Vorilmur í lofti

Ég botna ekkert í þessu. Ég hef alltaf verið vandræðalega lítið næm fyrir lykt og algjörlega laus við klígju. Nú á þessu haustlega vori finnst mér allt brum svo rosalega lyktarsterkt að mér finnst næstum nóg um. Ég finn matarlykt milli húsa og allt í einu er brennisteinslyktin á háhitasvæðunum mjög sterk.

Veldur hlýnun jarðar þessu ...?

Og svo verð ég að minna sjálfa mig á að ég byrjaði að blogga fyrir akkúrat hálfu ári, hélt að ég myndi aðeins endast út þann mánuð, þ.e. til áramóta, en það er öðru nær - nú stefnir allt í að ég kaupi mér aukið myndapláss hjá Mogganum og haldi uppteknum hætti ... næsta hálfa árið.


Hákarlaverkun hverfandi atvinnugrein

Ég kveikti á Rás 1 í dag sem ég geri alltof sjaldan. Vítt og breitt var í gangi og í þættinum var tekið hús á Hildibrandi Bjarnasyni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Hann er snilldarfýr, einn af sárasárafáum sem enn kann að verka hákarl.

Hann býr þarna í Bjarnarhöfn og verkar hákarl en er líka búinn að koma sér upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Mig minnir að ég hafi aðeins einu sinni farið til hans með farþega, en ég held að þrátt fyrir stórfengleika Snæfellsnessins hafi heimsóknin á hákarlasetrið staðið upp úr.


Látum klinkið um heilsuna

Ég finn alveg sjálf að ég er að festast í baunatalningunni en ég verð að segja þetta samt:

Vinkona mín úr menntaskóla, hjúkrunarfræðingur hokin af reynslu af alls konar hjúkrunarstörfum í ýmsum landshlutum, ákvað að skipta um starf um daginn. Hún fór á ráðningarstofu og fyllti út almenna umsókn og fór svo í viðtal til ráðgjafa. Þegar hún var spurð um launakröfur sagðist hún ekki skipta um starf fyrir minna en 350.000 kr. Ráðgjafinn leit á hana með uppglennt augu og sagði: Þú byrjar ansi hátt.

Já, og því vekst þetta upp fyrir mér að ég horfði á Kastljósið áðan. Þar var, eins og víða annars staðar, spjallað um nýju launahækkunina í Seðlabankanum sem er útskýrð með því að millistjórnendur hjá Seðlabankanum voru farnir að nálgast bankastjórana sjálfa í launum. Sem sagt, kaupandinn (hver?) vill borga fólki miklu hærri laun fyrir að sýsla með peningana en með heilsuna.

Þetta er auðvitað ekki ný frétt. Sjúklingar hvísla en peningar garga.


Húrra fyrir Flateyri

Skötuselurinn sæti

Undarlega lágværar raddir - eða kannski hef ég ekki verið að hlusta - um betri horfur á Flateyri. Mikið innilega von ég að þessu fyrirtæki (Tásunum?) sé alvara með að ætla að viðhalda blómlegri byggð og góðu atvinnulífi. Ég hef sko gist á Flateyri og farið í langa göngutúra þar, líka í sundlaugina.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér krúttið sem ég sá á hafnarbakkanum um síðustu helgi. Skötuselur er mikið gúmmulaði sem ég reyni að koma tönnunum yfir þegar ég fer á veitingastað, en honum var áður hent fyrir borð vegna skorts á fríðleika.

Ekki þurfa allir að vera sætastir.


Saga úr stríðinu

Fyrir tæpum mánuði vann ég einn sunnudag fyrir fyrirtæki sem ég hafði ekki unnið fyrir áður. Þegar ég spurði nokkrum dögum síðar hvernig hann vildi greiða sagði hann mér að senda reikning og hann myndi greiða um hæl. Hvorki fyrir ferð né eftir var rætt um kaup. Ég sendi verktakareikning upp á 3.500 kr. tímakaup. Má ég minna á að ég var verktaki og þarf sjálf að greiða launatengd gjöld?

Í dag fékk ég tölvupóst þar sem viðkomandi spurði hvernig ég fengi út þetta tímaverð, hann væri vanur að greiða leiðsögumönnum sínum samkvæmt hæsta taxta Félags leiðsögumanna, kr. 1.578.

Ég vil virða trúnað við eigandann sem ég held meira að segja að sé vænsti maður og hafi bara beðið um skýringar af því að hann hafði þær ekki á reiðum höndum. Og yfirleitt birti ég ekki tölvupósta annarra þannig að ég ætla hér aðeins að birta svar mitt:

Hæsti taxti um helgar skv. kjarasamningum leiðsögumanna er reyndar 2.191,26, og  öllum ferðaskrifstofum sem ég á í samskiptum við ber saman um að sá taxti sé lágur.

En göngum út frá taxtanum. Sem verktaki þarf ég sjálf að borga í lífeyrissjóð og önnur launatengd gjöld, borga tryggingar og meira að segja er þessi þjónusta  virðisaukaskattskyld þótt margir leiðsögumenn séu hættir að nenna að benda á það. Það vissirðu, ekki satt?

Það er sem sagt mælt með að maður leggi 70% ofan á taxtann ef maður vinnur sem launþegi. 2.191,26 * 70% = 1.533,88, samtals þá 3.725,14. Ég leit svo á að ég væri að rúnna niður.

Þér er auðvitað guðvelkomið að borga mér sem launþega.

Ég vann áður með xx hjá xxx. Þegar þú nefndir xx í símtalinu hvarflaði ekki annað að mér en að þú vissir það sem xx veit, nefnilega það að mér leiðist að láta snuða mig.

Er þetta fullnægjandi skýring?

Kveðja,
Berglind

Mér finnst vinnan rosalega skemmtileg, finnst ég standa mig vel og fæ mjög þau skilaboð frá farþegum. Getur verið að leiðsögumenn sem láta sér duga 1.578 um helgar sem tímakaup í verktöku geri litlar kröfur til sjálfra sín líka? Ég geri miklar kröfur til mín og vil sinna vinnunni vel. Ég vil samt ekki að ánægjan af starfinu sé eina uppskeran.

Og ætli Davíð Oddssyni finnist þá ekki rosalega leiðinlegt að mæta í vinnuna ef leiðindi ættu að vera mælikvarði á laun? Seðlabankastjórar voru að hækka í launum til að ná ásættanlegu bili frá undirmönnum sínum sem hafa hækkað vegna þess að viðskiptabankarnir borga sínu fólki vel. Svo þegar maður gerir launakröfur í einhverju samræmi við vinnuframlag og sérfræðiþekkingu er maður púaður niður og vefengdur.

Ég hef mest fengið 8.000 kr. á tímann sem verktaki við fræðslustörf þannig að ég veit að þetta er hægt. Og nær maður ekki árangri hægt og bítandi með því að vera sífellt á vaktinni?


9. júní að bresta á

Bride to be 

Á ... svuntunni eða smekknum stendur GÖMUL GÆS og nú geta ókunnugir giskað á hvað það á að fyrirstilla. Öðrum þarf ekkert að segja.

Fyrri mynd úr sama geimi er tekin langtum langtum langtum síðar og við gjörsamlega aðrar kringumstæður og í allt annarri götu þótt í sama hverfi sé.


Sicko

Jæja, þá reiðir Michael Moore blessaður enn til höggs. Og nú lætur hann bandaríska heilbrigðiskerfið fá það óþvegið. Það er tilhlökkunarefni að sjá Sicko þegar hún fer að rúlla í bíóinu.

Es. Ég hélt að ég hefði lært af honum Hrannari um daginn að setja inn svona myndbönd - og ég reyndist hafa lært það (í þriðju atrennu, hehhe). Ég held áfram að hlakka til að sjá heimildarmynd Moores um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum - sem er víst í 37. sæti í heimi.


Inga gengur í háheilagt hjónaband á laugardaginn - fyrst þetta:

Gæsin og endurnar

Það gekk svo vel og var svo gaman að gæsa Ingu á fimmtudaginn og við vonum núna að fleiri brúðkaupa sé að vænta í vinahópnum. Annars er svo sem alltaf hægt að finna sér eitthvað til ...

Vel að merkja, það sést bara í bakhlið hinnar útvöldu á þessari mynd.


Ferðaþjónustan

Nú er ég hætt í leiðsögn (aftur)! Bílstjórar hlæja að mér þegar ég segi þetta af því að þeir sjá og vita hvað mér finnst starfið skemmtilegt. En ég vann einn dag sem verktaki um daginn hjá fyrirtæki sem ég hef ekki unnið fyrir áður og hringdi í dag til að vita hvert ég ætti að senda reikninginn. Það komst á hreint. Svo sagði hún að ég ætti að rukka 1.600 kr. á tímann í dagvinnu og 2.000 í yfirvinnu - sem verktaki.

Ég sagði náttúrlega að það væri grín, þetta væri rétt um og svo undir launþegalaunum.

Ég veit ekki hvort ferðaþjónustufyrirtæki halda að leiðsögumenn séu fífl eða hvort leiðsögumenn eru raunverulega fífl.

Okkur samdist loks um einhverja fáránlega tölu, 2.580 TIL JAFNAÐAR. Af því tímakaupi þarf ég ekki bara að borga skatt heldur líka tryggingar, lífeyrissjóð, sjálfri mér orlof, standa undir fatakaupum, bókakaupum og undirbúningstíma.

Ég vinn auðvitað ekki fyrir þetta fyrirtæki framar.

Svo eru kjarasamningar lausir um næstu áramót.


Skemmtilegt orð, hagræðing

Ég man þegar tölvupósturinn komst í gagnið og ég man líka þegar ég lærði að hengja skjal við áður en ég sendi tölvupóst.

Það var hagræðing.

Ég græddi á henni þótt ég væri bara starfsmaður, t.d. kennari eða fulltrúi á skrifstofu. Vinnuálagið minnkaði, vinnutíminn styttist, frítíminn lengdist, kaupið lækkaði ekki. Þegar ég læri á endanum á þýðingaminni sparast tími við þýðingarnar, nákvæmnin eykst og ég rukka það sama á orðið.

Væri þá ekki eðlilegt að þeir sem læri hina nýju tækni njóti líka góðs af? Það að fólk hagræði í vinnubrögðum sínum nýtist eigendum/atvinnurekendum/verkkaupum. Hagræðing í sjávarútvegi virðist hins vegar bara koma fáum til góða. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sé í alvörunni á móti tækni sem felur í sér vinnusparnað og aukin gæði, t.d. betri nýtingu hráefnis. 

Ætti ekki bara vinnudagur Íslendinga að fara að styttast heilt yfir? Mér finnst það blasa við. Hagræðing hlýtur að þýða það að þeir sem leggja lóð sín á vogarskálarnar fái eitthvað af ávinningnum í sinn hlut, t.d. í lengri frítíma eða hærra kaupi.

Þannig heyrist manni það vera í bönkum. Ég hef heyrt að ekkert starf í banka borgi minna en 300.000 fyrir fulla vinnu.

Og ég hef alveg hvínandi áhyggjur af því að landsbyggðin leggist af og að hér verði bara borgríki.


Ég öfunda sjómenn

Sjómenn eiga sjómannadag, og af honum öfunda ég þá. Sá dagur er í dag.

Ég óttast hins vegar að hann nýtist ekki sem skyldi, að dagurinn sé að verða hvorki hátíðardagur né baráttudagur. Og af hverju er það? Er búið að taka allan slagkraft úr sjómönnum? Ræna þá allri náttúru? Allri baráttugleði?

Í Reykjavík er hátíð hafsins. Ég heppin, ætla að líta á furðufiskana á hafnarbakkanum á eftir. Ég var sjálf störfum hlaðin í gær sem leiðsögumaður.

Ég er náttúrlega ekki síður öfundsverð en sjómenn. Ég fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Í gær var ég sérlega öfundsverð því að þá fór ég ásamt Inga ökuleiðsögumanni í sleðaferð á Langjökul með tvo farþega. Við brunuðum upp og niður brekkur, æfðum hallann og sneiddum hjá grjóthnullungum. Dúndrandi dekur og ekkert annað.

Jökull er takmörkuð auðlind og verður æ hverfulli. Maður þarf að keyra lengra til að komast í öruggan snjó. Þetta er kikk fyrir farþegana - og okkur hin. Jamm, maður er öfundsverður.

En mikið vildi ég að við hefðum okkar dag þar sem framlag ferðaþjónustunnar væri heiðrað, metið, rætt og endurskoðað. Vissulega er 21. febrúar alþjóðadagur leiðsögumanna og vissulega hefur Stefán Helgi Valsson bryddað upp á ýmsu með fulltingi Félags leiðsögumanna - en við þurfum að bera saman bækur okkar og kynna starfið betur. Af hverju er jökullinn t.d. blár sums staðar? Af hverju er himinninn blár?

Það verður spennandi að sjá hvort nýjum ráðherra ferðamála dettur eitthvað í hug.

Svo vona ég að sjómenn nái vopnum sínum á ný því að a.m.k. ég geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Til hamingju með daginn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband