Færsluflokkur: Dægurmál

Gamaldags karaókí

Opus söng Live is Life (og dýpri merking var ekki í textanum) fyrir svo löngu síðan að YouTube getur ekki birt raunverulegt myndband.

Tek það til baka ...


Reyktur makríll

Ég gleymdi að mæta í kröfugöngu og við ræðuhöld í gær. Ég fór hringinn um landið í Perlunni og smakkaði grafið hrossakjöt og hrossakjöt í wasabi - og ekki sístur var reyktur makríll. Íslenska eldhúsið lætur ekki að sér hæða og vonandi rápa hingað margir útlendingar í sumar og njóta góðs af snilld og hugmyndaauðgi íslenskra kokka.

Kaffið af Suðurnesjunum rann líka ljúflega niður - og byggottó er nýjung sem ég gæti vel hugsað mér út í AB-mjólkina mína á morgnana (með kanil) eða með steikinni á kvöldin (ósætt).

Og þar gat að líta ferðamálafulltrúa Hafnarfjarðar sem mændi hlæjandi á víking úr Fjörukránni.

Marín leiðist þetta ekki


Ljótt að stela

Ef maður getur heimilda er hægt að réttlæta ritstuldinn, eða hvað?

Kjartan Hallur sér ekki betur en að prestskapurinn sé gjörsamlega kirkjustaður og prófastur í fortíðinni

Mér finnst að nú hljóti menn að fara að gera alvöru úr að aðskilja ríki og kirkju.


Blómlegir akrar Víkur og nærsveita

Sjálfsagt eru allir löngu búnir að hugsa þetta og finnst þeir ekki þurfa að tjá sig opinberlega eins og ég en áður en við numum land á Thule/Garðarshólma/eyjunni bláu var hér eldvirkni. Samt voru blómlegir hagar víða um Suðurland sem, öhm, aska og annað eldfjallagull hafði dreifst yfir öldum saman.

Og ég er einmitt nýbúin að heyra talað um næringargildi öskunnar þannig að - bingó! - land mun rísa á ný. Um síðustu helgi fóru síðan 100 starfsamir einstaklingar og mokuðu og báru og ruddu og urðu að gagni - þannig að það er von.

Líklega eru þá tækifæri í hörmungunum.

Nema náttúrlega nú vantar ferðamennina til að njóta alls þessa með okkur.


Upphitun fyrir stúdentsafmæli

Alicia Keys hvað?


Hún lifir

Eins og menn spáðu ber rannsóknarskýrslu Alþingis stöðugt á góma. Í dag hitti ég fyrrum samkennara í sundi sem sagðist vera á leið í bústað um næstu helgi og ætlaði að taka 7. og 8. bindi með sér. Og a.m.k. eitt kvöldið sem upplesturinn góði stóð yfir í Borgarleikhúsinu festust þau hjón yfir tölvunni, gátu ekki hætt að hlusta.

Eintakið mitt bíður sumardaganna og garðstólsins. Að sumu leyti verður sagan kunnugleg en ég giska á að mér þyki það ekki skaða.


Bálið brennur

Aftur er kviknað í jöklinum sem ég held að viti á gott. Þá rennur frekar hraun en að askan þyrlist um og leiti sér að þotuhreyflum. Undanfarna daga hef ég komist að raun um að ég þekki býsna marga á faraldsfæti - eða sem ætluðu að vera á faraldsfæti. Ef ég væri guðhrædd myndi ég nú í fúlustu einlægni (og guðhræðslu) biðja voða fallega um betri tíð með blóm í haga. Ég hef áhyggjur af ferðaþjónustunni, og ekki bara á Íslandi, gisti- og afþreyingarfyrirtæki um alla Evrópu eru í uppnámi.

Alveg eins og mér blöskraði þegar fiskihagfræðingur lagði til árið 2007 að þorskveiðar yrðu lagðar á hilluna í þrjú ár af því að atvinnulífið stæði svo vel. Gva? Maður slær ekki atvinnulífinu á frest og biður starfsfólk greinanna að hvíla á hillunni í þrjú ár, ekki einu sinni eitt, og taka svo til óspilltra málanna.

Og af því að ég er orðin alveg úthverf í tilfinningunum verð ég að bæta því við að ég dáðist að skóflurunum undir Eyjafjöllum sem ég sá í fréttunum í gær. Hraustmenni, innan dyra og utan. Þegar svona gerist erum við ein þjóð í einu landi, stétt með stétt ...


Atvinnuleysi er ekki sama og iðjuleysi

Við höfum alltaf hreykt okkur af atvinnuástandinu á Íslandi (sjálf sek þegar ég hef sagt við ferðamenn að hér hafi gjarnan verið neikvætt atvinnuleysi, skortur á fólki). Nú eru margir atvinnulausir sem hafa engan áhuga á að vera án atvinnu en ef hugarfarið væri að í atvinnuleysinu fælust tækifæri myndu ábyggilega fleiri sjá þau í stað vonleysis.

Eins hefur lenskan verið að eiga sitt eigið húsnæði. Alveg væri ég til í að vera í leiguhúsnæði en finn að ég er enn undir þeirri átt að maður eigi að eiga sitt eigið húsnæði. Og á vorum dögum er náttúrlega svo þversagnakennt að tala um að eiga húsnæði sitt þegar stórir hópar skulda mun meira en fæst fyrir eignina á markaði.

Daginn sem rannsóknarskýrslan var kynnt, 12. apríl, stóð Seðlabankinn fyrir málstofu um skuldastöðu heimila á Íslandi. Samkvæmt glærunum eru margir í vanda og nú þætti mér gaman að vita hvenær fjölmiðlarnir ætla að taka við sér og fjalla um þær upplýsingar sem Seðlabankinn sannanlega sendir frá sér.

Fólk vill ekki vera eigna- og atvinnulaust en þegar botninn er fundinn er hægt að spyrna frá.


Af hverju ævisögur skálda?

Eftir að hafa séð The Habit of Art í kvöld sem fjallar um Wystan Hugh Auden (1907-1973), breskt skáld og þýðanda sem m.a. lagði leið sína til Íslands, spyr ég mig hvers vegna skrifaðar eru ævisögur um fólk sem hægt er að kynnast í gegnum verk þess.

Ég vissi bara í kvöld að ég var að fara að sjá leikrit á bíóskjá og þekki ekkert til Audens en ef hann var svona mikilvirkur þýðandi og vinsælt skáld ætti kannski að láta sitja við að lesa verkin og sleppa því að draga upp mynd af honum akfeitum í mölétinni gollu sem allir hafa snúið við baki.

Þetta var samt ævintýraleg sýning send úr National Theatre í London.

 W.H. Auden til hægri, árið er 1939.


Jökullinn logar sisona

Þrátt fyrir ágang halda vefmyndavélarnar enn, t.d. þessi sem er á Hvolsvelli og horfir í suðaustur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband