Helmingur mannkyns án atvinnu?

Menn eru byrjaðir að giska á að eftirköst kórónuveirunnar verði að helmingur mannkyns verði án lífsviðurværis. Ég hef séð bollaleggingar um að helmingur verði án atvinnu sem mér finnst ekki eins alvarlegt. Miðað við talningu nálgast fjöldi jarðarbúa 8 milljarðana óðfluga, þrátt fyrir dauðsföll telur stöðugt upp, ekki niður. Núna er talan 7.781.208.430 manns. Samt hafa 2.503.282 börn undir fimm ára aldri dáið á árinu og 6.777 manns úr hungri Í DAG.

Hagkerfi eru ekki upphaf og endir alls. 100% starfshlutfall, 40 tíma vinnuvika ekki heldur. Það sem skiptir máli er að fólk hafi í sig og á, haldi heilsu og geti leyft sér eitthvað. Það er eðlilegt að við leggjum öll eitthvað af mörkum. Í sumum heimshlutum streðar fólk allt lífið og þannig held ég að það hafi verið á Íslandi þangað til fyrir hundrað árum eða svo. Við sem erum á dögum núna getum ekki skilið hvað lífið muni hafa verið erfitt og lítið spennandi. Mikil ferðalög Íslendinga eru tiltölulega nýtilkomin. Núna erum við mörg sem náum nokkuð góðu jafnvægi milli vinnuframlags og frítíma. Hvað ef við reyndum að jafnvægisstilla enn meira og hugsa ekki allt út frá hagvexti? Hagvöxtur eykst ef rúða brotnar, flugvél bilar eða maður fær krabbamein. Er það besti mælikvarðinn á velsæld og líðan? Auðvitað eykst hagvöxtur líka með meiri framleiðni. En hvað eru íbúar jarðar að framleiða? Skrilljón boli í þúsund litum svo við getum mætt í vinnuna í öðrum fötum í dag en í gær. Mat sem við getum ekki klárað. Lúxusskemmtiferðaskip sem byrgja okkur sýn. Svakalega mikið af einnota dóti sem safnast í skápum sem við þurfum síðan að framleiða og kaupa fleiri til að koma öllu dótinu fyrir.

Sjálf á ég alveg haug af fjölnota plastdöllum sem eru aldrei allir í notkun í einu. Aldrei.

Mynd gæti innihaldið: innanhúss

Hvað með að skoða neyslumynstrið okkar, ferðahegðun og kauphegðun?

Það er svakalegt að fólk deyi úr hungri, vosbúð, eymd, sársauka, deyi vansælt, afskipt, deyi að óþörfu, en það er ekki svakaleg tilhugsun í mínum augum að hagkerfið hægi á sér, að kjör jafnist út, að fólk vinni eins og það þarf og getur. Mér leiðist sóun og ég held að við höfum verið dugleg að framleiða fyrir glatkistuna.

Að lokum legg ég til að betur verði samið við stéttirnar sem sinna börnum, sjúkum og gömlum en stéttirnar sem vakta peningana. 


Atvinnuleysið er tímabundið

Ég held að við vitum öll að við komumst tiltölulega fljótt upp úr dýpsta öldudalnum vegna kórónuveirunnar. Einangrun, sóttkví og takmarkað samneyti fólks virkar og Ísland verður spennandi áfangastaður strax í sumar vegna víðáttunnar og fámennisins.

Engu að síður sýnist mér augljóst að vegna mikils útstreymis fjár úr ríkissjóði, hvort sem það var handbært fyrir eða er tekið að láni í einhverjum mæli, muni skattheimta aukast á næstu árum, minna verði byggt upp og minni þjónusta veitt. Það hlýtur að bitna á grunnþjónustu, því miður. Þess vegna er brýnt að fyrirtæki sem fá fyrirgreiðslu taki ekki upp á þeim andskota að borga sér arð eða kaupa bréf í sjálfum sér. Þetta er tekið fram í lagasetningunni en því miður er full ástæða til að óttast stóru fyrirtækin.

Við munum borga 2.000 starfsmönnum Icelandair laun í uppsagnarfresti til að tryggja afkomu þeirra og vonandi rætist fljótt úr þar en hver mun síðan eiga Icelandair þegar rofar til? Ég flaug einu sinni með Icelandair á síðasta ári og borgaði (eða stofnunin sem vildi fá mig í viðtalið) sjúklega hátt verð fyrir vont sæti en kannski var ég bara óheppin. Ég sé í mínum vinahópi mikla væntumþykju í garð félagsins og vonandi stendur það með sínu fólki þegar við erum komin í gegnum skaflinn.


Með málfræði í augunum

Ó, ég hlustaði á svo dýrlegan þátt um málfræði, Orð af orði, í gær. Ég er ástríðufullur áhugamaður um efnið og þessi þáttur var stórskemmtilegur. Stjórnendur fjölluðu um greinarmerki af mikilli alúð og mig blóðlangar að lesa þáttinn líka, ekki bara hlusta.


Music appreciation

Eitt af því sem ég hef öfundað Trausta bróður minn af er að þegar hann var í þjóðfélagsfræðinámi í Bandaríkjunum fyrir margt löngu valdi hann áfanga sem hét music appreciation, einhvers konar hraðkynningu á tónlistarsögunni. Mig vantar svoleiðis af því að ég hef hvorki þekkingu né nógu mikinn áhuga á tónlist. Hins vegar finn ég alveg að tónlist er mér mjög mikilvæg og hef gaman af mörgum lögum.

Atvik höguðu því þannig á sumardaginn fyrsta að ég fór að leita að tilteknu Bítlalagi sem ég fann og allt í einu er ég orðin mikill aðdáandi Pauls McCartneys. Þvílík hlýja, þvílíkur húmor, þvílík manngæska sem stafar frá honum, að ógleymdri tónlistinni.

Og í gærkvöldi var frábært minningaferðalag í boði hjá RÚV. Ég hef aðallega sóst eftir umræðuþáttum í útvarpi, ekki síst um pólitík og samfélagsmál, en ég er að hugsa um að mennta mig í tónlist það sem eftir er. Ég á bara svo grefilli mikið ólært.


Bróðir minn er þorskur

Ég er ekki að segja að hann sé heimskur enda veit ég ekki hvort þorskar eru það. Þeim eru bara búin dálítið óheppileg æviskilyrði ef þeir lenda í netum sjómanna. Nei, Gummi bróðir er þorskurinn sem lifði netaveiðarnar af og hreykir sér nú eins og hann sé útgerðaraðallinn. Hann þverskallast við að endurgreiða skuld við mig sem hann og lögmaðurinn hans kalla fyrnda.

Ég ætla að rifja örsnöggt upp hvernig í landinu liggur. Árið 2008 keypti hann íbúð sem hann átti ekki fyrir og fékk lánað hjá mér handveð. Bankakonan fullyrti við hann að þetta væri formsatriði og Gummi fullyrti við mig að þetta væri formsatriði. Ég var blinduð af fjölskyldukærleik, öðru nafni meðvirk, og fannst óþarfi að bankinn hirti alls konar gjöld af svona formsatriði þannig að ég lánaði honum handveð.

Svo gat hann ekki borgað og það var enginn forsendubrestur vegna hrunsins, það er einfaldlega óráðsía manns sem kann ekki að fara með peninga, og bankinn gekk að MILLJÓNUNUM MÍNUM FIMM. Til viðbótar þessu hafði ég lánað honum tvær milljónir til að borga rekstrarreikninga vegna sjoppu sem hann átti (að nafninu til). Af hverju var ég svona múruð? Ég var nýbúin að selja íbúð og ekki búin að finna íbúðina sem ég vildi kaupa.

Hann átti ekki fyrir skuldinni fyrr en í fyrra þegar hann fékk greiddan út arf en hann og lögmaðurinn hans vilja núna ekki að Gummi borgi skuldina af því að ég byrjaði ekki að ganga eftir henni innan fjögurra ára frá lántöku.

Ég er ekki banki, þetta var ekki viðskiptakrafa, ég var ekki í áhætturekstri, ég var ekki með neina gróðavon, ég var litla systir óvirks alkóhólista að gera honum peningalegan greiða enda hefði hann annars beðið mömmu og pabba í eitt skiptið enn og ég vildi hlífa þeim.

Ég er auðvitað búin að afskrifa þennan bróður en ekki skuldina. Ég geng eftir henni í tölvupósti en á eftir að fara til hans á Sólheimum þar sem hann er garðyrkjumaður skv. símaskrá. Ég treysti mér ekki til að tala við hann í síma af því að til langrar fortíðar veit ég að hann hlustar aldrei. Ég á handskrifuð bréf sem bæði ég og mamma skrifuðum honum fyrir meira en 20 árum til að útskýra sjónarmið sem hann hlustaði aldrei á – en samt var ég meðvirk með göllunum á honum til ársins 2008. Eftir það hætti ég reyndar að greiða götu hans. Hann hætti ekki að betla, hann vildi m.a. að ég keypti gamla tölvu í greiðaskyni af einhverjum ólöglegum leigjanda hjá honum til að sá gæti borgað Gumma leiguna! Ég veit að það er talað um skattsvik á Íslandi sem þjóðaríþrótt en meira að segja þar er Gummi þorskurinn í hásæti sínu.


Þegar hótel standa tóm ...

... og fólk er heimilislaust mætti kannski samþætta lausn að einhverju leyti frekar en að margir tapi öllu. Hótel eru ekki heimili og lausu hótelherbergin eru langtum fleiri en heimilislaust fólk á Íslandi en er ekki hægt að hugsa aðeins skapandi í þessum málum? Ég tek fram að ég las þessa hugmynd en fékk hana ekki sjálf, þ.e. að heimilislausu fólki yrði boðin langtímagisting á annars tómu hóteli.


Efnahagslegt kul

Vegna þess að allt hrökk fyrirvaralaust í lás án þess að við fengjum svigrúm til að skipuleggja góða nýtingu á dauðum tíma er fyrirsjáanlegt að á næstu árum muni skattbyrði aukast, innviðir veiklast og þjónusta minnka. Það er leiðinlegt en það er ómögulegt að horfa framhjá því.

Ég fæ lítinn skell en ég mæti tjóni mínu með glöðu geði ... ef fyrirtækin sem hafa fengið geðveika fyrirgreiðslu á minn kostnað og annarra skattgreiðenda undanfarna áratugi stíga fram og gangast við ábyrgð sinni. Er ekki einhver blaðamaður til í að spyrja framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins hvort stöndugu fyrirtækin séu ekki til í að hlaupa undir bagga af samfélagslegri ábyrgð frekar en að skara fyrst og fremst eld að eigin köku? Allir talsmenn allra málaflokka virðast fyrst og fremst væla fyrir hönd þeirra sem hafa það allra verst og enginn nema Margrét Kristmannsdóttir hjá Pfaff virðist til í að horfa í eigin barm.

Ég þigg alveg uppbyggilegar áminningar um jákvæða einstaklinga í framvarðasveit atvinnulífsins. Ég man eftir einum og það er Kári Stefánsson.


Punktur, punktur, komma, strik

Ríkisútvarpið fær stundum hjarta mitt til að slá örar. Í nýjasta þættinum af Orð af orði tala stjórnendur um greinarmerki af mikilli umhyggju og ástúð. Ég þyrfti eiginlega að komast í handritið því að mig blóðlangar að hafa dæmin fyrir augunum líka.

Punktur, komma, depilhögg og íslenskar gæsalappir ...


Ferðaþjónustan á heimsvísu

Ég hef samúð með þeim sem eru verkefnalausir, verklausir, iðjulausir, tekjulausir, leiðir, framlágir, blankir og lúnir. Ég skil að höggið sem féll fyrirvaralaust á ferðaþjónustuna um allan heim var óvænt, einmitt fyrirvaralaust. Sjálf ætlaði ég til Riga í maí en nú er búið að blása þá ferð af og einhver tekur skellinn, annað hvort við sem ætluðum í ferðina eða ferðaþjónustan í því landi, sem sagt skattgreiðendur. 

Ég hef samúð með þeim sem ganga um eirðarlausir og hungrar í eitthvað að gera, eitthvað skapandi, gjöfult, merkingarbært og tekjuaukandi. Biðstaða er alltaf vond, það er alltaf vont að sjá ekkert fram í tímann.

Við erum örugglega öll sammála um þetta.

Hins vegar finnst mér undarlegt þegar tjónið er metið á 330 milljarða núna en hagnaðurinn hefði aldrei verið metinn svo hátt í góðu árferði.

Ég var viðloðandi ferðaþjónustuna í 12 sumur og veit alveg að framlínufólkið í greininni hafði almennt ekki gott upp úr sér. Ef tjónið er núna 330 milljarðar hefur einhvern tímann verið gróði og ég spyr: Hvert rann hann? Bjuggust menn aldrei við mögru ári? Geta fyrirtæki ekki rekið sig eins og heimili sem leggja fyrir?

Ég veit alveg um dæmalausa tíma og skil að róðurinn er þungur fyrir marga. Marga en ekki alla.


Ég sakna kommanna

Það er svo erfitt að segja þetta án þess að vera eða virðast vera að nöldra en ég skil ekki af hverju fólk notar ekki greinarmerki þegar það skrifar athugasemdir hér og þar. Ég er auðvitað farin að venjast því og misskil ekki það sem fólk skrifar en það er samt hvimleitt. Ég man eftir svari fyrir nokkrum árum sem byrjaði á að viðmælandinn var taggaður og svo kom sögn sem er eins í 1. og 3. persónu og ég hélt að sá sem skrifaði væri að tala um mig en hann var að skrifa um sjálfan sig. Þetta verður best skýrt með (tilbúnu) dæmi:

„Einar Einarsson reyndi að komast inn hjá þér á sunnudaginn.“

Athugasemdina skrifaði Óskar Óskarsson og var að tala um að hann hefði ætlað að koma í heimsókn til Einars á sunnudeginum, ekki að Einar hefði verið á leiðinni til mín. Flókið? Það er aðeins minna flókið þegar maður hefur upphaflega innleggið og sér taggið.

Hér sést að komman skiptir öllu:

„Einar Einarsson, reyndi að komast inn hjá þér á sunnudaginn.

 

Image preview

Og ég sé þetta því miður meðal vina minna í málfræðingastétt.


Hún Vigdís

Ég man því miður hvað ég var þröngsýn og afturhaldssöm 1980. Ég var ekki komin með kosningarrétt en ef ég hefði mátt kjósa hefði ég kosið Guðlaug Þorvaldsson ríkissáttasemjara eins og ég held að mamma og pabbi hafi bæði gert. Ég vakti yfir kosningasjónvarpinu en undir morgun var ég orðin dús við að hún ynni. Sem betur fer, ég var ekki forhertari og óþroskaðri en svo að ég sá auðvitað mannkosti hennar og skildi það gildi sem Ísland markaði með þessu skynsamlega vali.

Hún er enn uppáhaldsforsetinn minn þótt ég hafi mikið dálæti á Guðna. Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra þau áhrif sem hún hafði á jafnrétti, náttúruást og menntun, þar með talin tungumál. Hún var einfaldlega framúrskarandi forseti og er núna sem fyrr framúrskarandi manneskja.


Einkavæða gróðann en almenningsvæða tapið ...

„Að viðhalda ráðningarsambandi.“

Ég þekki fólk sem er nú tímabundið í hlutastarfi vegna tímabundinnar ágjafar í þeirri eindregnu von að úr rætist þegar við verðum komin fyrir vind vegna Covid. Ég hef á tilfinningunni að flestir hafi skilið hugsunina í þessu úrræði betur en Samtök atvinnulífsins


Leiðsögumenn á tímum Covid

Þrátt fyrir að Björn Ingi fari í taugarnar á mörgum hef ég hvergi nema á Viljanum hans séð vott af skilningi á og samstöðu með leiðsögumönnum sem hafa áratugum saman búið við ömurleg kjör og sitja nú uppi með óbætt atvinnuleysi þegar vertíðin hefði átt að vera að hefjast. Ég var sjálf leiðsögumaður í 12 sumur eða svo og lét mér duga léleg laun af því að mér fannst svo gaman. Sumarið 2013 þóttu mér innviðir svo illa sprungnir að ég hætti að taka að mér verkefni enda alltaf aukageta hjá mér. 

Ferðaþjónustan dró okkur að landi eftir hrunið en nú virðast margir útverðir hennar mega éta það sem úti frýs.

Gleðilega páska.


Hvað eiga Eskja, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Skinney – Þinganes og Vinnslustöðin sameiginlegt?

Þetta eru útgerðir sem hafa krafið íslenska ríkið um skaðabætur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar frá 6. desember 2018. Kvótaúthlutun og hvernig réttur til kvótaeignar hefur orðið til er eitt helsta bitbein Íslendinga síðustu áratugina. Mig grunar að í öðrum hópnum séu 150 manns og sirka 350.000 í hinum.

Gleðilega páska.

 


Sendillinn á hjólinu sem fær greitt fyrir hverja sendingu

Sif Sigmarsdóttir er réttsýnn pistlahöfundur og rétt eins og ég gerir hún sér grein fyrir hvaða stéttir skipta ekki máli á ögurstundu. Auðvitað búum við í samfélagi sem er skemmtilegra ef ekki aðeins grunnþörfunum er sinnt en ef þeim er ekki sinnt er ekki um frekari þarfir eða munað að ræða. Ef við borðum ekki til lengdar, ef okkur verður of kalt, ef við veikjumst og deyjum fyrir vikið er ekki svigrúm til að njóta félagsskapar, menningar, útiveru eða nokkurs þess sem er ofar í þarfapíramídanum.

Og hvaða stéttir keyra nú samfélagið áfram? Og hvaða stéttir gera það ekki?


Kveðjustund

Ég er svo nýbúin að kveðja báða foreldra mína að ég tárast frekar auðveldlega þegar ég sé gamlar myndir af þeim birtast á Facebook eða hér á blogginu. Ég hugsa oft til þeirra og við systkinin heyrumst sérstaklega á dánar- og jarðarfarardögum þeirra í hverjum mánuði. Nú eiga þau hvort um sig þrjá daga, afmælis-, dánar- og jarðarfarardag, í hverjum mánuði. 

Ég var hjá þeim báðum augnabliki eftir andlátið og nánast linnulaust dagana áður en mamma dó eftir stutta legu og mánuðum saman hjá pabba eftir að hann flutti á Hrafnistu. Ég get ekki á heilli mér tekið við tilhugsunina um að þau hefðu þurft að lifa ástandið núna illa á sig komin. Það hefði gert út af við okkur pabba og systur mína að vita af honum leiðum og afskiptum.

Þess vegna finn ég alveg sérstaklega til þegar ég les frétt af kveðjustund konu sem lést úr Covid-19 í dag án þess að hafa sitt nánasta fólk innan seilingar. Ég votta aðstandendum samúð mína. 


Hlýðum Víði

Ég hef heyrt af fólki sem ætlar í bústað um páskana en ætlar samt að hlýða Víði. Er það ekki hægt? Jú, ég held það. Ég las frétt áðan um óhlýðni fólks og óttalegar formælingar en í kommenti kemur fram að margir hafa haldið til í bústöðum sínum undanfarið og kjósa þar að vera í sinni heimangrun (nýyrði sem ég heyrði í vikunni).

Vörumst alhæfingar. Sýnum skynsemi. Drepum helvítis pödduna.


Ofbeldi eykst

Í gærkvöldi sá ég Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, í fréttum en finn enga tilvísun á fréttamiðlunum. Hún var að tala um að konur væru útsettari fyrir ofbeldi núna þegar þær neyðast til að vera meira á heimili með ofbeldismönnum sem þær eru í sambandi við. 

Á daglegum upplýsingafundi áðan var Sigþrúður aftur mætt til að tala um börn á ofbeldisheimilum sem er dauðans alvara.

Ég á bróður sem stal af mér 7 milljónum árið 2008. Þetta er löng og flókin saga sem ég er búin að segja í nokkrum bloggfærslum. Ég hef lofað því að borgi hann mér lánið, sem ég lánaði honum í góðri trú og til að bankarnir tækju of mikla þóknun, muni allt handveðið renna til Kvennaathvarfsins. Við erum að tala um 5 milljónir árið 2008 sem ég held að gætu alveg nýst eitthvað og sannarlega betur en þessu óbermi sem ég varaði mig ekki á nógu snemma. Ég lét fjölskyldukærleik blekkja mig of lengi og aumingja mamma og pabbi voru undir hælnum á honum og hans edrúmennsku í 40 ár.

Ég er sem sagt búin að lofa því opinberlega nokkrum sinnum að láta handveðið sem ég lánaði honum renna til Kvennaathvarfsins. Hann réð sér hins vegar lögfræðing sem þóttist vera sérfróður um erfðamál og hann fann lagabókstaf um að lán fyrnist. Ég er hins vegar ekki viðskiptabanki, bara enginn banki, og var ekki í áhætturekstri enda átti ég aldrei að fá fúlgur fjár í vexti eða neinn sérstakan ávinning. Þetta er eins einfalt og það getur verið, ég lánaði honum pening og hann skuldar mér hann en neitar að borga skuldina. Hann veit af skuldinni og viðurkennir hana en ég er ekki með þinglýsta pappíra og get ekki sent í innheimtu. Ég hef höfðað til skynsemi hans og betri vitundar sem ég veit núna að er af skornum skammti. Hann fær kikk út úr því að geta svínað á fólki og nú er ómögulegt að vita nema hann taki heimilismenn á Sólheimum næst fyrir. Þar starfar hann sem meintur garðyrkjumaður.

Gummi bróðir minn er óvirkur alkóhólisti en virkur narsissisti eins og ég held að AA ali upp í skjólstæðingum sínum.


Ferðaávísun upp á 5.000 kr.

Ég er hlynnt þeirri aðgerð að allir fullorðnir fái ferðaávísun þegar losnar um hömlur vegna kórónuveirunnar. 5.000 kr. vega vissulega ekki þungt í ferðakostnaði en gerðin er táknræn og verður vonandi hvati fyrir fólk til að bregða undir sig betri fætinum þegar sumrar.

Einn vinur minn var með tillögu um að við afþökkuðum þessar ferðaávísanir og létum peninginn renna til heilbrigðisstarfsfólks. Mér finnst hins vegar að annað þurfi ekki að útiloka hitt og finnst sjálfsagt að borga mikilvægu fólki mikilvæg laun. Hins vegar er út í bláinn að stöndug fyrirtæki fái ölmusu frá ríkinu, fyrirtæki eins og Bláa lónið sem hefur í mörg ár okrað á túristum í krafti sérstöðu sinnar, kísilleðjunnar. 

Mér finnst gagnlegt að hugsa um veiruna í mynd eins og einhver listamaður teiknaði hana.

Kórónuveiran í mynd.


Keflavíkurflugvöllur mannlaus?

Ég hef ekki séð fréttir af því að verið sé að gera breytingar á Leifsstöð, nú þegar tækifærið er svo borðleggjandi. Hins vegar er frétt af því að færri fíkniefnasendingar fari um hann. Hmm?

Er ekki Leifsstöð orðin of lítil fyrir venjulega umferð fólks og farangurs? Er ekki óhægt um vik að gera breytingar þegar stríður straumur fólks (og farangurs) er um hann? Er þá ekki lag að gera núna það sem þarf? En kannski er verið að því ... 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband