Fullnuma kennitöluflakk

Ég man eftir að minnsta kosti tveimur orðum í íslensku sem ég held að fyrirfinnist ekki sambærileg í öðrum tungumálum, og þau eru ekkert sérstaklega flatterandi fyrir okkur.

Eða kannast einhver við í öðru tungumáli að geta verið fullnuma, útlærður með öllu, með fullt vald á einhverju efni? Er ekki dálítið hrokafullt að trúa því að maður eigi ekkert ólært í einhverju? Iðn, tungumáli, hvaða fagi sem er.

Í þinginu var síðan hálftíma í dag varið í að ræða kennitöluflakk sem er einhvers konar dulkóðun fyrir svindl og svínarí, löglegt eða a.m.k. ekki ólöglegt gjaldþrot, skipbrot, áunnið lánleysi í einhverjum tilfellum.


Með jafnrétti

Góðir hlutir gerast ekki af sjálfu sér, a.m.k. ekki alltaf, þótt mann langi til þess. Nú er búið að hleypa af stokkunum átaki gegn kynjamisrétti, HeForShe, sem er sérstaklega beint til karla af því að verið er að reyna að rétta hlut kvenna.

Ég skrollaði aðeins um síðuna áðan og sá heimskort þar sem sýnt er hversu vel karlar hafa tekið við sér. Og við erum ekki að tala um höfðatölu heldur eru rauneinstaklingar rauntaldir.

Ef rétt er talið hafa núna 121.309 karlar skrifað undir, þar af 5.740 á Íslandi, 509 í Finnlandi, 209 í Rússlandi og 2 í Máritaníu. Ef rétt er talið ...


60/40 - alveg sannfærð

Á morgun ætla Skotar að greiða atkvæði um mögulegan aðskilnað Skotlands og Englands. Samkvæmt skoðanakönnunum er mjótt á mununum og niðurstaðan ræðst af þeim óákveðnu sem mæta svo samt á kjörstað. Ég hef ekkert fylgst með fyrr en alveg upp á síðkastið og ég held að meiri hluti sé fyrir því að vera áfram hluti af Bretlandi. 

Ég meina, allir gera sér grein fyrir að Skotland hefur sérstöðu, t.d. í tungumálinu, landslaginu og tónlistinni. Þá geta Skotar vel verið hluti af stærra samhengi.

Ég tengi þetta lóðbeint við vilja minn til að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæði Íslands. Grafarvogur gæti allt eins verið sérstakt sveitarfélag eins og Seltjarnarnes eða Kópavogur.

Skotar eru með eigið þinghús og auðvitað eiga þeir að ráða sínu daglega lífi en mér finnst -- allt byggt á tilfinningalegum rökum -- að þeir eigi að vera hluti af Bretlandi áfram.

Ég er líklega þar í aldri sem er líklegur til að segja nei við sjálfstæðinu. Samt styð ég almennt sjálfstæði fólks, frjálsan vilja og atkvæðisrétt.

---

Nú er ég næstum leið yfir að hafa haft rétt fyrir mér. 


Afplánaði Fiskana ...

... en bara til hálfs. Mikil óskapleg vonbrigði voru Fiskarnir hafa enga fætur hans Jóns Kalmans. Hugsanlega er Himnaríki og helvíti besta bók sem ég hef lesið og þótt ég muni ekki lengur söguþráðinn í smáatriðum man ég enn tilfinninguna og finnst ég vera vanbúin fyrir opnu hafi.

Ari, Ásmundur, GÓ, Austfirðir, Kaupmannahöfn, mamman, eiginkonan --- öll og allt verður risastór og ólystugur grautarpottur.

Ég móaðist við og las hana tæplega hálfa, bar mig svo illa við aðra aðdáendur JKS sem kom  á daginn að höfðu heldur ekki haldið bókina út til enda.

Get ekki rökstutt þennan skelfilega dóm. Gafst bara upp á bls. 170 og verð búin að gleyma persónugalleríinu á morgun.


Matarskattur

Ég næ því auðvitað að orðið matarskattur er ekki notað í fjárlagafrumvarpinu þannig að það þýddi ekki að leita að því. En lægra skattþrepið var hækkað úr 7% í 12%, sem sagt um 5 prósentustig en rúm 70%. Af hverju notar enginn það? Samt geri ég mér aftur grein fyrir að matur mun ekki hækka um 70% - eða ég vona ekki. Virðisaukaskattur er ekki það eina sem myndar verðið á mat.

7 sinnum 70% eru 4,9, eru þetta ekki örugglega réttir útreikningar hjá mér?

Engu að síður er fyrirsjáanlegt að matarverð hækki. Er það ekki meðvitað hjá ríkisstjórninni vegna þess að íslenska þjóðin er orðin svo feit? Maður spyr sig - eða þig.


Flöskuskeyti frá P

Ég sat um Flöskuskeytið hans Jussis á bókasafninu, kom höfundinum á tal við annað fólk og sannreyndi að fleiri höfðu lesið bækurnar hans og fundist þær spennandi. Svo varð ég fyrir vonbrigðum með hana, þótti hún ekki eins spennandi og ég reiknaði með og dálítið meira predikandi. Allra verst er þó að uppgötva - á fjórðu bók - að persónusköpunin er í molum. Að vísu á Carl Mørck að vera illa í húsum hæfur og leiðindaskarfur sem fólk vill ekki vinna með (en fallegi sálfræðingurinn fellur fyrir) af því að hann fer sínar eigin leiðir en þegar á hólminn er komið og ofan í kjallarann á lögreglustöðinni slengir hann fótunum í sífellu upp á skrifborðið og vill sofna út frá skini tölvuskjásins. Nei, ég er ekki sannfærð.

Hann ergir sig þegar Assad segir eitthvað og líka þegar Assad þegir, hugsar Yrsu/Rose í sífellu þegjandi þörfina þótt hún sýni mikið sjálfstæði í hugsun og verki (eins og honum er álasað fyrir) og vill sitt á hvað að þau fái meira pláss og minna pláss til að athafna sig.

Flöskuskeytið. Bréfið í flöskunni skrifaði fórnarlambið SMÁUM stöfum með hendur bundnar fyrir aftan bak og blekið var blóð úr honum sjálfum. Hræddur unglingur. Svo tróð hann bréfinu ofan í flösku, lokaði henni og kom af stað út í umheiminn.

Hættu nú alveg. Setti ENGINN spurningarmerki við það? Las enginn söguþráðinn yfir? Og það var margt fleira sem ég ætla ekki að tíunda ef einhver lesandi bókarinnar skyldi villast hingað inn fyrirfram.

Svo er náttúrlega sami gallinn í þýðingunni farinn að pirra mig meira. Ég sá dönskuna á bak við í orðaröðinni og sumu orðavali.

Ég leyfi nýjustu bókinni að liggja á bókasafninu um hríð og tek nú upp Fiskana sem hafa enga fætur. Ég veit að ég get treyst á stíl Jóns Kalmans.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband