Ekki sprengja í óhófi

Það að kveikja ekki í flugeldum er ekkert mótlæti fyrir mig þar sem ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á sprengingum. Ég get því trútt um talað þegar ég segi: Ekki sprengja.

En ég sá pistil á Facebook með góðum rökum um hvers vegna við ættum ekki að menga umhverfið og hræða dýr. Til vara vil ég segja: Ekki sprengja í tíma og ótíma. Takið mark á því þegar fólk varar við slæmum áhrifum á dýr, alls konar dýr. Takið mark á því þegar fólk talar um að börn hrökkvi upp af værum svefni. Takið mark á því þegar fólk talar um hvernig flugeldar menga umhverfið og stytta lífaldur jarðarinnar sem við búum saman á.

Ég sá aðra færslu í gær þar sem karl bað aðra karla á Facebook-síðunni Pabbatips að sleppa flugeldum en styrkja björgunarsveitirnar á aðra vegu ef hvatinn væri að láta gott af sér leiða. Pabbarnir sem höfðu hæst í svörum strengdu þess heit að kaupa tvöfaldan skammt, bæta við köku, láta bílinn vera í gangi á meðan og keyra um á nagladekkjum.

Ókei, ég varð mjög hissa á því að menn segi svona hluti og það undir nafni en sé þá að mótspyrnan er enn talsverð. Það er ekki eins og menn séu bara svona áhugasamir um að sjá himininn ljómast upp - sem ég skil að geti verið gaman - þeir eru líka forhertir og algjörlega blindir á þá glötun sem þeir flýta fyrir. Kannski eyðist jörðin sama hvað við reynum en ég er hissa á að sjá menn - sem líklega eiga börn ef þeir eru á Pabbatips - sem er slétt sama um hvernig börnum þeirra reiðir af á jörðinni.

En ég segi aftur: Vinsamlegast hugsið um afleiðingarnar af skammtímagleði. Skjótum fáum flugeldum og njótum þeirra mikið og vel á meðan. Virðum ferðafrelsi dýra. Virðum svefnró barna. Virðum jörðina okkar og framtíðina. 

Gleðilegt nýtt ár. kiss


My Dark Vanessa

Ég er núna búin með þessa umtöluðu bók. Ég ætla að punkta hjá mér hugleiðingar mínar en geri jafnvel ráð fyrir að skipta eitthvað um skoðun.

Vanessa er sögumaðurinn og segir frá tveimur tímabilum, 2000-2007 og svo 2017. Það er auðvelt að reikna út að hún á að vera fædd 1985, sem sagt jafn gömul höfundinum, Kate Elizabeth Russell (1984).

Sagan talar beint inn í uppgjör við kynferðisofbeldi karla gegn konum. Uppgjörinu er ekki lokið, hvorki í okkar raunverulegu veröld né hjá Vanessu sem er í miðju uppgjöri þegar bókinni lýkur, 400 blaðsíðna bók.

Það sem mér finnst best við bókina er að höfundur sýnir okkur en segir ekki, þ.e. útskýrir ekki öll heimskulegu viðbrögðin heldur leyfir lesendum að draga ályktanir, enda hefur höfundur orðið mikla skólun í ritlist. Bæði kennarinn og nemandinn eru helsjúk í kollunum sínum, að sumu leyti meðvituð um það en þá ekki nóg til að breyta um kúrs. 

Ég óttast mest að þeir sem þyrftu helst að lesa bókmenntir af þessu tagi geri það ekki.

En þá að vonbrigðum mínum. Ég las þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur sem er starfsmaður hinnar nýju bókaútgáfu Króníku. Útgáfan hafði greinilega snarar hendur með að ná í þýðingarréttinn - og rétt að taka ofan fyrir því - en þýðing er vandasamt verk og þarf - eins og ritun verksins - bæði rúman tíma og aðkomu fleira fólks. 

Ég hef séð handarbakavinnubrögð og ég geng ekki svo langt að segja þessa þýðingu svo slæma. En það er grátlegt að fá ekki vandaðan prófarkalestur í lokin á bók sem er viðbúið að verði svona mikið lesin. Ég nefni nokkur dæmi um óvandvirkni:

skipti hárinu í vanganum (frekar en í miðju) - ég finn að vísu eitt dæmi um svona orðalag, í Samtíðinni 1971

kaffi og krítarryks lyktinni - allnokkuð um að orð væru slitin svona í sundur en svo er skrifað einhver(s)staðar þannig að rökin sem ég var farin að tefla fram fyrir hönd þýðanda, að hún ætlaði að ná til þeirra sem ættu erfitt með lestur, féllu á annarri hverri blaðsíðu

týni af mér spjarirnar

tvær læstar dyr

kennileyti

Engar krak-kakinnar

Eins og þú manstu? - víða átakanlegur skortur á kommum en á móti voru þær víða til óþurftar

eitthvað sem hafði ollið

skyldi nákvæmlega hvað ég átti við

gengt húsinu

Þá eru ótalin skiptin sem óbein spurning endaði á spurningarmerki.

Ég hugsaði stundum: Já, þetta er önnur kynslóð, áherslurnar eru aðrar, kannski slítur einmitt þýðandi í sundur orð til að auðvelda sinni kynslóð lesturinn, en það gengur ekki upp. Víðast fylgir hún málstaðli þannig að ég get ekki túlkað frávikin, sem eru að meðaltali á hverri blaðsíðu, annað en villur og óvandaðan frágang. Vanur prófarkalesari hefði lesið bókina gaumgæfilega á einni viku og hún hefði þá mín vegna mátt kosta 200 kr. meira en hún er verðlögð á.

Auðvitað átta ég mig samt á að í 400 blaðsíðna bók er margt gott í þýðingunni, ég þyrfti bara að bera saman við frumtextann til að sjá hvar þýðandi er í essinu sínu.


Trúðurinn Aðalheiður og jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Hvenær er maður orðinn gamall? spurði kynnirinn Aðalheiður (Vala Kristín Eiríksdóttir) á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem voru sýndir á RÚV á aðfangadag. Svar hennar var að það væri þegar maður hætti að undrast það sem lífið byði manni upp á, hætti að sjá hið nýja og verða dolfallinn.

Ég var ekkert að fara að horfa á sjónvarpið eftir hádegi í fyrradag, kveikti bara á sjónvarpsfréttunum kl. 13 - en á eftir þeim kom þessi dásemd sem ég gat ekki slitið mig frá. Og ég er greinilega ekki orðin gömul!

Tónleikarnir voru frábærir, nóg fyrir bæði börn og fullorðna, en kynnirinn var svo sannarlega toppurinn á trénu, stjarnan sem skein skærast, límið sem hélt atburðinum í skorðum, sannur gleðigjafi - og stundum minnti hún mig á Línuna.


Takk fyrir visskiptin

Afsakið ef ég skemmi fyrir ykkur jólaauglýsingalesturinn á Bylgjunni. Ég hef ofgnótt af þolinmæði gagnvart auglýsingum og samgleðst fyrirtækjunum sem blómstra í desember. Ég hjóla á milli hverfa með útvarpið í eyrunum og læt mér lynda þótt aðeins sé eitt viðtal og eitt lag innan um hundruð auglýsinga. Áðan gekk þó þolinmæðin til þurrðar þegar auglýsingalesarinn þakkaði fyrir hönd fyrirtækja ítrekað fyrir visskiptin. 

Ég vil fá ð-ið mitt til baka!


Faraldur

Nei, annars, ég hef ekkert að segja um Covid. Samt langar mig að segja að ég hef svo djúpa samúð með þeim sem eru að reyna að halda starfsemi sinni á floti í því kvika ástandi sem ríkir núna. Við ætluðum 10 saman út að borða í hádeginu í dag en vegna hækkandi talna síðustu daga byrjaði að snjóa úr hópnum í gær og svo slógum við þetta af í morgun. Ég sendi veitingastaðnum upplýsingar og fékk svo hlýleg svör að ég mun drífa mig strax og fokkings faraldurinn leyfir.

Þetta bitnar ekkert á mér og mínu fjárhags- og heilsufarsöryggi þannig að ég get látið samúð mína óskipta til þeirra sem á þurfa að halda, já, og svo viðskipti um leið og færi gefst.


Gott fólk - góða fólkið

Ég er að lesa sex ára gamla bók, Gott fólk eftir Val Grettisson. Fyrst verð ég að segja, eins og Friðrika Benónýsdóttir í umfjöllun sinni, að hún hefur farið undarlega hljótt. Ég fékk ábendingu um bókina fyrir mánuði og nú er ég búin að spyrja urmul af vel lesnu og meðvituðu fólki hvort það kannist við hana. Nei, fæstir, og ekki heldur leikritið sem Þjóðleikhúsið setti upp 2017.

Að efni máls: Gott fólk fjallar um Sölva sem var í einhvers konar sambandi við Söru. Þau hættu saman og tveimur árum síðar eða svo koma tveir sameiginlegir vinir þeirra með bréf til hans þar sem hún sakar hann um ofbeldi í sinn garð og hvetur hann til að líta í eigin barm, axla ábyrgð á ofbeldinu og verða betri maður.

Sölvi er til þess að gera venjulegur maður. Hann lítur inn á við og rifjar upp skipti sem hann kom illa fram við Söru án þess að beita ofbeldi sem skildi eftir sig líkamleg ummerki. Hann lagði sum sé aldrei hendur á hana og nauðgaði henni aldrei.

Var hann bara leiðinlegur kærasti eða smættaði hann hana, lítillækkaði, kúgaði og gerði lítið úr? 

Um það er bókin. Lesandinn er í raun þátttakandi í ábyrgðarferlinu sem er hrundið af stað með fyrsta bréfinu. Mér finnst hann ekki augljós ofbeldismaður - og ég hef sannarlega skorað mína eigin meðvirkni í gegnum tíðina á hólm - en mér finnst hann samt augljóslega þurfa að breyta hegðun sinni.

Sölvi er blaðamaður, dálítið áberandi, og þegar krafan um ábyrgðarferlið kvisast út finnur hann á eigin skinni afleiðingarnar. Vinnuframlag hans verður illa séð, hann fær ekki afgreiðslu á barnum, vinir og kunningjar verða tvístígandi.

Ég er þakklát fyrir þessa hugvekju frá óvæntu sjónarhorni en sá sem bloggaði upphaflega um sína eigin reynslu af ábyrgðarkerfinu kann blaðamanninum/rithöfundinum Val litlar þakkir fyrir að gera sér mat úr hans reynslu miðað við það sem haft er eftir honum. Gæti hann skorað rithöfundinn á hólm með ábyrgðarbréfi eða er rithöfundurinn í fullum rétti til þess að laga sannar sögur að sinni hugarsmíð?


Ritstjórnir

Nú er ég búin að hámhorfa á Pressuna sem RÚV er með í sýningu. Þetta er bresk þáttaröð um ritstjórnir tveggja dagblaða sem bítast um bestu fréttirnar og bestu blaðamennina. Annað blaðið virðist hafa meiri metnað til að segja satt og rétt frá, eins og kveðið er á um í siðareglum blaðamanna, og hitt virðist hafa meiri metnað til að hafa áhrif á atburðarásina. Í lokaþættinum kristallast þessi munur enn frekar. Eina skemmdarverkið mitt hér er að ljóstra upp einu orði: Þjóðaröryggi.


Shutterstock

Um helgina sagði ég Shutterstock nokkrum sinnum í nálægð símans. Mér skilst að Shutterstock sé nokkurs konar myndaveita, ekki ósvipað og Flickr Creative Commons, þar sem maður getur sótt myndir án endurgjalds til að nota án hagnaðar. Ég er svo sem bara að gefa mér þetta út frá samhengi orðsins í textanum sem ég las. 

Rétt í þessu sá ég að ég hafði fengið í morgun auglýsingapóst (sjá mynd) frá þessu fyrirtæki. Hingað til hef ég tengt algóriþmann við samfélagsmiðla, eins og Facebook, en nú renna heldur betur á mig tvær grímur.

Shutterstock


Bankarnir

Mér finnst ég hafa heyrt eða lesið nýlega frétt um mikinn hagnað bankanna en þegar ég gúgla eru þær fréttir síðan fyrr í haust. Hins vegar er enginn vafi á því að bankarnir lepja ekki dauðann úr skel. Hvað veldur þessum ofsagróða? Vel rekin fyrirtæki?

Ég fékk þvottavélarviðgerðamann um daginn. Þegar hann var á förum spurði ég um reikning. Hann sagði að þau á skrifstofunni græjuðu hann. Alllöngu síðar, þremur vikum eða svo, barst hann í heimabankann og var þá 350 kr. hærri en gefið var upp á síðu fyrirtækisins. Munurinn fólst í seðilgjaldi. Seðilgjaldið var 2% af upphæðinni og á bak við það var engin sjáanleg þjónusta.

Hvert var vinnuframlag bankans? Hversu margir svona reikningar eru sendir út sem bankarnir hirða seðilgjöld af?

Þegar ég segi fólki hvað ég rukka fyrir mína verktakavinnu stendur sú upphæð. Ég sendi reikningana mína í gegnum Skúffuna ef um ríkisstofnun er að ræða en annars InExchange og þarf ekki að rukka seðilgjald. Af hverju komast bankarnir upp með þetta? 


Dropinn holar steininn

Eftir einhver ár geri ég ráð fyrir að flestir verði undrandi á því að við skulum hafa borðað svona mikið kjöt árið 2021. Ég er bullandi sek, ég borða kjöt, ekki á hverjum degi en ég borða kjöt. Þegar ég hætti því, sem er spurning um hvenær en ekki hvort, á ég sjálfsagt ekki eftir að sakna þess. Við erum vanaföst og stundum tekur tíma að komast út úr óheilbrigðu mynstri.

En ég ætlaði ekki að dvelja svona lengi við mataræðið mitt hér, heldur benda á óhemjugott viðtal sem ég heyrði á Rás 1 í dag, viðtal við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar. Hún hafði ákaflega margt gagnlegt að segja og gerði það á yfirvegaðan og hófstilltan hátt sem ég held að hjálpi umræðunni mjög mikið. Hún var ekki að tala um mataræði eða dýraníð, þótt hún gæti vafalauast lagt þar margt gott til málanna, heldur var hún að tala um kynferðisofbeldi sem við erum sem betur fer farin að viðurkenna og hamast við að uppræta. Þótt Ingibjörg sé bara rúmlega fertug hefur hún sannarlega marga fjöruna sopið á sínum blaðamannsferli og ég vona sannarlega að hún endist þar lengur því að hún er á kórréttum stað í því krefjandi starfi sem felst í því að vera rannsóknarblaðamaður.


Ég er blóðgjafi

Mér er tekið blóð með mjög mannúðlegum aðferðum. Ég fæ djús og saltkex, gott og heilbrigt spjall um heilsuna og svo ligg ég á bekk meðan tæplega hálfur lítri rennur úr æðinni/æðunum. Á eftir fæ ég kaffi og kruðerí og birti mynd af blóðgjafarspjaldinu á Instagram.

Við megum reyndar ekki gefa blóð sama hvað. Konur mega gefa blóð á fjögurra mánaða fresti, ekki þegar þær eru þungaðar eða nýbúnar að eiga barn, ekki skömmu eftir að hafa fengið húðflúr og ég man ekki hvort það eru fleiri takmarkanir. Ef hér skyldi geisa stríð og blóðskortur vera átakanlegur mættu konur þó gefa blóð aðeins oftar en annars er hugsunin sú að við náum að birgja okkur upp aftur.

Það að merum sé tekið blóð getur ekki verið það háskalega, heldur hvernig það er gert. Ég hata illa meðferð á nokkru og nokkrum en er möguleiki að umræðan um blóðmerarnar hafi farið úr böndunum? Ég heyrði orðið blóðmerar í fyrsta skipti í síðustu viku, en er hugsanlegt að dýralæknar viti um illa meðferð og aðhafist ekki? Ég neita að trúa því nema mér sé sýnt annað. Ég er búin að sjá svipmyndir sem hafa gengið og mér ofbýður þegar dýr eru lamin. Ég fordæmi það, en sýna þessar myndir sannleikann í sinni nöktustu mynd?

Árni Stefán Árnason, lög­fræð­ingur sem sér­hæfir sig í lögum um dýra­vernd, sýnist mér reyndar hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum og eftir hverju erum við þá að bíða?

Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi þingmaður, spurði um blóðmerahald í þinginu á svipuðum tíma og Inga Sæland þingmaður var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um að banna að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til söluÞórarinn Ingi Pétursson bóndi svarar Ingu fullum hálsi og ver fyrirtækið sem hefur veirð í umræðunni, Ísteka. Einhvers staðar hafa því hugmyndir verið á kreiki og aðrir verið betur upplýstir um blóðtökuna en ég - en frumvarpið sofnaði í atvinnuveganefnd þannig að við vitum ekki hver örlög frumvarpsins hefðu orðið í atkvæðagreiðslu þingsins.

Ég minni á mína upplýstu og samþykktu blóðgjöf, núna rúmlega 60 sinnum. Eru það ekki sirka 27 lítrar? Þeir hafa að sönnu nýst læknavísindunum til að hlynna að sjúkum og þjáðum en eru ekki notaðir til að auka frjósemi dýra sem við ætlum síðan að borða.

Ég skal éta allt ofan í mig ef ég er á villigötum en umræðan virkar svolítið ofsakennd og þátttakendur í henni gætu sannarlega verið einstaklingar sem borða egg úr hænum sem eru geymdar í litlum búrum og fitaðar þangað til fæturnir brotna undan þeim. Nú væri vel þegið að fá heildstæða og upplýsta umræðu - og gjarnan breytta hegðun í kjölfarið - um illa meðferð á dýrum, já, og jörðinni í leiðinni. Við getum ekki leyft okkur að hrópa upp yfir okkur í augnablik og halda svo áfram að borða eldiskjöt sem er alið við ómannúðlegar aðstæður.


Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson

Það er algjör tilviljun að ég kláraði hina stórkostlegu bók Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson í svörtu innkaupavikunni. Kaupagleðin er nú ekki að sliga neinn á Sjöundá og í grennd, hvorki nú né árið 1802 þegar helstu atburðir sögunnar urðu. Sagan er sönn, náttúrlega eitthvað skálduð eins og vera ber þegar sögumaður hefur bara heimildir frá öðrum og að auki heil öld liðin og rúmlega það frá atburðunum. Gunnar skrifaði söguna í Danmörku og gaf út þar og á því tungumáli 1929.

Hvert er söguefnið? Söguefnið er sá mikli harmur sem kveðinn var að Bjarna (41 árs) og Steinunni (33 ára) sem bjuggu á Sjöundá á Rauðasandi, hann með Guðrúnu (35 ára) og hún með Jóni (41 árs). Til þess er tekið í heimildum að bæði Bjarni og Steinunn hafi verið glæsileg og að sama skapi voru Guðrún og Jón (orðin) heldur ótótleg. Og Bjarni og Steinunn skutu sig hvort í öðru og fengu bágt fyrir í sveitinni, þótt einhverjir hafi haft samúð með hlutskipti þeirra. Hvor hjónin áttu fimm börn sem koma lítið við sögu.

Harmur Bjarna og Steinunnar var ekki eingöngu sá að vera ekki ætlað að eigast heldur að fyrir hálfgerða slysni fyrirkomu þau mökum sínum. Það sannaðist reyndar aldrei en þau játuðu eftir ótrúlega atburðarás í réttarhöldum. Strangt til tekið vitum við ekki enn hvort þau voru sek um það sem á þau var borið og sem þau meðgengu. Hljómar næstum kunnuglega þótt oft og iðulega heyrist setningin: Saklaus uns sekt er sönnuð.

Meðan ég var að lesa bókina hugsaði ég um forgengileika lífsins. Yfirvaldinu þótti ekki tilhlýðilegt að Bjarni og Steinunn gætu svo gott sem lógað Jóni og Guðrúnu - og hver getur andmælt því? Á hinn bóginn varð ekki vart við neina sérstaka meðlíðan þótt þrjú barna Bjarna og Guðrúnar króknuðu á árbarmi eða drukknuðu í ánni þegar þau ætluðu að læðast heim til sín. Eða þótt almúginn drægi varla fram lífið þrátt fyrir þrotlausa vinnu. Fólk var orðið gamalt og slitið um fimmtugt og þess vegna ímynda ég mér jafnvel að Bjarna hafi ekki þótt mikill fórnarkostnaður að gjalda fyrir framhjáhaldið með lífi sínu. Steinunn bar sig aumlegar þegar allt virtist stefna í líflát fyrir glæpinn.

Guðmundur Scheving sýslumaður sem dæmdi í þessu máli var kyndugur karakter. Sjálfsagt hefur hann verið vel haldinn í mat og drykk og þess umkominn að benda holdugum fingri á vesalingana á Sjöundá sem eygðu vott af gleði í öðru fólki en mökum sínum. Ég veit ekki hvernig sýslumaðurinn var í hátEyjólfur_Schevingt, kannski var hann spengilegur og matgrannur, en á þessum árum þótti það samt til marks um velgengni að vera vel í holdum. Sýslumaðurinn hafði alla þræði í höndum sér en þegar ég segi kyndugur er ég svolítið að hugsa um að þrátt fyrir yfirlæti og oflæti var hann ekki ósanngjarn með öllu. Hann hlustaði á mótbárur, eða þannig kom hann mér fyrir sjónir, þótt hann hafi verið staðráðinn í að koma sakborningunum í gapastokkinn.

Fyrir margt löngu las ég Glæp og refsingu eftir Dostóévskíj og sá í nokkra daga á eftir Raskolnikoff í öllum skúmaskotum. Ég veit ekki hvort þetta fortíðarfólk á eftir að skjóta upp kollinum í sundi eða Bónus en vangaveltur um viðeigandi refsingu fyrir glæp verða ábyggilega áleitnar á aðventunni.

Ég held nefnilega að samviskan sé harðasti húsbóndinn.


Ó, Hugleikur

Ég er að tala um leikfélagið mitt, Hugleik, sem er að sönnu tengt teiknaranum. Mér var bent á amatörlega (skárra væri það!) mynd um áhugaleikfélagið sem ég átti sjö góð ár með fyrir ríflega 20 árum og er enn sterkkur hluti af mér.

Ég lék nokkur hlutverk á þessum árum og söng einsöng, laglausa ég. Mikið var þetta frábær tími og góðir vinir sem ég eignaðist þarna.

Myndin sem var einhverra hluta vegna sýnd í dag er í spilara RÚV í þrjá mánuði. Gagnrýnendur voru, og eru kannski enn, hrifnastir af hinum ferska áhugamannablæ og mikilli leikgleði. Leikarar voru ekki síst á sviðinu fyrir sjálfa sig og Sigrún Óskars segist í myndinni hafa orðið mjög hissa þegar ókunnugt fólk mætti á fyrstu sýninguna.

Á mínum tíma voru flestir Hugleikarar utan af landi en ég er alin upp í 104 Reykjavík ...


Nýja leiðin í strætó

Ég er búin að skoða nýja klappið til að kaupa far með strætó. Ég er alltaf hlynnt aukinni skilvirkni og mjög áfram um að innleiða gervigreind þar sem það liggur beint við. Það á líka við um strætó. En mér hefur fundist í kynningarherferðinni sem þetta snúist mest um að uppræta svindl.

Dæs.

Á Akureyri hefur verið ókeypis í strætó í meira en áratug. Bæjarstjórninni hefur ekki þótt ástæða til að bakka með þá ákvörðun þannig að væntanlega hefur hún þótt sanna sig.

Mín kenning er sú að ef fleiri nota strætó en einkabílinn sinn fækki slysum, mengun minnki, bæði á götum og í lofti, viðhaldskostnaður minnki og fólk fái gæðatíma í þægilegu sæti í stað þess að sitja stressað undir stýri.

Að sjálfsögðu virði ég sjálfsákvörðunarrétt fólks og ef það vill og verður að vera á bíl set ég mig ekki upp á móti því en borgaryfirvöld gætu komið til móts við fólk með því að bjóða ókeypis í strætó í einhver ár í tilraunaskyni. En auðvitað þyrftu leiðirnar að vera skýrar og eins fljótfarnar og hægt er. Auðvitað gengur ekki að fólk bíði í kulda og trekki í allt að hálftíma eftir næsta vagni. 

Ég tek sárasjaldan strætó, eingöngu af því að ég er með næstum allt í göngu- og hjólafæri við mig. Skokkhópurinn minn hefur samt stundum tekið strætó, og ég þar með, í Mosó eða Fjörðinn til þess að skokka til baka. Með appinu hefur það verið þægilegt, allt í símanum, og væntanlega verður það ennþá handhægt með nýja klappinu en ég væri svo miklu meira til í að borga aðeins hærra útsvar og þurfa ekki að borga fyrir hvert far með gula bílnum.

Ég trúi ekki að ég sé í minni hluta með þessa skoðun.


Ég er tvíbólusett

Ég rek ekki fyrirtæki en ef ég gerði það fyndist mér ég mega ráða því hvaða fólk ég hefði í vinnu. Ef ég legði mikið upp úr því að starfsfólkið mitt væri bólusett finnst mér að ég ætti að mega segja upp óbólusettum einstaklingi, þó að sjálfsögðu með samningsbundnum uppsagnarfresti.

Ég hlustaði á Bylgjumenn tala við bæði Láru V. Júlíusdóttur og Magnús M. Norðdahl í dag og varð undrandi á hvað þau tvö, tveir lögfræðingar, voru afdráttarlaus í sínum svörum, bara fullkomlega ósammála.

Það er ekki hægt að vinna öll störf heima eins og virðist vera mantran alls staðar. Ég gæti það mikið til, en hvað með afgreiðslu- og lagerstörf? Hvað með heilbrigðisstarfsmenn?

Ég veit ekkert hvort bólusetningar leysa þennan vanda. Ég get bara sagt að ég treysti sérfræðiþekkingu Þórólfs betur en þekkingu þeirra sem láta ófriðlega í athugasemdakerfum vefmiðlanna.

Ef Landspítalinn væri í betri málum deildum við hins vegar kannski ekki svona hástöfum.


Christopher Belter

Tvítugur maður sem gekkst við nauðgun sætir ekki fangelsisvist af því að dómaranum fannst það ekki við hæfi.

Ég las þetta í Washington Post.

Although Belter faced a maximum sentence of eight years in prison, Murphy concluded that jail time for the man “would be inappropriate” in a ruling that shocked the courtroom.

Gerandinn iðrast, fórnarlambið kastar upp og dómarinn hefur samúð með gerandanum.

Þetta gerðist víst í New York.


Ég vildi að ég kynni að forrita

Ég tók einn valáfanga í menntaskóla þar sem við spreyttum okkur á forritun. Enn hríslast um mig sæluvíma þegar ég rifja upp eitt skiptið sem mér tókst að kóða eitthvað sem virkaði. Það var reyndar eina skiptið enda sneri ég mér í aðrar áttir eftir þetta.

En ef ég kynni að forrita myndi ég hraða stafrænu byltingunni. Ég hef ekki áhyggjur af að störf tapist við það eða að kapítalisminn kaffæri litla fólkið. Það er sjálfstætt úrlausnarefni að tryggja öllum jöfn tækifæri og að við getum öll blómstrað á okkar kjörsviðum.

Ég tók þátt í að innleiða talgreini - sem breytir tali í texta - á fyrri vinnustað og það var bylting sem ég er ógurlega stolt af. Ég ræ nú að því öllum árum á mínum núverandi vinnustað að sjónum verði beint að þess konar þróun sem hentar þar. Sagt er að góðir hlutir gerist hægt - en er það eitthvert lögmál? Mega þeir ekki gerast hratt? Af hverju ættum við ekki að fara vel með tíma og mannauð? 

Til hamingju með dag íslenskrar tungu og okkar kæra Jónas Hallgrímsson sem drollaði aldeilis ekki við hlutina - eins gott því að hann varð bara 38 ára.


Rafrænar teikningar

Ég þekki arkitekta sem hafa þurft að prenta út hrikalega stórar teikningar til að fá þær stimplaðar til að geta skilað inn til skipulagsyfirvalda. Við höfum spjallað um óhagræðið af þessu, sóunina, tímann sem tapast, óþörfu ferðirnar og kostnaðinn sem fellur á kúnnann, kostnað upp á einhverjar milljónir í stórum verkefnum. Ég skil ekki af hverju einhver er ekki fyrir löngu búinn að fá þessu breytt. Ég er að sönnu breytingasinni í eðli mínu og þoli síst af öllu meintu rökin: Þetta hefur alltaf verið svona. 

Ég er ekki nógu vel að mér í tæknimálum, kann ekki að forrita eða finna ólöglegar rásir í sjónvarpinu, en ég er alltaf fremst í röðinni þegar talið berst að framförum í tæknimálum sem hafa þær jákvæðu afleiðingar að raðir styttist og ferðum fækki. Mér finnst frábært að afgreiða mig sjálf í búðunum og á bókasafninu, í heimabankanum og að framkalla mínar eigin myndir, að ekki sé minnst á sjálfvirku þvottavélarnar!

Nú hefur borgin loksins stigið það stafræna umbreytingskref að koma teikningum á rafrænt form (sjá 7. lið):

Útboð á verkefninu átak í teikningaskönnun er hluti af stafrænu umbreytingarátaki Reykjavíkurborgar. Með því munu sparast um 4000 heimsóknir árlega í þjónustuver til að sækja eða skoða teikningar. Mikil eftirspurn er eftir teikningum á rafrænu formi. Fyrir nokkrum árum var farið í að skanna aðaluppdrætti og gera aðgengilega á netinu, sem nú er gert jafnóðum. Yfir milljón teikninga eru einungis aðgengilegar á pappírsformi og mikilvægt að koma á stafrænt form. Ávinningurinn af þessu átaksverkefni er ótvíræður fyrir alla notendur; íbúa, fagaðila, borgarstarfsmenn og aðra hagaðila. Mikill tími, kostnaður og mengun munu sparast með auknu aðgengi að þessum teikningum, auk þess sem tryggð er langtímavarðveisla teikninganna.

Óskiljanlega seint en betra er seint en aldrei.

Svo vil ég að borgin fari að nýta raddgreiningu til að skrifa upp fundina eins og farið var að gera af miklum þunga á Alþingi fyrir næstum þremur árum. Hönnunin og aðlögunin kostar eitthvað í byrjun en sparar til lengri tíma peninga og mannauð.


Efling

Ég þekki ekkert til í Eflingu frekar en obbinn, held ég, af hinum sem hafa tjáð sig. Þess vegna ætla ég að tjá mig óskaplega óbeint með 20 ára sögu frá sjálfri mér sem ég er nýlega búin að rifja upp. Ég skrifa almennt, margir munu geta getið sér til um hvar þetta var og það er mér að meinalausu en ég ætla ekki að skrifa nöfn í þessa færslu:

Árið 2000 átti ég í stríði við myndhöggvara sem skemmdi fyrir menningarstarfi bæjarfélags. Ég var embættismaður og hann forstöðumaður listamiðstöðvar í bænum. Reglur giltu um úthlutun dvalar í listamiðstöðinni sem pólitísk nefnd og hann höfðu samið í sameiningu.

Hann fór endalaust á svig við þessar reglur. Ég var yfirmaður hans og fór fram á að við færum eftir reglunum, mætum umsóknir og úthlutuðum plássum á grundvelli þeirra. Allt kom fyrir ekki, hann hleypti vinum sínum inn og guð má vita hvað gerðist þar innan dyra.

Hann kvartaði undan afskiptaseminni í mér og fékk hljómgrunn hjá sumum sveitarstjórnarmönnunum. Umræddur myndhöggvari var með langan starfstíma hjá bænum.

Þetta veit ég, þetta man ég og þessi staðreynd setur ýmislegt í verkalýðsbaráttunni í visst samhengi í mínum augum.

Ég ítreka að ég veit ekkert annað um Eflingarmálið en það sem ég les í blöðunum en ég skoðaði færslu mannsins, sem Sólveig segir að hafi hótað sér ofbeldi, eftir að nýi formaðurinn mun hafa sagt honum upp störfum í vikunni. Hún er svona, fyrir og eftir:

Starfsmaður Eflingar til 27 ára

 

 

 

Af hverju skrifaði hann Ég galt þess að vera íslendingur og karlmaður.“ og af hverju eyddi hann því nokkrum klukkutímum síðar?


Ég trúi

Ég skráði mig úr þjóðkirkjunni fyrir löngu. Mér ofbauð skinhelgin og sjálfgræðgin eða þannig komu sumir prestar mér fyrir sjónir, skinheilagir og gráðugir. Ég segi eins og Siggeir sagði á Bylgjunni í gærmorgun, ég er sannfærð um að margir prestar vinna gott verk fyrir þá sem vilja fá þjónustu þeirra, en alls konar spilling hefur líka þrifist í guðshúsunum. 

Og þótt við vildum hafa presta í vinnu hjá þjóðinni er verðmiðinn alveg fráleitur. 

Ef ég þarf þjónustu prests við að hola mér niður í fyllingu tímans er ég borgunarmaður fyrir því. En hef ég eitthvert val? Er þetta kannski einokun? Má einhver annar jarða mig? 

Það eru ótal þættir í samneyslunni sem ég tek glöð þátt í að borga með sköttunum mínum. Nærtækt er að nefna heilbrigðiskerfið, menntakerfið og vegakerfið. En þeir sem þurfa sálfræðing - frekar en prest - skulu gjöra svo vel að borga um 18.000 krónur fyrir heimsóknina.

Nei, nú þarf að standa í ístaðinu og tryggja að lágmarki - að lágmarki - að grefils kirkjujarðasamkomulagið verði ekki endurnýjað þegar það rennur sitt skeið 2034. Ég gæti næstum hugsað mér að lofa að kjósa þann flokk sem hefur það eina mál á stefnuskrá sinni. cry


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband