Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Órugluð Stöð 2 í augnablikinu
Ég hnaut rétt í þessu um óruglaðan þátt á Stöð 2, 60 mínútur (eða Klukkustund eins og við Sigurður G. Tómasson á Útvarpi Sögu myndum kalla þáttinn ef við fjölluðum um hann). Í honum er verið að fjalla um fasteignamarkað og hrun á honum í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna.
Fólk fékk óvandaða ráðgjöf frá fasteignasölum og bönkum, fjárfesti langt yfir getu sinni og sat svo í súpunni. Hvenær fáum við fréttaskýringaþátt af þessu tagi hér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Fasteignavefur Moggans
Ég er nokkuð reglulegur gestur á fasteignavefnum og finnst gott að geta leitað eftir hverfum, stærð, verði og götuheiti - en af hverju get ég ekki sett í leitarskilyrðin svalir eða verönd? Sólarsvalir skipta mig miklu máli.
Af hverju skrifa fasteignasalar jarðhæð þegar íbúðin er svo niðurgrafin að það þarf næstum stól til að sjá til sólar? Við sáum þekkta íbúð í gær sem er algjör kjallari, og ekkert að því, en hún var auglýst jarðhæð.
Myndir sem eru svo góðar að íbúðir virðast stækka um helming hrinda mér frá á staðnum. Dugar trikkið á aðra, bara að fólk sé komið á staðinn?
Og það síðasta sem mér liggur á hjarta núna er: Af hverju auglýsir ekki fasteignavefurinn hvar er opið hús? Stundum hef ég séð forvitnilega eign sem ég veit að á að sýna í opnu húsi en man ekki hvenær og man heldur ekki alveg hvaða eign. Af hverju getur maður ekki flett eftir þessu leitarskilyrði? Mér leiðist ekkert meira en að sýna mína eigin eign og næstmest leiðist mér að skoða hjá seljendum sjálfum (jæja, kannski ekki næstmest). Ef ég hef áhuga á íbúð vil ég geta skoðað hana þegar seljandinn er að heiman og helst þegar gert er ráð fyrir gestagangi hvort eð er.
Ég man alveg þá tíð þegar maður þurfti að fletta blöðunum í leit að réttu eigninni og er fjarska þakklát fyrir fasteignavefinn, hehhe, kæri Moggi, en er ekki alltaf verið að þróa vefina? Þetta hlýtur að verða næst.
Klukkan er að verða hálfellefu og Fréttablaðið er ekki einu sinni komið með auglýsingarnar ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. febrúar 2008
Dásemdir netsins
Svo mikið hafði ég heyrt um Kastljós fimmtudagsins sem ég missti af að það var augljóst að ég yrði að horfa. Nú er ég búin að sjá bæði Svandísi og Vilhjálm bera í bætifláka fyrir REI og verð viðræðuhæfari á mannamótum.
En skyldi verða niðurstaða í málinu? Eða deyr það drottni sínum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. febrúar 2008
MA - FSu
Varla þarf að minna nokkurn mann á Gettu betur sem verður í sjónvarpinu í kvöld, er það nokkuð? Í mínum augum er þetta SJÓNVARPSEFNIÐ og það verður mikið hrópað og kallað í kringum mig (svolítið til að bæta upp á skort á stuðningsmönnum liðanna sjálfra). Þetta ... og safnanótt Vetrarhátíðar er heila málið í óveðri suðvesturhornsins.
Koma svo!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 8. febrúar 2008
34,64% kosningaþátttaka - viðvarandi áhugaleysi
Við hreykjum okkur af mikilli og lýðræðislegri þátttöku í kosningum á Íslandi. Nemar eru stór hópur sem hefur mikilla hagsmuna að gæta. Þetta þátttökuhlutfall er svo sem ekki nýtt í háskólakosningum, en hvað veldur? Höfum við það of gott? Eru fylkingarnar of einsleitar? Nógu vel eru þær kynntar, greinaskrif í dagblöðum í aðdraganda kosninga og hvaðeina.
Eru allir hamingjusamir með aðganginn að námslánum? Draga Röskva og Vaka kannski hvort eð er ekki þann vagn?
Maður hlýtur að spekúlera.
![]() |
Röskva sigraði naumlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Clinton er minn maður miðað við spurningalista
Ef Egill Helgason villtist aftur inn á síðuna mína gæti það ljós runnið upp fyrir honum að ég notast við ýmislegt af síðunni hans. Eftir að hann setti sig niður á Eyjunni fór ég að lesa hann reglulega, ekki meðan hann var á Vísi. Veit ekki af hverju.
Núna rakst ég á spurningalista um hvaða frambjóðandi væri frambjóðandi manns. Ég þykist alltaf vera vel slarkfær í ensku, en þó var þarna snúin spurning (kannski tvær) sem getur vel vafist fyrir íslenskum lesendum. Ég hallast að því að skilningur minn hafi verið ágætur því að Hillary Clinton fékk besta útkomu hjá mér, 53 stig. Næstur var Barack Hussein Obama með 48, svo þessi Mike Gravel (37) sem Egill valdi, sér að óvörum. Mitt Romney var næstur með 16 stig (er hann ekki ógurlega spenntur fyrir fósturvísum?), þá John McCain með 16, Mike Huckabee með 15, Ron Paul (14).
Verst að mega ekki kjósa þarna vestur frá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Myndasíða af húsunum við Laugaveginn sem má rífa
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. febrúar 2008
Mig furðar ekki að Leifsstöð sé sprungin
Það er jafn dapurlegt fyrir það. Það er aðeins 21 ár síðan Leifsstöð var reist og átti þá væntanlega að standa fyrir sínu til langrar framtíðar. Við sem erum með annan fótinn hjá Leifi við að taka á móti farþegum vitum að það hefur verið hundleiðinlegt ástand undanfarið, allt síðasta ár í minningunni.
En hvernig væri að bæta innanlandsfluginu við, hætta bútasaumnum, stækka þess í stað myndarlega, hafa útgöngudyrnar í vari fyrir vindinum og bæta almenningssamgöngurnar við höfuðborgarsvæðið?
![]() |
Leifsstöð sprungin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. febrúar 2008
330 blaðsíður með engum svefnhléum
Sjálf náði ég ekki að lesa Þúsund bjartar sólir í einni lotu. Samt hlýt ég að mæla með því að lesandinn láti ekki hégómlegt daglegt smástreð trufla einbeitinguna.
Einn er harmleikur, þúsund er tölfræði - það er segin saga. Og þótt maður sjái í dagblöðum að ósanngjarnir menn breyti ranglega, brjóti menningarverðmæti og lúberji fólk, limlesti og drepi, svívirði og hrakyrði verður það sjaldnast meira en frétt. Og þótt persónurnar Mariam og Laila, Jalil, Rasheed og Tariq, Aziza og Zalmai séu skáldskapur lifna þær miklu fremur en sannar manneskjur í stuttri blaðagrein.
Já, þetta sér hver maður.
Einhverra hluta vegna var ég ekki svona hrifin af Flugdrekahlauparanum. Þótt ég þykist bærilega góð í ensku dettur mér í hug að það sé að einhverju leyti vegna þess að ég las hana ekki á móðurmáli mínu. Ég ætti kannski að lesa þýðinguna og vita hvað mér finnst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Heildræn tjáhvarfasýki, veðurgremjuröskun, spaugröskunarheilkenni, þetta reddast-röskun og starfslokaoflæti
Þemað svínvirkaði í Spaugstofunni. Gestaleikarinn Jóhann G. Jóhannsson var líka frábær, ekki síst þegar hann reyndi að tala Þorgeir Ljósvetningagoða undan feldinum og nýta sér starfslokaoflæti Sigtryggs.
Að þeim skuli takast þetta á svona stuttum tíma er nánast óskiljanlegt. Ég sé ekki eftir þessum peningum. Hvað kostar þetta annars ... í samanburði við eitthvað annað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 1. febrúar 2008
Hvernig eignir seldust? Og hvenær voru þær seldar ef þeim var þinglýst í síðustu viku?
Mér finnst svo mörgum spurningum ósvarað um fasteignamarkaðinn.
Ég hef heyrt því fleygt að byggingaverktakar kaupi hver af öðrum til að halda veltutölunum uppi. Kostar það þá ekki pening ef satt er? Ætli eitthvað sé til í þessu? Ég hef líka heyrt að það taki stundum mánuði að ljúka sölu með þinglýsingu. Eru þá núna margar vikur síðan kólnunin hófst? Ætla bankarnir aftur að fara að lána? Halda þeir tímabundið að sér höndum vegna nýbygginga? Er þeim stætt á að standa ekki við loforð til venjulegs fólks sem hefur ætlað að fjármagna eigin húsbyggingu með bankalánum? Voru það kannski engin loforð, trúði fólk því bara í grandaleysi? Hvernig ætlar t.d. Landsbanki sem græddi 40 milljarða á síðasta ári (eða voru þeir 60?) að láta viðskiptavinina njóta þess?
Langar blaðamenn ekki að vita þetta? Langar blaðamenn ekki að miðla svörum til lesenda?
Í sumum öðrum löndum er núna mikil niðursveifla á fasteignamarkaði. Eru einhver teikn um að það gerist hér? Eða má bara segja frá því eftir á?
Eina fólkið sem blaðamenn spyrja er fasteignasalar og starfsmenn greiningardeilda bankanna. Þrátt fyrir ágæti þess fólks trúi ég bara ekki alveg því sem það segir. Eru hvergi til sjálfstætt starfandi hagsögufræðingar? Trúverðugir.
![]() |
Fasteignakaupsamningum fækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)