Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 18. september 2009
2012
NÝ hugmynd, umhverfisvæn og göfug. Ég vil vera memm. Það sem ég vildi þó helst af öllu væri að nýta það sem maður er hættur að nota og knýja bíl með dagblöðum, gosflöskum, götóttum svefnpokum, mjólkurfernum - bara öllu því sem fólk hendir í tunnuna og bíður eftir að aðrir fargi; urði eða brenni. Ó, þú NÝJA Ísland.
Held einhvern veginn að á kvikmyndahátíð megi finna umhverfisvænar myndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. september 2009
Samkeppni - eða ekki
Blaður á Glamur sem á Ráp og Raup sem eru hluthafar í Bramli og Brölti - sem selja mér morgunkorn og naglaherði. Það er til að æra óstöðugan að reyna að henda reiður á af hverjum maður kaupir poppið sitt. Enda sannast það að mótstaðan minnkar, við vitum alls ekki í hvaða buddu tikkar þegar við kaupum velúr-peysuna eða sparijakkann.
*dæs*
Svo kemur frétt af því að apótekari á Akranesi hafi kvartað til Samkeppniseftirlitsins fyrir tveimur árum undan óeðlilegum viðskiptaháttum Lyfja & heilsu. Fréttin er heldur loðmulluleg þannig að ég verð að giska á að Apótek Vesturlands sé stakur hlekkur svona til samanburðar við keðjuna Lyf & heilsu. Og ég leyfi mér líka að giska á að verð í Lyfjum & heilsu á Kirkjubraut 50 sé lægra en í útibúum Lyfja & heilsu annars staðar þar sem ekki nýtur nálægðar annarra apóteka.
Ég er bara að giska því að fréttin var ekkert unnin. Ég veit ekki heldur hver á alla þessa hlekki. Og ekki verður Jón Jósef spurður í bráð.
*dæs*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. september 2009
Tími poppsins er liðinn
Ég ætlaði að rifja upp forna takta popp(korn)sins í potti - og nú leggur bræluna um alla íbúð. Örbylgjupopp er orðið svo dýrt og umhverfisvitund mín enn sterkari en fyrr þannig að mér fannst einboðið að tími pottapoppsins væri runninn upp á ný.
En líklega eru það bara gulrætur og gúrkur, og mandarínur þegar mikið liggur við, héðan í frá.
-sagði hún og fitjaði upp á trýnið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 13. september 2009
Viðskiptavild er viðkvæm eign
Í síðustu viku sá ég út undan mér leikinn þátt í sjónvarpinu þar sem maður hálft um hálft þvingaði mann til að selja sér meiri hluta hlutabréfa í stöndugu fyrirtæki. Um leið og kaupin voru tilkynnt byrjaði verðið að hrapa vegna þess að viðskiptavinir samstæðunnar völdu í kjölfarið að beina viðskiptum sínum annað. Markaðurinn talaði.
Viðskiptavild er alltaf verðlögð þegar fyrirtæki eru seld.
Ég skil ekki af hverju óþokkar Íslandssögunnar halda enn vild viðskiptavina sinna en geri ráð fyrir að það útskýrist að mestu leyti með fákeppninni. Við vitum ekki hvaða skúrkur á hvaða fyrirtæki og hvar skást er að kaupa skyr, sundbol eða sófa.
En nú koma væntanlega nýir eigendur að Íslandsbanka, óspjallaðir kannski? Ætli menn skipti?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 12. september 2009
Álitsgjafar í DV
Oft eru álitsgjafar fengnir til að gefa út palladóma - og ég hlusta alveg. Í gær voru hins vegar nafnlausir ... aaa, var það kannski viljandi? ... álitsgjafar í DV sem völdu huglægt bestu (og verstu, stóð þar, en ég fann ekki) bloggarana. Þessir ótilgreindu álitsgjafar eru greinilega smekkálitsgjafar og hrósuðu, að vonum, Láru Hönnu sem er sinn eigin fjölmiðill sem vinnur mikla heimildavinnu og fer langt fram úr vonum flestra lesanda (ég man samt að Gunnar Th. hefur andskotast út í hana). Reyndar voru á listanum nokkrir nýir, lítt virkir eða mér óþekktir bloggarar (skárra væri það) en ég saknaði sárt hennar Öldu. Sárt. Held að menn hljóti líka að hafa gleymt Teiti en ég var mikið glöð að sjá Siggu Láru á listanum.
Þetta var álitsgjöfin mín.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 11. september 2009
Óeinbeittur gróðavilji
Í Kastljósinu í kvöld sagði Lára Hanna þegar Stefán viðskiptasiðfræðingur sagði að ekki gæti hver sem er stofnað eignarhaldsfélag:
Bíddu við, hefði maður ekki getað stofnað utan um sjálfan sig eignarhaldsfélag ef manni hefði bara dottið það í hug?
Já, maður spyr sig. Og ég rifja upp að svo snemma sem árið 2001 eða 2002 varð ég áheyrandi að spjalli tveggja karla sem íhuguðu einmitt þetta, að stofna einkahlutafélag [ég man það með því orði] því að það væri alveg löglegt og líklegt til fjárhagslegs ávinnings.
Og þetta var að rifjast upp fyrir mér.
Ekki veit ég í hvernig félagi fiskamaðurinn var, kannski í því sama og vatnsmaðurinn og ferðalagamaðurinn, en alltént virðast þeir á einhverjum tíma lífsins haft úr nóló að spila en spilað grand. Voru kannski í einkafélögum með sjálfum sér ...
Til að særa engan ákvað ég að skrifa bæði óskiljanlegan og dulkóðaðan texta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. september 2009
Sagði Bjarni þetta í alvörunni?
Ég held að hugtakið viðskiptavit hafi breyst á síðustu árum. Viðskiptavit var áreiðanlega fólgið í því að sjá til þess að fyrirtæki með góða viðskiptahugmynd næði skriði, hagnast á því sjálfur og láta aðra njóta þess með sér, sennilega í aðeins minna mæli. Viðskiptavit Bjarna og margra fleiri virðist nú felast í að tefla á tæpasta vað og nota ýtrustu meðul til þess að sleppa einn frá því. Ég er að reyna að muna að í kringum Bjarna eru áreiðanlega nytsamir sakleysingjar sem falla fyrir vatnsgreiðslunni og mjúkri röddinni.
Það sem ég get núna ekki með nokkru móti skilið er hvernig maður sem er búinn að egna fólk á móti sér í a.m.k. 11 mánuði getur mögulega haldið að sú afstaða sem endurspeglast í DV-viðtalinu 9.9.2009 falli í kramið. Er Bjarni m.a.s. genginn af viðskiptavitinu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. september 2009
090909 (kl. 12:15 (=9))
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 7. september 2009
Med en fod i hver lejr
Ég á enn eftir að finna út nákvæmlega hvers konar orðatiltæki er í fyrirsögninni en ég er nokkuð viss um að það hefur ekkert með útilegu að gera. Ég fletti því upp á google áðan sem bauðst af alkunnum elskulegheitum til að þýða alla síðuna - og viti menn, google (sem þekkir svo marga) hélt að med en fod i hver lejr væri víst with one foot in each camp.
Mannshugurinn hefur enn ekki verið gerður útlægur í þýðingum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 5. september 2009
Afsláttur eða ekki
Fyrir löngu, þegar Síminn var enn síminn og menn borguðu bara afnotagjald eins og af sjónvarpi, var enginn afsláttur af símtalaverði. Svo voru skrefin tekin upp og þá kostaði eitt skref að hringja innan fjórðunga eða svo, fleiri að hringja milli landsfjórðunga. Svo var ákveðið að hafa hámarkstíma á skrefinu, 12 mínútur á kvöldin og 8 á daginn kannski, svo var það helmingað.
Svo var ákveðið að hafa tiltekinn skrefafjölda innifalinn í fastaverðinu og það kallað afsláttur.
Sjálfsagt hefur þjónustan aukist í hlutfalli við hækkandi verð.
Þarna var ég farin að halda minn eigin síma og hugsaði og sagði: Nú líður ekki á löngu þangað til afslátturinn verður tekinn af.
Og það stóð heima. Afslátturinn var felldur niður og það án þess að hafa mörg orð um það, ekki var menni að boðið að taka upp samninginn, semja upp á nýtt, mótmæla eða eitthvað.
Reyndar eru símafyrirtækin orðin fleiri, en sjálf þekki ég engan sem ratar í þessum frumskógi verðs og ókeypis vina - og afsláttar.
Mér datt þetta bara sisona í hug þegar ég sá einhvers staðar út undan mér hvatningu til stjórnvalda um að hækka skatta á álfyrirtæki. Mætti ekki alveg eins tala um að fella niður afsláttinn??
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)