, kemur breytingin til framkvæmda og breytingin var tilkynnt með hvísli í síðustu viku.

Ástæðan er erfiðari rekstraraðstæður í kjölfar bankahrunsins! Ef ekki er lag núna að nota meðvitund fólks um mengun og gjaldeyrissparnað vegna þess að fólk þverskallist við að sjá almenna samfélagslega hagkvæmni í því að fleiri ferðist með almenningsvögnum en sínum eigin drossíum um allar þorpagrundir hlýtur Strætó að meta það svo að það sé ekki hægt. Og mér finnst lítill metnaður í slíkum rekstri.

Það er að sjálfsögðu ekki óskastaða að þurfa að draga úr þjónustu nú þegar notkun fólks á strætó hefur aukist jafnt og þétt síðustu misserin. Við teljum engu að síður, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við stóðum frammi fyrir í rekstri Strætó, að við höfum valið besta kostinn sem í boði var. Langstærsti hluti farþega okkar tekur strætó á morgnana og síðdegis og því leggjum við allt kapp á að halda þjónustustigi eins háu á þessum tímum og mögulegt er og þannig tryggja að sem fæstir verði fyrir óþægindum vegna þessara breytinga

hefur Vísir eftir Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætós.

Gönguhópur sem ég hef ekki komið í verk að slást í ætlar í dag að ganga á Helgafell í Mosfellsdal, sameinast í bíla við Vesturlandsveginn - en Strætó bs. gaf mér kjörástæðu til að hlusta frekar á Sprengisand og horfa á Silfur Egils. Strætó fer ekki í gang fyrr en á hádegi en þá verður hópurinn kominn upp í miðjar hlíðar.

Iss, agalaus ég, auðvitað hefði ég getað tekið leigubíl bæjarmarkanna á milli - eða látið keyra mig! Strætó er líklega á mála hjá bílaumboðunum.

Ég tek oftast strætó úr miðbænum og þegar ég slæ Lækjartorg inn í leitarvélina spyr hún alltaf hvort ég vilji fara frá Lækjartorgi eða Lækjartorgi 1 - sér er nú hver skilvirknin í þessari leitarvél. Þegar ég þarf að bakka fara leitarskilyrðin alltaf yfir í sjálfgefið, þó að ég sé búin að breyta í tímann sem hentar mér bakkar hún alltaf í tímann sem er þá stundina. Ef ég ætla úr miðbænum inn á Suðurlandsbraut fæ ég ekki leið 11 sem stoppar þó beint fyrir ofan Suðurlandsbrautina, ég fæ bara upp möguleikann að taka einn vagn inn á Hlemm og annan þaðan. Ég held að ég sé bara búin að fá sannfæringu fyrir að Strætó hefur engan áhuga á að fólk noti sér þjónustuna. Eitthvert bílaumboðið ræður þar för - sérstaklega núna í kjölfar bankahrunsins og í ljósi erfiðra aðstæðna á bílamarkaði!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skv. því sem yfirmenn Strætó segja þá verða flestallir vagnar á klukkutímafresti í dag. Leitarvélin gefur upp ferðir á hálftímafresti.

Skýring: A) Yfirmenn strætó vita ekki hvað þeir eru að gera eða B) yfirmennirnir gera ekki ráð fyrir að farþegar noti leitarvélina. Ef Strætó væri alvörufyrirtæki þá myndu yfirmenn yfirmannanna reka þá. 

Þetta er fólkið sem fær borgað fyrir að svipta aðra samgöngumöguleikum og þetta .. ja, hvað gæti þetta verið?

Minnir þetta skiprit ekki á eitthvað sem er eðlilegt í 10.000 manna fyrirtæki, margdeildarskiptu og kannski líka fyrirtæki sem á nokkur dótturfyrirtæki??? Getur verið að peningur strætó fari í að halda uppi furðulegu innra skipuriti?

Fyrir hvern er strætó? Farþegana? Eða framkvæmdastjórann, aðstoðarmann hans, alla deilarstjóranna og aðstoðarmenn þeirra? Eða kannski bara fyrir stjórnmálamenn svo þeir njóti þess almennilega að hafa komist yfir völd?

Helga (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 13:06

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Leið 12 var samt eðlileg í dag. Það þýðir að vagninn kom á réttum tíma í austurátt en sjö mínútum of seint í vesturátt. Eins og oftast.

Berglind Steinsdóttir, 1.2.2009 kl. 21:39

3 identicon

Ósammála - ræði það samt betur síðar.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 22:30

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér finnst skipta máli hversu oft þetta fólk nýtir sér þjónustu strætós:

Eftirtaldir eru aðalmenn í stjórn byggðasamlagsins:

Berglind Steinsdóttir, 1.2.2009 kl. 23:18

5 identicon

Reikna með að þú hafir lesið þér til en veistu að sveitarfélögin eru að auka framlög sín til strætó á þessu ári. Ég reikna þá líka með að þrátt fyrir það þá eru kostnaðarhækkanir í rekstrinum það miklar að peningarnir duga ekki til að halda uppi sömu þjónustu og í fyrra.

http://www.straeto.is/um-fyrirtaekid/frettir/nr/810

Hvað hefðir þú viljað gera til að spara/hagræða?

Aðalmenn í stjórn byggðasamlagsins fá auðvitað tillögur frá þeim sérfræðingum sem starfa hjá strætó um hvernig best sé að haga niðurskurði út frá þeim farþegatölum sem þeir hafa. Og ég reikna fastlega með að ef þú hefðir komist í fjallgönguna þína á sunnudegi, sem er komplítlí utan háannatíma, þá hefðir þú verið ansi lónlí í vagninum. Strætó reynir sitt allra besta til að sinna þeim sem eru á leið til vinnu milli 7 og 9 á morgnana og aftur heim seinni partinn virka daga. Svona frístundasnatt með eina og eina manneskju skiptir minna máli. Þjónustan lagar sig að fjöldanum en ekki undantekningunum.

Doremí.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 08:55

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég hef ekki gaumgæft fjárhagsáætlun Strætós frekar en Landspítalans eða Vegagerðarinnar. Ég er að tala um heildarsvipinn sem næst ekki með því að skoða hvað 500 milljónir duga fyrir miklu bensíni eða mörgum stórum dekkjum. Hvernig á ég að verðmeta svifryk, líðan barnafjölskyldna í Hlíðunum, slysatíðni eða rúmlegu á spítala? Ég get ekki skattyrst við þig á þessum nótum og mér er stórkostlega misboðið þegar þú gerir því skóna að afstaða mín snúist um MITT frístundasnatt eða persónu mína að öðru leyti. Ég þekki fólk sem vildi geta gert strætónotkun að lífsstíl en telur kostinn ekki boðlegan og er ekki með eins stóran munn og ég.

Ég held enn að það að hrókera með áætlun strætós þrisvar til fjórum sinnum á jafn mörgum árum dragi úr notkun og tefji fyrir eðlilegri uppbyggingu viðskiptavildar.

Hversu mikið gæti sparast við að vera oftar og víðar með minni vagna eins og leiðir 18 og 19?

Berglind Steinsdóttir, 2.2.2009 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband