You're smart, not to have euroed yet

Eitthvað svona sagði Breti við mig áðan og ég tek það ekki til mín persónulega ... Svo sagði hann að það ógáfulegasta sem Bretar hefðu nokkru sinni gert hefði verið að ganga í Evrópusambandið, nú gerðu þeir ekki annað en að taka við tilskipunum frá Þjóðverjum og fyrirmælum frá Frökkum.

Í kveðjuskyni sagði hann að Bretar horfðu til okkar öfundaraugum.

 


Ísland - dýrast í heimi?

Ég man ekki betur en að það sé alltaf í 1.-3. sæti yfir dýrustu löndin, Noregur er líka ofarlega. Einhvers staðar heyrði ég útundan mér einhvern tala um að best væri að markaðssetja það sem dýrasta landið (fyrir ferðamanninn). Er það ekki góð hugmynd? Um leið og það er orðið afgerandi dýrast gera menn líka kröfur, ferðamenn til okkar og við til okkar. Það ætti að lyfta metnaðinum (og laununum hjá pöpulnum í ferðaþjónustunni).

Við eigum miðnætursól og milda vetur á sumrin, snjó, myrkur og norðurljós á veturna. Það er líka óþarfi að leyfa Finnum að einoka jólasveininn. Svo eigum við sjúklega góðan mat. Hann er það ekki allur, en ég endurtek að við eigum sjúklega góðan mat. Ég var einu sinni að vinna í matartjaldi á víkingahátíð í Hafnarfirði og þar runnu út flatkökur með lambakjöti, já, ekki hangikjöti, bara venjulegu guðdómlegu lambakjöti af sumargengnu. Og núna eru ábyggilega ýmsir á leiðinni hingað á Food & Fund. Svo er tónlistin mjög ... íslensk.

Lækkum bara áfengisgjaldið vegna þess að ferðamenn sjá engan sjarma við að borga 700-kall fyrir rauðvínsdreitil með lambinu. Setjum svo trukk í Ísland - dýrast í heimi. Go!


Geymslutími evru

Ef til vill myndi mjólkin geymast betur ef hún væri keypt fyrir evru (en ekki pund?). Geymslutími evru kvað vera langvinnari. Ég þarf að velta þessu fyrir mér.

En 1. mars nálgast óðfluga og athygli mín var vakin á því að sælgæti mun lækka meira en t.d. grænmeti. Ég fór því með verðlagssjána í Krónuna:

Rískubbar frá Freyju, 170 g, 12 kubbar: 289 kr.

Svartur ópal, salmíak, 40 g: 128 kr.

Hvítt maltesers, 165 g: 298 kr.

Wella-háralitur: 985 kr.

Ég sá líka bananasprengjurnar frá Nóa en þær voru dýrari en í Bónusi þannig að ég ákvað að láta þær eiga sig, hehe. Tilfinning mín er að Krónan sé dýrari en evran ...


Geymslutími mjólkur

Er ekki ábyggilegt að hann lagast líka og lengist 1. mars, á degi hinna gullnu verðlækkana? Mér hafa fundist brögð að því undanfarið að mjólkin súrni á síðasta söludegi. Kannski er ísskápurinn að gefa sig ... en ég vil frekar að mjólkurframleiðandinn skaffi mér endingardrýgri mjólk.

Hmm.


Bóklestur

Kannski er ég að missa það. Ég kláraði Þann yðar sem syndlaus er í gærkvöldi en man ekki lengur hvernig hún endaði ...

Annállinn sem gefinn var út í síðustu viku í fyrsta skipti

Ég var einhvern veginn ekki mjög forvitin um Krónikuna þótt mér virðist Pétur Gunnarsson telja mig í markhópnum en þar sem ég hnaut um hana í kvöld fletti ég henni vitaskuld. Vissulega var pistillinn um sjávarútveginn í Rússlandi forvitnilegur og sitthvað fleira smálegt en uppistaðan fannst mér vera skoðanir sem ég get nálgast mikið hraðar á blogginu.

Þar sem þetta var fyrsta blaðið er ég auðvitað umburðarlyndari en andskotinn, en línuskiptingar í næsta tölublaði mega ekki vera tölvugerðar, a.m.k. ekki ef tölvan er svona vitlaus.


Étinrexa

Manni er nú umhugað um íslenska tungu, framþróun hennar og fjölbreytileika. Ekki vil ég að hún staðni og tréni eins og uppþornuð vefsíða. Ég fékk í morgun tækifæri til að rifja upp hina góðu sögn étinrexa sem varð til í skrafli nýlega. Merkingin er augljós, að gera veður út af matnum sem manni er gert að borða í mötuneytinu, á oftast við um matvönd börn.

Ég sé nú að orðið myndi gera sig engu minna gildandi í fimbulfambi.


10 dagar til stefnu

Ekki dugir að kaupa bara í matinn fram að degi hinna miklu virðisaukaskattslækkana.

Johnson's baby oil með aloe, 200 ml: 520 kr. hjá Lyfju

Ég var búin að hugsa mér að gá að einhverjum fötum, en það er svo erfitt að bera saman peysu og peysu - nema sama peysan sé.


Stokkum upp í skólakerfinu

Ég var einu sinni leiðbeinandi í grunnskóla og fannst það svo erfitt að ég ákvað að mennta mig til að verða kennari. Ég fékk nefnilega engan bjánahroll, bara áhuga, fór í kennslufræðina og kenndi svo nokkra vetur í menntaskóla.

Ég veit að ég var að sumu leyti óöguð, ekki í kennslunni en í undirbúningi og yfirferð. Ég held að það hafi að miklu leyti helgast af því að að ég hafði enga eiginlega vinnuaðstöðu, eitthvert skæni fyrir skrifborð og enga eigin tölvu. Fyrsti veturinn var 1995-6 og þá var tölvupóstur a.m.k. ekki orðinn almennur þannig að maður vann svo sem fyrst og fremst verkefnin á tölvuna. Og sat síðan heilu kvöldin við eldhúsborðið með stíla, ritgerðir og rauð augu.

Ástæðan fyrir að ég söðlaði um og fór í annað var að töluverðu leyti námsmatið. Ég veit að þetta hljómar eins og afsökun en mér þótt hroðalega leiðinlegt að reikna út einkunnir, halda utan um þær allan veturinn og þurfa síðan fyrir jól og á vorin að rökstyðja einkunnagjöfina með því að draga upp verkefnaskilin og tíunda litlu atriðin til að útskýra 7 í stað 8. Þegar svo vildi verkast.

Við Ásgerður sem kenndum einn vetur saman vorum (og erum held ég) sammála um að það væri full ástæða til að stokka upp í kerfinu. Menn fárast yfir löngum fríum kennara, en það er ekki eins hlaupið að því fyrir kennara að lengja hjá sér helgi og skreppa í borgarferð yfir vetrartímann eins og margar aðrar stéttir. Kennarar eru í langa fríinu á dýrasta ferðatíma. Kennarar panta tíma hjá lækni, tannlækni, tíma fyrir börnin líka þegar þeir eru ekki í kennslustund - af því að þá eru þeir í því sem margir kalla frí en er í raun undirbúningstími. Og undirbúningurinn græjar sig ekki sjálfur hjá metnaðarfullum kennurum. En auðvitað eru skussar í stéttinni. Of margir einblína á þá.

Ég myndi vilja sjá einhverjar breytingar í kerfinu. Mér finnst að kennarar ættu að fá góða vinnuaðstöðu í skólunum og hafa vinnuskyldu þar kl. 8-16 eða eitthvað þess háttar. Þá gætu menn auðveldar borið saman bækur sínar, unnið verkefni saman og ég hefði a.m.k. átt auðveldara með að klára vinnuna á eðlilegum tíma í stað þess að eyða of miklum tíma illa.

Ég hefði viljað eiga möguleika á að kenna tímana fyrir Pál ef hann hefði farið yfir verkefni fyrir mig. Ég hefði viljað geta skipt við Brynjólf og hann kennt Eglu í báðum bekkjum en ég ritun í báðum.  Mér finnst ekki nauðsynlegt að sami kennari semji verkefni, leggi fyrir og meti til einkunna. Ekki nauðsynlegt, hmm.

Það sem ég vildi sjá núna áður en menn setja undir sig hornin í kjaraviðræðum er fersk nálgun. Og að lokum verð ég að segja að ég tróð ekki illsakir við nokkurn samkennara ...


Óskað eftir íslenskumælandi starfsfólki

Í atvinnuauglýsingablaði Moggans í gær er tekið fram í auglýsingu frá 101 hóteli að aðeins íslenskumælandi umsækjendur komi til greina sem þó þurfi að kunna ensku vel. Undanfarið finnst mér einmitt hafa færst í vöxt að auglýst sé eftir starfsfólki á pólsku. Þetta er reyndar í gestamóttöku - en ætli þetta þýði að ekki íslenskumælandi fólk hafi sótt mikið um störf í hótelgeiranum?

Eða kannski finnst auglýsandanum ástæða til að taka það fram af öðru gefnu tilefni? Eftir því sem ég fæ best séð er engri íslensku veifað á heimasíðu hótelsins, bara ensku.


210. grein almennra hegningarlaga 19/1940

Ég sé að fólk vitnar hvert um annað þvert í þessa lagagrein en ég er handviss um að fæstir lesendur fletta henni upp:

210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. [Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.]2)
Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.

2) Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.]3) [Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.].


Efnislínan í tölvupósti

Moli á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu talaði svo beint til mín rétt í þessu. Blaðamaður talar um fréttatilkynningar sem fyrirtæki senda fjölmiðlum og sem eru bara titlaðar fréttatilkynning. Efnislínan (subject) í tölvupóstinum á einmitt að segja manni um hvað málið snýst, bæði þegar maður fær póstinn og svo getur ekki síður reynt á það seinna þegar maður þarf að finna upplýsingar í texta sem manni hefur verið sendur.

Þetta á líka við um persónulegan póst, mér finnst .... (anda djúpt) óþolandi þegar í efnislínunni stendur RE: hittingur þegar sendandinn ætlar að spyrja mig álits á Flugdrekahlauparanum.

Svo er dónaskapur að áframsenda til mín keðjubréf, einkum ef fyrst birtast á skjánum þeir 300 sem búnir eru að fá bréfið á undan mér. Og ég slít allar keðjur, alltaf, hvort eð er.

Hitt er síðan annað mál að ég er ekki nógu dugleg að taka til í tölvupóstinum. Héðan í frá ætla ég að taka mig á í því efni.

 


Macchina laventi

Ég stóð í bás þýðingafræðanna í Háskólabíói og reyndi að sannfæra áhugasama um að þetta nám væri bæði skemmtilegt og hagnýtt. Og þurfti ekki að ljúga, þetta er áhugavert og fræðandi og maður fær vinnu í faginu í kjölfarið.

Einhvern tímann var stund milli stríða. Þá vék ég mér að latínubásnum við hliðina og sagði þeim þar að þegar ég hefði verið í latínu í menntaskóla hefði runnið upp fyrir mér það ljós að tungumálið væri dautt eða deyjandi. Einu sinni sagði ég við mömmu að ég kynni ekki þvottavél á latínu sem átti auðvitað að segja henni að þvottavél hefði ekki tíðkast á dögum Brútusar. Mamma hélt hins vegar að þetta endurspeglaði áhugaleysi mitt á heimilisstörfum.

Þetta ágæta fólk í latínubásnum sagði mér af þessu tilefni að Vatikanið léti búa til orð fyrir allt nýtt í þessum heimi þannig að latínan virðist lifa góðu lífi. Og macchina laventi er líklega þegar orðið gamalt orð hjá páfa.


mbl.is Háskóladagurinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaleikur hagsmunaaðila

Inn í allar breytur bæði greiningardeildanna og fasteignasalanna vantar alltaf hinn mannlega þátt. Það er auðvitað staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað undanfarin nokkur ár, um það verður ekki deilt, en að fasteignamarkaðurinn sé núna aftur að taka við sér er túlkunaratriði. Og þegar þróunin er skoðuð og metin eru alltaf viðskiptafræðingar bankanna - sem hafa hag af því að lána og hreinlega af því að einhverjir fari flatt á lánunum - og fasteignasalar - sem í flestum tilfellum taka prósentur af söluverði - spurðir. Einstaka sinnum stjórnmálamenn en ég man ekki eftir því núna um hríð.

Hvað finnst fólki sem hefur neyðst til að kaupa á uppsprengdu verði og ekki ráðið við það? Er fasteignamarkaðurinn aftur að taka við sér í þess augum? Hvað með fólkið sem flytur í önnur héruð, kaupir minni íbúðir en það telur sig þurfa, fer á leigumarkaðinn? Hver er huglæg túlkun þess til fasteignamarkaðarins? Hvaða áhrif hafa svona segðir á þá sem eru núna að leita sér að íbúð eða leita sér að kaupendum?

Frændi minn keypti í vikunni fjögurra herbergja íbúð í hverfi 104, 87 fermetra, á rúmar 17 milljónir. Sú sala er meðal þessara 135 samninga sem voru gerðir um eignir í fjölbýli. Sá seljandi er líklega skælandi núna þótt hann hafi áður verið stúrinn yfir því að íbúðin hreyfðist ekki í þrjá mánuði.

Mér finnst fasteignamarkaðurinn ekkert að taka við sér enda hef ég horft á sömu eignirnar á sölu mánuðum saman. Hins vegar er alltaf svolítið um að góðar eignir seljist eins og skot.  


mbl.is Heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu rúmir 4,5 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þéttum byggðina, þéttum byggðina, við búum í borg

Og ég skal fórna mér, ég skal hafa nágranna á stofuglugganum. Ég dreg bara fyrir þegar mér finnst við hæfi. Ef ekki væri fyrir vistkerfi Vatnsmýrarinnar legði ég til að þar yrði byggð 15.000 manna byggð.

Ég minni á að það eru fleiri bílar en ökuskírteini í Reykjavík. Þótt einhverjir einstaklingar eigi tvo bíla af því að þeir eru búnir að endurnýja þótt þeir séu ekki búnir að selja þann gamla getur það ekki afsakað þessa staðreynd.

Og þetta þýðir? Já, einmitt að þrír fjórðu Reykvíkinga keyra sjálfa sig eina saman á vinnustað daglega.

Ég var einhverju sinni á borgarafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem var verið að tala um skipulagsmál. Einn gesturinn lagði til að húsin norðan megin við Laugaveginn yrðu öll rifin, mig minnir alveg niður að sjó reyndar, sem sagt líka Hverfisgata og Lindargata og kannski Skúlagata, og svo yrði byggt upp þétt hverfi - sem myndi þýða að strætó ætti oftar og meira erindi þangað, þ.e. af öllum þeim fjölda sem gæti sest að miðsvæðis myndi svo og stór hópur vilja vera bíllaus.

Þetta var náttúrlega svo róttækt að enginn í pallborðinu virti hann svars. Mér finnst sjálfri þetta dálítið dramatískt en engu að síður er lausnin fólgin í þéttingu byggðar.

Við búum í borg!

Svo búa aðrir í dreifbýli og þar gilda önnur lögmál og viðhorf.


mbl.is 73% aka einir í bíl til vinnu eða skóla í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólann í Reykjavík til Garðabæjar

Ég er enn stúrin yfir að HR hafi ekki tekið lóðina í Urriðaholti. Háskólinn í Garðabæ væri bara rækalli flott nafn, og ábyggilega flottur skóli. Ég hef fulla trú á HR (sem ég vildi að væri HG). Matti hefur kennt þar og það eru ótvíræð meðmæli.

Og Vatnsmýrina og Öskjuhlíðina hefði ég viljað hafa undir annað en HR. Ég hugsa með angist til þess sem á eftir að gerast í Vatnsmýrinni næstu árin.

Annars var ég að reyna að rifja upp hvað Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor í Bifröst, sagði í einum fréttatíma um daginn. Var hann ekki eitthvað að tala um að setja upp skóla í varnarliðshúsakynnunum sem standa núna tóm og draugaleg suður í Reykjanesbæ? Og ef hann var að því, af hverju hef ég þá ekki heyrt nema eitt múkk? Eða heyrði ég ekki einu sinni eitt múkk? Dreymdi mig þetta?

Við þurfum að herða okkur í menntasókninni, auka fjölbreytni og dreifa skólunum. Við verðum að fá fiskvinnslunám. Og meira iðnnám. Verknám.

Ég er á innsoginu. Hvernig ætli ég verði næst þegar ég þarf að ráða smið eða pípara?


Bankarnir eru svo góðir - við sig

Ég er með endurtekið Kastljós í eyrunum núna. Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri fullyrðir að viðskiptabankarnir séu góðir við lántakendur á Íslandi, séu ódýrir, og það komi ekki til greina að láta viðskiptavinina í t.d. London borga með bankaþjónustunni á Íslandi.

Nú, ef allur heimurinn er undir hlýtur að vera næsta skref að láta okkur njóta sömu kjara og viðskiptavinirnir í London njóta. Samkeppni, samkeppni er lykilorðið.

Það hlýtur að verða fyrsta verk Sigurjóns í fyrramálið að tilkynna hin góðu kjör. Þeir eru á samkeppnismarkaði, viðskiptabankarnir á Íslandi. Og einhver vinsamlegast rifji upp fyrir mér hvers vegna hér er enginn erlendur banki.

Sagði einhver átthagafjötrar?


Sigur kaupandans á fasteignamarkaði

Náfrændi minn fékk augastað á íbúð í 104 Reykjavík. Hún er tæpir 90 fermetrar og ásett verð var tæpar 20 milljónir. Hann bauð 20% niður og fékk fuss frá fasteignasalanum. Eftir japl og jaml og fuður náðist samkomulag milli kaupanda og seljanda upp á 17 milljónir 250 þúsund fyrir 87 fermetra. Hann lækkaði hana um 13% - er það ekki bara hraustlegt?

Ég held að kaupendur séu of hræddir við verð sem seljendur og/eða fasteignasalar ákveða sisona. En ekki frændi minn.

Fermetraverðið er sem sagt 198 þúsund kr. Ég gái alltaf að því.


Ógæfumennirnir sem gengu berserksgang í Hafnarfirði í fyrrinótt

Ég heyrði í fréttum að þrír strákar á aldrinum 15-17 ára hefðu verið handteknir vegna bílbrotanna í Hafnarfirði í fyrrinótt, þeir játað og þeim sleppt. Og HVAÐ nú? Þeir eru augljóslega miklir ógæfumenn og vel hægt að hafa samúð með mönnum sem líður svona illa - en vanlíðan þeirra bitnar á mörgu fleira fólki. Og HVAÐ nú? Hver eru úrræðin? Hver bætir tjónið?

Lausn lífeyrissjóðanna (les: lífeyrisþega)

Ólyginn segir mér að lífeyrissjóðirnir eigi 1.500 milljarða króna í sjóðum.

Er ástæða til þess? Nei, auðvitað eiga lífeyrissjóðirnir að greiða úr sjóðum sínum frekar en að lúra á þeim eins og ormar á gulli. Ég hef verið að velta fyrir mér fjölda þeirra og hvers vegna þeir skirrist við að borga út á þeim forsendum að þeir þurfi að standa undir framtíðarskuldbindingum.

Ha?

Þeir eiga þessa peninga núna og eiga að borga þá út. Það væri líka hugmynd að þeir byggðu íbúðahverfi (í Mosfellsdal? Eyjafirði) með öryggishnöppum og allri annarri þjónustu. Íbúðin yrði seld fyrir eðlilegt verð og síðan gengi á höfuðstól eignarinnar eftir því sem viðkomandi byggi þar lengur. Þetta gæti verið félagslegra en að hafa lífeyrisþegana dreifða.

Ég ætla að halda áfram að hugsa um þetta - en ég get ekki beðið eftir að ég komist á aldur. Verkefnið er brýnt núna.

Es. Ég viðurkenni upp á mig ónákvæmni þegar ég sagði að lífeyrissjóðirnir ættu í sjóðum, auðvitað eru það greiðendur í sjóðina sem eiga í sjóðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband