Samsæriskenning

Ég hlustaði á viðtal við Pál Vilhjálmsson á Bylgjunni í morgun. Ég sé að það er bara rúmar 16 mínútur en mér leið eins og það væri langtum lengra. Ég hlustaði drjúga stund á leið út úr húsi og svo alla leið á áfangastað.

Hvað sagði framhaldsskólakennarinn í viðtalinu? Jú, hann hafði áhyggjur af því að skipstjóra hefði verið byrlað eitur þannig að hann missti meðvitund, hefði verið fluttur á spítala þar sem starfsmenn RÚV hefðu stolið af honum símanum, farið með hann upp í Efstaleiti, stolið af honum gögnum, skilað símanum, sagt svo upp störfum í snatri, ráðið sig til annarra fjölmiðla og lekið gögnum af símanum til þeirra fjölmiðla. Meðal lekinna gagna voru upplýsingar um skrímsladeild Samherja sem á að vera innanhússgrín skipstjórans og lögfræðings Samherja.

Ég er ekki fjölmiðill sem fer endilega í mikla rannsóknarvinnu heldur bloggmiðill sem skrifa stundum eftir minni. Þið sem lákuð hingað inn fyrirgefið mér vonandi þótt ég skauti í fimm setningum yfir 16,5 mínútur af einræðu kennarans enda vísa ég á frumheimildina í fyrstu línu. Áhugasamir sem misstu af geta hlustað í tækjunum sínum.

Og af því að ég er alveg víðáttukærulaus bloggari ætla ég að segja að mér finnst metnaðarlítið af kennaranum sem hittir margar ungar stúlkur á hverjum degi í vinnunni að hafa ekki sjáanlegar áhyggjur af því að ungu nemendunum hans hafi verið byrluð ólyfjan úti á meðal fólks.

Ég er á móti því að eitrað sé fyrir fólki en atburðarásin sem ég dró saman í nokkrar línur er svo ótrúverðug að ég get að svo stöddu sáralítið gefið fyrir baráttu Páls fyrir réttlæti og sanngirni. Ef ég hefði ekki eingöngu heyrt kennarann verja vondan málstað hefði ég kannski lagt betur við hlustir. Og skildi ég ekki rétt að hann liti svo á að út af þessu væri lögreglustjórinn á Akureyri, áður lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem gaf lítið fyrir umræðu um nauðganir á þjóðhátíð, að kalla blaðamenn í skýrslutökur?

Og gaf hann ekki líka í skyn að starfsfólk á fréttastofu RÚV væri nú farið í stórum stíl út af alls konar lekum?

Ég vil endilega vita hið sanna og mun fylgjast með framvindu allra þessara mála en mér finnst samsæriskenningin um að Þorsteinn Már sé varnarlaus kettlingur ekki trúleg.


Guggan verður áfram gul ...

Mér líður eins og Verbúðin haldi áfram með tíðindum dagsins

Af hverju er ekki búið að breyta lögum um stjórn fiskveiða?

Af hverju erum við ekki komin með nýja stjórnarskrá?

Er orkan komin í einkaeigu? Hvað með jöklana? 

Ég hef það sjálf gott en við gætum öll lifað í vellystingum praktuglega og þyrftum ekki að vera með undirmannað heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Við gætum haft boðlega vegi alls staðar, göng eftir þörfum og 30 stunda vinnuviku ef við skiptum aðeins jafnar.

En Guggan skipti litum.


Gróði bankanna

Bankarnir hreykja sér af góðum hagnaði og arðgreiðslum. Fjölmiðill spyr: Getið þið ekki látið eitthvað af hagnaðinum nýtast kúnnunum ykkar, viðskiptavinunum sem borga háa útlánsvexti en fá lága innlánsvexti?

Bankastjóri: Við erum í samkeppni alla daga.

Fréttamaður: ...

Bloggari: Það er bara engin lógík í því að vextir á sparifé séu í kringum 1% en vextir á skuldum allt að 14%, kannski enn hærri. Ég hef ekki nennt og nenni ekki heldur núna að reikna út vaxtamuninn í prósentum, allt læst fólk sér að hann er fáránlegur.


Fólkið í kirkjugarðinum

Dreptu mig ekki, hvað Rás 1 er að endurspila skemmtilega þáttaröð seinni partinn á laugardögum. Flest munum við gleymast þegar við verðum horfin yfir móðuna miklu þótt við verðum laufblöð á einhverjum ættartrjám og skiljum jafnvel eftir okkur fingraför á internetinu sem munu varðveitast sem gjálfur í hafi. En Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir spæjaði um legsteina í Hólavallakirkjugarði og las sér til um suma hina látnu og gröfnu. Afraksturinn var spilaður á Rás 1 í fyrrasumar en ég heyrði fyrst einn þátt um daginn fyrir tilviljun. 

Og í gær var þáttur um skáldin Jóhann Gunnar Sigurðsson og Sigurð Breiðfjörð sem ég las um báða í íslenskunámi mínu á síðustu öld. Hér bætir Þorgerður óskaplega miklu við æviferilinn hjá þeim báðum og gerir það svo vel að maður næstum hjólar framhjá viðkomustaðnum eða gleymir að maður sé að skúra.

Jóhann varð 24 ára en Sigurður 48 en samt komu þeir miklu í verk ... já, eins og við öll þótt við yrkjum ekki ódauðleg harmkvæði eða verðum dæmd til 20 vandarhagga fyrir tvíkvæni ...  

 

Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.
Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.

Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,
sumar dánar, en sumar feigar.

                                    JGS

Ástin hefur hýrar brár
en hendur sundurleitar,
ein er mjúk en önnur sár,
en þó báðar heitar.

                                     SB

 


Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann

Ég veit ekkert um SÁÁ, ég þurfti meira að segja að fletta því upp núna til að sjá hvar þau væru til húsa. Ég trúi að samtökin hafi hjálpað mörgum að brjótast út úr vítahring og verið lífsbjargandi, eins og það var orðað í Vikulokunum í gærmorgun.

En ég á alkóhólskemmdan bróður sem hefur verið í einhverjum samtökum, AA og líklega víðar. Einhvern tímann fyrir mitt minni var ég með í bíl að keyra hann á Vog. Hann drekkur ekki lengur áfengi en hann er núna narsissisti og búinn að ræna, rupla og ljúga sig frá okkur systkinunum. Kannski var hann alltaf narsissisti en kannski var sjálfhverfan alin upp í honum í einhverjum samtökum. Ég þekki sjálf enga jafn sjálfselska manneskju og hann og ég þekki engan annan vel sem hefur verið í sjálfshjálp í 40 ár. Mín mistök í 30 ár voru að halda að hægt væri að hjálpa honum til að verða almennileg manneskja. Hann hefur bara engan áhuga á því, hann vill bara mergsjúga og blóðmjólka fólkið í kringum sig. Allir meintir vinir hans síðustu þrjú, fjögur árin eru fólk sem þekkir hann ekki í raun vegna þess að eins og siðblindra er háttur getur hann komið vel fyrir í skamma stund.

En hann drekkur ekki lengur áfengi og hefur lengi haldið sig frá því. Er þá áfengisvarnastarfið ekki búið að standa sig vel?

Hann var drykkfelldur á æviskeiðinu 11-24 ára og það er tímabil sem ég man ekki gjörla eftir nema svona skítsæmilega síðustu fimm þeirra. Hann er sem sagt búinn að vera þurr alki megnið af fullorðinsævi minni, búinn með sporin, hefur sótt fundi ... en ekki bætt sig. Mesti harmurinn er að mamma og pabbi voru alla tíð á nálum yfir að hann félli og hlóðu þess vegna undir hann. 

Kannski eru SÁÁ lífsbjargandi samtök en þau björguðu mér ekki frá því að blindast af fjölskyldukærleik gagnvart snarveikum bróður. Engu sé ég meira eftir í lífinu en að hafa trúað lygunum úr honum. Ég réð bara ekki við ástandið og vissi ekki að ég væri hjálparþurfi. Nú er hann bara ekki lengur í lífi okkar systkina og það er blessun svo langt sem það nær.


Miskunnarlausi Samverjinn

Vá, hvað spennumyndin sem RÚV sýndi fyrir hálfum mánuði var spennandi. Mér fannst hún vel leikin og það af leikurum sem ég þekki ekki sem er sérstakur bónus. Náunginn sem myndin hnitast um er forhertur glæpon en um leið með undursamlega bjarta og djarfa ásjónu sem fólk hlýtur að falla fyrir þangað til ysta byrðið flagnar af.

Já, hann er auðvitað siðblindur. Sumt var vissulega ótrúverðugt en á hinn bóginn brást fólk við eins og maður myndi reikna með hjá sjálfum sér. Hver fer ofan í myrkvaðan kjallara í húsi sem hann þekkir ekki og kveikir ekki ljósið? Hvaða smákrimmi fer með mikilvægar upplýsingar til lögreglunnar og reiknar með að sér sé skilyrðislaust trúað?

Nei, það gekk vel upp í myndinni.

Hárin rísa og ef þið eruð fyrir þess háttar smáspennu í einn og hálfan klukkutíma eru enn tveir og hálfur mánuður til stefnu.


Skatturinn: Framhaldssaga

Ég hef sagst ekki skilja stofnunina Skattinn. Ég vil ekki skulda, ég vil ekki svíkja undan skatti en ég vil að hlutir séu skýrir og verkferlar einfaldir. Ég hugsa að ég eigi mörg skoðanasystkini í þessu.

Í vikunni fékk ég sem sagt langt, þurrt og lagakrækjulegt bréf um að ég hefði vantalið fram verktakatekjur á árinu 2020. Ég skulda skatt af því að ég setti í samtölureit ranga tölu en allar tölurnar að öðru leyti voru réttar. Viðskiptagreindu fólki ætti ekki að verða skotaskuld úr því að leiðrétta það án þess að prenta út langhunda í Vestmannaeyjum og senda fótgangandi í Hlíðarnar, næstu götu við Skattinn á Laugaveginum.

En hvað gerðist í dag?! Ég fékk hnipp frá island.is og þar beið mín þetta tilskrif:

Frá Skattinum 26. janúar 2022

Engar frekari skýringar eru á þessum útborgaða virðisaukaskatti. Ég er ekki í virðisaukaskattsskyldum rekstri, hef hvorki rukkað né greitt virðisaukaskatt. Og vitið þið við hverju ég býst næst? Að eftir ár fái ég harðort bréf frá Skattinum um að ég skuldi 19.794 kr.

Viðbót: Í svefni rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á bíl 16. nóvember 2021. Í skýringum með innborguninni er ekkert sem bendir á það. Hins vegar er ekki hægt annað en að mæla með Allir vinna - þá fær maður ÓVÆNTAN glaðning tveimur mánuðum seinna.


Gervigreind

Ég er mjög hrifin af gervigreindarhugmyndinni og hef góða reynslu af hugbúnaði sem breytir tali í texta. Svo erum við með heimabankana, stafrænu myndavélarnar, sjálfvirka opnara, afgreiðslukassa í búðum og bókasöfnum - og þvottavélar. Og þá upphefst argið hjá mér. Ég á nýja AEG-þvottavél sem tæmdi sig ekki í síðasta þvotti. Ég tók eftir að affallsleiðslan (veit ekkert hvað hún er kölluð) hafði losnað þannig að ég festi hana aftur en þá var andskotinn þegar orðinn laus.

Og nú er ég með blautan þvott í þvottavélinni sem ég get hvorki sett aftur af stað né opnað tromluna til að taka þvottinn út og bara vinda, a.m.k. þangað til ég finn út úr rest.

En uppþvottavélin sem er a.m.k. 10 ára, sennilega 20 ára, malar eins og nýstrokinn köttur. 


Getuleysi Skattsins

Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu.

Ég taldi fram of litlar verktakatekjur fyrir árið 2020. Ég var hluta ársins í námi og með svolitlar verktakatekjur en ekki fastar launagreiðslur. Svo taldi ég fram og taldi mig gera það allt rétt.

8. desember sl. fékk ég póst frá Skattinum. Hann var dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 30. nóvember sl. Þar var mér gefið að sök að hafa talið of lítið fram og vísað í upplýsingar sem ég gaf sjálf upp í skattskýrslunni. Í einn reit hafði ég skrifað vitlausa samtölu. Ég er ekki vitlaus, ekki einu sinni í tölum, en framtal er nánast það leiðinlegasta sem ég geri þannig að ég kastaði aðeins höndunum til þessa smáræðis.

Ég gengst strax við mistökunum. Nokkrir tölvupóstar fara á milli mín og starfsmanns Skattsins. 7. janúar sl. sendi ég nýja rekstrarskýrslu. Núna áðan, 24. janúar, tek ég úr bréfalúgunni gluggapóst frá Skattinum þar sem mér er gert að greiða meiri skatt, samt ekki nein krónutala nefnd. Sá póstur er dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 17. janúar. Undir skrifar starfsmaður staðsettur á Laugaveginum. Mér er gefinn kostur á að andmæla þessari viðbót sem ég var búin að gangast við að skulda.

Ég skil ekki þessi vinnubrögð. Ég skil ekki af hverju ég fæ bréfpóst sem silast um hverfin og ég skil ekki af hverju ég var ekki bara spurð hvort ég gæti hafa gert mistök í framtalinu án þess að vísa holt og bolt í lagagreinar.

Í svarinu mínu 7. janúar bað ég um að fá að greiða skuldina í einu lagi. Ég spurði líka hvort hægt yrði að rukka framtíðarálögur vegna verktakatekna í einni greiðslu en því var ekki svarað. Það passar líklega ekki í formið.

Ég hef einu sinni átt í útistöðum við Skattinn. Hann gerði mistök og gekkst við því. Það tók ár og daga að fá úr því skorið.

Ég mun héðan í frá aldrei vorkenna Skattinum þegar hann hefur mikið að gera. Hann ber alla ábyrgð á því sjálfur.

Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu, eins og ég hóf þennan pistil á að skrifa. Kerfið er svo meinlegt að ég trúi því til að pönkast á þeim sem gagnrýna eða andmæla. En ég hef engan áhuga á að svíkja undan skatti, ég hef bara áhuga á að hafa kerfið skilvirkara en það er.


Höft og bönn

Ég er þæg og löghlýðin, fer meira að segja eftir lögum sem ég er ósammála. Lögin eru mannanna verk og Gummi bróðir er t.d. varinn af fyrningarreglu laganna þótt samband okkar hafi ekki verið viðskiptalegs eðlis heldur drifið áfram af fjölskyldukærleik sem er nú allur fyrir borð borinn.

Nóg um þau hryðjuverk, ég er alltént laus við þann ódám úr lífi mínu.

Ég er að hugsa um veiruna skæðu sem er búin að leggja (tímabundið) að velli ekki færri en níu leikmenn íslenska liðsins á hinu stórkostlega handboltamóti í Ungverjalandi. Það er auðvitað bara stórkostlegt fyrir hvað það er skemmtilegt en forkastanlegt fyrir hvað mótshaldarar standa illa að því. 

En leikmennirnir sem dúsa nú í einangrun með félagsskap af veirunni eru ekki veikari en hinn spræki lýsandi Einar Örn Jónsson sem lýsti af sömu einurð og allajafna, fékk sér bara aðeins meira heitt vatn og hunang.

Ef menn mega hópast saman í eina höll í einu landi og fyrirfram er vitað að múgur manna mun handfjatla sama boltann ættu þeir að fá að spila nema þeir veikist og treysti sér ekki í leikinn. Maður hefur nú séð þá nokkra haltra á fjórðungi fótar en þá eru þeir spreyjaðir og látnir endast út leikinn.

Nú finnst mér nóg komið - en mun sjálf auðvitað fara áfram að lögum og reglugerðum. Hef bara verið svívirðilega heppin með sjálfa mig og mitt athafnalíf gjörvöll tvö árin.


Auglýsing vefmiðils?

Ég er fyrir löngu búin að fela á Facebook allar meintar fréttafærslur frá meintum vefmiðli sem brotist var inn á skrifstofuna hjá í gær. Ástæðan? Ómerkilegur fréttaflutningur í bága við vilja fréttaefnis, ekki síst æsifréttir af slysum og endursögn úr minningargreinum.

Ég tek bara undir tístið sem ég las áðan en passa sjálf að skrifa ekkert upphátt og fullyrða ekki heldur neitt. 


Klíníkin og Orkuhúsið

Ég er búin að vera að bíða eftir þeirri spurningu frá fjölmiðlamönnum hvort heilbrigðisstarfsfólk í einkageiranum sem er núna lánað Landspítalanum fái ríkislaun meðan það er í láni. Segjum að hjúkrunarfræðingur í liðskiptaaðgerðum Klíníkurinnar fengi 1.000.000 kr. á mánuði (algjört gisk) en sambærilegur hjúkrunarfræðingur fengi 600.000 hjá Landspítalanum - heldur sá fyrri milljóninni og borgar þá Klíníkin mismuninn?

Á Twitter sá ég loks örla á þessari spurningu.

Ef 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðingurinn heldur sínum launum, hvað finnst þá 600.000 kr. hjúkrunarfræðingnum sem þarf jafnvel að skóla 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðinginn og kenna á búnaðinn?

Er boð Klíníkurinnar eins göfugt og húrrahrópin gefa okkur tilefni til að halda?

Með þessum vangaveltum tek ég auðvitað sénsinn að fólk haldi að ég vanþakki boð einkageirans en ég held að atgervisflóttinn á þjóðarspítalanum hangi saman við laun og vinnuálag, já, og kannski ekki nógu góða stjórn spítalans.

Ókei, þetta eru bara vangaveltur, ég þekki ekkert til á LSH ... en einmitt þess vegna væri gott að fá spurningar frá fjölmiðlunum og svör frá þeim sem hafa þau á takteinum.


Þriðja æviskeiðið

Í minni ætt er langlífi og ég reikna með að verða háöldruð og heilsuhraust. Ég veit að það er ekki á vísan að róa en ég vona að ég verði fjörgömul og, já, heilsuhraust. Eftirlaunaaldur hefst á bilinu 67-70 ára hjá launþegum og eftir það getur maður átt 30 góð ár. En ég ætla ekki að ögra æðri máttarvöldum heldur segja í þriðja sinn, í fullri auðmýkt, að ég vonast til þess. Ég geri auðvitað sitthvað til að auka líkurnar, svo sem að hreyfa mig og umgangast gott og skemmtilegt fólk. 

Ein fyrirmynd sem er áhugavert að líta til er Stella í Heydal, nú áttræð og búin að reka ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp síðan hún hóf töku eftirlauna.

Og það er gaman að segja frá því að við í gönguhópnum Veseni og vergangi ætlum um hvítasunnuna að gista í Heydal og ganga yfir Glámu.

Ég sendi ykkur póstkort ...


Handboltalandslið karla

Sú var tíðin að ég gat romsað upp úr mér nöfnum landsliðsmanna (karla) í handbolta og jafnvel fótbolta. Í gær horfði ég á spennandi leik íslenska liðsins gegn því portúgalska en nú þekkti ég bara Björgvin Pál og Aron í sjón, þekkti nafnið á Gísla Þorgeiri og lagði Sigvalda og Viktor Gísla á minnið.

Ég veit að ég er ekki ein um að upplifa kynslóðaskiptin.

Í næstu leikjum ætla ég að læra fleiri nöfn, númer og andlit. Það er nú einu sinni mitt sérsvið, a.m.k. í fjallgöngum með mörgum ókunnugum.

Áhorfið framundan kemur í stað allra matarboðanna sem ég ætlaði að halda í janúar.


festi, um festi, frá festi, til festar

Til Festi? Nei, til Festar.


Je suis atvinnulíf

Ég sé fólk skrifa að atvinnulífið megi fokka sér þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa áhyggjur af efnahagslífinu af því að margir séu frá vinnu vegna veikinda, einangrunar eða sóttkvíar.

Ég skil ekki svoleiðis skoðanir. Ég segist „vera atvinnulíf“ en samt vinn ég hjá hinu opinbera. Ég hef hins vegar verið verslunarmaður og leiðsögumaður og svo verktaki við textarýni. En þótt spítali sé rekinn af ríkinu er hann atvinnulíf sem þarf að halda gangandi. Og starfsfólk þar þarf að komast í búðir, með börn á leikskóla, um ruddar eða saltaðar götur. Og ef atvinnulífið „má fokka sér“ hlýtur allt að fara í hægagang og enda síðan með óbilandi kyrrstöðu.

Þess vegna er ég #teamatvinnulíf og skil ekki þá sem sjá og upplifa atvinnulíf og veikindadaga sem svart og hvítt.

Við hljótum að vilja finna milliveg og þræða hann svo.


#égtrúi

Ég hef áður sagt að ég geti ekki sagt setninguna: Ég trúi þolendum.

Ég trúi samt að þolendur séu til, að þeir séu margir, þeir hafi ekki kært, þeir hafi bælt niður alls kyns tilfinningar, fundist þeir standa einir í baráttunni og ég er algjörlega sannfærð um að margir þolendur hafi átt erfitt líf og svo styttra líf en til stóð.

Ég stend með þolendum. Það er setning sem ég get sagt og staðið með.

Ég er líka sannfærð um að næstum engin manneskja lýgur upp einhverri sögu um hegðun valdamikils fólks, fylgir henni eftir og stendur með henni alla leið. Ég trúi að erfiðleikarnir við að ljúga þvílíku upp trompi einhverja meinta þórðargleði.

Ég trúi að við séum á tímamótum núna. Breytingar verða ekki án aðgerða og þær eru ekki sársaukalausar. Það er undir okkur sjálfum komið, öllum á hliðarlínunni líka, að gæta þess að byltingin sem við höfum horft upp á í vikunni koðni ekki niður. Fjölmiðlar spila stóra rullu því að þeir eru með áhorf, lestur og hlustun en við sem höfum sloppið betur í gegnum lífið berum líka ábyrgð á samborgurum okkar.

Ég á glettilega erfitt með að skrifa þetta á mína lítt lesnu og hljóðlátu bloggsíðu vegna þess að völdin níðast á fólki með skoðanir sem eru líklegar til að breyta kerfinu og afvalda valdamesta fólkið. Og ég vil ekki verða útsett.

Almáttugur, hvað það hlýtur að vera erfitt fyrir þolendurna að stíga fram og skila skömminni. Ég stend með þolendum og kannski á ég eftir að treysta mér seinna til að segja það hærra.

Sem ég er að fara að birta þetta rifjast samt upp fyrir mér árið 2007 þegar ég leyfði mér hér að hafa efasemdir um bankavöldin sem hreyktu sér fyrir takmarkalausa snilld sína. Ég er hófsöm í orðavali en samt birtust einhverjir Jóar og Stjánar og Stebbar í kommentakerfinu og báru á mig öfund. Þeir komu ekki fram undir nafni en fannst samt eðlilegt að væna mig, sem þeir vissu engin deili á, um að öfunda dúddana sem voru þá mest áberandi.


Bara ef það kemst upp ...

Eins og á við um marga aðra er mér brugðið við að lesa um atburð sem varð í heitum potti fyrir rúmu ári. Ég hef, út frá málvitund, ekki getað sagt setninguna: Ég trúi þolendum, en ég get sagt að ég trúi frásögn Vítalíu. Ég trúi að hún sé þolandi. Þeir fimm karlar sem hafa verið orðaðir við brot gegn henni hafa líka allir gengist við því eða þannig skil ég það þegar þeir víkja allir úr störfum og stjórnum.

Ég óttast samt að þeir geri eins og norsku Exit-gaurarnir, noti síðan peninga sína og völd til að snúa sig út úr þessu, en mikið innilega vona ég að þetta marki straumhvörf í baráttu gegn ofbeldi. 

Mannskepnan er margs konar og ég er ekki svo bjartsýn að halda að glæpir verði upprættir, bara aldrei nokkurn tímann, ekki frekar en að allir verði siðlegir og kurteisir einstaklingar. En af framhaldi þessa máls ræðst hvernig þolendum mun reiða af til lengri tíma. Og hvort þeim fækki.

Enginn þekkir annan til fulls en ég fullyrði að ég þekki ógrynni geðugra karla sem koma vel fram við fólk. Enginn í baráttuhug heldur öðru fram. Baráttan gegn ofbeldi snýst bara um baráttu gegn ofbeldi og ofbeldismönnum.

Það sem ég hnýt um í umræðunni eru orð stjórnarformanns Íseyjar sem höfð voru eftir henni á Vísi um einn af gerendunum: 

Við vissum af þessu strax í haust þegar þetta kom á samfélagsmiðlum og við tókum það mjög alvarlega. Þá var gert samkomulag við hann að ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt þá myndi hann óska eftir leyfi.

Í kvöldfréttum RÚV sagði hún að þau hefðu ekki getað brugðist við orðrómi. Nei? En gerandinn, er hann bara sekur ef það kemst upp um hann? Braut hann ekki á henni ef hún hefði veigrað sér við að tala? Og hefði hann þá mátt halda óáreittur áfram hjá Íseyju þótt hann hefði gert nákvæmlega það sem hún ber á hann og hann veit að hann gerði henni?

Það er nefnilega þessi setning: Saklaus uns sekt er sönnuð - hún er svolítið að missa slagkraftinn.


Áramótaskaupið 2021

Það væri eiginlega fljótlegra fyrir mig að telja upp atriðin sem mér þóttu ekki góð en að tíunda þau sem mér þóttu vel heppnuð í áramótaskaupinu. Ég hefði að vísu viljað sjá fleiri pólitísk atriði og aðeins færri um covid en ég held að ég sé í minni hluta þannig að ég geri mig ánægða með hitt af því að atriðin voru fín.

Þau sem hittu allra mest í mark hjá mér voru því pólitísku atriðin: Lilja Alfreðs, Birgir Þórarins, Sigmundur Davíð og Inga Sæland. Freyr Eyjólfsson var óborganlegur Jakob Frímann á hljóðfærinu. Ég hef sérstakt dálæti á Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Gunnari Hanssyni. Tónlistaratriðin í upphafi og lokin þóttu mér vel heppnuð. Líka endurgerð á lagi Gagnamagnsins (Halldór Gylfason og Helga Braga Jónsdóttir).

Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að mér finnst skaupið betur heppnað ef leikarar eru fleiri, og þá beitur sniðnir að hlutverkunum hverju sinni, en ef þeir eru færri og þurfa þá að bregða sér í hvers manns líki. Hér eru skjáskot af nokkrum góðum atriðum.

Skaup Arnmundur

Kvíðapróf eða covid-próf?

Skaup Villi Neto

Einföldu ráðin þegar maður fer til útlanda.

Kristín Þóra Lilja Alfreðs

Kristín Þóra líkari Lilju en Lilja sjálf. Og svo kom geggjuð sena úr Brennu-Njálssögu.

Njála

Ég þekki ekki þessa fínu leikkonu.

Gunnar Hansson

Lífsýnin send sjóleiðis til Danmark - værsågod og mange tak. 

Náttúruhlaup

Ég þekki að vísu ekki svona geðvonda náttúruhlaupara en atriðið var gott.

Squid Game

Squid Game - við horfum alltaf með kóreska talinu, haha. Veit heldur ekki hvaða fína leikkona þetta er.

Flokksgæðingur

Ekki hægt annað en að hlæja að flokksgæðingnum.

Skaup SDG

Enginn smálistgjörningur.

1848

„En fyrirgefið, er ekki árið 1848?“

Freyr Eyjólfsson - Jakob Frímann

Þið þekkið hann Jakob!

Birgir Þórarinsson

Þið þekkið hann Birgi.

Þröstur Leó

Only Fans!

ÆÐI

ÆÐI. Ég entist ekki til að horfa á heilan þátt af Æði í haust en annars er ég mikill aðdáandi þeirra, sem sagt í viðtölum og leiknum auglýsingum.

Og lokalagið var líka æði:

Lokalag

Það er að æra óstöðugan að birta svona mörg skjáskot og mörg aðdáunarupphróp en þýðir samt ekki að mörg önnur atriði hafi ekki verið fín. Skaupið var mjög gott eins og mér finnst yfirleitt.


Drykkja eftir Thomas Vinterberg

Ég á ekki orð til að lýsa hrifningu minni á Drykkju eftir Thomas Vinterberg sem var á RÚV í gærkvöldi. Fjórir reffilegir karlar, þrír á sextugsaldri með engin börn eða uppkomin og einn um fertugt með ung börn, kennarar í framhaldsskóla, fá þá dillu í höfuðið að gera tilraun sem felur í sér að þeir eru með 0,5 prómill áfengis í líkamanum alla virka daga til kl. 20 á kvöldin. Þeir kaupa sér áfengismæli til að fylgjast með og skrásetja árangurinn á sérstökum fundum. Já, nú hætti ég beinni lýsingu því að þetta hljómar svo óáhugavert en almáttugur minn, myndin var svo skemmtileg, svo dönsk og svo stútfull af tilfinningum að hún ætti að vera skylduáhorf.

Rétt áður las ég bók Mána Péturssonar, Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi, sem ég mæli alveg með að menn lesi en helst fleiri saman og ræði kaflana. Ég er mikill aðdáandi Mána í útvarpinu fyrir að vera skýr og skorinorður, og ég held að hann sé eins hreinn og beinn og hann segist vera, en hans beittu og hnitmiðuðu kaflar eru einföldun eins og hann veit sjálfur. Stundum rekast heilræðin á, sbr. það að maður á að segja hug sinn allan og vera heiðarlegur en líka hlusta meira en tala. Ókei, ég sé að þetta virðist ekki rekast á en lesið bara bókina og þið sjáið það. Málið er bara að Máni ætlar sér ekki að bjarga öllum (karl)heiminum á 109 blaðsíðum, hann leggur fyrst og fremst til að við komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Og ég tek hatt minn ofan fyrir honum og hans miklu sjálfsvinnu í gegnum tíðina.

Aftur að myndinni. Ef einhver lesandi skyldi ekki horfa á hana verð ég að segja að tilraun félaganna brotlendir og þeir sjá að sér. Margt annað gerist sem gerir áhorfið þess virði þótt ég sé búin að ljóstra upp um það að þessir fjórir herrar gátu ekki haldið sér mjúkum allan vinnudaginn. 

Meðan ég horfði á myndina minntist ég manns sem dó fyrir allmörgum árum á besta aldri. Ég þekkti hann sem unglingur og þekkti hann ekki vel en hélt að ég hefði aldrei séð hann undir áhrifum. Á daginn kom svo einmitt að ég hafði aldrei séð hann edrú, og fæstir.

Áfengisneysla í óhófi er fokkings skaðvaldur, fólk getur auðveldlega misst stjórn á hófdrykkju og flestar fjölskyldur, kannski allar, þekkja einhvern sem er í vandræðum. Þess vegna lít ég meðfram öðru á þessa mynd sem innlegg í forvarnir.

En aðallega var hún svo skemmtileg!  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband