Mánudagur, 2. febrúar 2009
Spítalasaga
Fullorðinn maður var lagður inn á spítala í desemberbyrjun með rugluna, eins og dóttir hans orðaði það í mestu vinsemd. Hann var sem sagt vel vankaður. Hann lá í sjúkrarúmi og á honum voru gerðar rannsóknir og prufur fram yfir miðjan janúarmánuð þegar hann greindist með B12-skort!
Ég er búin að nefna þetta við ýmsa undanfarið og fólkið á götunni veit að B12-skortur veldur minnisleysi og að skorturinn komi fram í einfaldri blóðprufu.
Getur verið að hægt væri að spara í heilbrigðiskerfinu með aðeins meiri skilvirkni? Eða er þetta ómerkilegt dæmi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 1. febrúar 2009
Strætó dregur úr þjónustu í dag
Rakalaus snilld er það hjá Strætó bs. að lengja í leiðum, breyta þeim og fækka ferðum, les: draga úr þjónustu. Ætli þetta sé ekki fjórða breytingin á þremur árum með tilheyrandi hrókeringum á strætóskýlum og breytingum á vaktatöflum - en að þessu sinni sýnist mér Strætó ætla að spara auglýsingakostnaðinn enda mjög neyðarlegt að geta ekki staðið við plön í eitt ár.
Í dag, 1. febrúar, kemur breytingin til framkvæmda og breytingin var tilkynnt með hvísli í síðustu viku.
Ástæðan er erfiðari rekstraraðstæður í kjölfar bankahrunsins! Ef ekki er lag núna að nota meðvitund fólks um mengun og gjaldeyrissparnað vegna þess að fólk þverskallist við að sjá almenna samfélagslega hagkvæmni í því að fleiri ferðist með almenningsvögnum en sínum eigin drossíum um allar þorpagrundir hlýtur Strætó að meta það svo að það sé ekki hægt. Og mér finnst lítill metnaður í slíkum rekstri.
Það er að sjálfsögðu ekki óskastaða að þurfa að draga úr þjónustu nú þegar notkun fólks á strætó hefur aukist jafnt og þétt síðustu misserin. Við teljum engu að síður, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við stóðum frammi fyrir í rekstri Strætó, að við höfum valið besta kostinn sem í boði var. Langstærsti hluti farþega okkar tekur strætó á morgnana og síðdegis og því leggjum við allt kapp á að halda þjónustustigi eins háu á þessum tímum og mögulegt er og þannig tryggja að sem fæstir verði fyrir óþægindum vegna þessara breytinga
hefur Vísir eftir Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætós.
Gönguhópur sem ég hef ekki komið í verk að slást í ætlar í dag að ganga á Helgafell í Mosfellsdal, sameinast í bíla við Vesturlandsveginn - en Strætó bs. gaf mér kjörástæðu til að hlusta frekar á Sprengisand og horfa á Silfur Egils. Strætó fer ekki í gang fyrr en á hádegi en þá verður hópurinn kominn upp í miðjar hlíðar.
Iss, agalaus ég, auðvitað hefði ég getað tekið leigubíl bæjarmarkanna á milli - eða látið keyra mig! Strætó er líklega á mála hjá bílaumboðunum.
Ég tek oftast strætó úr miðbænum og þegar ég slæ Lækjartorg inn í leitarvélina spyr hún alltaf hvort ég vilji fara frá Lækjartorgi eða Lækjartorgi 1 - sér er nú hver skilvirknin í þessari leitarvél. Þegar ég þarf að bakka fara leitarskilyrðin alltaf yfir í sjálfgefið, þó að ég sé búin að breyta í tímann sem hentar mér bakkar hún alltaf í tímann sem er þá stundina. Ef ég ætla úr miðbænum inn á Suðurlandsbraut fæ ég ekki leið 11 sem stoppar þó beint fyrir ofan Suðurlandsbrautina, ég fæ bara upp möguleikann að taka einn vagn inn á Hlemm og annan þaðan. Ég held að ég sé bara búin að fá sannfæringu fyrir að Strætó hefur engan áhuga á að fólk noti sér þjónustuna. Eitthvert bílaumboðið ræður þar för - sérstaklega núna í kjölfar bankahrunsins og í ljósi erfiðra aðstæðna á bílamarkaði!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 30. janúar 2009
Engar fréttir í Sviss
Um síðustu helgi hringdi í mig vinkona mín frá Sviss og var alveg á innsoginu, hún sagðist ekki skilja þær fréttir sem bærust héðan. Er Geir hættur eða ekki? spurði hún. Hún les íslenskar fréttaveitur enda vel læs en hún skildi samt ekki hvað var að gerast.
Og engar fréttir voru í svissneskum fjölmiðlum. Er hlutleysið algjört ...?
Nú get ég búist við að hún hringi aftur á morgun og vilji spyrja frekari spurninga sem ég get ekki svarað. En það kemur ekki svo mikið að sök, símainntakið og/eða símtækið er bilað og ég sé bara númerin sem hringja og get ekki svarað.
Ætli væri betra að vera hjá Símanum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Sigurður Einarsson grætir mig
Það var merkilegt að lesa aflátsbréf Sigurðar Einarssonar til kærra vina og vandamanna. Frómt frá sagt bjóst ég varla við að skilja það, hélt að Sigurður ætti bara vini og vandamenn sem væru skuldabréfavafðir um hálsinn og krosseignavarðir niður úr og hann myndi þar af leiðandi líta á þá sem sinn markhóp.
En sei sei, bréfið var á mannamáli og fór krúttlega úr því að vera til eins (Mig langar þó að greina þér ...) og yfir í að vera til fleiri (En ég vona að þið bæði skiljið og virðið við mig ...) og svo bara útskýrði hann svo hjartnæmt fyrir mér - sem þó er ekki í hans nánasta hring - að hann hefði farið að lögum og reglum, varað við krónunni og ekki viljað að svona færi.
Og hver af hans nánu vinu og vandamönnum var svo ófyrirleitinn að leka í fjölmiðla svona persónulegu og innilegu bréfi sem alls ekki getur hafa verið stefnt gegn svona auðtrúa sálum eins og mér ...?
*snökt*
Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Getur atburður verið hryggur?
Nei, ekki nema hann sé persóna. Hann getur hvorki verið hryggur né glaður, hann getur verið hryggilegur eða gleðilegur. Að sama skapi geta mótmæli ekki verið friðsöm (eða ekki), þau eru friðsamleg (eða ekki).
Menn tala hins vegar mikið um friðsöm mótmæli. Og það er bannað að persónugera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Hvað sagði Ari Matthíasson á sunnudaginn?
Sagði hann ekki að Sigurður Einarsson í Kaupþingi hefði í nokkuð fjölmennu (20-30 manna) ... matarboði á Holtinu um aldamótin - sem Ari slysaðist í sem fulltrúi vinar síns, kvótakóngs - kynnt til sögunnar Hreiðar Má Sigurðsson sem hafði það verkefni að kynna fyrir ríku mönnunum vogunarsjóð með góðri ávöxtun? Greifunum var síðan í lófa lagið að ráðstafa ágóðanum inn á erlenda reikninga í gegnum einkahlutafélög án þess að þurfa að greiða af arðinum. Og fjárins var aftur aflað hvaðan??? Já, alveg rétt, með því að hirða peninga út úr sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum á Íslandi!
Ari sagði að peningunum hefði kerfisbundið verið skotið undan og óskaði þess heitt að þessir menn fengju ekki Kaupþing í Lúxemborg til að halda áfram uppteknum hætti.
Ari sagði að skattrannsóknarstjóri vissi af þessum fundi - einhvers konar námskeiði, ekki satt? En greifarnir vissu sem var að þeim voru allir vegir færir, undir, yfir og allt í kring um lög og reglur, skeyttu hvorki um skömm né heiður, reyndu varla að leyna glæpnum, a.m.k. ekki ef það er að marka þessa sögu og allan þann hroða sem fréttastofurnar hafa þó haft uppi á um huldulán til huldumanna.
Og á ekkert að gera í þessu???
Mér finnst eðlilegt að spyrja líka hvað Ara finnist um sinn vafasama vin. Fannst honum kannski þá - og nú? - sjálfsagt að vinur hans hirti peninga út úr sjávarútveginum og margfaldaði í skattaskjóli?
Svo hrósa ég Ara fyrir að vera með í umræðunni í vettvangi dagsins, þá meina ég ekki síður eftir að hinir fengu orðið. Mér finnst verra þegar fjögur sitja í vettvangi dagsins og eiga öll bara sitt einkaspjall við Egil. Ari tók áfram þátt og var í lokin með gagnrýnar spurningar um efni sem hann var ábyggilega hlynntur heilt yfir, þ.e. að umbylta lýðveldinu.
Það er átak að vera gagnrýninn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 26. janúar 2009
Frétt sem er ætlað að týnast í kraðakinu
Þessi frétt á mbl.is er keimlík þeirri á visir.is, enda fréttatilkynning frá Strætó send á háannatíma í fréttum af ríkisstjórninni.
Og ég fullyrði að þetta er afar heimskuleg ákvörðun, það hefði átt að fara í hina áttina, auka þjónustu og fella niður gjöld. Þannig tækist að gera almenningssamgöngur að meira aðlaðandi ferðamáta, draga úr slysatíðni, minnka mengun, spara gjaldeyri og spara í buddum þeirra sem þurfa að komast um. Bílarnir ættu að standa meira heima. Og já, mér finnst líka að fólk ætti að eiga almennt færri bíla, sem sjaldnast tvo á heimili og aldrei þrjá nema heimilið sé eiginlega með ferðaþjónustu, og nýta sér þjónustu leigubíla þegar svo ber undir. Ef stofnkostnaður og rekstrarkostnaður við að eiga bíl er tekinn saman hafa margir reiknað út að bíleigendur gætu - í stað þess að eiga bíl - tekið leigubíl á hverjum einasta degi.
Ég er ekki að segja að enginn eigi að eiga bíl, mér finnst m.a.s. eðlilegt að það sé bíll á flestum heimilum, en mér finnst óeðlilegt og rangt að minnka þjónustuna þegar brýnt væri að auka hana.
![]() |
Ferðum strætó fækkað vegna erfiðleika í rekstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 26. janúar 2009
Höfuðstaður Suðurlands
Það er snjallt að hafa borgarafund á Selfossi. Frá Reykjavík eru í versta falli hálkublettir á leiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 25. janúar 2009
Hvar heldur grillpinninn sig?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 24. janúar 2009
Ippon Vilhjálms Bjarnasonar
Ég fagna því að héraðsdómur tók undir sjónarmið Vilhjálms og lít svo á að hann hafi unnið fullnaðarsigur á stjórn Glitnis ef Hæstiréttur gerir það líka. Það kostar hugsanlega 35 milljarða - en átti stjórnin nokkurn tímann þennan pening? Reyndar vildi ég miklu frekar að Bjarna Ármannssyni yrði gert að skila sínu oftekna fé.
Mér verður núna hugsað til Gísla Freys Valdórssonar, álitsgjafa í sjónvarpi um áramót, sem híaði á Vilhjálm og fannst hann mesti skussi ársins (sennilega í efnahagslífinu). Gísli skreytti Vilhjálm með titlinum skussi með nokkurn veginn þeim rökum að Vilhjálmur hefði gagnrýnt kerfið sem hann hefði viljað vera þátttakandi í.
Ég hef tvívegis um dagana skrifað athugasemdir hjá Gísla en hann lokaði á athugasemdir í lok síðasta árs. Ég get reyndar ekki tekið það til mín þar sem ég er ekki mesti djöfullinn sem hann hefur að draga. Hann virðist bara vilja sitja í turninum og tala niður til fólks. Hvers vegna? Af hverju vilja menn með skýrar skoðanir ekki eiga í skoðanaskiptum við annað fólk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. janúar 2009
Ég er almenningur
Ég er bara ekki allur almenningur.
Ég skelf af upplýsingaskorti - hvers vegna fær Íslensk erfðagreining fyrirgreiðslu frá Landsbankanum, hvað er að gerast hjá eigendum peningamarkaðssjóða í Landsbankanum sem funduðu í Laugardalshöll í kvöld, hvernig reiðir skuldsettum heimilum af, hvert verður gengi krónunnar á næstu vikum, hver fær viðbótarþorskkvótann upp á 30.000 tonn, standa ríkisbankarnir vel - ha?, hvað er Kristján Kristjánsson að gera dagana langa í forsætisráðuneytinu, hvenær lækka stýrivextirnir? Ég græði peninga á háum stýrivöxtum (meðan spariféð verður ekki allt hirt af mér), bara ekki eins mikið og fagfjárfestarnir og atvinnuræningjar, en atvinnulífinu blæðir á meðan, e.t.v. út.
Hvert er og verður hlutskipti lögreglunnar, bæði þeirrar grímuklæddu og efnahagsbrotadeildarinnar?
Ég átti einu sinni heima í Ingólfsstrætinu. Í mörg ár var umhverfið friðsælt og gott, svo spruttu upp háværir skemmtistaðir og hávaðinn fór yfir leyfð desíbel. Ég kvartaði við lögregluna. Henni var alveg sama. Ég setti mig í samband við borgaryfirvöld. Þeim var alveg sama. Borgarstjórinn sagði: Einhvers staðar verða vondir að vera. Mér var sagt að þeir sem byggju í miðbænum yrðu að sætta sig við kosti hans og galla. Samt var sérstakt meint átak um að efla blandaða byggð, þ.e. íbúa í bland við þjónustu og jafnvel iðnað. Ég axlaði ábyrgð og mér tókst að selja íbúðina.
Ég átti einu sinni í útistöðum við mann sem átti það eitt sökótt við mig að ég var yfirmaður hans. Löng saga. Hann hringdi í mig og hótaði mér lífláti. Hann hringdi að næturlagi. Rökstuddur grunur er um að hann hafi skorið dekkin á bílnum mínum. Ég kærði líflátshótunina og dekkjaskurðinn til lögreglunnar. Henni var kannski ekki sama en sagði bara að vegna undirmönnunar og tækjaskorts gæti hún ekkert gert annað en að ráðleggja mér að láta hengja upp símann, þ.e. láta símafyrirtækið vakta hringingar til mín. Ég var heppin og viðkomandi lét ekki verða af hótun sinni. En ábyrgðin var alfarið mín og lögreglunni datt ekki í hug að gæta að velferð minni. Og ekki róa mig heldur.
Lögreglan hefur alltaf verið undirmönnuð láglaunastétt, held ég, og ég hef samúð með lögreglunni. Það að fjölga í óeirðalögreglunni vegna þess að nú sýður á mörgu fólki og vegna þess að soðið hefur upp úr virkar á mig eins og foreldri sem ákveður að kaupa stærra gúmmílak handa 10 ára barninu sínu sem pissar undir frekar en að reyna að koma í veg fyrir þvaglekann.
Ég stend með lögreglunni en mikið vildi ég að yfirvöld beindu kröftum lögregluþjónanna í réttan farveg. Hvað er efnahagsbrotadeildin að gera? Er eitthvað til í því sem Sigurjón M. Egilsson segir, m.a. um 500 milljarða afskriftir Kaupþings tengsl lögmanna við uppgjör fyrirtækja? Ég er orðin bullandi tortryggin og held að til þess bærir aðilar hafi engan áhuga á að uppræta spillinguna og sorann. Hann er sjálfsagt útlenskur.
Já, ég er almenningur og mér verður fyrirsjáanlega gert að axla ábyrgð á því að Björgólfur Guðmundsson, Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir reyndu að hrammsa til sín sparifé Breta og Hollendinga, að Sigurður Einarsson og Hreiðar Sigurðsson lánuðu sjeikum milljarða með veði í bréfunum sjálfum til að halda uppi hlutabréfaverðgildi bankans og e.t.v. fæ ég að kenna á gjaldþroti sparisjóðanna. Enginn hefur a.m.k. sannfært mig um að þeir standi hryðjuna af sér.
Vald spillir. Hversu margir myndu skammta sér hæfileg laun ef þeir hefðu fullkomið sjálfdæmi? Það er því miður ekki hægt að treysta nógu mörgum til að breyta rétt og þess vegna verður að setja skýrar leikreglur, almennar, og hafa nægt eftirlit með því að farið sé að reglum - rétt eins og lögum.
Mig langar ekki að grýta nokkurn mann, mig hefur aldrei langað til þess og sé það ekki fyrir mér - en mikið djöfulli vildi ég að orð mættu sín meira.
Þetta var skyrslettan mín.
- Ég hef skoðanir á ýmsu öðru en nú þarf ég að klippa til appelsínugula pilsið sem ég var hætt að nota. Stjórnarkreppa eða ekki, það er kreppa í almenningi og ég tek appelsínugula sjónarhornið á hana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Kosningaaldurinn er 18 ár
Ég er á móti ofbeldi. Ég er á móti heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, götuofbeldi og andlegu ofbeldi.
Ég gagnrýni sem sagt ofbeldi. Hins vegar geri ég því skóna að hugtakið sé dálítið teygjanlegt. Er ofbeldi að slá með flötum lófa? Já. Kýla með krepptum lófa? Já. Er ofbeldi að hefja hönd á loft og þykjast ætla að slá?
Er ofbeldi að keyra viljandi á einhvern svo að hann bíði tjón af? Já. Er ofbeldi að skrensa stjórnlaust á bíl og lenda á einhverjum? Er ofbeldi að horfa svo grimmdarlega á einhvern að hann verði skelkaður?
Er ofbeldi hjá hinum stóra að segja hinum litla að hann sé tíkarlegur, óaðlaðandi og ekki í húsum hæfur? Kannski fimm sinnum á dag í 20 ár. Hæðast að minnimáttar? Já, er það ekki dæmigert andlegt ofbeldi?
Er ofbeldi að kasta gangstéttarhellu í átt að manneskju? Já. Er ofbeldi að gefa einhverjum selbita? Er ofbeldi að brjóta rúðu?
Mér finnst ég ekki hafa verið beitt ofbeldi. Hins vegar hefur sparifé verið hirt af mér og ég skilin eftir í nagandi óvissu um framtíðina. Og ég veit mætavel að ég er ekki verst sett. Mér finnst hins vegar óásættanlegt með öllu að fjárglæframenn skuli vaða hér uppi og hirða milljarða hægri vinstri, nú síðast Íslensk erfðagreining, án þess að ég fái rönd við reist. Mér finnst ég kúguð og mér er ofboðið. Ég hef ekki sjálfsagða stjórn á eigin lífi.
Ég finn til með okkur sem höfum þjóðargjaldþrotið hangandi yfir og ég hef sannarlega samúð með lögreglunni því að ég er algjörlega sannfærð um að í hennar liði eru mörg döpur hjörtu. Einhver þeirra urðu vafalaust fyrir ofbeldi og einhver þeirra beittu ofbeldi í gær. Ég er á móti öllum þeim ofbeldisverkum en treysti mér ekki til að meta út frá stopulum myndum hver gerði hvað á hlut hvers.
Og að lokum, af hverju amast sumir við því að tvítugt fólk hafi skoðanir á málum sem koma því við? Kosningaaldurinn er 18 ár og það að kjósa er mjög stór og afdrifarík ákvörðun. Og af hverju ætti 17 ára gamalt fólk ekki að vera byrjað að mynda sér skoðanir? Það má m.a.s. gifta sig 18 ára.
Ég reyni að tipla á tánum af því að ég veit að ég veit ekki allt. Hins vegar má ég hafa skoðanir og ég trúi því að grasrótin hafi áform um að uppræta eina tegund af ofbeldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Ég er smáborgari
Ég er ekki hreykin af því en hef ákveðið að horfast í augu við smáborgaraskap minn.
Ég hélt að Björgólfur Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson væru vænir menn. Mér fannst ekki einu sinni afleitt að Björgólfur yngri ætlaði að kaupa hús (lang)afa síns og breyta því í safn. Trúði því m.a.s. eins og nýju neti að tilgangur hans væri göfugur.
Ég hélt að það væri verslandi við Bónus þótt ég sæi gjörla að ekki væri verslandi við 10-11. Og ég hef keypt geisladiska, föt og stígvél í Hagkaupum til viðbótar við ógrynni af mat í gegnum árin. Uss.
Ég lét mér í léttu rúmi liggja þótt ég vissi að Íslendingar væru látnir niðurgreiða flug með Flugleiðum sem sást kannski best á því að Danir sem flugu til Bandaríkjanna (og heim) með millilendingu á Íslandi borguðu mun minna fyrir sinn miða en Íslendingar sem flugu bara frá Íslandi til Danmerkur (og heim). Og hvernig stóð líka á því að það var ódýrara að kaupa miða fram og til baka en bara fram? Reyndar flýtti ég mér í viðskipti við IcelandExpress þegar þau buðust.
Þegar Íslandsferðir fóru að fljúga flaug ég alltaf með þeim til Sauðárkróks (og til baka) frekar en að fljúga með Flugfélagi Íslands. Ég vildi styðja samkeppnina.
Ég skipti úr Símanum í Íslandssíma og svo Tal þegar það bauðst. Ég vildi styrkja samkeppnina.
Ég keypti í nokkur ár einhver bréf rétt fyrir áramót vegna þess að þannig fékk ég skattaafslátt. Skamm.
Ég fékk vinnu á Valhöll (Þingvöllum) í gegnum pabba þegar ég var 15 ára, í SS-sjoppunni í Glæsibæ þegar ég var 16 ára og hjá Nóa-Síríus í gegnum mág minn þegar ég var 18 ára. Eftir það sótti ég um og fékk vinnu hjá póstinum og í banka, og svo í Heimilistækjum í gegnum mág minn þegar ég var tvítug. Fékk vinnu sem næturvörður á Hótel Lind í gegnum vinkonu bróður míns þegar ég var 22ja. Ég var gómuð í net spillingarinnar. Það var vissulega þægileg vist.
Hnussaði þegar fréttir bárust af frændhygli stjórnmálaflokkanna. Alltaf á kaffistofu, við eldhúsborð, inni á klósetti meðan ég sturtaði niður. Svona eins og Íslendinga hefur verið siður.
Kannski byrjaði að rofa til fyrir á að giska átta árum þegar ýmis ríkisfyrirtæki voru seld við vægu verði. Íslenskir aðalverktakar, banki, banki, banki. Og það mætti ætla að sýn mín hefði orðið skýrari þegar hinn og þessi keypti af sjálfum sér og lánaði sjálfum sér - var ekki ein fyrirsögnin um daginn: Glitnir lánaði Glitni til að kaupa í Glitni og FL Group? - en svo gott er það ekki. Sýnin dofnaði og ég held að það sé vegna þess að mjög markvissar og velheppnaðar tilraunir voru gerðar til að slá ryki í augun á mér (þori ekki að tala fyrir aðra) með krosseignum, skuldavafningum og öðrum útspekúleruðum talnaleikjum.
Veruleikinn sem blasir núna við mér er að enn er reynt að halda dulu fyrir augum mér, enn má ég sem minnst vita og þarf þar að leiðandi að taka framtíðarákvarðanir í myrkri.
Fóru milljarðar út úr Kaupþingi í vikunni áður en bankinn féll? Voru persónulegar skuldir afskrifaðar hjá starfsmönnum Kaupþings? Lánaði Ólafur Ólafsson - eða fékk lánað - milljarða til að auka tiltrú markaðarins á liðónýtu fyrirtæki í gegnum sjeikinn? Og það sem meira er: Bitnar það á skattgreiðendum að einkafyrirtæki fari svo illa að ráði sínu?
Stofnaði Sigurjón Árnason Icesave-reikninga í Hollandi eftir að búið var að setja ensku reikningana í gjörgæslu? Var haldið áfram að taka á móti fé þótt vitað yrði að það færi beint í stóru hítina? Og á ég að gjalda fyrir það með skattfé mínu til næstu ára?
Eyddi ekki FL heilum milljarði í annan kostnað - sem fellur síðan á skattgreiðendur?
Er það ekki þannig að allir óreiðumennirnir stofnuðu til skulda sem ég á síðan að borga? Er það ekki rétt skilið?
Og er til of mikils mælst að ég fái upplýsingar? Er frekt að ætlast til gagnsæi og heiðarleika?
Ég legg svona mikla áherslu á skuldirnar sem óreiðumenn hafa stofnaði til í mínu nafni af því að það mælist illa fyrir hjá sumum að fólk mótmæli ástandinu ef það er sjálft ekki farið að borga skatta. Ég borga skatta með glöðu geði, bara ekki þá sem fara í að bóna stélið á Ólafi Ólafssyni og álíka kónum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Eftirsjá að Vilmundi Gylfasyni
Í Krossgötum á laugardaginn spilaði Hjálmar Sveinsson tæplega 20 mínútna ræðu Vilmundar Gylfasonar þar sem hann studdi vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn. Hann talaði gegn varðhundum valdsins, varðhundum hins þrönga flokksræðis, talaði um hið morkna vald - mikið væri gott ef fleiri menn hefðu lagt við hlustir þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 19. janúar 2009
Rödd á ensku
Alda, vinkona mín í þýðingunum, er íslensk en bloggar á ensku. Hún greinir ástandið á Íslandi í pistlum sínum á persónulegan hátt og endar hverja færslu á veðurlýsingu. Hún á tryggan lesendahóp.
Fyrir einum og hálfum mánuði var hringt í hana úr Seðlabankanum með sérkennilegt erindi.
En ég les bloggið hennar náttúrlega bara til að auka hjá mér orðaforðann ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. janúar 2009
,,Alltaf nóg af sól í Saurbæ"
Dubbeldusch í Hafnarfjarðarleikhúsinu kom mér í firnagott skap. Uppleggið er kannski pínulítið klisjukennt (en hefur ekki hvort eð er allt verið sagt?), foreldrar á fimmtugsaldri í sumarbústaðnum láta sér leiðast yfir blöðunum og hvort öðru þegar brottfluttur sonurinn birtist skyndilega og með afdrifaríkar upplýsingar - og verðandi eiginkonu. Samviska pabbans sveimar um allt þannig að áhorfendur fá miklar upplýsingar um fortíð hans og samviskubit yfir yfirsjóninni forðum.
Prrr, Hilmar Jónsson var fullkomlega maðurinn sem vissi að hann hafði valið þótt hann væri vissulega í vafa um að hann hefði valið rétt. En hann hafði valið og reyndi að lifa með vali sínu, sætta sig við það alla leið og gera gott úr því.
Harpa Arnardóttir átti líka sína fortíð og dröslaðist um með hana í hljóði.
Stundum hafði ég áhyggjur af að ég væri truflandi, svo margt kætti mig í sýningunni. Leiklistargagnrýnandi (DV, held ég) var á sömu sýningu og nú bíð ég spennt eftir dómi hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 16. janúar 2009
Skuldar sjávarútvegurinn eða skuldar hann ekki?
Nú væri ráð að fjölmiðlar vöktuðu umræðuna framundan um útdeildingu kvótans upp á 30.000 tonn. Umræða hefur verið mikil upp á síðkastið um skuldsetningu í greininni.
Hvaða fyrirtæki skulda?
Hverjir eiga þau?
Hvernig eru skuldirnar tilkomnar?
Af hverju ættu þau fyrirtæki - sem eru þá kannski illa rekin, ha? - að fá umframkvótann? Og er núna skyndilega í lagi að virða að vettugi ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar?
Skuldsetningin er ekki einu sinni nýtilkomin, þetta er langt og viðvarandi vandamál. Við getum með góðu móti talað um langhlaup í tapi, ofsatapi og óðatapi. Samkvæmt átta ára gamalli glærusýningu Seðlabanka Íslands sem er merkt Má Guðmundssyni og Ólafi Erni Klemenzsyni [reyndar eru nokkrar villur í glærunum þannig að e.t.v. hefur ÓÖK sofið illa á eftir og æ síðan, hann hefur víst farið mikinn í athugasemdakerfi bloggara síðustu þrjá mánuðina til að vanda um við þá vegna ritvillna] hafa skuldir aukist OG FJÁRMUNIR RUNNIÐ ÚT ÚR GREININNI (sjá glæru 3 um mikla skuldaaukningu frá 1995 til 2001 og spurningu um hvort fjármagn renni út úr greininni, og viðsnúning árið 1995 á glæru 5).
Á gæru 19 segir þetta:
M.ö.o. hluti af fjármögnun hefur farið í að borga menn út úr greininni gegnum samruna og yfirtöku og til kaupa á varanlegum aflaheimildum
Borga menn út úr greininni? Já, en einstakir menn eiga ekki aflaheimildirnar, þjóðin á þær að lögum. Kemur kannski ekki á óvart að einhver hjá SÍ leggi ofangreinda tilvitnun öðruvísi út, nefnilega svona:
Þetta er skýr vísbending um hagræðingu og samþjöppun í greininni
Í mínum eyrum er hagræðing því miður orðið að skammaryrði þótt hugsunin þyki mér heilt yfir göfug. Svo lengi hefur nefnilega verið hagrætt sumum í hag, peningalegan hag, en öðrum í óhag. Fáir græða, margir tapa. Hafa menn ekki orðið þess varir að landsbyggðinni blæðir, sjávarþorpum sem eru hnituð um sjávarútveg sem síðan hefur verið stolið úr byggðarlaginu með ... hagræðingu kvótans yfir í annan landsfjórðung?
Síðustu tvær glærurnar eru lagðar undir niðurstöður sem mér blöskra, m.a.
Fjármunir fara úr sjávarútvegsgeiranum sem greiðsla fyrir aflaheimildir og hlutafé
Þetta eru átta ára gamlar fréttir og síðan hefur ástandið bara versnað. Eru það ekki einhverjir kvótagreifar sem skulda raunverulegum eigendum kvótans, þjóðinni, það sem þeir tóku út úr greininni meðan enginn var að horfa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Borgarafundurinn í sjónvarpinu - þýðingar
Ég hjó eftir því að RÚV gat ekki um þýðanda á borgarafundinum. Ég veit að Guðmundur Erlingsson þýddi erindin en ég veit ekkert hver þýddi spurningar sem bornar voru fram á fundinum og svör Roberts og Raffaellu.
Ég vinn dálítið við nytjaþýðingar og mér mislíkar þegar Fréttablaðið birtir greinar útlendinga og lætur eins og þær séu ekki þýddar, t.d. eins og að Joseph Stiglitz hafi t.d. skrifað á íslensku. Það er eiginlega eins og að lesa pistilinn og vita ekki hver höfundurinn er, svo miklu máli getur þýðandinn skipt. Af hverju er ekki getið um þýðandann?
Fyrir nokkrum dögum hjó ég svo eftir þessum orðum á bloggi sjávarútvegsráðherra:
Athyglisvert er að þessi athugun var mjög umrædd í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hér á landi hlaut hún enga athygli og enginn fjölmiðill gerði henni skil. Er það þeim mun furðulegra sem verið var að fjalla um fiskveiðistjórnun sem er viðhöfð hér á landi.
Er það til marks um að lítill áhugi sé á alþjóðlegum fræðilegum úttektum á fiskveiðistjórnarmálum í íslenskum fjölmiðlum? Eða telst það ekki fréttnæmt þegar fræðileg rannsókn leiðir í ljós að kerfi framseljanlegra fiskikvóta stuðli að fiskvernd? Hvert sem svarið er þá vekur það óneitanlega furðu að umfjöllun af þessu tagi veki ekki athygli hér á landi, þar sem sjávarútvegur er grundvallaratvinnuvegur og hann byggir á fyrirkomulagi sem er grundvallarumfjöllunarefni viðkomandi rannsóknar.
Þarna er sjávarútvegsráðherra að fjalla um grein í Economist sem Robert Wade vísaði til í svari við fyrirspurn á borgarafundinum (held ég alltént). Robert svaraði fyrirspurn um fiskveiðistjórnina með þeim orðum að hann vissi ekki nógu mikið um málið, hefði nýlega lesið lofsamlega grein í Economist um fiskveiðistjórn Íslendinga en honum hefði nú verið sagt að hún ætti ekki við rök að styðjast. Svo bætti hann við að það væri altalað um allan heim að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið væri eitt fárra alveg sjálfbærra kerfa í heimi.
Sjávarútvegsráðherra kvartaði sum sé undan áhugaleysi íslenskra fjölmiðla en bætti við færsluna einhverjum dögum síðar að LÍÚ væri búið að setja ÞÝÐINGU á greininni á síðu samtakanna. Ég skoðaði þýðinguna og þýðanda er ekki getið. Hvers vegna ekki?
Ég ætla að nefna tvennt sem mér finnst skrýtið í þýðingunni, þetta:
Technology helps the fishermen, too. By looking at the Directorate of Fisheries website they can see all landings by date and species and thus work out whether to sell their catch fresh or frozen, and whether to buy, sell or carry forward quotas.
er þýtt svona:
Tæknin kemur útvegsmönnum [enska orðið seamen er hér þýtt sem útvegsmenn og notað þannig síðar í greininni] einnig vel því ef þeir fara inn á heimasíðu Fiskistofu geta þeir séð allar landanir, eftir dagsetningum og tegundum og þannig ákveðið hvort þeir selja aflann ferskan eða frosinn og hvort þeir kaupa aflamark, selja eða flytja fram á næsta ár.
Feitletranir eru mínar.
Annað dæmi er svona:
Bottom trawlers are banned from fishing within the 12-mile limit, and inspectors can instantly close any area for a fortnight or more if they think it is being overfished. In 2007 there were 180 closures, a record, largely because of an influx of young haddock.
Það er þýtt svona:
Togurum er óheimilt að veiða innan 12 mílna landhelginnar [staðreyndavilla greinarhöfundar] og eftirlitsmenn geta lokað samstundis hvaða svæði sem er, í tvær vikur eða lengur, ef þeir telja að þar sé um ofveiði að ræða. Árið 2007 var svæðum lokað 180 sinnum sem er oftar en nokkru sinni áður, aðallega vegna mikillar gengdar smáýsu.
Aftur er feitletrun mín. Þessi þýðandi þekkir efnið vel, sem er vissulega gott, en þjónar það e.t.v. einhverjum tilgangi að ranghermt sé í greininni sjálfri í Economist?
Forlátið mér þótt ég efist um heilindi og sé full tortryggni. Landssamband íslenskra útvegsmanna er bullandi hagsmunaaðili þegar kemur að fiskveiðistjórn. Undanfarið hefur maður heyrt út um annað munnvikið að kerfið sé gott, skilvirkt, sjálfbært og best-í-heimi og á sama tíma lekur út um hitt munnvikið að það sé nauðsynlegt að afskrifa hinar gríðarlegu skuldir sjávarútvegsins vegna þess að hann standi ekki undir þeim.
Kannski er ég of tortryggin en þegar LÍÚ lætur þýða grein sem lýkur lofsorði á kerfi sem margir Íslendingar lifa við í mikilli ósátt og er grunað um að mismuna fólki - nei, sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að feli í sér MANNRÉTTINDABROT - fell ég ekki í stafi og hrópa húrra.
Nafn þýðanda gerir vissulega ekki gæfumuninn en fjarvera þess eykur á tortryggni mína.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Umsækjendur um starf forstjóra sjúkratryggingastofnunar
Umsóknarfrestur um starfið sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagðist á borgarafundinum í gær hafa sótt um rann út 15. september og virðist ekki hafa fengið mikla athygli út fyrir hóp áhugasamra umsækjenda. Starfið átti að vera laust frá og með 1. október og stofnunin verða að veruleika nú um áramótin.
Hæfniskröfur sem gerðar eru til forstjóra skv. lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, eru þessar:
7. gr. Forstjóri.
Ráðherra skipar forstjóra sjúkratryggingastofnunarinnar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist honum í starfi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.
Ráðherra setur forstjóra erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í þjónustu og rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar til lengri og skemmri tíma. Í erindisbréfi skal enn fremur kveðið á um samskipti forstjóra og stjórnar sjúkratryggingastofnunarinnar.
Forstjóri ber ábyrgð á því að sjúkratryggingastofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 2. mgr. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
Mér er Steingrímur Ari Arason minnisstæðastur fyrir að hafa sagt sig úr einkavæðingarnefnd þegar honum ofbuðu vinnubrögð við sölu Landsbankans árið 2002. Hann sagðist þá bundinn trúnaði en treysta því að óhlutdrægur aðili [yrði] fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem [voru] orsök afsagnar [hans].
Hefur einhver slíkur komið fram? Eru vinnubrögðin núna Steingrími að skapi? Og hvað ætlar stofnunin að gera meðan samfélagið rær lífróður?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Er borgarafundur til hægri eða vinstri?
Á fimmtudaginn var borgarafundur í Iðnó um mótmæli. Ég vakti athygli á honum og hvatti fólk til að láta sig málið varða. Katrín Linda Óskarsdóttir skrifaði athugasemd hjá mér og lét að því liggja að aðeins vinstrimenn myndu mæta.
Síðan hef ég verið svolítið hugsi yfir þessu. Ég held að þessir múrar séu byrjaðir að molna, vinstri og hægri. Ég er ekki verseruð í stefnuskrám flokkanna en er alveg viss um að ég gæti samþykkt margt í þeim öllum. Þær eru áreiðanlega falleg plögg. En það eru verkin sem sýna merkin.
Upphaflega er skilgreiningin í hægri og vinstri tilkomin vegna sætaskipanar í franska þinginu. En hvað er nú hægrimennska og hvað vinstrimennska?
Er það hægrimennska að vilja einstaklingsframtakið umfram ríkisafskipti? Hvað var þá Kárahnjúkavirkjun?
Er það vinstrimennska að sækja um sæti í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Að setja á laggirnar Varnarmálastofnun?
Er það hægrimennska að láta atvinnulífið afskiptalaust? Hvað er þá ríkisstyrktur sjávarútvegur og ríkisstyrktur landbúnaður?
Er það vinstrimennska að láta garðyrkjubændur borga langtum hærra verð fyrir raforku en álver sem borga eftir heimsmarkaðsverði á áli?
Er það vinstrimennska að lána fyrir háskólagöngu?
Eru skattaálögur vinstrimennska? Hvað er þá verið að boða með aukinni skattheimtu núna?
Eru menning og listir vinstrimennska? Hvað var þá Björgólfur Guðmundsson að gera með tónlistarhúsið og styrki til listviðburða?
Er Mogginn hægrimennska og Fréttablaðið vinstrimennska?
Er það vinstrimennska að reka Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið?
Er það vinstrimennska að búa úti á landi og hægrimennska að taka sér bólfestu í 112 Reykjavík?
Er það vinstrimennska að eiga Fiat og hægrimennska að eiga Audi?
Er það hægrimennska að horfa á Stöð 2 og vinstrimennska að horfa á RÚV?
Er það vinstrimennska að kenna í menntaskóla og hægrimennska að skuldajafna vafninga?
Er það vinstrimennska að vera blankur og hægrimennska að vaða peninga í hné?
Er það hægrimennska að græða á daginn og grilla á kvöldin?
Er það hægrimennska að vilja kaupa Levi's handa börnunum sínum?
Er það vinstrimennska að veiða fisk á togurum en hægrimennska að róa einn til fiskjar?
Er það hægrimennska að læra frönsku og vinstrimennska að læra þýsku?
Er það hægrimennska að nota varalit og vinstrimennska að nota gloss?
-Ég skora á menn að skoða hug sinn og vita hvort þeim finnst ekki hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum gengin sér til húðar. Samfélagið riðar til falls og við höfum ekki efni á hnútuköstum. Við ættum að snúa bökum saman og einbeita okkur að því að endurreisa hið fallna samfélag. Orð eru til alls fyrst en mér finnst sannarlega kominn tími til að láta verkin tala, gæta þess að atvinnulífið láti ekki undan síga og að fólk flýi ekki land vegna yfirvofandi örbirgðar.
Ég ber alls ekki upp spurningarnar vegna þess að ég telji mig vita svörin. Ég hef bara orðið miklar efasemdir um þessa skiptingu í hægri, vinstri og e.t.v. miðju. Myndi Katrín Linda segja að það væri vinstrimennska að tala saman og reyna í sameiningu að komast að niðurstöðu? Af hverju þverskallast hún við að fylgjast með og e.t.v. taka þátt í umræðunni?
Ég mæti á flesta borgarafundi sem Reykjavíkurborg boðar til í hverfinu mínu. Þar hefur helst verið fjallað um skipulagsmál. Borgarstjóri hverju sinni leggur upp með skipulagstillögur, tekur þátt í umræðum, svarar spurningum og bregst í kjölfarið við sumu. Á fimmtudagskvöldið töluðu lögreglan, aðgerðasinnar, laganemi, prestur og anarkistar saman - og auðvitað salurinn - og m.a. var borin upp tillaga um að ef stefndi í möguleg átök væri ráð að skipa fulltrúa sem reyndu að miðla málum.
Er það vinstrimennska, Katrín Linda? Er það ekki bara skynsemi og viðleitni til að ná árangri?
Borgarafundur verður í Háskólabíói mánudaginn 12. janúar. Fjórir frummælendur, þar af tveir útlenskir sem hafa engra hagsmuna að gæta hér á landi, tala úr pontu og fleiri verða í pallborði, þar á meðal einhverjir frá Viðskiptaráði Íslands.
Koma svo!