Fimmtudagur, 24. mars 2022
Sjálfsöryggi umfram allt
Ég horfði í vikunni á mynd sem var á RÚV um síðustu helgi, I feel pretty. Pælið bara í hvað lífsgæði manns aukast ef maður hefur fullt af sjálfstrausti. Það er óþarfi að verða oflátungur en það er líka glatað að vera með minnimáttarkennd yfir því að vera öðruvísi en glansmyndirnar í auglýsingunum.
Ókei, nú þurfið þið ekki að horfa á myndina. Lítið bara í spegil og sannfærist um að þið hafið mikið fram að færa. Mér fannst samt gaman að horfa á myndina ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. mars 2022
Litli fjárfestirinn
Ef mér hefði boðist að kaupa afsláttarhlut í Íslandsbanka eins og meintum fagfjárfestum bauðst hefði ég ekki slegið hendinni á móti því. Hvað þurfti hver og einn að leggja út? Þarf kannski hver fjárfestir að kaupa fyrir 100 milljónir og fær kannski skammtímalán í Íslandsbanka upp á 100 milljónir? Nei, kannski frekar í Landsbankanum. Ég man nefnilega árið 2007.
Hins vegar vantar mig ekki peninga. Ef ég hefði grætt 10 milljónir sisona - án nokkurrar fyrirhafnar eða áhættu - hefði ég kallað eftir tillögum um hver ætti að njóta góðs af. Ég meina það. Ég hefði sjálf stungið upp á Kvennaathvarfinu eða Landspítalanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. mars 2022
Bataferli - eða ekki
Ég þekki mann - bróður minn - sem hefur verið í meintu bataferli hjá SÁÁ eða AA í áratugi. Hann er fæddur 1961, byrjaði að drekka 11 ára og hætti endanlega um 27 ára aldur. Ég ætla ekki að segja að hann hafi beitt mig ofbeldi en ég var klárlega meðvirk með ástandi hans í langan tíma.
Nú þegar ég les frásögn af meðmælum Frosta hjá SÁÁ rifjast enn einu sinni upp álit mitt á bróður mínum sem ég segi núna fullum fetum að sé vond manneskja. Einhver gæti sagt veik manneskja en þá segi ég að AA hjálpi honum greinilega ekki neitt. Fyrir fjórum árum fór allt upp í loft á milli okkar þegar ég loksins áttaði mig á hvaða mann hafði að geyma.
Mér finnst ekki erfitt að segja frá honum og missi ekki svefn yfir honum eða glötuðum tíma sem ég fórnaði á hann. Ef ég sé eða heyri í útvarpinu í lögmanninum sem hann réð sér til að hafa af mér pening fæ ég hins vegar hroll því að sá tók skýra afstöðu með veikum/vondum manni. Lögmenn samsama sig ekki skjólstæðingum sínum en við ráðum öll hvernig verkefni við tökum að okkur og umræddur lögmaður vissi alveg að hann varði vondan málstað. Lögin eru stundum hliðholl vondum málstað og þegar hrekklaust fólk (ég er ekki að tala um mig í þessu samhengi) treystir t.d. börnunum sínum getur allt farið á versta veg. Mín sýn er sú að Gummi bróðir hafi spilað áratugum saman á ótta foreldra okkar við að hann félli aftur í fang áfengisins. Málið er að áfengið er bara ein birtingarmynd vandans, karakterinn er stóri vandinn.
Gummi situr uppi með sjálfan sig og að hafa hrakið í burtu sitt nánasta fólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. mars 2022
Sorphirðan
Plís, við getum sjálf aðeins liðkað fyrir. Nú berast fréttir af því að plast- og pappírstunnur séu yfirfullar í borginni. Við þurfum ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá að það er rétt. Í fréttum kom fram að gráu tunnurnar væru tæmdar fyrst vegna eðlis ruslsins í þeim. En við neytendur getum leikandi pakkað pappa betur saman, t.d. kössum undan morgunkorni og mjólkurfernum.
Plís, slítið út úr hornunum á mjólkur- og djúsfernunum og pressið umbúðirnar saman áður en þið hendið í tunnurnar eða gámana. Ekki henda í plasttunnurnar plastflöskum sem Endurvinnslan tekur á móti og greiðir eitthvert gjald fyrir.
Tökum virkan þátt í hringrásinni. Borgarstarfsmenn gera sitt besta og við ættum að gera það líka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. mars 2022
Ég heiti Ísbjörg, ég er ...
Þið þekkið þessa bók, Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón. Hún kom að vísu út 1989 þannig að kannski þekkið þið hana bara ekki neitt. En það er svo merkilegt að þótt hún sé 33 ára er hún um samtíma okkar. Hún er um ofbeldi, uppeldi, skort á uppeldi, gerendur, meðvirkni og þolendur. Þetta er svo sem ekki álitlegasta léttlestrarefnið til að stytta sér kalsaveturinn sem virðist endalaus um þessar mundir. Og það er ekkert áhlaupsverk að komast í gegnum fyrri helminginn eða mér fannst alltént fyrri hlutinn tyrfinn og óaðgengilegur. En í seinni hlutanum var ég verðlaunuð þegar þræðirnir byrjuðu að þéttast og sagan af Ísbjörgu að taka á sig skýrari mynd.
Ég las hana nýútkomna en man harla lítið eftir því. Enn síður man ég - og kannski vissi ég það heldur ekki - að höfundurinn varð fyrir aðkasti. Já, Vigdís Grímsdóttir fékk haturspósta og hótanir, skemmdarverk voru unnin á eignum hennar og henni og börnum hennar haldið í einhvers konar heljargreipum ... af því að hún sagði sögu.
Ísbjörg elst upp við ofbeldi sem er sýnt í bókinni en ekkert ofsagt í þeim efnum. Við hittumst nokkur í gærkvöldi og töluðum saman um bókina og eitt og annað hafði farið framhjá okkur, mismunandi þættir frásagnarinnar. Það er nefnilega galdurinn, að eftirláta lesandanum að ráða í textann en gera þannig um leið skynsamlega kröfu um færni til að lesa á milli línanna. Mér finnst ekkert að því að aðrir lesendur bæti mína upplifun.
Ég er farin að merkja lesnar bækur á Goodreads, ansi hreint góðri síðu til að halda utan um lesnar bækur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 12. mars 2022
Okkar eigin Sif
Ég les alltaf pistla Sifjar Sigmarsdóttur sem birtast í Fréttablaðinu á laugardagsmorgnum. Ég þekki aðeins til hennar og um hana er ekkert nema gott að segja. Það er næstum undarlegt hvað henni tekst alltaf að setja stærri og smærri mál í skýrt samhengi. Kannski gerir fjarveran frá nafla Íslands það að verkum.
Í morgun er hún með enn einn góða pistilinn. Evrópusambandið hefur reyndar aldrei verið þungamiðjan í mínu lífi en hvað sem við köllum bandalög eiga þjóðir heimsins að standa saman. Við eigum sem mannkyn að standa vörð um jörðina sem við byggjum og við eigum að reyna að hugsa út frá heildinni en ekki eiginhagsmunum okkar. Boris Johnson virðist einmitt hafa látið naflann á sér ráða gjörðum sínum þegar Brexit varð að veruleika og varla er Pútín að hugsa um hagsmuni heildarinnar þegar hann lætur sprengja upp sjúkrahús.
Í hálfan mánuð er ég búin að hugsa: Ég get skilið að heimsstyrjaldirnar hafi orðið í ljósi upplýsingafátækar, sjaldgæfra skipaferða, stopulla símtala milli landa og alls þess sem hélt fólki í þekkingarleysi. En núna þegar við erum með ljósmyndara í Kíev sem segir okkur milliliða- og undanbragðalaust frá því hvernig lífið er í Úkraínu, þegar Rússar hafa farið úr landi og komið aftur heim, þegar fréttir berast af mannfalli fólks á leið á skrifstofuna sína og þegar maður sér á YouTube myndband af skriðdreka keyra yfir fólksbíl er óskiljanlegt með öllu að geðveiki Rússinn sé ekki stoppaður.
Já, ég veit að hann hefur víst aðgang að efnavopnum og menn óttast að hann beiti þeim - en af hverju hefur hann aðganginn? Af hverju hefur hann komist upp með að ljúga að þjóð sinni að hann og tindátar hans þurfi að bjarga Úkraínumönnum frá miklum voða, gott ef ekki nasistum? Af hverju fær hann að heilaþvo fólk?
Minn grunur er að efnahagslegar ástæður séu fyrir mörgum stignum ógæfusporum. Vopnaframleiður eru í bissniss, demantaseljendur og aðrir lúxuskappar vilja ekki missa peningalegan spón úr aski sínum. Það er minn grunur og mig grunar að grunur minn sé réttur. Kapítalisminn er ekki alvondur en hann þarf eftirlit svo græðgin verði ekki allsráðandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 8. mars 2022
Skatturinn, 4. þáttur
Nú megum við telja fram til skatts. Glugginn er opinn í hálfan mánuð. Hjá launþegum er (flest)allt forskráð en grey litli verktakinn þarf að puðast í gegnum rekstraryfirlit (4.10) eða rekstrarskýrslu (4.11). Ég puðaðist í gegnum þetta í fyrra en kynnti mér greinilega ekki nógu vel muninn á 4.10 og 4.11 og ég held að Skatturinn verði ekki vændur um að halda viðkomandi upplýsingum að litlu verktökunum.
Þegar ég skilaði í fyrra fékk ég þau skilaboð að framtalið væri villulaust. Svo leið fram á árið og ég fékk álagningu. Þegar dró að jólum fékk ég gluggapóst frá Vestmannaeyjum um að ég hefði vantalið verktakatekjur. Löng saga sem ég er þegar búin að segja.
Ég átti að borga meira og gerði það á gjalddaga sem var bara nokkrum dögum eftir að ég fékk seinna bréfið með skipapóstinum frá Eyjum, 18. febrúar. Um mánaðamótin voru síðan 75% af mánaðarlaununum mínum dregin af mér og engin skýring gefin önnur en sú að Skatturinn hefði krafist þess. Þegar ég grennslaðist betur fyrir um málið var þarna komin skuldin sem ég var búin að greiða. 17. hvers mánaðar fær nefnilega launagreiðandinn upplýsingar um skuldastöðu en þið eruð búin að átta ykkur á að skuldin var ekki einu sinni gjaldfallin þegar Skatturinn sendi reikninginn í innheimtu.
Þetta var leiðrétt en ég hafði ærna fyrirhöfn af þessu og nokkrir fleiri hjá hinu opinbera.
Nú eru spennandi dagar framundan hjá mér. Skyldi ég ráða gátuna og geta lagt saman 100.000 og 500.000 án þess að setja Skattinn í Vestmannaeyjum í uppnám?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. mars 2022
Gísli Marteinn og fyrrverandi fréttamaðurinn
Ég er ekki búin að hugsa um þetta linnulaust í þrjá daga, ég þvertek fyrir það, en ég varð fyrir áfalli þegar ég horfði á Vikuna á föstudaginn. Ég hef gaman af Gísla Marteini og mörgum gesta hans, væri samt til í aðeins meiri breidd og sjaldnar fólk sem hefur komið margoft. En hættu nú alveg, hvað það var hallærislegt að leyfa Einari Þorsteinssyni að kynna framboð sitt til borgarstjóra í beinni útsendingu á góðum áhorfstíma.
Það er ekki séns í heitasta helvíti að þáttastjórnandinn hafi ekki vitað að maðurinn væri með grænt xB-merki í bak og ... já, aðallega bak.
Ég horfði ekki á söngvakeppnina á laugardaginn. Ég var upptekin en þótt ég hefði þurft að velja á milli söngvakeppninnar og þess að horfa á salthnetu í einn og hálfan klukkutíma hefði salthnetan haft vinninginn. Ég horfði nefnilega fyrir viku og er enn að jafna mig á leiðindastuðlinum. Þrír kynnar, fimm lög, 700 sinnum áskorun um að kjósa og fimm auglýsingahlé - ekki mín hugmynd að skemmtilegu sjónvarpi. En svo las ég eftir þátt helgarinnar að GDRN hefði fengið gjafir sem tóku stóran hluta af útsendingunni.
Ég er ekki að kvarta yfir dagskránni, ég er að kvarta yfir lélegri þáttagerð og því að farið sé illa með tíma fólks. Hvaða tegund af fólki hefur gaman af söngvakeppni sem gengur ekki út á söng?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 5. mars 2022
Fréttir RÚV kl. 7
Mig rak í rogastans þegar ég heyrði Ævar Örn Jósepsson segja í fréttum kl. 7 að búið væri að ljóstra upp um innbrotið á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs fyrr í vetur. Ég hef reyndar alltaf misst af fréttum Mannlífs af Róberti Wessman og sannarlega af því að Kristjón Kormákur hafi rekið annað fréttavefmiðil.
Finnst ykkur óskýr þessi texti sem ég var að skrifa? Mér líka. Svona líður mér við lesturinn á þessum fréttum. Er þetta allt risastór auglýsing til að fá fólk inn á umrædda vefmiðla? Ég mun ekki smella á Mannlíf meðan ég þykist vita að ritstjórinn lepji upp fréttir úr minningargreinum fólks um látna ástvini eða sitji um t.d. bílslys til að vera á undan aðstandendum.
Er hann hættur því?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. mars 2022
Fermetraverðið milljón?
Ég hlustaði á Bylgjuna á leiðinni heim áðan. Þar var frambjóðandi til 1. sætis Sjálfstæðisflokksins, Ragnhildur Alda, í viðtali. Ég hlustaði á annað viðtal við hana og Hildi í gær og mig varðar miklu hvaða skoðanir þær hafa og þekkingu því að þær eru báðar líklegar til að hafa áhrif á næsta kjörtímabili í borginni.
Frá mínum sjónarhóli erum við Ragnhildur ósammála um þéttingarstefnu og almenningssamgöngur en eitt nefndi hún í báðum viðtölunum sem við getum verið innilega sammála um, nefnilega snjallumferðarljósavæðinguna. Það er ákaflega hvimleitt að standa eða sitja undir tímastýrðum umferðarljósum þegar enginn virðist mega fara yfir. Ég lendi iðulega í því á hjólinu mínu. Reyndar lendi ég líka í því að tíminn sem er skammtaður til að komast gangandi yfir gangbraut er á mörkunum að duga fyrir fullfríska manneskju, hvað þá lasburða.
En það sem ég hjó mest eftir og var þess vegna að reyna að finna viðtalið á vefnum var þegar hún sagði að fermetraverðið væri orðið milljón. Ég er mjög vel sett í minni 111 fermetra íbúð en hefði ekki sett hana í sölu á 111 milljónir að óreyndu. Ég veit að fasteignamarkaðurinn er orðinn alveg gaggalagú en í verðsjánni er það á bilinu 500.000-600.000 kr. á fermetrann.
Auðvitað hefði verið næs að þáttastjórnendur hefðu hváð en hún fékk að halda orðinu dálítið ein og sjálf í viðtalinu. Gallinn við að heyra mörg viðtöl við frambjóðendur er að maður heyrir miklar endurtekningar. Kostur væri ef þau þyrftu að svara spurningum.
Meiningin er ekki að kasta rýrð á neinn, hvorki frambjóðendur né þáttastjórnendur - kannski ber ég mig bara of mikið eftir töluðu máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. mars 2022
Það sem á undan er gengið í veraldarsögunni ...
... sagði Heimir Karlsson í Bítinu.
Einmitt! Tvær heimsstyrjaldir hafa þegar verið háðar með ærnum þjáningum manna. Sagan er þekkt. Borgarinn tapar. Náttúran tapar.
Hver græðir? Vopnaframleiðendur.
Hvernig er þá best að haga sér? Hver framleiðir vopn, þar á meðal SKRIÐDREKA eins og þann sem ég sá á einhverju myndbandi taka snögga beygju til vinstri og kremja bíl á ferð? Hver framleiðir hríðskotariffla? Hver selur, hver kaupir og hver græðir á þessu ógeði?
Það er fólkið sem þarf að komast í hausinn á og laga skrúfganginn á.
Sagan er þekkt, vitleysingar verða alltaf til en við þurfum fleiri í framlínuna sem eru ekki gráðugir vitleysingar.
Það munar kannski ekki öllu í ferlinu en ég lagði 50.000 kr. inn hjá Rauða krossinum til að sýna að mér er ekki sama um framtíðina, Evrópu og samborgara mína.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. febrúar 2022
Hver er þessi Eyþór?
Ég var að lesa úttekt Stundarinnar á aðgerðum lögreglustjórans á Akureyri og niðurstöðu Héraðsdóms - nei, annars, hún er ekki (komin?) á vef dómstólsins.
Á vef rúv.is les ég svo:
Eyþór Þorbergsson, staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að niðurstaðan verði kærð til Landsréttar.
Þá rifjast snarlega upp hvernig pólitíkin dró í land í síðustu viku. Ráðherra ákvað á einu augnabliki í mars 2021 að áfrýja til Landsréttar ítarlega rökstuddum héraðsdómi sem hún tapaði og nú hefur það mál verið fellt niður með ærnum tilkostnaði hins opinbera og miklum þjáningum hinnar stefndu.
Ætli Eyþór hafi hugsað heila hugsun áður en hann sendi svarið frá sér? Er útilokað að menn skilji þegar öll sund hafa lokast?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. febrúar 2022
Söngvakeppnin
Ég hef meira gaman af töluðu máli en sungnu, en samt hef ég minn tónlistarsmekk. Hann er að sönnu ekki mikill og vitið á tónlist ekki heldur. Þess vegna ómaka ég mig yfirleitt ekki við að horfa á söngvakeppni sjónvarpsins og aðeins á stóru keppnina ef það er einhver sefjun í nærumhverfi mínu.
Í gærkvöldi var ég illa haldin af beinverkjum og kom engu gáfulegu í verk þannig að ég dormaði í sófanum yfir söngvakeppninni. Lögin voru fimm, hvert um sig sirka þrjár mínútur en samt teygði dagskráin sig yfir einn og hálfan klukkutíma. Kynnarnir voru vandræðalegir, alltaf að hvetja fólk til að kjósa þótt aðeins væru komin kannski tvö lög og hoppandi og híandi allan tímann.
Ég get alveg skilið að þetta sé barnagaman - nei, samt ekki með stöðugum auglýsingahléum - en væri þá ekki nær að hafa þetta efni á barnaefnistíma?
Almennt séð er mér alveg sama hvað er í sjónvarpinu, þetta efni var bara nokkrum númerum of kjánalegt. Beinverkir gætu ekki hlammað mér í sófann aftur um næstu helgi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. febrúar 2022
Að hafna rússneskum vörum?
Ha? Ég sá á einhverjum samfélagsmiðli áðan spurningu um hvaða vörur væru rússneskar svo viðkomandi gæti sniðgengið þær. Ég skil það ekki. Þótt maður fordæmi Pútín, stríð og innrásir er flest rússneskt fólk venjulegir borgarar sem vinna við eitthvað til að afla sér viðurværis. Ég er einmitt líka búin að sjá heilmikla umræðu um að rússneskur almenningur sé einstaklega geðugur og greiðvikinn.
En af hverju sameinast ekki yfirvöld allra landa heims um að taka völdin af Pútín? Hann verður sjötugur í haust og ef hann fær að ráða getur hann vaðið uppi með vondar hugmyndir og vondar ákvarðanir í 20 ár - og svo vitum við líka að síðasta fíflið er ekki fætt.
Er enginn samtakamáttur hjá góðu fólki til að hindra stríð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 23. febrúar 2022
Páll og nafnlausi þolandinn
Þolendur allra landshluta hljóta nú að fagna því að lögreglan taki kynferðisbrot og dreifingu einkamyndefnis alvarlega. Ég óska öllum Pálum landsins góðs bata og réttlætis en ekki síður öllum þolendum sem hafa mátt bíða og bíða eftir svörum, niðurstöðum, bréfum, símtölum - og réttlæti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. febrúar 2022
Breytum kirkjum
Ég hélt að sárkristið fólk hreykti sér af umburðarlyndi og kærleika í garð annars fólks. Ég var að lesa í gegnum þráð á Facebook sem hefði líklega afkristnað mig ef ég hefði verið einhverrar sérstakrar guðstrúar. Ég man ekki alveg hvenær ég sagði mig úr þjóðkirkjunni en það var a.m.k. fyrir aldamót og þá var ég búin að vera lengi á leiðinni út af einhverjum meintum þjóni kirkjunnar sem hafði ofboðið mér.
Sagan hefur sýnt að mörg ódæðisverk eru framin í nafni trúar. Mörg stríð hafa verið háð vegna meintrar trúar.
Ég trúi á ýmislegt, m.a. á fyrirgefningu og umburðarlyndi en ég er ekki til í að bjóða hinn vangann ef ég er löðrunguð og mér finnst hreint út sagt einfeldningslegt að horfa í gegnum fingur sér ef einhver manni nákominn t.d. fremur glæp. Ég elska engan skilyrðislaust en ég er alltaf til í að hlusta á rök og meðtaka ef fólk gengst við mistökum og sýnir yfirbót.
Ég vil sem sagt aðskilja ríki og kirkju og mér finnst frábær hugmynd að breyta kirkju í gistiheimili eða einbýlishús eftir atvikum. Þegar ég var á ferð í Dublin endur fyrir löngu hringdi í langlínusímtal úr fyrrverandi skriftaklefa sem búið var að breyta í símaklefa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 21. febrúar 2022
Aumingja kapítalistarnir
Ég er meðvirk. Ég vorkenni kapítalistunum og fæ reglulega samviskubit þegar ég er ekki nógu dugleg að fara í búðir og kaupa. Samt á ég fulla skápa af fötum sem ég er búin að gleyma og sem ég passa sum ekki í. Ég fæ örari hjartslátt þegar ég er ekki nógu dugleg að kaupa tilbúinn mat. Samt fer ég í úrvalsbúðir og kaupi gott brauð og sushi í miklu magni þegar ég býð völdum gestum í mat. Ég fer líka á veitingastaði og kaupi mat sem einhver annar leggur á borðið hjá mér og vaskar upp eftir mig.
Gráðugir einstaklingar hafa komið óorði á kapítalistana. Kapítalisti er skv. Snöru:
(samkvæmt marxískri kenningu) sá sem ávaxtar eignir sínar (beint eða óbeint) með (launa)vinnu annarra.
stórríkur maður, auðjöfur
Líka skv. Snöru:
maður sem nýtur arðs af eignum sínum. 2. auðjöfur. 3. auðvaldssinni.
Sannur kapítalisti þarf að hætta fé sínu og taka áhættu. Stundum er sagt að menn geti ekki náð árangri nema mistakast líka. Af mistökunum megi draga hvað mestan lærdóm. Mistökum getur fylgt tjón. Ég tek ofan fyrir þeim kapítalistum sem taka áhættu, reka sig á, bæta sig og uppskera almennilega. Það er bara svo skrambi erfitt að þekkja þá úr. Nú, eftir tvö ár af faraldri, er ég ekki viss hvar skikkanlegu veitingamennirnir, flugrekendurnir, fatasalarnir, hárgreiðslumeistararnir og blaðamennirnir halda sig og hvar ég á að versla til að styrkja heiðarlega kapítalista sem hafa dregið vagninn sjálfir.
Og ég er í alvörunni meðvirk vegna þess að ég á það til að kaupa eitthvert drasl og einhvern óþarfa handa mér og handa öðrum í stað þess að kaupa það sem mig langar í þegar mig langar í það. Ég er nefnilega neyslugrönn að eðlisfari ... en líklega hefur meðvirknin verið alin upp í mér af neyslusamfélaginu - sem ég held að sé að breytast.
Ég versla í Rauðakrossbúðunum af því að mér líka vörurnar og vilja gefa þeim framhaldslíf og ég ferðast á hjóli af því að ég upplifi sjúklega mikið frelsi á hjólinu. Ég er loks búin að átta mig á að mér líður illa í dýrustu flíkunum sem ég kaupi ... og bíllinn - ja, hann er bara fastur í skaflinum fyrir framan húsið. En ég þakka innilega fyrir að þurfa ekki að kaupa mér fasteign í Reykjavík í bráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. febrúar 2022
Sprengisandur í morgun
Ég hlustaði á Sprengisand í morgun. Þar talaði lögmaður um lögfræði.
Útskrifaðir lögfræðingar kunna ekki bara lögin og rétta meðferð, þeir kunna sumir klækjabrögð og breyta vísvitandi rangt eða reyna að hafa óeðlileg áhrif á útkomu mála.
Fyrir tveimur árum skrifaði ég manneskju tölvupóst, sjá mynd. Daginn eftir hringdi í mig lögmaðurinn sem ég vísaði í og hótaði mér málsókn vegna ærumeiðinga út af þessu tveggja manna tali. Ég vissi að ég skuldaði honum ekki neitt og neitaði að segja honum það sem hann vildi vita. Hann gargaði [ekki ofmælt] á mig að ég skyldi hringja í hann daginn eftir og segja honum það sem hann vildi vita. Ég vissi rétt minn en almáttugur, hvað ég fékk mikinn hjartslátt. Ég hringdi ekki til baka og hef sem betur aldrei framar fengið upphringingu frá honum.
Ég og þessi lögfræðingur vorum aldrei vinir en þessi manneskja sem fékk póstinn frá mér áframsendi póstinn til lögfræðingsins en svaraði mér aldrei. Ég held að viðkomandi hafi verið heilaþvegin/n af vitsmunum og framkomu lögmannsins.
Ég treysti ekki lögmönnum fyrir það eitt að vera lögmenn. Og af því að þekki fjöldann allan af lögmönnum ætla ég að segja hið sjálfsagða: Margir lögmenn, kannski langflestir, eru gott fólk sem vandar sig í því sem það gerir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. febrúar 2022
Styrkir og arðgreiðslur
Ég á smáaur í verðbréfum. Safnið er í Stefni - Samvali hs. Ég er búin að eiga þetta lengi og hef séð upphæðina fara upp og niður. Sum árin hafa verið í mínus. Þegar maður fjárfestir í áhættu getur maður átt von á góðum gróða eða tapi, í því felst áhættan.
En ekki í augum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins:
Halldór Benjamín segir ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki greiði út arð þrátt fyrir að hafa þegið ríkisstyrki vegna heimsfaraldurs Covid-19.
Segir. Ekkert. Óeðlilegt.
Ríkt fólk getur ekki gert endalausa kröfu um aukið ríkidæmi. Fólk á ekki að setja í áhætturekstur peninga sem eiga að duga fyrir eðlilegri framfærslu. Áhættufé getur tapast - en tapast ekki hjá þeim sem vilja einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið og fá að ráða.
Segin saga. Gömul saga. Margendurtekin saga. Óþolandi í alla staði.
Tek fram til öryggis, vegna riddara gróðapunganna sem stundum villast hingað inn, að ég öfunda ekki framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins af gróðastöðu sinni. Ég hef hins vegar séð færslur hjá honum á Twitter og þær eru oft meinfyndnar. Hann mætti nota kímnigáfuna oftar í viðtölum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. febrúar 2022
Skatturinn, 3. þáttur
Ég fékk tiltal frá Skattinum af því að ég lagði saman tvo og tvo og fékk út þrjá. Skussaháttur hjá mér en óverjandi að Skatturinn skyldi ekki koma auga á svona augljósa villu fyrr en hálfu ári síðar. Og nú er hann búinn að taka sirka 20 mannklukkutíma, hálfa vinnuviku, í að senda mér bréf eftir bréf frá Vestmannaeyjum með tiltali á mörgum blaðsíðum um augljósa villu - en núna síðast án þess að láta þess getið í öllu orða- og talnafarganinu hvar ætti að leggja inn og hver gjalddaginn væri. Það er sko samt búið að leggja á mig aukaálögur og skussaháttarvexti.
Ég eyddi auðvitað einhverjum klukkutímum í að ráða gátuna - takk, Skattur! - og nú er ég að fara að borga skuldina til að fá ekki vöndinn á nakið handarbakið.
Ég hef aldrei þurft að eiga við Tryggingastofnun eða Útlendingastofnun en hef heyrt slæma hluti um þær stofnanir. Af hverju er ekki vilji hjá þjónustustofnunum til að vera skilvirkar og með snefil af þjónustulund? Ég fullyrði að það er EKKERT MÁL að vinna vinnuna sína. Það er ekki endilega við frontinn að sakast, kannski er vilji hjá yfirstjórn til að sýna stífni og eyðslusemi því að í mínu tilfelli hefði verið hægt að útkljá málið með einu símtali.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)