Föstudagur, 30. ágúst 2013
Viltu hafa flugvöll?
Ég trúi á lýðræðið þótt það sé gallað. Ef ég væri yfirvald í Reykjavík myndi ég skoða undirskriftasöfnunina um flugvöllinn í Vatnsmýrinni vendilega þótt ég sé af öllu hjarta á móti flugvellinum þar. Ég held að þessir 62.230 einstaklingar sem hafa skrifað undir hafi gert það á ólíkum forsendum. Oftast heyri ég fólk nefna sjúkraflug. Allt skynsamt fólk setur mannslíf í fyrirrúm. En er ekki hægt að gera það öðruvísi en að hafa innanlandsflug í miðborg höfuðstaðarins?
Ef skynsama fólkið væri spurt: Viltu hafa góðan spítala í heimabyggð? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu fara vel með peninga? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa næga atvinnu á svæðinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa öruggar samgöngur í landinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa sex vikna sumarfrí? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu að börnin þín fái góða menntun og í fyllingu tímans gott og vel launað starf þar sem hæfni þeirra er metin að verðleikum? reikna ég með að það segði: Já.
Samt vita allir að við getum ekki öll fengið allt sem við viljum. Það er ekki hægt að leggja veg um allar þorpagrundir. Það er ekki hægt að hafa hratt internet alls staðar í þessu stóra landi án þess að kosta miklu til. Það er ekki hægt að hafa sjúkrahús og 50 metra sundlaug í hverjum smábæ. Það er ekki hægt að hafa fullkomið jafnrétti í öllum málum. Við getum ekki tryggt öllum sjúkum bata. Við getum ekki valið hvenær sólin skín í hverjum landsfjórðungi. Við getum ekki gert öllum til hæfis.
En það er sjálfsagt að reyna að gera sem flestum til hæfis og að öðru leyti fara bil beggja. Ef þarfagreining sýnir fram á að meiri hlutinn hagnast í einhverju (eða öllu) tilliti á því að hafa flugvöllinn þar sem hann er mun ég beygja mig undir ákvörðun um það. Ég er bara enn ekki sannfærð um að undirskrifendur séu á því að það þjóni almannahagsmunum að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni ef flug á að standa undir sér. Ég er búin að fljúga tvisvar sinnum innanlands í sumar og í bæði skiptin borgaði vinnuveitandi undir mig. Hefði ég verið til í að ferðast aðeins lengur?
Vill allt það fólk sem vill hafa flugvöllinn til daglegs brúks á sama stað borga raunvirði fyrir farseðilinn sinn? Og hvert er raunvirðið?
Ég er auðvitað að hugsa upphátt og ég spyr: Má kosta öllu til; byggingarlandi, öryggi þeirra sem eru á daglegu ferli í miðborginni, ferðatíma borgarbúa, útlits- og umferðarmengun? Er öruggt hvert svarið yrði ef allir 62.230 þyrftu að velja á milli sjúkrahúss í heimabyggð og flugvallar í Vatnsmýri? Eða flugvallar í Vatnsmýri og ganga í gegnum fjall yfir í næsta byggðarlag þar sem gott sjúkrahús er? Eða flugvallar í Vatnsmýri og fjár til að fara í nýsköpun í heimabyggð? Eða flugvallar í Vatnsmýri og nýs framhaldsskóla í heimabyggð?
Hvað finnst þessum 120.000 kosningarbæru Íslendingum sem hafa ekki skrifað undir? Ég veit að ég vil flugvöllinn burt sjálfrar mín vegna og ég held að obbinn af þeim sem hafa skrifað undir hafi líka gert það af persónulegum ástæðum.
En ég er ekki yfirvald í Reykjavík, á sennilega aldrei eftir að fá að vita allan sannleikann í málinu og ræð engu öðru en eigin næturstað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Hofsvallagatan
Ég hjóla meira en ég geng og miklu meira en ég ek. Samt rak mig í rogastans þegar ég hjólaði Hofsvallagötuna á leið í Vesturbæjarlaug í síðustu viku, svo mikið var búið að þrengja að bílunum í þessari þungu umferðargötu.
Í dag heyrði ég hins vegar viðtal við borgarfulltrúa (sem ég man, ótrúlegt nokk, ekki hvað heitir) og í því kom fram að merkingarnar væru bara málaðar og blómakerin færanleg, breytingarnar væru afturkræfar og þetta væri tilraun. Ég man eftir annarri tilraun við Hverfisgötuna sem var tekin til baka. Mér finnst hraustleikamerki að viðurkenna mistök ef svo ber undir og lýsa sig reiðubúin/n að taka til baka ákvörðun ef hún reynist ekki rétt eða heppileg.
En nú finnst mér stórskrýtið að rifja upp að í október 2011 lýsti tæplega 100 manna íbúafundur þeirri skoðun sinni að bílaumferðin á götunni væri of hröð og að öryggi gangandi vegfarenda væri ógnað (ef eitthvað er að marka frétt RÚV). Frétt eftir íbúafund í gær er um að þess sé krafist að götunni yrði aftur breytt í sama horf.
Mætti kannski allt annar hópur á fundinn í gær?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Til styrktar ...
Á hverju ári skokka ég 10 kílómetra mér til skemmtunar í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins. Ég skokka á rúmlega gönguhraða og hef ekki metnað til annars. En ég hef heldur ekki tiltakanlega mikið sjálfstraust í hlaupum og hef aldrei fundið mig í að biðja fólk um að heita á mig og styrkja eitthvert málefni.
Nýlega las ég pistil um svona áheit þar sem pistlahöfundi fannst eiginlega að skattarnir ættu að dekka það sem fólk biður um áheit til að gera. Og ég er innilega sammála því. Mér hefur fundist ég dálítið utangátta þegar stuðningsmenn snúa rellunum sínum á hliðarlínunni og hvetja einstaka hópa - en í ár var reyndar minna um það. Er ekki gleðin tekin úr hlaupinu þegar allir eiga að vera að styrkja ýmsa hópa sem ættu að fá eðlilegan stuðning í gegnum skattana okkar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. ágúst 2013
Útgáfuferill Jacks Reachers (Lees Childs (Jims Grants))
Hérlendis virðist til siðs að þýða metsölubækur sem hafa slegið í gegn í útlöndum. Þá gildir einu þótt þær séu fjórða, fimmta eða sjötta bókin í seríu um einhverja manneskju. Ef hún gengur líka vel hér er haldið áfram og loks er fyrsta bókin þýdd, bókin þar sem söguhetjan er kynnt til sögunnar á einhvern hátt.
Nú er ég með Rutt úr vegi (Killing Floor) í höndunum. Hetjan er Jack Reacher sem hefur farið sigurför um heiminn og gott ef ekki lagt hann flatan að fótum sér. Hún er nýþýdd og á baksíðu kápu stendur að hún sé sjötta bókin um Jack Reacher sem kemur út á íslensku. Þegar ég skoðaði bókarupplýsingarnar sá ég að hún kom út á ensku 1997, fyrir 16 árum. Þá fletti ég höfundinum upp á Wikipediu og komst að því að þessi bók er sú fyrsta sem skrifuð var um Jack Reacher. Engu að síður er látið að því liggja í íslensku útgáfunni að hún sé það alls ekki.
Þótt bækurnar séu sjálfsagt sjálfstæðar og komi ekki að sök að lesa þær í alls konar röðum sakar samt varla að lesa fyrst fyrstu bókina af næstum 20.
Ég man ekki hjá hvaða erlendu spennusagnahöfundum ég hef áður orðið vör við þetta en krimmar eiga það til að vísa í samtíma sinn þannig að það er skemmtilegra að vita að sögusviðið er næstum 20 ára gamalt.
Og held ég nú áfram að lesa um hina 36 ára gömlu fyrrverandi löggu, Jack Reacher, sem í dag er 52 enda stendur skýrt og greinilega innan á kápu að hann sé fæddur 29. október 1960. Hann er þannig upp á dag sex árum yngri en höfundur sinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. ágúst 2013
Sönn saga?
Það er dálítið erfitt að vera ósammála Hallgrími Helgasyni, Agli Helgasyni, Fríðu Björk Ingvarsdóttur og dómnefnd Fjöruverðlaunanna. Enda er ég ekki hrikalega ósammála, bara smávegis. Ég var að klára Ósjálfrátt og þurfti að pína mig til að klára undir lokin. Það eru margar undursamlega skemmtilegar senur í bókinni, þar á meðal ein framarlega sem ég heyrði höfundinn lesa í desember, sögur af Mömmu og Skíðadrottningunni, sögur af Eyju og Öggu, hjartnæmar lýsingar á samskiptum Eyju og eiginmannsins, minningar um snjóflóðið - ég sagðist ekki vera hrikalega ósammála - en þessi tvískipta saga dettur of oft í tvennt. Fortíð og nútíð rekast harkalega saman í sögupersónunni sem er svo lík höfundinum og, já, mér finnst Ósjálfrátt of mikil lykilsaga. Raunveruleikinn truflar mig. Ég efast ekki um að skáldskapurinn stuggi oft við sannleikanum en þjóðskáldið, Mamma og Fortíðareiginmaðurinn þvælast um of fyrir skáldskapnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 18. ágúst 2013
Við Námaskarð
Ég var við Námaskarð í morgun og stóð á spjalli við annan leiðsögumann þegar maður kom aðvífandi og bað okkur um að hafa umgengnina í huga og biðja bæði aðra leiðsögumenn og túrista að ganga vel um. Hann sagði að pabbi sinn væri einn landeigenda en landeigendur hefðu í heilu lagi dregið sig út úr viðhaldi og almennri umhirðu. Hann sagði að sveitarfélagið sinnti þessu ekki og að eitthvert félag (Náttúrufélag Mývatns?) hefði verið lagt niður og það ólöglega en án nokkurra mótbára. Nú væri hann á sínum þriðja frídegi að tína upp rusl og laga stíga því að honum rynni þetta svo til rifja.
Hann sagði líka að næsta sumar yrðu ruslafötur á svæðinu þótt hann þyrfti að kaupa þær sjálfur.
Já, ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálfsagt hefur sveitarfélagið engar beinar tekjur af því að fólk komi í Námaskarð. Þar er ekkert til sölu. Hins vegar kaupir fólk eitthvað í sveitarfélaginu af því að það á leið um það og dvelur í lengri eða skemmri tíma.
Hverjum ber helst skylda til að koma upp tunnum - og tæma þær síðan?
Ég fór nefnilega líka að hugsa um hvort það yrði ekki bjarnargreiði að koma með tunnu - ef hún síðan fylltist og enginn tæmdi hana. Þar sem fólk sér tunnur á það til að henda uppsöfnuðu rusli úr bílunum sínum og það þótt þær séu orðnar fullar, þá sjálfsagt í þeirri trú að það sé bara tímaspursmál hvenær þær verði tæmdar.
En ef við stefnum á milljón ferðamenn er þetta - og bannsett klósettin - meðal þess sem þarf að taka föstum tökum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. ágúst 2013
Bílgreinasambandið - verðmat/verðmyndun
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 14. ágúst 2013
,,Fyrir miðnætti"
Í gærkvöldi sá ég mynd í bíó. Henni er lýst sem samtalsdrifinni og í því felast engar ýkjur. Á 109 mínútum var ábyggilega talað í tvo klukkutíma sleitulaust ... Allar setningarnar voru skiljanlegar í samhenginu og flestar útpældar. Hann vann debattið, hún vann debattið, þau unnu saman. Þetta voru miklar kynjapælingar, sambandspælingar, uppeldispælingar - næstum eins og kennslubók. Hvort sinnir heimilisstörfunum? Hvort situr úti á palli á Grikklandi meðan hitt situr inni í eldhúsi og sker tómata í salatið? Hvort ræður framtíðarbúsetu? Hvort elskar hitt meira eða er einhver kvóti á því?
Á einum sólarhring er ég búin að hugsa um þetta stanslaust í viku. Niðurstaða mín er að þrátt fyrir heilbrigða þanka þarf leikstjórinn, rétt eins og ofvirkur rútuleiðsögumaður, að gefa áhorfandanum (farþeganum) lágmarkssvigrúm til að melta pælingarnar og spekina. Ég held að spastíska skammtímafótaóþolið mitt í gærkvöldi hafi stafað af skorti á þessu svigrúmi.
Samt mæli ég hiklaust með Fyrir dagrenningu, Fyrir háttumál og Fyrir miðnætti en það er einmitt sú síðasttalda sem er sýnd í hlélausu Bíó Paradís. Karlarnir í kringum mig lýsa henni sem stelpumynd en samt eru þeir kengfullir af tilfinningum. Pælingar eru ekki einkamál kvenna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. ágúst 2013
Jóakim aðalönd auglýsir afslátt
Hluti af hinni fornu speki andrésarblaðanna tengist háværu Bauhaus-máli dagsins í dag. Jóakom nískupúki átti kvenfataverslun og auglýsti gott verð. Allar konur gengu framhjá. Þá hækkaði hann verðið og bauð afslátt. Nýja verðið var til muna hærra en fyrra verðið en konurnar streymdu inn.
Ég hallast að því að fólk sé núna betur á verði en forðum en aðallega veldur því líklega upplýsingaflæðið á netinu. Ég á bara nýja bæklinginn sem var borinn út í dag eða gær og hef ekki verið að spá í þennan Lillevalla-skúr en ef Einar Örn Guðmundsson hefur gengist við þessu er áreiðanlega eitthvað til í því að Bauhaus hefur treyst um of á gullfiskaminnið okkar.
Einhvern veginn finnst mér sem Tékkkristall hafi líka verið með auglýsta útsölu síðan í desember. Kannski eru það stöðugt nýjar vörur eða kannski lætur fólk sér það bara í léttu rúmi liggja. Ég er svolítið sofandi í því.
Í minni fjölskyldu eru reglulega rifjaðar upp sögur af því þegar verslanir hafa ætlað að svína á neytendum þar sem við höfum sjálf verið í aðalhlutverki, sögur af flíkum sem rifna þótt þær strammi hvergi, stólum sem brotna undan næstum engu, appelsínusafa sem var seldur útrunninn og var myglaður í fernunni. Í öllum tilfellum fékk seljandinn makleg málagjöld, verslunin gaf upp öndina innan skamms. Mikill er máttur mömmu og nú er hún komin með marga liðsmenn.
Vonandi velur fólk til langs tíma með fótunum og sniðgengur verslanir sem vafasamir verslunarhættir sannast hjá. En þá þurfum við að halda áfram að frétta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. ágúst 2013
Austfirðir - vannýtt auðlind
Ég var á rápinu um Austfirði með 20 manna hópi í síðustu viku. Strax og Höfn í Hornafirði sleppti hættum við að sjá rútur svo nokkru næmi. Í hverju þorpinu af öðru sáum við varla fólk á götum úti. Náttúrufegurðin er mjög fjölbreytileg, fossar og flúðir, hamraberg og skriður, hreindýr, fuglar og blómaskrúð. Af hverju er Austurlandið ekki fjölsóttara en við upplifðum á meintum háannatíma?
Ég er að hlusta á þátt í útvarpinu um ferðamannalandið Ísland. Ég er enn á því að það sé ekki nógu dýrt að koma til landsins, ekki nógu hátt verð sett upp fyrir úrvalsmat úr frábæru hráefni og ekki nógu mikið markaðssett út fyrir suðvesturhornið og Norðurland.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)