Aðhald kaupandans

Ég fór aftur í búð í dag og nú ætla ég að taka þessar vörur í fóstur:

Kryddfetaostur frá Mjólku, 200 g: 167 kr.

Sólþurrkaðir tómatar frá Söclu, 280 g: 299 kr.

Gullgráðaostur frá Akureyri, 125 g: 208 kr.

Spínat frá Hollu og góðu, 200 g: 267 kr.

Svo bið ég bæði að heilsa talsmanni neytenda og öllum neytendum.


Hvað merkir ,eða´?

Hugsið nú málið. Auðvitað vitum við að eða er samtenging, þú eða ég, nei eða já o.s.frv. En hvernig notar fólk eða?

Hittumst eftir helgi eða strax á mánudaginn.

Þetta var fjórðungur eða 25%.

Hann þoldi ekki hugmyndina eða honum var fullkomlega misboðið með þessari tillögu.

Það sem fólk vildi sagt hafa í stað eða er það er (þ.e.) til nánari skýringar á orðum sínum. Aftur verð ég að segja að ég missi ekki svefn yfir þessu en hins vegar skil ég ekki að menn skuli nota orðið svona og enn síður skil ég að ég heyri aldrei neinn tala um þetta. Og vinn ég þó með fólki sem lætur sér tungumálið ekki í léttu rúmi liggja.

Prófum eitt dæmið: Þetta var fjórðungur, þ.e. 25%.

Þetta er ekki þágufallssýkin sem lamið hefur verið á árum saman með litlum árangri, þetta er eða-sýkin.


Hverjum er ekki sama um jafnrétti?

Ýmsum.

Síðunni barst furðuleg saga um venjulegan skóla á Íslandi. Þar er mönnum gert að skila verkefnum. Karl og kona komu sér saman um hina fullkomnu samvinnu, hún vann öll verkefnin fyrir bæði. Fyrir þau sem hún skilaði í eigin nafni fékk hún 8 en fyrir þau sem hún skilaði í hans nafni fékk hún 9.

Ég spurði aðilann sem sagði mér: Og hvað, kvartaði hún ekki?

Uuuu, nei, þá hefði hún komið upp um hið gullna plott þeirra. Hún beit sig í vörina og hætti.

Og nú mega áhugasamir giska á eðli námsins.


alla vega - allavega

Ég segi ekki að ég gráti mig í svefn en hvers vegna í ósköpunum notar fólk alla vega eða allavega þegar það vill segja að minnsta kosti?

Skv. tölvuorðabók:

LÓB

alla·vega1

• margvíslegur, af öllu tagi

allavega menn


kýr - kú - kú - kýr

VöfflubaksturAllir 101-búar skyldu taka sig upp endrum og eins og bregða sér í sveitasæluna, einkum ef jafn góður kostur og Arnarholt í Stafholtstungum býðst. Þangað brunaði ég í litlum og vel uppfærðum hópi um helgina. Arnarholt er nefnilega ekki bústaður, heldur gamall bóndabær, vantaði bara kýrnar og ærnar.

Ég ætla ekki að tíunda viðburði helgarinnar, segi bara þetta: Við bökuðum ógrynni af speltvöfflum á laugardaginn og vegna þess að við torguðum þeim ekki vildu sumir henda þeim - í ruslið beinustu leið. Gæsahjartað í mér tók kippi og lá við andarslitrum en ég fékk að setja þær í poka og ætlaði að gefa öðrum fuglum en mávinum á mánudag. Hins vegar millilentu þær í vinnunni hjá mér, var stungið í brauðristina og etnar af mikilli lyst - stökkar eins og þær væru nýbakaðar.

Þetta má skilja sem nýja heimilisráðið.


Verðlagseftirlit Berglindar í Bónusi

Talsmaður neytenda hvetur neytendur - okkur - til að vera á varðbergi gagnvart verðlagi. Hann leggur til að við tökum vörur í fóstur. Þótt nú sé svolítið seint í rassinn gripið, aðeins þrjár vikur fram að degi hinnar dásamlegu skattalækkunar, ætla ég að taka áskoruninni, a.m.k. að hluta.

Holtakjúklingabringur, kílóverð: 2.565 kr. (að vísu er svo iðulega afsláttur límdur á umbúðirnar, í dag 20%).

Chiquita-bananar, kílóverð: 141 kr.

Gullbitafiskur (ýsa), kílóverð: 5.988 kr.

Pólarbrauð (rågkaka, sænskt, mjúkt hrökkbrauð (hmm), lífrænt), 250 g, 6 sneiðar: 159 kr.

Lúxusíspinnar með karmellubragði, Kjörís, 4 stk.: 337 kr.

 


Við viljum Vilko, við viljum Vilko!

Ég vil Sundabraut. Til vara: fækka bílum um þrjá fjórðu. Ég minni á að í Reykjavík eru fleiri bílar en bílpróf. Er það ekki magnað?


Kjötsúpusjoppa Eyvindar

Ef meintur Norðurvegur verður að veruleika missir lærissala (af sjálfdauðu) Eyvindar og Höllu sjarma sinn (hér vísast í Spaugstofu gærkvöldsins) sem og kveðskapur við Beinahól. Þá verða nú ferðamennirnir glaðir ...

Ég man eftir öðrum vegi sem rútubílstjórum væri sama þótt yrði bættur og það er GJÁBAKKAVEGURINN milli Þingvalla og Laugarvatns. Ef mönnum er féð útbært mætti alveg byrja þar.

 


Stór stafur í línu tvö - hugleiðing

Hvað veldur því að sumir hafa fyrsta stafinn í annarri línu stóran þótt fyrsta lína endi á kommu? Þið skiljið hvað ég meina, maður er ávarpaður í línu eitt með t.d.: Sæll, og svo byrjar bréfið í næstu línu á: Ég hef verið að hugleiða ...

Ég sé þetta í ensku og geri ráð fyrir að menn taki það upp þaðan en jafnvel þótt það væri rökrétt í ensku - sem ég sé svo sem ekki - er alls ekki sjálfgefið að það sé rétt eða eðlilegt í íslensku sem er frekar mikill vinur litla stafsins.

Mér finnst þetta tilgerðarlegt. Ég vil ekki segja að það fari í taugarnar á mér (því að það er svo smáborgaralegt, hmmm). Ég tek fram að ég hef bara séð þetta í íslensku hjá Íslendingum. 

Es. Feitletraði það sem málið snýst um, m.a. kommuna (,) fyrir aftan sæll.


Löggilding starfsheitis leiðsögumanna ferðamanna

Dæs. Árum saman hefur maður vonað að það ljós rynni upp fyrir hlutaðeigendum að ferðaþjónustunni kemur betur að hafa góða, ánægða, velupplýsta og LÖGGILTA leiðsögumenn að störfum. Nú berast þau tíðindi úr herbúðum löggildingarnefndar félagsins að það verði ekki fyrir vorið.

Ætli ég muni ekki rétt að hafnaleiðsögumenn, leiðsögumenn hreindýraveiða og laxveiði séu löggiltir?

Dæs.


www.tn.is

Nú hefur talsmaður neytenda opnað heimasíðu þar sem hann hvetur neytendur til að sýna kaupmanninum virkt aðhald. Tökum brýninguna til okkar, kaupum ekki við hærra verði það sem hægt er að kaupa við lægra verði - eða sleppa ella.

Við búum til samkeppnina.

Og 1. mars sem áður kallaðist b-dagur (frá 1988 minnir mig) hlýtur að fá aðra skammstöfun eftir þrjár vikur, s-dagur (samkeppni)???


Hlutfall af kaupverði

Já, er nokkur ástæða til að vorkenna eigendum Símans? Einhvern veginn gátu þeir önglað saman 66,7 milljörðum til að kaupa hann (með grunnnetinu) og seldu þeir ekki einmitt grunnnetið frá sér aftur? Og myndu nokkuð viðskiptavinir njóta góðs af þótt Síminn væri rekinn með hagnaði frekar en viðskiptavinir bankanna? En þegar upp er staðið - er þetta ekki bara plattap eins og hjá tryggingafélögunum sem afskrifa stórar summur í sjóði til að mæta síðari tíma afföllum?


mbl.is 3,6 milljarða króna tap á rekstri Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurmálið

Maður þarf ekki að fjölyrða um sorgina yfir því sem þolendur upplifðu í Breiðavík. Það sem mér finnst eftirtakanlegast eftir að hafa séð viðtölin í Kastljósinu (og ég tek ofan fyrir Kastljósinu sem ég var eiginlega búin að afskrifa eftir að það lengdist) er hvað þeir eru upp til hópa vel máli farnir. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi, a.m.k. sumir, sagt frá upplifun sinni áður, orðað hugsanir sínar og líðan, en þeir eru fyrir allra augum og suðandi myndavéla - og þeir eru svo skýrir í hugsun og tali.

Ég man reyndar að ég hugsaði líka þegar ég sá myndina um Lalla Johns um árið hvað utangarðsmennir voru skáldlegri og heimspekilegri en ég reiknaði með. Ég held að þetta sé ekki um fordóma mína, heldur merki um greind þeirra.


Nýja stefið sem um er rætt

Fréttatíminn var að byrja - ég verð bara hrifnari af stefinu nýja. Ég er líklega naumhyggjumanneskja, stefið tekur fljótt af, er lágvært og mér finnst það hljóma vel.

Fríkirkjuvegur 11

Ég verð að viðurkenna að ég er mjög dús við að Novator Björgólfs muni kaupa Fríkirkjuveg 11. Húsið er byggt sem íbúðarhús og ég trúi að það hafi ekki hentað vel sem skrifstofubygging. Að því sögðu verð ég náttúrlega að viðurkenna að aldrei hef ég unnið þar.

Björgólfur er einhvern veginn viðkunnanlegur - og svo ætlar hann að gera húsið að safni. Mér finnst það reyndar svolítið grunsamlegt, en sjálfsagt hangir ekkert á spýtunni.

Ég geng þarna framhjá daglega og ætla að gefa húsinu góðan gaum framvegis og sjá hvort það verður ekki bara enn reisulegra þegar fram líða stundir. Ég treysti því að staðið hafi verið við stóru orðin um að selja ekki stóran hluta lóðarinnar með, garðurinn verður enn í minni eigu.


Víst!

Klassísk spurning er: Hvort er betra að þéna 200 þúsund á mánuði ef obbinn þénar 150 þúsund, eða 300 þúsund ef obbinn þénar 400 þúsund?

Svarið er augljóst.

Ef maður hins vegar spyrði stuttu útgáfunnar, hvort væri betra að þéna 200 eða 300, yrði svarið vitlaust.

Það skiptir sem sagt lág- og millitekjufólkið máli að hér er að renna upp auðmannastétt. - Víst.

Annars er mér ofar í huga akkúrat í augnablikinu að það er algjör víðáttukuldi í 101 og 107 Reykjavík (spönnin þröng hjá mér í kvöld). Ég var nefnilega að koma hjólandi úr Reykjavíkurakademíunni þar sem Sigurður Gylfi Magnússon og Stefán Pálsson fluttu stórfróðleg erindi um fræðibókaútgáfur.

Og man ég þá ekki að óvina-ríkisins-bók Guðna Th. er einmitt á náttborðinu með Tryggðarpanti Auðar Jóns ... En Draumalandið - sem Stefán sagði að menn segðu að væri fín og fróðleg og skemmtileg og allt það ... en ekki alveg fræðibók (af því að hún væri of skemmtileg) - er enn hjá tröllunum í Skerjafirði.


Skúbb

Ég tel mig vita það en ætla að þykjast spá því að skv. nýrri skoðanakönnun um Alcan sé núna meirihluti meðmæltur stækkun álversins.

Eigum við að giska á 55%?


Skemmtigildið var ótvírætt

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var skemmtilegri en ég reiknaði með, hann má eiga það. Myndskeiðin sem hann sýndi, dæmin sem hann tók, frásögnin - allt var þetta hið líflegasta. Og hann sannaði auðvitað mál sitt sem er það að hann er ákveðin heimild um .. ja, tiltekin vinnubrögð, skoðanir, aðferðafræði.

Svo geta verið óteljandi margar aðrar skoðanir og aðferðir um nákvæmlega sömu tímabil og sömu atburði.

En ég skil ekki enn að maður sem predikar markaðshyggju og frjálshyggju í orði skuli á borði aldrei hafa selt sig öðrum en ríkinu. Aldrei? Ég ætti auðvitað ekki að fullyrða neitt. Hann hefur ekki selt sig á markaði - eða hefur hann selt fyrirlestra erlendis? Það kann að vera. Hver gaf aftur út Halldór og Kiljan og Laxness? Bókafélagið, hvaða fyrirtæki er það?

Og þegar hann talar um 150 stykki af „Maður er nefndur“ sem hann „framleiddi“ hefði einhver átt að spyrja hvað markaðurinn hefði verið til í að borga.

En ég er svo feimin.


Frásagnir af framboði mínu eru stórlega ýktar

Ó, hafði það ekkert spurst út? Æ. Jæja, það leiðréttist samt áður en það fer lengra. Við Ingvi og Kjartan höfum náttúrlega sýknt og heilagt verið að gæla við að bjóða fram Matarlistann eða Verðlagseftirlitið eða Veðurvitann (eða bara Vaffið) en höfum ákveðið að bíða af okkur hryðjurnar. Og já, Egill er að hugsa um að skrá sig í skóla ... og framboð hlýtur að vera heilmikil skólun.

Hmm.

Við athugum þá bara með slaginn 2011. Það er líka flott ár, Jón hefði orðið 200 ára hefði honum enst aldur og Háskóli Íslands verður 100 ára.

Já, við höldum okkkur til hlés að þessu sinni ... Skólaframboðið? Listi áhugasamra?


Hádegisfyrirlestur á morgun

Það eru náttúrlega mistök að segja nokkrum manni frá þessu sem ekki er þegar staðráðinn í að fara en Sagnfræðingafélagið stendur fyrir enn einum fyrirlestrinum í hádeginu á morgun. Og að þessu sinni er það enginn annar en Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem heldur fyrirlestur um heimildagildi heimildamynda.

Það er vissast að mæta tímanlega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband