Túrismi - eða ekki

Eggin í Gleðivík

Vissulega kom ég stundum við á Djúpavogi sem leiðsögumaður ... en nú þegar ég er hætt sem leiðsögumaður liggur beinna við að skoða eggin hans Sigurðar. Prívat.


Austur og vestur og suður og heim

Nú þegar lífi mínu sem leiðsögumanns er lokið er ég loks farin að skoða landið af einhverri nákvæmni. Sem leiðsögumaður fór ég oftast hring eftir hring utan um lítinn kjarna en þegar ég sá að launin myndu bara ekki hækka upp í eitthvað ásættanlegt ákvað ég að verja sumarfríinu öðruvísi.Sjálfsali á vegum úti

Ég fann þennan sjálfsala á leið minni til Borgarfjarðar. Þangað var ég aldrei send með túrista. 


Í barndómi Hornstranda

Á göngu um Hornstrandir í síðustu viku bar Í barndómi á góma. Ég hélt að ég hlyti nú að hafa lesið þessa sögu Jakobínu Sigurðardóttur þótt mér sé Snaran alltaf minnisstæðust. Svo fór ég á bókasafnið að ná mér í eintak af skáldævisögunni og fletti upp í Gegni - og viti menn, ég hafði sjálf skrifað ritdóm um bókina 1994. Nú er að lesa bókina og sjá svo hvort ég er sammála sjálfri mér.

Maður getur skipt um skoðun eða gleymt hvað manni fannst á 20 árum ... 


Hringveginum lokið 14. júlí 1974 (eða hann opnaður ...)

Hringvegurinn er fertugur í dag. Það eru ekki nema 40 ár síðan menn urðu að fara norðurleiðina til að komast til Hafnar í Hornafirði. Þvílík samgöngubót. Þvílík lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Hvað hefur gerst síðan?

Vonbrigði með HM

Eftir að þýska liðið vann það brasilíska 7-1 (sem ég sá ekki) og eftir að hollenska liðið vann það brasilíska 3-0 (sem ég sá ekki) gerði ég mér mjög eindregnar vonir um að Argentína ynni Þýskaland í úrslitaleiknum. Ég sá rangstöðumark Argentínu áðan (og sýndist það vera réttstöðumark) og fagnaði svo ógurlega að ég heyrði ekki sjálf þegar það var dæmt af. Það varð að stafa það ofan í mig þegar staðan breyttist ekkert á skjánum.

Mér fannst svo gott á Brasilíu að annað lið úr sömu heimsálfu ynni keppnina þegar það brasilíska endaði í 4. sæti. Fruss, 4. sæti. Ömurlegt. Lið í 4. sæti tapar tapleiknum.

Nei, frómt frá sagt er mér slétt sama hvaða landslið vinnur og tapar í keppninni. Það er bara rosalega auðvelt að gera sér upp skoðanir á þessu hitamáli. Ég gæti meira að segja grátið smá eins og brasilísku börnin ef ég fengi beiðni um það, ég er svolítið súr í augunum eftir miklar fjallgöngur og þráláta súrefnisinntöku undanfarna daga.

Búhú. Þýskaland vann eins og flestir spáðu.


,,Það frosnar allt"

Ég var með kveikt á Bakaríinu í morgun sem ég geri sjaldan því að mér finnst (fannst ef til vill) annar stjórnandinn of leiðinlegur. Nú heyrði ég þá hins vegar tala um þýðingu á vinsælum söngtexta fyrir börn. Jói býsnaðist mikið - mér að skapi - en Rúnar bar í bætifláka og stakk upp á að þetta væri vegna laglínunnar (tvö atkvæði í frosnar en eitt í frýs) eða að málvillan (sem „frosnar“ telst enn vera) ætti að vísa í lágstétt. Svo kom þeim saman um að þetta væri bara ljótt og rangt og óverjandi.

Ég tók ofan.

Es. Síðari tíma viðbót hermir að textinn sé ekki „Það frosnar allt“ heldur „það frosna afl“. Sel það ekki dýrara. Málfarið er samt einnar messu virði. 


Fyrirhugaður flutningur Fiskistofu

Ég er með flunkunýja kenningu um meintan flutning Fiskistofu. Hann á að styrkja flugvöllinn í Vatnsmýrinni! Ef margir starfsmenn flytja með þurfa þeir samt að komast hratt og örugglega í bæinn, bæði út af almennri stjórnsýslu og til að hitta ættingja og vini því að ákvörðunin um flutning kemur að ofan. Ef þeir flytja ekki með þurfa nýir starfsmenn engu að síður að komast á fundi með stjórnsýslunni.

Ef hætt verður við, e.t.v. vegna þess að ekki tekst að breyta nauðsynlegum lögum, er áfram brýnt að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Rökstuðningur? Nei, hann þarf ekki. Ég þarf ekki að rökstyðja mál mitt ...

Aukahugleiðing: Er ekki eitthvað rökrétt við að megnið af stjórnsýslunni sé á einum stað, t.d. á höfuðborgarsvæðinu? 


Smálán

Mikið óskaplega er ég ánægð með að umræða um smálán er enn einhver. Mér hefur gjörsamlega ofboðið að ekki sé gripið í taumana. Umræðan er svo sem ekki mikið taumhald ef aðgerðir fylgja ekki en greinilega þarf það fólk sem getur breytt þessu að fá stíft aðhald. Og þótt smálán annarra týnist í umræðum um veðurlægðir á miðju sumri er samt enn von meðan menn tala.

Ég var eitthvað að leita mér upplýsinga um stöðu mála í vetur og rakst á grein í DV en fann á réttum vettvangi ekkert óyggjandi um þetta sem ég lít á sem glæpsamlegt. En meðan lögunum er ekki breytt ...

Hvaða fórnarlömb eru líklegust til að falla fyrir skjótteknu láni? Mjög ungt fólk sem hefur ekki lært að fóta sig í fjármálum, fólk sem er mjög skuldsett og trúir að þetta sé leið út úr vandanum, fólk sem vill redda sér peningi NÚNA - allt fólk sem mun eiga erfitt með að standa í skilum.

Þetta held ég alltént og hef af því áhyggjur að fólk reisi sér hurðarás um öxl. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband