Tvisvar verður gamall maður barn

Ég skil málsháttinn þannig að þegar fólk verður gamalt þurfi það umönnun á við ungbarn. Svo má teygja það aðeins hvenær maður verður gamall og ósjálfbjarga. Ég skil ekki endilega heiminn fyrr en hann skellur á mér en bloggið er vettvangurinn þar sem ég hugsa oft upphátt og er persónulegri en á spjalli við fólk. Pabbi minn er 98 ára, býr á Hrafnistu, er bæði skýr og minnugur en þarf mikla umönnun. Hann langar orðið að deyja og fara til mömmu og þegar hann segir það við mig af mikilli yfirvegun get ég ekki andmælt, segi kannski: Já, við vitum að það á fyrir okkur öllum að liggja að deyja á endanum en á meðan við lifum er skemmtilegra að nýta tímann í eitthvað skemmtilegt.

En það getur pabbi ekki gert. Hann hefur aldrei verið félagslyndur, mamma var félagsveran og hann nærðist á því sem hún gerði og sagði. Núna er hann rúmliggjandi og les ekki, horfir ekki á sjónvarp, hlustar ekki á útvarp og bíður bara tímunum saman eftir að önnur hvor okkar systra komi. Við spjöllum við hann, gefum honum kaffibrauð, borðum það með honum, spilum við hann, kaupum á hann boli, sokka og joggingbuxur, hjálpum honum fram úr og hjálpum honum upp í, ég hjálpa honum á klósettið og af klósettinu -- og eins og gefur að skilja gerum við þetta með glöðu geði. En viðvera okkar dekkar samt bara 20-30% af vökutíma hans. Og þar stendur hnífurinn í kúnni -- tvisvar verður gamall maður barn og hann þarf meiri umönnun en við getum séð honum fyrir. Og hjúkrunarheimilið sinnir félagslega þættinum ekki neitt.

Við systur höfum beðið um og fengið fjölskylduviðtöl. Allir skilja hvað við erum að tala um. Enginn hefur úrræði vegna þess að a) mannskapur er af skornum skammti, b) mannskapurinn er ekki allur áhugasamur um að vinna vel og sinna fólki umfram brýnustu nauðsyn. Auðvitað eru undantekningar en við erum búnar að sjá fólk lofa góðu en detta svo í sama takt og það fólk sem hefur verið lengi.

Ég veit að maður þarf að fara varlega í að gagnrýna bæði stóran hóp og án þess að geta smáatriða. 

Pabbi missti á einu ári heilsuna, heimilið og lífsförunautinn. Hann er búsettur á stórri stofnun og hann þekkir ekkert starfsfólk með nafni. Það er ekki hans sterka hlið. Það er enginn vondur við hann en það er heldur enginn góður við hann. Ég hef ekki tölu á hversu oft starfsfólkið hefur kvartað undan því að hann hringi bjöllunni eða kalli: Halló. 

Ef ég væri í pólitík myndi ég eyða öllum mínum kröftum í að berjast fyrir meiri peningum í aukna stoðþjónustu, fækkun bíla(stæða) og berjast fyrir minni umbúðum sem þarf að urða. Og meiri mennsku í efstu lögum samfélagsins.

Ég yrði kosin í öllum stjórnmálaflokkum ef ég byði mig fram með þessi stefnumál.


Hvenær verður tal texti?

Í nokkra mánuði hef ég ætlað að byrja á lokaritgerð minni í þýðingafræði um innanmálsþýðingar, þ.e. þýðingar af íslensku talmáli yfir á íslenskt ritmál, með hliðsjón af þingræðum. Annir í vinnu hafa tafið mig aðeins en ég veit að þetta gerist í sumar, með útskrift í febrúar. Geggjað tilhlökkunarefni.

Á föstudaginn tók blaðamaður við mig viðtal um þetta sérstaka áhugamál mitt þótt undir öðrum formerkjum væri og nú hlakka ég enn meira til að steypa mér í rannsóknir. Í gær var svo viðtal við skrifstofustjórann minn í öðrum fjölmiðli og ég er orðin mjög spennt að sjá framhaldið á þinghaldinu. Það yrði kúvending í störfunum ef 32 þingmenn, eða fleiri, yrðu að sitja undir öllum umræðum í þingsal. Menn þurfa að koma sér saman og finna í sameiningu leiðir að markmiðunum. Spennandi – en tímabært.


Hvenær verður kýr kú?

Sem unglingur var ég móðurmálsfasisti sem leiðrétti fólk sem talaði vitlaust að mínu áliti og samkvæmt því sem mér hafði verið kennt. Ég hef skipt um skoðun. Ég reyni enn að vanda mig og er heldur íhaldssöm fyrir mína parta en ég vil frekar að við tölum íslensku sem þróast en að eiga hana í formalíni og sjá yngstu kynslóðirnar hverfa inn í ensku.

Og ef menn hætta að beygja kýr ætla ég ekki að gráta mig í svefn heldur beygja þær og ærnar eins og ég lærði það í barnaskóla án þess að agnúast út í frjálslyndi annarra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband