Færsluflokkur: Dægurmál

,,Svo fólkið í landinu geti talað saman"

Glöð skal ég kokgleypa alla tortryggni mína þegar tækifærið býðst en þegar Alterna sækist eftir markaðshlutdeild í símanotkun Íslendinga með orðalaginu að ,,fólkið í landinu" eigi að geta talað saman finnst mér talað niður til mín.

Viðhorf mitt felur náttúrlega í sér fordóma, glámskyggni og hugsanlega útlendingaótta en hvað veit ég um heilindi IMC WorldCells, Róberts Bragasonar og Þorsteins Baldurs Friðrikssonar? Svar: Ekkert. Heilindi þeirra geta verið ómæld en ég er engu að síður tortryggin.

Skömmu eftir bankahrunið 2008 flaug ég eitthvað ein míns liðs. Í flugstöðinni á leið heim rétti maður mér nafnspjald og vildi augljóslega nota tækifærið til að kynna mér einhverja vöru sem hann ætlaði að reyna að selja á Íslandi, kannski hollustuvöru, ég man það ekki. Ég fékk þá háværu tilfinningu að maðurinn væri hrægammur og ég illa lyktandi nár. Og nú líður mér aftur svona eða kannski eins og viðfangi sem hefur verið þrætt upp á lyklakippuhring með hinu ,,fólkinu í landinu".

Ekki eru allir útlendingar eða allt sem kemur frá útlöndum sjálfkrafa velmeinandi og mér að skapi.

En kannski vakir ekkert annað fyrir Alternu en að bjóða upp á eðlilega samkeppni og vonandi hef ég svo kolrangt fyrir mér að það drynur í Þingholtunum þegar hið sanna kemur á daginn.


Kötlugos 1755

Svo mæltu Eggert og Bjarni 1756: 

Þegar við vorum á heimleiðinni hinn 6. október yfir Síðu og Álftaver, skall á okkur um kveldið niðaþoka með miklu öskufalli, en sólskin hafði verið um daginn og heiður himinn yfir þokumekkinum. Vindur var á og nokkurt frost. Askan kom frá Kötlugjá, og réðum við það af öskufallinu, að hún væri enn á ný tekin að gjósa. Loks rakst þó fylgdarmaður okkar í myrkrinu á Herjólfsstaði, stóran eyðibæ. Daginn eftir var eitt hið leiðinlegasta veður, sem við höfðum lent í. Enda þótt himinn væri kollheiður og sól skini, var þokan samt svo svört, að við sáum aðeins örfá skref frá okkur. Mistur þetta stafaði af rauðgrárri ösku, og þar, sem hún komst í koffort okkar, varð allt svart í þeim. Askan smaug einnig gegnum föt okkar og inn á okkur bera. Við urðum svartir í andliti, og til sönnunar því, að við urðum að anda henni að okkur, hvort sem það var okkur ljúft eða leitt, var það, að allt, sem við hræktum úr okkur, var kolsvart. Hestarnir gátu hvorki bitið né haldið augunum opnum. Tveir þeirra urðu blindir, af því að augnlokin greru saman. Við neyddumst að lokum til að fara inn í hinn auða bæ.

Það er bara svo undarlegt að sitja í Reykjavík, 150 kílómetra vestur af eldgosi sem gerir flugfarþegum um hálfa Evrópu lífið leitt, og hafa ekki náttúrufræðilega hugmynd um það, heldur allt sit vit úr fjölmiðlum. Fyrir tveimur öldum voru samgöngur lélegar og fjarskiptatæknin hálfu lélegri þannig að menn á Vestfjörðum þurftu ekki að vita af náttúruhamförum annars staðar á landinu fyrr en ári síðar ef því var að skipta.

Og vestur í Bandaríkjunum - sem ósköpin bitna ekki á - kennir hundtrúaður Limbó Bandaríkjaforseta um! Hefur sitt litla vit úr misvitrum fjölmiðlum og frá prítvatguði sínum.

Ég vorkenni mest hestum sem súrnar í augum og fuglum sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Og ég finn líka til með þeim sem eru búnir að vinna í sveita síns andlitis við að rækta upp tún og sjá þau núna verða undir drullu og íshröngli. Og fyrst ég er farin að opna mig svona verð ég að bæta við að ég er gallsúr fyrir hönd ferðaþjónustunnar á Íslandi sem og á meginlandi Evrópu sem situr uppi með pantanir og fólk sem kemst ekki til að standa við þær.

Svo eru nokkrar dagsetningar sem leiðsögumenn verða að leggja á minnið:

30. desember 2009

5. janúar 2010

6. mars 2010

20. mars 2010

12. apríl 2010

14. apríl 2010

Hangir þetta ekki allt saman við hana Ísbjörgu og aðrar syndir?


,,Að morgni 29. september ..."

Þar er upplesturinn í Borgarleikhúsinu staddur. Og árið er 2008. Ég er ekki frá því að Halla Margrét sé komin með ögn af drama í röddina. Þetta er helgin sem gengur undir nafninu Glitnis-helgin.

*svitn*


Halldór Gylfa og Halldóra Geirharðs

Ég er eindregið að hugsa um að láta leikarana í Borgarleikhúsinu skemmta mér fram á nótt. Halldór og Halldóra eru nýbúin að lesa danskar tilvitnanir og skemmta mér, sjálfum sér og auðheyrilega gestum í sal mikið og vel.

Halldór er líklega á blaðsíðu 218 núna. Er skýrslan ekki 2.600 síður? Lestrinum gæti lokið um hádegisbilið á laugardag.


Gott að ná að klára þessa bók áður en 2.000 blaðsíðna bókin kemur út á morgun

Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið. Það er gömul saga og ný, að atvinnurekendur á landsbyggðinni hafa mikil áhrif á skoðanamyndun í sínu nánasta umhverfi. (bls. 206)

Við höfundur eigum ekki samleið í kommunum, fjöldi þeirra í bókinni gengur eiginlega fram af mér. Þegar höfundur vitnar í texta annarra bætir hann í en ég leyfi honum að hafa sinn texta óbreyttan.

Dulkóðun? Nei.

Hins vegar væri ég til viðræðu um upptöku zetunnar á nýjan leik. Ég held að hún myndi gleðja marga.


Ég spáði Heklugosi 12. apríl ... (í janúar)

Skyggnigáfu minni er viðbrugðið. Segi ég. Engu að síður er það ekki lengur Hekla sem ég reikna með að gjósi á mánudaginn. Eftir hádegi.


Veggjöld

Í stóru og strjálbýlu landi hef ég enga trú á að menn geti rukkað veggjöld án þess að eyða megninu af tekjunum í innheimtukerfið. Þess vegna held ég að engum geti verið alvara með þetta (nema kannski Jóni Gnarr sem hefur ekki verið spurður) og eftir hæfilegan tíma verður eitthvert annað gjaldkerfi (eldsneytisskattur eða eitthvað slíkt) tekið upp án þess að nokkur æmti.

Svona gjaldtaka hefði sáralítil áhrif á heimakæru mig þannig að hagsmunir mínir valda ekki efasemdunum.


Dramalausir kjúklingar

Ég læt nægja að segja að á Hænuungunum í kvöld hafi ég unað mér best við að horfa á fræga fólkið - í salnum.

Bensínhreyfingar

Svo að hálfu árinu 2009 sé haldið til haga (af því að ég er að undirbúa skattframtalið):

Hjá ÓB Blönduósi kostaði bensínlítrinn þann 29. júní 175,30

ÓB Snorrabraut 26. júlí 183,30

Olís Sæbraut 27. júlí 187,80

ÓB Snorrabraut 30. ágúst 190,40

Olís Álfheimum 19. september 185,40

ÓB Egilsgötu (sama og Snorrabraut, bara nýtt nafn) 20. september 184,40

ÓB Egilsgötu 6. október 178,40

ÓB Fjarðarkaupum 24. október 185,20

ÓB Egilsgötu 3. nóvember 187,10

ÓB Fjarðarkaupum 25. nóvember 184,20

Lýkur hér að segja af bensínkaupum mínum sem ekki urðu frekari á því herrans ári 2009. Ég reyndi að kaupa bensín á gamlaársdag en vélin gleypti peninginn og lagði sig fram um að sýna mér bæði dónaskap og tómlæti þegar ég bar mig eftir endurgreiðslu. Eftir japl og jaml og fuður og tvær ferðir í höfuðstöðvarnar tókst að sækja 5.000-kallinn svo ég gæti eytt honum á bensínstöð með þjónustu.

Nú vil ég fá að kaupa rafmagnsbíl eða metanbíl - og hraðskreitt reiðhjól.


Gott hjá Sunnlendingum

Fréttin er svo sem ekki ítarleg en svo virðist sem einkaframtakið, hugmyndaflugið og frumkvæðið (þrisvar sinnum sama hugtakið hjá mér kannski?) hafi blómstrað á Hótel Rangá og í nærsveitum.

Ég vildi alveg heyra að reikningurinn yrði ekki sendur til ríkisins þar sem tekjurnar renna guðsblessunarlega til ferðaþjónanna á svæðinu.

Helicopter flying over the erupting volcano

En ég hef tekið eftir því að svona frumkvæði er aldrei haft eftir SAF. Þau samtök ..., ég þori ekki að segja upphátt hvað ég er að hugsa. Kannski er við sjálfa mig að sakast, ég tek aldrei eftir neinu nema kvörtunartóninum en kannski er unnið blómlegt starf í Borgartúninu ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband