Miðvikudagur, 19. febrúar 2025
Deyjandi ömmur í Vatnsmýrinni
Guð. minn. góður. Guðmundur Fertram Sigurjónsson var í Silfrinu í fyrrakvöld grátklökkur að tala um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ekki væri hægt að senda ömmur utan af landi með flugi (frá Ísafirði þaðan sem ekki er nærri alltaf hægt að fljúga) til Keflavíkur - hvernig ættu þær að komast til Reykjavíkur?!
Ha, hvernig eiga ömmur að komast með lest, strætó eða einkabíl milli bæjarfélaga eða hverfa? Nei, þær komast með naumindum upp í flugvél, lenda svo í Vatnsmýrinni - og hvernig eiga þær þá að komast til augnlæknisins í Kringlunni eða Mjóddinni? Væntanlega með annarri flugvél þá, nema þyrla sé.
Ég þurfti að halda mér svo ég dytti ekki um kaffibollann minn meðan ég hlustaði á tilfinningaklámið því að þetta var hreinræktað tilfinningaklám í manninum.
Fólk deyr nefnilega ekki af því að flugvöllurinn sé ekki á ákveðnum stað. Það deyr, þegar svo háttar til, af því að það kemst ekki undir læknishendur. Þó að flugvöllurinn yrði um aldur og ævi í Vatnsmýrinni er ekki öruggt að fólk komist undir læknishendur ef það kemst ekki frá staðnum sem það ætlar að fljúga frá. Og það er ekki heldur banvænt að komast ekki til gigtarlæknis á núll einni.
Ég er alltaf til í að hlusta á rök fyrir einhverju sem ég er ekki sammála, en þessi maður tefldi ekki fram neinum rökum, nema raki í augnkrókunum teljist með.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. febrúar 2025
Bankarnir
Ég er svo mikill greifi að ég er með fjögur bankaöpp í símanum mínum og viðskipti við fjórar fjármálastofnanir: Arion, Auði, Íslandsbanka og Indó. Gamli Búnaðarbankinn er uppeldisbankinn minn en ég er algjörlega laus við trygglyndi þegar mér finnst gengið á minn hlut sem Arion hefur svikalaust gert við öll tækifæri mörg síðastliðin ár. Ég ætla þess vegna að láta núverandi kreditkort renna sitt skeið og ekki endurnýja það að því loknu. Hugsanleg sameining Arion og Íslandsbanka hefur þannig engin áhrif á mig persónulega vegna þess að ég er á hraðri leið í burtu frá þeim báðum.
Er engin von til þess að neytendur standi saman, taki slaginn og gangi keikir frá borði? Erum við svo átthagabundin, ýmist vegna trygglyndis eða vegna þess að flutningur lána milli fjármálastofnana er svo djöfullega kostnaðarsamur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. febrúar 2025
Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni
Ég samgleðst öllum sem lifa af hremmingar, hvort sem eru óvænt veikindi, slys eða ofbeldi. Ég samgleðst öllum sem ná árangri, hvort sem er í vinnu, námi eða öðru einkalífi. Ég samgleðst öllum sem eiga góðar stundir með fjölskyldu, vinum eða samstarfsfólki.
Mér finnst bara mjög auðvelt að gleðjast yfir því sem vel gengur, hvort sem er hjá sjálfri mér eða öðrum, og finna til með fólki sem líður illa eða þjáist, hvort sem er andlega eða líkamlega.
En mér finnst alltaf fráleitt að stilla því upp að flugvöllur í Vatnsmýri bjargi lífum og flugvöllur úr Vatnsmýri grandi lífum. Ég ætla ekki að tengja í frétt af því af því að þetta er of persónulegt fyrir viðkomandi. Auðvitað hafa líf bjargast vegna þess að það fólk sem hefur verið í lífshættu kemst undir læknishendur. En þurfa þessar læknishendur að vera við Hringbrautina?
Er ekki hátæknisjúkrahús í Keflavík? Veikist fólk ekki á Ísafirði? Verða ekki slys í Neskaupstað? Af hverju er ekki betri aðstaða víðar um land? Mega Reykvíkingar sem búa í aðflugslínu flugvélanna ekki allt eins krefjast þess að friðhelgi þeirra heimila verði virt?
Ég hef ekki heyrt það núna í dágóðan tíma en það flaug fyrir fyrir nokkrum árum að fólk í Vesturbænum vildi geta flogið norður á Akureyri með morgunvélinni og til baka með síðdegisvélinni og helst án þess að skipta úr inniskónum. Ef við erum að tala um aðgengi mætti þá spyrja hvort fólk í Andrésbrunni ætti ekki að geta gengið á inniskónum út í flugvél sem flytti það milli landshluta. Væri ekki líka næs fyrir landsbyggðarfólkið - sem alltaf er talað um eins og því finnist það engan rétt eiga - að geta flogið að norðan, lent í Keflavík og gengið beint í flugvél sem flytur það til útlanda?
Mér finnst vanta alla ró í umræðuna og ég hef enn ekki séð neina þarfagreiningu. Getur einhver hér t.d. sagt mér hver borgar megnið af innanlandsfluginu? Eru það farþegarnir sjálfir eða eru það skattgreiðendur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. febrúar 2025
Trén í Öskjuhlíðinni
Ég hef skipt um skoðun. Reyndar á aukaatriði en samt má segja að ég hafi skipt um skoðun. Ég er enn á því að flugvöllurinn eigi að fara úr Öskjuhlíðinni og held enn að hægt sé að gæta að öryggisþættinum varðandi sjúkraflugið annars staðar, en ég sé að í ágúst 2023 hef ég ekki viljað láta fella tré í Öskjuhlíðinni sem ég man gjörla að okkur var sagt í leiðsögunámi mínu á sínum tíma að hefðu vaxið þar af miklu harðfylgi frá miðri 20. öld.
Út frá minni persónulegu skoðun og upplifun vil ég segja að mér er alveg sama þótt skógurinn verði grisjaður. Ég fæ innilokunarkennd þarna og villist alltaf. Á sólardögum nær sólin hvorki niður á kollinn á mér né í smærri plöntur sem veitti ekki af.
Mér er sjálfri því alveg sama þótt 1.400 tré verði felld. Ég hef hins vegar ekki skipt um skoðun á veru flugvallarins og hef enga trú á að meiri hluti borgarstjórnar hafi steytt á þessu máli sem allir hlutaðeigendur hafa vitað um.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. febrúar 2025
Hildur eftir Satu Rämö
Í mér var góður slatti af eftirvæntingu þegar ég opnaði Hildi. Ég hafði ekkert heyrt nema gott, m.a. frá finnskri vinkonu minni sem hefur verið búsett á Íslandi álíka lengi og Satu, höfundurinn. Ég náði að lesa fyrstu 100 síðurnar af 370 en þá var fullreynt með að höfundur hætti ekki að útskýra alls konar og ýmislegt. Ég trúi alveg að útlenskir lesendur, sem eru auðvitað markhópurinn, kunni að meta frásögnina en þetta er erfitt fyrir fólk sem þekkir til. Glæpasagan hélt samt og þess vegna las ég síðustu 50 síðurnar.
Ég eftirlæt öðrum að lesa hinar sögurnar sem Satu er líka búin að skrifa og gleðst yfir að hún eigi orðið stóran lesendahóp vegna þess að ég held að bókin henti fullkomlega öðrum lesendum en mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. febrúar 2025
It Ends With Us eftir Colleen Hoover
Ég er núna búin með tvær sögur eftir Colleen Hoover, 9. nóvember sem var alveg mögnuð bók og svo hina átakanlegu Þessu lýkur hjá okkur (þýtt sem: Þessu lýkur hér). Ég grét svo mikið yfir seinni partinum af því að hún er um fólk sem beitir ofbeldi og verður fyrir ofbeldi.
Ég hef sjálf ekki verið lamin og ekki niðurlægð en ég hef horft upp á þess háttar og ég veit að það er svo stutt á milli þess að allt sé í himnalagi og að allt sé ómögulegt. Það er hægt að elska einhvern 80% innilega og út af lífinu en hata svo viðkomandi 20%. Það er hægt að horfa í gegnum fingur sér þótt einhver komi illa fram, einu sinni, tvisvar en ef skiptunum fjölgar verður erfiðara að útskýra fyrir sjálfum sér af hverju nú sé komið nóg.
Saga Lily er saga alltof margra kvenna og óháð því hvaða ákvörðun hún tekur er hún ævilangt merkt því hvernig pabbi hennar lúskraði á mömmu hennar og hvernig Ryle kom fram við hana.
Bíómyndin Once Were Warriors (1994) rifjaðist upp fyrir mér meðan ég las, mynd sem ég sá fyrir löngu og aðeins einu sinni, einhverja áhrifamestu mynd sem ég hef nokkru sinni séð. Hún er um hjón í ofbeldissambandi þar sem hann er einmitt svo sjarmerandi og svo allt í einu BÚMM er hann það ekki. Ég myndi svo sannarlega horfa á hana aftur ef ég hnyti um hana en ég hef ekki lagst í ítarleit.
Ég held að ég hafi alltaf skilið af hverju konur festast í ofbeldissamböndum og aldrei dæmt þær fyrir að hlaupa ekki í burtu á 100 km hraða. Ég held að ég hafi aldrei dæmt þær. Ég vildi samt að ég hefði verið duglegri að spyrja: Af hverju beitti ofbeldismaðurinn ofbeldi? Af hverju er ábyrgðinni svona oft varpað á þolandann?
Ryle er með skiljanlega skýringu en ekki afsökun. Ég ætla ekki að tala af mér hér, ég vona að sem fæstir þurfi að upplifa innihald bókarinnar á eigin skinni en bókin er holl lesning. Ég er ekki viss um að þýðingin sé góð, ég gafst upp á Verity eftir sama höfund í íslenskri þýðingu, og mæli með að þau sem geta lesið á ensku sæki sér eintak á bókasafnið.
Þegar ég átti eftir 30 blaðsíður las ég að baráttujaxlinn Ólöf Tara væri látin og þá grét ég hálfu meira yfir bókinni.
Við eigum ekki að líða ofbeldi og fórnarlömbin eiga ekki að axla ábyrgð á ofbeldismönnunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. janúar 2025
Lagabreyting 2021
Ég er að reyna að glöggva mig á umræðunni um stjórnmálasamtök annars vegar og félagasamtök hins vegar. Skatturinn er með lista yfir skráð stjórnmálasamtök og þar kennir ýmissa grasa sem ekki eru á þingi. Samtals eru framboðin 25. Eru þá allir listar sem eru í sveitarstjórnum þarna eða vantar kannski líka stjórnmálaframboð á því stigi?
Hjá Skattinum er líka eyðublað til að breyta skráningu úr félagasamtökum í stjórnmálasamtök og byggir á lögum frá 2006 sem virðist síðast hafa verið breytt 2023.
Svo finn ég frétt frá 2022 á vef Stjórnarráðsins með yfirskriftinni:
Vilji stjórnmálasamtök þiggja opinbera styrki þurfa þau að skrá sig
Fréttin er reyndar mjög ruglingsleg en inntakið sýnist mér samt vera það sem stendur í fyrirsögninni.
Þá er spurningin: Af hverju skrá stjórnmálasamtök sig ekki sem slík ef það er forsenda þess að þiggja styrki ef þau vilja þiggja styrki? Samkvæmt gjaldskrá kostar það 30.000 kr.
Og: Hver er ábyrgð Fjársýslunnar?
Loks: Tóku þau stjórnmálasamtök sem mest hafa verið í umræðunni ekki þátt í að setja þessi lög?
Ef þessi breytingalög eru þau sem um ræðir, nr. 109/2021, voru þau samþykkt með 52 atkvæðum, 11 voru fjarverandi.
Ég er voða hrædd um að margur öryrkinn hafi þurft að endurgreiða ofgreiðslur sem hann þáði í góðri trú um að greiðandinn vissi hvað hann væri að gera. Ef greiðandinn leggur lykkju á leið sína til að endurheimta 240 krónur get ég ímyndað mér að honum finnist ástæða til að ganga eftir 240 milljónum króna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. janúar 2025
Handboltinn
Ég er stundum forfallinn handboltaáhorfandi og búin að vera það núna í janúar. Ég hefði viljað sjá Ísland fara alla leið en ég bjóst aldrei við því. Ég er umburðarlynd gagnvart mistökum í þessum bransa og röngum ákvörðunum þjálfara. Ég er kannski of umburðarlynd þegar kemur að þessu þar sem hlutaðeigendur eru sannarlega í vinnunni og það ágætlega launaðri vinnu (eða er það ekki örugglega?).
En sem hægur skokkari frá árdögum Reykjavíkurmaraþonsins hef ég stundum sett mér hófleg markmið og samt ekki náð þeim. Og þrátt fyrir það sem ég veit um atvinnumennsku er ég stútfull af skilningi og umburðarlyndi. Og athugum eitt, ef síðasti leikur, gegn heimamönnum Króatíu, hefði tapast með þremur mörkum en ekki sex væri staðan öll önnur. Svona munar nú litlu. Íslenska liðið vann seinni hálfleikinn (í leikhléi var staðan 20-12) og hafði áður unnið fjóra leiki, þar af tvo þá seinni sem flestir bjuggust við að gæti brugðið til beggja vona.
Ég ætla að horfa á Argentínuleikinn í dag og lifa mig inn í hann alla leið vegna þess að í mínum augum er þetta veisla. Stundum fær maður bragðbesta brauðréttinn og stundum uppþornuðu kransakökuna, þetta er samt veisla og ég sendi landsliðinu ómælt knús og sérstakar stuðkveðjur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. janúar 2025
Varnarsigur
Ég horfi á landsleiki í handbolta af áfergju og ástríðu en samt án tilfinninga. Ég man þegar Ísland tapaði fyrir Suður-Kóreu 25. febrúar 1986. Menn voru harmi slegnir, miður sín og ábyggilega sumir skömmustulegir. Væntingarnar voru langtum meiri, á pappírunum var Ísland með betra lið og Kóreumennirnir voru smávaxnir á móti hávöxnum Íslendingunum. Ég varð ekki hissa og ég var alls ekki sár. Mér finnst eðlilegt í íþróttum að gera harkaleg mistök.
Ég hef sem sagt gaman af að horfa á handbolta á stórum mótum en kippi mér ekkert upp við slakt gengi. Í vinnunni er reyndar spápottur og þar spáði ég Íslandi 10. sæti og við vorum flest á þeim slóðum. Það að vinna silfur á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 er auðvitað stórkostlega ánægjulegt en 17 árum síðar er það ekki viðmiðið.
Já, íslenska liðið lék illa í gær eftir fjóra sigurleiki í fyrstu fjórum leikjum mótsins, en keppinauturinn var lið á heimavelli með 13.500 gólandi áhorfendur á móti háværum 1.500 Íslendingum. Liðið hefði mátt tapa með þremur mörkum ef það ynni síðan Argentínu á morgun, sunnudag, og þá hefðum við verið örugg inn í átta liða úrslitin. Við töpuðum með sex mörkum en eftir fyrri hálfleikinn var ég farin að halda að við myndum tapa með tólf mörkum.
Þess vegna segi ég og skrifa: Varnarsigur!
Lesendum sem vilja skilja þetta sem tilvísun í alþingiskosningaúrslitin í haust er frjálst að gera það ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. janúar 2025
Ekki rétta systirin
Oh, það er svo gaman að finna nýja höfunda. Kringlusafnið er oft með annað úrval bóka en bókasafnið í Grófinni og þar datt ég niður á Claire Douglas, The Wrong Sister. Sú bók er óhefðbundinn krimmi að því leyti að bókin gerist eiginlega öll hjá fórnarlömbunum og mögulegum gerendum en ekki hjá lögreglunni eins og mér finnst algengt. Tvær systur og makar þeirra ætla að skiptast í eina viku á íbúðum þar sem önnur systirin er dálítill stórbokki og þau hjónin mjög efnuð og hin systirin er heimakær og á tæplega þriggja ára tvíbura.
Og þá fer í gang sérkennileg atburðarás sem felur á endanum í sér siðferðisleg álitamál um hvort systir gerir systur greiða þótt hann sé strangt til tekið út fyrir mörk hins löglega og siðlega. Hvað er hægt að fyrirgefa og hverju er hægt að horfa framhjá?
Hvenær er glæpur glæpur og hvenær er glæpur yfirsjón eða lítils háttar hliðarspor?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. janúar 2025
Verbúðin/Vigdís
Elsku Vesturport, því miður nær þáttaröðin um Vigdísi ekki sömu hæðum og gæðum og þáttaröðin um kvótakerfið gerði. Mig grunar að það sé af því að við sem erum eldri en tvævetur munum forseta Íslands 1980-1996 og höfum á henni skoðun. Vigdís Finnbogadóttir skipar þvílíkan sess í mínum huga að ég tárast við tilhugsunina um allt sem hún áorkaði og allt sem hún gekk í gegnum.
Ég var mjög spennt að sjá þættina og sussaði á alla í kringum mig, ég yrði að horfa á þættina í línulegri dagskrá. Fyrsti þátturinn var fínn en dálítið hægur. Annar þátturinn var mjög hægur og ég fór að halda að handritshöfundar teldu sig ekki hafa nóg efni í fjóra þætti. Nú er þriðji þátturinn búinn og sama merki brenndur og sá sem fór á undan.
Enginn nema Mannlíf og DV virðist vera að tala um þessa þætti. Ég man ekki eftir að spyrja neinn um þá og enginn spyr mig. Tala ég þó við ýmsa. Ég sé ekkert á netinu og mér er skapi næst að halda að þáttaröðin um elsku Vigdísi sé fallstykki.
Eftir fyrsta þáttinn, sem mér fannst sýnu bestur, fór ég að hugsa hvort ekki væri vert að gera þátt eða þætti um Kristbjörgu Kjeld sem er líka kraftmikil og spræk sómakona, verður níræð næsta sumar en átti m.a. stórleik í síðasta áramótaskaupi. En kannski væri einn leikinn þáttur nóg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 11. janúar 2025
9. nóvember
Á þremur kvöldum las ég bók sem ég var ekki viss um að höfðaði til mín. Ástarsögur þurfa ekki að vera væmnar og tilgerðarlegar þótt ég hafi fyrir löngu lesið nokkrar af þeim toga, þær geta verið merkilegar þroskasögur, en ég hef samt varann á mér þegar þær eru auglýstar sem ástarsögur. Í 9. nóvember er um að ræða vinskap sem hefst á stórundarlegan en engu að síður sannfærandi hátt þegar strákur í næsta bás á matsölustað ákveður að koma til hjálpar stelpu sem skattyrðist við pabba sinn.
Og af stað fer atburðarás sem snýst öll um þessa dagsetningu, 9. nóvember. Daginn eftir að ég byrjaði á bókinni heyrði ég fréttaskýringaþáttinn Þetta helst sem fjallaði um aðra bók eftir sama höfund, Colleen Hoover. Sú umfjöllun styrkti mig frekar en ekki í að halda áfram en strangt til tekið fannst mér byrjunin ögn skrýtin af því að strákurinn og stelpan voru bæði 18 ára og látið var að því liggja að þau ættu bæði þá þegar atvinnuferil, hún sem leikkona og hann sem rithöfundur. Ég trúi ekki að menningarmunurinn sé svo mikill að 18 ára stelpa sem hefur þurft að hætta að leika í sápuóperu 16 ára sé álitin taka niður fyrir sig vegna þess að hún afli tekna með hjóðbókalestri.
Mér finnst þetta alveg galli á ágætri bók, það að láta eins og svona ungt fólk sé búið að koma sér fyrir á atvinnuhillu fyrir lífstíð, en þetta er tvímælalaust helsti galli bókarinnar að mínu mati.
Og þessi Colleen er búin að skrifa margar aðrar bækur sem ég iða í skinninu eftir að lesa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. janúar 2025
Að hjóla í manninn
Ég þykist vita að Andrési, Gísla Frey og Stefáni Einari væri alveg sama þótt ég drullaði yfir þá en ég ætla ekki að gera það. Ég get alveg verið ósammála þeim án þess að kalla þá hálfvita, á spena auðmanna eða geltandi hunda (nei, þetta er ekki orðalag frá þeim), en ég skil ekki af hverju menn með alla þessa áheyrn láta ekki bara eftir sér að vera kurteisir og málefnalegir. En þótt þeir misbjóði stundum vitsmunum mínum mun ég halda áfram að hlusta á pólitísk hlaðvörp þannig að auglýsendum er óhætt að halda áfram að versla við þá, bara ekki víst að ég versli við þá auglýsendur. En þá er á hitt að líta að við látum öll glepjast annað veifið og kannski enda ég með bílinn minn á þvottastöðinni þeirra.
Ég hlustaði á þennan þátt á göngu þannig að ég sat ekki með blað og penna eða tölvu í fanginu og punktaði hjá mér. Ég man að þeir flissuðu að því að enginn læknir hefði gert stóra og góða hluti sem heilbrigðisráðherra, og hafa þá í leiðinni enga trú á Ölmu Möller, en ég man ekki betur en að það hafi komið fram um daginn að læknir hafi aldrei fyrr gegnt stöðu heilbrigðisráðherra.
Þeir virðast ekki láta sér nein tækifæri úr greipum ganga til að gera grín að Ingu Sæland en þótt hún sé með munninn fyrir neðan nefið og svari hátt og snjallt fyrir sig ætti að vera um auðugan garð að gresja hjá þríeykinu í hlaðvarpinu að gagnrýna hana fyrir skatta- og skerðingarlausar 450.000 krónurnar.
Ásthildur Lóa fær á baukinn fyrir að vera kennari og það kennari sem hafi verið bara tvö ár og mest sex ár hjá hverjum vinnuveitanda. Og þeir höfðu miklar efasemdir um að KENNARI gæti látið til sín taka í menntamálaráðuneytinu.
En ég gat ekki betur heyrt en að þeim fyndist fyrirtak að fá 26 ára stúdent með reynslu af auglýsingaskrifum sem aðstoðarmann dómsráðherra. Já, hann er líka með hlaðvarp.
Þessi ítarlegu hlaðvörp eru svo ný af nálinni, alltént í mínum síma, að ég veit ekki hvort þessir sömu menn gagnrýndu eða hefðu gagnrýnt það útspil að gera dýralækni að fjármálaráðherra, húsasmið að samgönguráðherra, búfræðing að barnamálaráðherra, námsráðgjafa að matvælaráðherra og mannfræðing að fjármálaráðherra. Þegar til stykkisins kemur skiptir pólitísk sýn máli, samvinna og heilindi og þekking á málaflokknum getur varla skaðað.
Ég hlustaði á þennan hlaðvarpsþátt til enda en ég gafst upp á öðrum þætti þar sem Marta Smartland fór háðulegum orðum um fótabúnað fólks og annað hjóm. Verðmætamatið hjá henni er af þeim toga að ég gat virkilega ekki lagt á mig að hlusta á þann þátt nema kannski hálfan. Ekki víst að sponsorar græði mikið á mér þar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. janúar 2025
Ósátt við jóla- og áramóta-RÚV
Ég horfi á línulega dagskrá og RÚV hefur farið langleiðina með að standa undir minni áhorfsþörf. En núna um jól og áramót er mér misboðið. Á stóru frídögunum finnst mér eiga að frumsýna almennilegar myndir. Mér finnst Napóleonsskjölin almennileg stórmynd, en t.d. ekki gerendameðvirki Johnny King á jóladagskvöld. Mér finnst Vigdís almennilegur þáttur og hlakka mikið til að sjá framhaldið og skaupið var alveg brillíant og einnig krakkaskaupið.
Þar með er eiginlega upptalið af frumsýndri jóladagskrá. Uppistaðan var endursýnt efni, endursýnd Vera, endursýndur tónlistarannáll, endursýnd Vigdís daginn eftir!, endursýndir Jülevenner, endursýndir jólatónleikar frá 2022, endursýnd Nolly í tveimur pörtum, endursýndur David Walliams - endursýnt efni frá fyrra degi eða fyrri viku.
Og nú finnst mér steininn taka úr þegar dagskrá morgundagsins er kynnt á einn veg á vefnum en í dagskrárauglýsingu í línulegri dagskrá er allt annað efni! Ég get vel hugsað mér að horfa á Vestfjarðavíkinginn sem er keyrt á í sjónvarpinu sjálfu en hann sést ekki í dagskrárkynningu RÚV.
NÚNA sé ég eftir afnotagjaldinu mínu.
LEIÐRÉTTING kl. 20:38: Víkingurinn er í kvöld. Hann heitir ekki lengur Vestfjarðavíkingurinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. desember 2024
Guðaveigar
Ég fór í bíó og sá nýja íslenska mynd sem mér skilst að sé í sama anda og Síðasta veiðiferðin sem ég sá aldrei. Hún er um fjóra drykkfellda presta sem eru gerðir út af örkinni til að finna messuvín sem er bæði óáfengt og vegan.
Þeir taka hlutverk sitt ekki sérlega hátíðlega heldur stefna ótrauðir á mikla drykkju í nokkra daga í góðu rauðvínshéraði og ætla svo að landa á lokametrunum einhverju sem biskupnum líki. Auðvitað fer ýmislegt úrskeiðis og er flest bráðfyndið.
Ég hef lengi haft mikið dálæti á Þresti Leó Gunnarssyni og hann bregst mér ekki. Fáir sækja messur prestsins sem hann leikur og hann er svolítið að missa trúna á sjálfan sig. Þá kemur presturinn sem Sveppi leikur meistaralega og dregur hann að landi.
Halldór Gylfason er frábær í sínu egóistahlutverki og Hilmir Snær alltaf traustur en voða mikið alltaf eins. Kannski var hans rulla líka klisjukenndust, maðurinn sem veit allt um rauðvín að eigin mati sem er síðan rekinn oftar á gat en samferðafólkið hefur áhuga á.
En stjarnan er Vivian Ólafsdóttir sem ég var að sjá í fyrsta skipti og ekki spillti Siggi Sigurjóns sem afi hennar. Hann var sko ekki eins og hann er alltaf!
Mér finnst Guðaveigar mynd sem maður á að sjá í bíó og leyfa sér að flissa að vitleysunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. desember 2024
Óljós eftir Geir Sigurðsson - saga af lúða
Titillinn minn er ekki illa meintur þótt Leifur Tómasson sé sannkallaður lúði. Bókin nær að halda lesandanum allan tímann og það er ekki lúðalegt þótt aðalpersónan sé það, þótt Leifur sé tilþrifalaus, áhrifalaus, uppburðarlaus og framtakslaus. Á heilli mannsævi (67 árum) verður honum þó eitthvert smotterí úr verki, hann fer í nám til Þýskalands, landar háskólakennslu í faginu sínu af því að fyrir tilviljun er eftirspurn eftir þess konar þekkingu þegar hann kemur heim, hann eignast væna konu og með henni tvö gjörvileg börn og svo barnabörn. Hins vegar er hann óvinsæll kennari, eignast enga vini í vinnunni eða utan hennar, fær ekkert gefið út og stendur alltaf í skugganum af litla bróður sínum sem hefur slegið í gegn í Frakklandi og kemur einstaka sinnum til Íslands til að stafa geislum sínum á fjölskylduna.
Við starfslok er hann enn meira núll og nix en meðan hann var þó í starfi, búinn að missa Petru sína, á enga sjálfsmynd og börnin hans eru næstum búin að afskrifa hann. Á þriðja æviskeiðinu sparkar hann því sjálfum sér til Kína og þar gerast undarlegir hlutir sem eru í fjarstæðu sinni næstum trúverðugir af því að hann tekur aldrei neinar ákvarðanir um líf sitt, heldur veltist áfram í einhverju gruggi.
Öll bókin, tæpar 200 síður, er óður til tilvistarinnar eða skortsins á henni. Allt líf mannsins er bara dropi í heimssögunni og skiptir engan neinu máli nema hann sjálfan og hans nánustu og jafnvel varla það. Það er frekar niðurdrepandi tilhugsun fyrir okkur flest að við skiptum ekki máli, að þegar búið verður að hola okkur niður að jarðvistinni lokinni líði í mesta lagi nokkrir áratugir þangað til við verðum öllum gleymd.
Bókin stingur ekki upp á neinum lausnum í þessu efni þannig að við verðum sjálf að finna okkur tilgang og sætta okkur við að við erum bara augnablik í eilífðinni, mismiklir lúðar með ósagðar sögur af tilþrifalitlu lífi.
Þá vil ég gera orð eins af gestum mínum í fyrndinni að mínum:
Kom og fer. Gaman á milli.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. desember 2024
48 dagar
Mér finnst Vísir hafa brennt af í dauðafæri til að upplýsa lesendur. Ég hlustaði á Bylgjuna í morgun og heyrði Kristján Kristjánsson og Ingu Sæland vera með skæting hvort við annað. Mig grunar að þau hafi ekki verið að tala um nákvæmlega sama hlutinn, en deilan snýst um fjölda daga sem menn mega vera við strandveiðar.
Hún segist hafa rembst eins og rjúpan við staurinn við að fjölga dögunum upp í 48.
Hann segir að dagarnir séu 48 nú þegar.
Úr þessu var ekki skorið í þættinum. Vísir staðreyndagátaði ekki þegar hann skrifaði fréttina.
Ég leitaði í lögum um stjórn fiskveiða og fann 6. gr. a:
Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.
Þarna er fjögurra mánaða tímabil undir og ég er engu nær. Mig grunar nefnilega að sjómenn og aðrir kunnugir noti eitthvert orðalag sem ég hef ekki á hraðbergi þannig að ég veit ekki hvort annað hafði rétt fyrir sér og hitt ekki eða hvort bæði höfðu rangt fyrir sér.
Veist þú í hversu marga daga menn mega vera á handfæraveiðum við strendur Íslands? Mögulega er spurningin röng og ég ætti frekar að tala um strandveiðar, krókaaflamark eða sóknarmark.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. desember 2024
Franska málið
Ég þarf ekki að hneykslast á franska eiginmanninum sem nauðgaði byrlaðri konunni sinni og hleypti tugum manna upp á hana, hann á sér engar málsbætur enda dæmdur til langrar fangelsisvistar og hinir nauðgararnir líka. Ég get reyndar ímyndað mér einn eða tvo háværa einstaklinga í íslensku bloggsamfélagi sem vorkenna honum og hinum en þeir eru klárlega í minni hluta.
Nei, erindi mitt hingað er að gera orð Maríu Rúnar Bjarnadóttur að mínum. Því miður finn ég ekki orðrétt það sem hún sagði enda góðar líkur á að ég hafi heyrt þau orð í útvarpinu en ekki lesið þau. Hún sagði, og takið nú vel eftir: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta ættu að beita sér gegn ofbeldi, m.a. heimilisofbeldi. Þar er gríðarlegur kostnaður. Ekki aðeins erum við að tala um hið sjálfsagða, sársauka, vonleysi, atvinnumissi þess sem fyrir ofbeldinu verður og allar þær hugrænu afleiðingar, heldur einnig peningalegan skaða. Hugsið ykkur þetta franska mál sem hefur tekið langan tíma í kerfinu, fjöldann allan af yfirheyrslum, bæði hjá lögreglu og dómstólunum, tíma lögfræðinganna sem er greiddur af ríkinu.
Ég hef lesið nógu marga dóma um dagana til að vita að bætur sem fórnarlömbum eru dæmdar (og undir hælinn lagt hvort ofbeldismaðurinn er borgunarmaður fyrir) eru langtum lægri en þóknanir lögmannanna. Ég er ekkki að segja að þær séu óhóflegar miðað við vinnuframlagið en, guð minn góður, hugsið ykkur þá aftur vinnuna og tímann sem fer í að finna ofbeldismönnunum (já, og þeim sem eru skárri en verri) málsbætur.
Þannig að ég endurtek: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta (sem ég er ekki á móti) ættu að beita sér af hörku gegn ofbeldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. desember 2024
Blönduð byggð
Ég er enn alveg ofandottin af hneykslun yfir þessu Haga-máli í Breiðholtinu. Hver í veröldinni hélt að það væri í lagi að byggja vöruhús þétt upp við stofuglugga íbúa? Ég næ þessu engan veginn og mér finnst einhver þurfa að axla ábyrgð en augljóslega mun kostnaðurinn falla á borgarbúa að einhverju leyti.
En upp úr 1990 átti ég heima í Ingólfsstræti. Alveg í miðbænum. Þegar ég keypti þá íbúð var svæðið skilgreint sem blönduð byggð. Einhverjum árum síðar voru skemmtistaðir orðnir svo brjálæðislega háværir í þrjár áttir að ég fékk heilbrigðiseftirlitið til að desilbelmæla hann. Hann var yfir mörkum en aðallega var bassinn truflandi. Ég var að bilast.
Ég leigði íbúðina frá mér og flutti. Leigjandinn hafði búið við járnbrautarstöð í New York og endaði á að kaupa hana. Ég varð að slá af kaupverðinu en ég losnaði úr þessari hávaðamengun og veit ekki hvernig staðan er í þessu húsi í dag.
Áður en ég gafst upp hafði ég samband við þáverandi borgarstjóra sem sagði skýrt og afdráttarlaust við mig: Einhvers staðar verða vondir að vera. Einhver annar borgarfulltrúi tók undir með því orðalagi að ég hefði valið mér þessa búsetu.
Ég segi enn og skrifa að ég var í góðri trú þegar ég festi kaup á íbúð í blandaðri byggð og ég er enn á því að borgaryfirvöld hafi á þeim tíma verið of umburðarlynd gagnvart atvinnulífinu. Ég er löngu búin að jafna mig á þessum vondu svörum og vondu stjórnsýslu en nú rifjaðist þetta upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. desember 2024
Þétting byggðar
Ég er hlynnt þéttingu byggðar en ef helmingurinn af því sem maður heyrir um þessa vöruhússbyggingu í Breiðholtinu er sannur yrði ég sturluð þarna. Ég myndi ganga af göflunum og væri reyndar löngu búin að því.
Ég heyrði viðtal við Dóru Björt Pírata í útvarpinu í vikunni og hún var alveg miður sín.
En hver er sannleikurinn í málinu? Stóð þetta alltaf til? Kostuðu íbúðirnar lítið í ljósi þess að þær yrðu hvorki fugl né fiskur? Ég á bágt með að trúa að fólk hafi ekki séð þetta í farvatninu. Ef ég hefði keypt íbúð þarna í góðri trú myndi ég heimta að ábyrgur aðili keypti íbúðina af mér á markaðsverði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)