Þéranir

Einu sinni lagði ég bíl í stæði merkt leigubíl og var sektuð fyrir. Eðlilega. Sennilega af því að brotið var framið á Akureyri og ég bjó í Reykjavík skilaði sektargreiðslan sér það seint að innheimtuaðilinn (lögreglustjórinn á Akureyri?) skrifaði mér bréf og þéraði mig.

Mig minnir að þetta hafi verið 1988.

Ég áttaði mig ekki á glæpnum þegar ég framdi hann en borgaði strax og ég fékk rukkunina. Þegar ég fékk ítrekunarbréfið ákvað ég að senda gaurnum (lögreglustjóranum á Akureyri?) langt nef með því að þéra hann á móti í bréfi þar sem ég útskýrði að ég væri þegar búin að gera upp reikningana.

Mér fannst ég algjör uppreisnarseggur


Hálfmaraþon í hljóði eða með hvatningu?

Ég sá frábæra hugmynd að áheitum og stuðningi á hinu hugmyndaríka interneti í gær, að heita á hljómsveitir og einstaklinga að standa fyrir peppi á hlaupaleiðum í stað þess að heita á hlaupandi einstaklinga og styðja það sem ríkið ætti að borga með sköttunum mínum.

Þetta var sossum orðað öðruvísi. 

Ég hef hingað til ekki hlaupið meira en 10 km en ég held að allir sem hafa gert það séu sammála um að hvatningin í Vesturbænum er ómetanleg. Albest er þegar einhver hvetur mann persónulega en lífleg tónlist og almennt KOOOMASO er líka frábært. Þótt maður sé kannski búinn með megnið af púðrinu getur maður alltaf sprett Lækjargötuna af því að þar er svo margt fólk.

Hálft og heilt maraþon er nú hlaupið um iðnaðarhverfi en ef leiðin lægi um íbúðagötur væri hægari vandi, gef ég mér, að fólk færi út á tröppur eða götu eða svalir með pott og sleif, og slægi takt, eða háværara kerfi eða hljóðfæri og hvetti hlaupara. Það er stemning og stemning er skemmtileg.

Ég get alveg ímyndað mér að ég hlaupi 21,1 km 22. ágúst 2015 ef ég má búast við almennri hvatningu á leiðinni, jafnvel hvatningu sem ég tek þátt í að mynda með því að styðja við þá sem væru til í að standa við hlaupaleiðina með tónlist.

Eða kannski ég læri á i-podinn minn. 


Þriðji laugardagur í ágúst

Ég hef tekið þátt í Reykjavíkurmaraþonskokki frá 1986, frá upphafi, að vísu ekki óslitið til ársins 2014. Það var strax gaman, enda skráði ég mig alltaf í skemmtiskokk, en nú er þetta að verða stjórnlaust stuð og ég passa alltaf að hafa þessa helgi lausa fyrir Reykjavík. Ég er bara ekki frá því að hrunið 2008 hafi breytt hugarfari fólks til hins betra, nú er meiri stemning fyrir skemmtunum sem allir geta tekið þátt í, ódýrari skemmtunum, útivist og hreyfingu.

Ég er ekki keppnismaður í íþróttum og hef aldrei haft metnað til annars en að komast í mark. Samt verð ég pirruð í hvert skipti sem ég hef ekki bætt mig þrátt fyrir að ganga mikið á fjöll, hjóla og synda. Hlaup eru bara svo allt önnur hreyfing og nú í ágúst undirbjó ég mig í fyrsta skipti, og alls ekki með því að hlaupa/skokka því að það finnst mér í eðli sínu drepleiðinlegt. Nei, mér var „kennd“ sú æfing að hlaupa upp og niður tröppur til að æfa þolið. Ég hef hjólað af stað í hádeginu eða á kvöldin og stokkið af hjólinu þar sem ég sé tröppur, hlaupið þær upp og niður í 10 skipti, þrjár mínútur eða svo, og haldið svo áfram ferð minni. Og ég bætti 10 km tímann minn um einhverjar mínútur síðan í jónsmessunæturhlaupinu í júní.

Þetta er sport við hæfi flestra. Ji, hvað það verður gaman 2015. 


Ben Affleck og Matt Damon. Robin Williams?

Þegar Good Will Hunting var frumsýnd 1997 eða 1998 sá ég hana næstum örugglega í bíó. Félagarnir sem Ben og Matt leika eru mér minnisstæðir, ekki síst útlitið á þeim. Ben fannst mér ógurlega myndarlegur og Matt ógurlega lummó, og ekki af því að hann var gáfaða stærðfræðinördið heldur af því að hárið fór svo illa. Jú, jú, ég mundi líka að hann hefði getað reiknað með rassgatinu en minnti að hann hefði verið eldri en ég sá í myndinni áðan á RÚV.

En ég man ekki baun í bala eftir Robin Williams. Nú er hann nýlátinn og allir að rifja upp hvað hann var frábær leikari, lék með sársaukann í augunum, en ég verð að játa að ég hef ekki séð allar myndirnar hans og sennilega ekki þessa sem menn mæra mest, Good Morning, Vietnam, 10 árum eldri en Good Will Hunting, og að ég kunni víst aldrei almennilega að meta hann.

Stóru vonbrigðin voru Patch Adams (1998), um lækni sem notaði húmor í lækningaskyni. Ég hef alltaf verið áhugasöm um húmor, ekki síst sem vopn í baráttu stétta og kynja, því að mér finnst húmor gáfumerki. Húmor er vanmetinn og til dæmis held ég að gamanleikarar fái oft hvorki þá athygli né aðdáun sem þeir skilið. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um húmorinn í Hvunndagshetju Auðar Haralds þar sem hann er óspart notaður af aðalsöguhetjunni. Ég fór spennt að sjá Patch Adams í bíó og varð fyrir miklum vonbrigðum. Hún var tóm fíflalæti. Síðan hef ég ekki haft minnsta dálæti á Robin Williams. Og er með snert af samviskubiti.


Áheit? Ha?

Það er göfugt að fólk vilji koma vel fram við aðra og gera þeim greiða. Á laugardaginn hlaupa þúsundir í Reykjavíkurmaraþoninu, vonandi sér til skemmtunar í frábæru hlaupaveðri eins og ég hef í hyggju. En nú dynja á manni auglýsingar um „áheit“ til styrktar hinu og þessu. Á Facebook tilkynnir fólk líka um áheitahlaup og hvetur vini sína til að heita á sig.

Áheit felur í sér, samkvæmt Snöru, „loforð um e-ð (ef bæn eða ósk rætist)“. En það fylgist enginn með því hvort fólk komist í mark eins og það lofar. Fólk er því í raun að biðja um styrki fyrir hin tilteknu félög eða einstaklinga sem eiga um sárt að binda. Göfugt, ég ítreka það, en mér finnst vettvangurinn rangur.

Engu að síður gerðist ég meðvirk og „hét á“ þrjá hlaupara. Sjálf kaus ég hins vegar að slást ekki í hóp þessara fjögurra þúsunda sem kalla eftir framlögum - enda hafa margir hlauparar safnað 0 krónum.

Sannfæring mín er sú að skattar eigi að standa undir velferðarkerfinu. Mér finnst það sárt og súrt að ef einhver lendir í slysi, jafnvel vinnuslysi eins og dæmi eru um, þurfi viðkomandi að safna sjálf/ur peningum til að borga fyrir batann ef hann er kaupanlegur. Dæmi um svoleiðis er handlangarinn Guðmundur, hörkuduglegur gaur sem kann að koma fyrir sig orði og heilla áheyrendur. Mér finnst að skattarnir mínir eigi að fara í að búa hann undir aðgerð með þeim kostnaði sem er óhjákvæmilegur en að hann eigi ekki að þurfa að safna fénu sjálfur.

Kannski er tíkarlegt af mér að segja þetta en svo skil ég ekki að fólk læki statusa á Facebook um svona „áheit“ án þess að leggja þá til pening. Það er ansi áreynslulaust að smella á lækhnappinn einan saman. 


Hvað á nú að segja útlendingum?

Ég var komin til vits og ára (miðað við aldur) þegar Gjálpargosið varð 1996. Ég man samt ekki eftir því. Þá átti reyndar ekki hartnær hver einstaklingur sinn eigin fjölmiðil og kepptist við að segja manni undan og ofan af persónulegum högum jafnt og yfirvofandi brúarföllum og milljarðatjóni.

Ég man eftir Eyjafjallajökulsgosinu fyrir fjórum árum. Það kom lóðbeint ofan í kynningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl sem kom beint ofan í óvænt gosið á Fimmvörðuhálsi í mars. Ég var ekkert á leiðinni til útlanda þannig að hræringarnar snertu ekki mitt daglega líf að öðru leyti en því að einhverjir ferðamenn sem ég ætlaði einhvern tímann um sumarið að fara með eitthvað um landið skiluðu sér ekki. Eldgos hræða. Fréttaflutningurinn líka.

Nú keppast menn við að segja ekkifréttir af gosinu og hvað það kemur til með að valda miklu tjóni. Það rústar Dettifossi. Eða ekki. Það leggst yfir Kárahnjúka. Eða ekki. Erlendir ferðamenn breyta ferðaáætlunum sínum.

Ég er kannski óttalega forhert og víðáttukærulaus en ég held bara mínu striki, mæti í vinnuna, les bækur, spjalla fjandann ráðalausan um fjallgöngur í fortíð og framtíð, geng á hóla, fer í sund, elda og borða mat, les vefinn, skrifa á vefinn ...

Ég mun engin áhrif hafa á gang Bárðar en segi til öryggis að þið eruð öll æði.

#djók 


26 kílómetrar?

Ég hélt að gangan yfir Fimmvörðuháls væri bara 22 kílómetrar en nú kemur fram í fréttum að hún sé 26 kílómetrar. Góð dagleið sem ég hef því miður ekki lagt að baki ennþá. Fréttin er samt að nú er búið að stika gönguleiðina sem er mjög fjölfarin og þá er möguleiki að ég villist ekki þótt ég fari ein eða með öðrum óratvísum ...

Það stendur til að ganga þessa leið en ekki að villast svo því sé haldið til haga. Ég held bara að fólk haldi ranglega að það sé ekkert mál að rata úr Skógum yfir í Þórsmörk. Ég held hins vegar að það sé mjög auðvelt að villast þarna, einkum ef þokan leggst yfir, og að þessar stikur muni gera gæfumuninn fyrir blaðurskjóður eins og mig sem vilja spjalla og elta næsta mann. 


Verkó

Ekki man ég allt það forvitnilega sem ég heyrði í fróðleiksgöngu Borgarbókasafnsins um verkamannabústaðina í gærkvöldi. Þær HelgaDrífa og Kristín höfðu frá mörgu að segja og ekki bara einhverju sem þær höfðu lesið sér til um, heldur bjuggu þær yfir reynslusögum og eigin minningum um hverfið.

Ég vissi ekki að verkamannabústaðirnir hefðu verið byggðir á fjórða áratugnum þótt ég hefði sjálfsagt giskað á það. Ég þóttist vita að áherslan væri á hið sameiginlega, sbr. garðinn á milli húsalengjanna, en ég vissi ekki að þetta hefði verið munaður þess tíma. Íbúarnir höfðu rafmagnseldavélar (og gas líka til öryggis), fólk kom úr öðrum hverfum til að fá að fara í bað og í öðrum endanum er enn kolakjallari sem vilji stendur til að halda við þótt einhverjir utan hverfis vildu helst moka kjallarann fullan og læsa svo allt inni.

Ég vissi ekki að Gvendur Jaki hefði búið þarna, ég vissi ekki um verslanirnar við Bræðraborgarstíg 47 og ég hafði sannarlega ekki hugmynd um að Héðinn Valdimarsson, formaður Dagsbrúnar, hefði flutt fyrstu 1. maí-ræðuna sína á svölunum þarna, þar sem kolakjallarinn er undir, þar sem Dagsbrúnarhjartað slær. Ég vissi ekki að ljósmynd sem tekin hefði verið af Héðni á svölunum væri fyrirmynd styttunnar við Hringbraut -- þar sem hann er einmitt lappalaus.

Þessum eina og hálfa klukkutíma fannst mér vel varið í göngu með góðu fólki.

 Svalirnar sem Héðinn Valdimarsson stóð á

Göngunni lauk ekki fyrr en aðeins var farið að rökkva og þess vegna er dimmt yfir myndinni af reykháfnum, þessum alhæsta á þessum slóðum. Þó sjást glöggt svalirnar sem Héðinn stóð á þegar hann flutti ræðu 1. maí [hvaða ár?] en ég finn engan veginn hina frægu mynd sem á að hafa verið tekin við það tækifæri. 


Uppreisn Guðrúnar frá Lundi

Að vísu skilst mér að Guðrún frá Lundi hafi ávallt verið vel þokkuð meðal lesenda sinna. Af elítunni skilst mér að enginn nema Halldór Laxness hafi talað máli hennar. Mig minnir að ég hafi lesið Dalalíf 2011, dásamlega sögu upp á um það bil 2.200 síður um Jón á Nautaflötum frá upphafi til enda þar sem stéttaskipting kom við sögu, rétt og rangt, ástir og sorgir, töp og sigrar, kaffi og kruðerí. Það besta fannst mér list rithöfundarins við að segja manni ekki of mikið. Guðrún stóðst þá freistingu að útskýra alla breytni allra. Hún treysti augljóslega lesendum til að draga ályktanir. 

Svo reyndi ég að lesa aðra bók eftir hana, Stýfðar fjaðrir minnir mig, og gat það ekki. Hún var alveg víðáttuleiðinleg. Veit ekki hvers vegna.

Nú er Afdalabarn aftur komin út, bók sem fyrst var gefin út 1950, og það er ekki fyrr búið að skrá hana á bókasöfnunum en pantanir eru komnar á næstum hvert eintak og eintökin rokseljast í bókabúðunum.

Guðrún frá Lundi lifir. Og Hannes, Hannes, Hannes ...


Deild Q

Nú er ég orðin að æstum aðdáanda Jussis Adler-Olsens, deildar Q og starfsmanna hennar. Öll málin sem deildin fæst við eru gömul og óupplýst þannig að sá seki hefur komist upp með glæpinn í einhvern tíma. Að vísu finnst mér Carl Mørck fullstöðluð týpa, gnafinn án ástæðu, skammast út í sitt besta fólk og vanþakkar dugnað, og að sama skapi er þetta besta fólk helst til tryggt og iðið, en það er langstærsti ljóður bókanna þannig að ég á auðvelt með að horfa framhjá honum og njóta spennunnar.

Í bestu spennusögum er kafað ofan í samfélagið, steinum velt og andstyggilegheit krufin og það er svikalaust gert í Skýrslu 64

Útg. á Íslandi 2013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef ekki annað út á þýðinguna að setja en hið sígilda „svo“ sem ég sé of oft í þýðingum úr skandinavískum tungumálum. „Svo hvað áttu við?“ Þar vildi ég hafa: „Hvað áttu þá við?“ Í dönsku er líka miklu oftar byrjað á andlaginu en í íslensku þar sem frumlagið er að jafnaði í upphafi setningar. Það er hin ómeðvitaða regla. Í íslensku er líka nafnið fyrst og svo persónufornafnið með vísun í nafnið: „Nete [eitthvað] þegar hún [eitthvað]“ en í erlendum málum er persónufornafnið oft á undan nafninu: „Hún [eitthvað] þegar Nete [eitthvað].“ Mér láðist að skrifa hjá mér hin raunverulegu dæmi í bókinni.

Fín þýðing hjá Jóni Stefáni heilt yfir.

En af því að ég lærði fyrr á árinu að „bólufreðinn“ væri vísun í fólk sem væri í fíkniefnum staldraði ég við á tveimur stöðum í bókinni:

bólufreðin

 

 

 

 

 

 

Hér eru Assad og Rose „bólufreðin“ eftir daginn vegna álags í vinnu.

Svo er augnaráð Rose „pólfreðið“ sem ég hef ekki heyrt áður. Gaman að því.

pólfreðið, bls. 199

 

 

 

 

 

 

Svo náttúrlega gladdi mig óumræðilega umræðan um hástaf (eða ekki) í seinna orði nafns sem sett er saman úr tveimur orðum. „Rétt“ er að skrifa Mál og menning, Póstur og sími, Almenna bókafélagið, Íslenskir aðalverktakar og Góð ráð.

Og í Skýrslu 64 er það útlendingurinn Assad sem bendir hinum hrokafulla Dana á það:

Hreinar línur (ekki Hreinar Línur)

 

 

 

 

 

 

Eftir það er nafnið á stjórnmálaaflinu skrifað eins og Assad vill:

Hreinar línur!

 

 

 

 

 

 

Jíei.

Reyndar er ein smáathugasemd enn. Ég vel sjálf að beygja bæði nöfn útlenskra karla með eignarfalls-s, Carls Mørcks, Tonys Blairs, Daniels Jonhnsons, en gútera aðrar reglur sem menn nota, sbr. að beygja bara annað tveggja. Þýðandinn velur hins vegar að beygja Assad í þágufalli, frá Assadi, sem mér finnst óþarfi, ekki síst þar sem hann beygir ekki Carl í þágufalli, skrifar ekki frá Carli, og gleymir stundum að beygja Assad. Algjört smáatriði.

Mæli eindregið með bókum Jussis! 


Fréttamat eftir helgina

Frávik er frétt.

Þegar þúsundir hegða sér vel, skemmta sér fallega og knúsast án vandræða er það frétt þegar einn er með ólæti. Þeim sem beittur er ofbeldi finnst hans hlutur kannski gerður minni en efni standa til ef ofbeldið telst ekki frétt. Ég veit það ekki, hef sjálf sloppið ósködduð frá öllum útihátíðum.

Þess vegna er ég ósammála þeim sem hringja í útvarpsstöðvarnar til að gagnrýna fréttamatið. Frávikið er frétt, ég fer ekki ofan af því. Hins vegar er fínt að vekja athygli á því að mikill meirihluti kann sig. Menn mega bara líka muna það sjálfir að flestir hegða sér til eftirbreytni. Það er gott.

Þegar við fáum góða þjónustu einhvers staðar erum við óduglegri að geta þess en þegar við fáum vonda þjónustu. Eigum við ekki að byrja á að breyta því og láta menn njóta þess sem vel er gert? Höldum við kannski að menn ofmetnist þá?

Ég get til dæmis sagt að mér finnst ylströndin í Nauthólsvík frábær. Ég get synt í ylvolgum sjónum, farið svo í funheitan pott og þvegið mér í sturtunni á eftir. Ég veit bara ekki alveg hverjum ég á að þakka. Borgarstjóra? Sjósundsfélagi Reykjavíkur? Og ég hlakka mikið til að taka þátt í Fossvogssundinu. Hins vegar er enn ekki komin dagsetning á Helgusundið sem mér finnst miður. 


Jafnaðarkaup - uppsteytur

Sumarið sem ég var 18 ára vann ég í verksmiðju í Reykjavík. Mér var greitt unglingakaup en þegar ég skoðaði samningana var slíkur taxti ekki til. Ég gerði athugasemd, talaði svo við verkalýðsfélagið og fékk leiðréttingu fyrir mig og nokkrar aðrar stelpur. Hins vegar var leiðréttingin ekki nema svo sem 70% og fyrirtækið náði að auki smávegis til baka með því að hlunnfara mig um orlof. Ég stóð mig vel við færibandið og yfirmenn höfðu ekkert við störf mín að athuga.

Ég hugsa þessu stönduga fyrirtæki enn þegjandi þörfina en nennti ekki frekar að eltast við aurinn, sótti ekki aftur um og hefði ekki verið ráðin. Hef síðan haldið betur vöku minni en vildi óska þess að fleiri gerðu eins og þessi stúlka hjá Lebowski.

Því miður veit ég vel af stofnun í nágrenni Reykjavíkur sem hefur í sínum röðum yfirmann sem segist reka starfsmenn án aðvörunar ef honum þóknast -- og kemst upp með það. Samtakamáttur launþega er lítill og menn óttast oft um sín aumu störf.

Til að taka af allan vafa bý ég við gott atlæti í núverandi starfi, ágæt kjör og gott traust. Allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Og það virkar í báðar áttir.


Sogsvirkjanir

Ljósafossstöðin er elst, gangsett 1937, og með henni var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Írafossstöðin (Ýrufossstöðin?) kom svo neðar í Soginu 1953 og lestina rak Steingrímsstöð 1959.

Rifjaði þetta upp á Grafnings-/Grímsnesrúnti í gær ...

Sá svo ótrúlega litla umferð við Þrastaskóg af því að túristunum er flestum stýrt inn á sömu ofsetnu staðina.

Bílastæðið við Þrastaskóg 


Kraðakið á þeim fjölsóttu

Ég lagði leið mína í síðustu viku framhjá Vík, Skaftafelli og Jökulsárlóni, þeim fjölsóttu ferðamannastöðum. Þar var hrollmargt.

Vík

 

  

Skaftafell

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband