Dagur mömmu

Mamma mín dó fyrir einu ári og fjórum mánuðum. Í dag er að auki brúðkaupsdagur mömmu og pabba og skírnardagur okkar allra systkinanna þótt systkini mín þrjú séu fædd í júlí en ég í október. Þau voru fyrir vikið orðin fjörgömul þegar þau voru skírð hátt í ársgömul. Kannski var ástæðan sú að mamma og pabbi voru ekki viss um að þau vildu eigast, ég veit það ekki. En þau gengu að eiga hvort annað og lifðu svo súrt og sætt í 66 ár og átta mánuði.

Ég sakna mömmu alla daga og í dag óhemjumikið. Hún átti það til að vera skaphundur og okkur varð sannarlega stundum sundurorða en við jöfnuðum málin alltaf fljótt og vel (nema eitt langt skipti þegar ég var 17 ára kjáni). Og nú er ástandið þannig í fjölskyldunni að ég sit hér flóandi í tárum og finnst hlutskipti mitt ömurlegt. En ég samgleðst henni að hafa fengið sitt friðsæla andlát 90 ára gömul umkringd sínu besta fólki og treysti því að hún leiki við hvern sinn fingur í græna landinu.

Mér finnst þessi færsla alltof persónuleg til að fara út á netið en ég á svo fáa lesendur hér hvort eð er að ég læt slag standa. Stundum er gagnlegt að hugsa upphátt og ég sé að ég hef hvort eð er notað hálfgert dulmál.


Eylandið

Eyland Sigríðar Hagalín Björnsdóttur er hrollvekja. Ég kláraði hana í sólinni í dag og mér varð kalt. Hún hlýtur að hafa kviknað í hruninu þótt hún hafi ekki komið út fyrr en 2016 því að ég man eftir að hafa hugsað um hvað gæti orðið ef landið einangraðist. Væri fæðuöryggið tryggt? Fengjum við lyf? Fengjum við upplýsingar? Myndi allt verðlag rjúka upp?

Fyrri hluti bókarinnar var svakalega spennandi og ég óþreyjufull eftir að vita hvað yrði. Byggingin er vel heppnuð, blanda af sjónarhorni ýmissa persóna og blaðafréttum. Ég hugsaði um sumar sögur Halldórs Laxness, kúgaðar stéttir, hungursneyðir sem maður les um í blöðunum – eða flettir yfir. Ég hugsaði um örlög barna sem eru seld í ánauð, mæður sem leggja allt í sölurnar, menningu sem er skorin í tætlur, íslenskt veður og ég hugsaði um þriðja orkupakkann.

Þegar u.þ.b. 140 síður voru komnar fannst mér frásögnin farin að endurtaka sig og vildi fara að sjá út úr hremmingunum. Mér leið ekkert of vel og var farin að efast um að ég fengi kvöldmat. 

Áhrifamikil bók og nú langar mig mest að flýja meðan enn eru færar leiðir úr landi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband