Færsluflokkur: Dægurmál

Vill einhver skilgreina fjármagnstekjur?

Mér gremst hvernig fólk talar um fjármagnstekjur. Kannski erum við pabbi eina fólkið sem lítum svo á að fjármagnstekjur séu þær vaxtatekjur sem fara fram úr verðbólgunni, en þá finnst mér líka að fjármálaspekúlantarnir eigi að gangast við því.

Fyrir hálftíma skrúfaði mbl.is frá krana vefrits fjármálaráðuneytisins þar sem segir m.a.

Á þær er lagður sérstakur skattur, fjármagnstekjuskattur, og var hann 10% á allar tekjur árið 2008. Hann hefur nú tímabundið verið hækkaður í 15% á tekjur umfram 250.000 króna lágmark. Fjármagnstekjur landsmanna höfðu vaxið mjög ört og náðu hámarki árið 2007 þegar framtaldar fjármagnstekjur námu 244 ma.kr.

Ég er svona gríðarlega múruð að vera yfir þessum 250.000 króna peningaeignamörkum og upplifði það - eins og ævinlega - að fjármagnstekjuskattur var núna - eins og ævinlega - tekinn af verðbótaþættinum. Og þegar ég ætlaði að ergja mig yfir þessu skriflega var mbl.is búið að fjarlægja fréttina sem ég ætlaði að tengjast. Og í augnablikinu stendur þar aðeins:

Villa

Ekki fannst frétt með þessu númeri.


Hver á Aðalskoðun?

Í dag færði ég bíl til skoðunar. Ég veit ekki betur en að ég hafi bara val milli Frumherja og Aðalskoðunar. Ég valdi Aðalskoðun og byrjaði á að spyrja hver ætti fyrirtækið. Ég fékk svar við því og ég vona að ég sé ekki að brjóta trúnað þegar ég bæti við að mér var líka sagt að fólk kæmi þangað frekar en á hinn staðinn - af því að fólk vildi ekki versla við Finn.

En er Finnur ekki búinn að tapa öllu? Fann hann kannski allt aftur?


12 feitir Spánverjar eða 12 feitir Íslendingar

Kannski er ég ekki nógu þjóðholl. Kannski er ég ekki sannur föðurlandsvinur. Eða kannski er ég einmitt það.

Mér er slétt sama af hvaða þjóðerni eigendur í einkageiranum eru. Ef samkeppnin er holl og þjónustan góð og verðlagning sanngjörn má hver sem er eiga búðina. Ef fiskurinn í sjónum ætti að vera í einkaeigu er ég ekki viss um að það angraði mig neitt að eigandinn héti Pedro og borðaði saltfisk með sultu. Það myndi angra mig ef hann liti á almenningseign sem einkaeign sína - alveg eins og það ... myndi angra mig þótt eigandinn héti Hávarður og æti saltfisk með kanilsykri og liti á almenningseign sem einkaeign sína.

Eins er ég núna skelfingu lostin og þurr í munninum - eins og ég hefði étið uppþornaðan saltfisk í raspi - við tilhugsunina um að þjónustufyrirtæki og almannahagsmunir komist í einkaeigu. Getur verið, getur verið, getur verið að einhverjir vilji í rauninni selja (les: gefa, nánast gefa) frá okkur nytsömum sakleysingjunum grunnfyrirtæki?

Við misstum Símann (sem ég vildi verða dreifður hluthafi í á sínum tíma), bankana (sem eru í eðli sínu grunnþjónusta) og mig skortir þrek til að rifja upp fleira.

Sem betur fer er ekki hægt að einkavæða hvíldina því að ég veit um marga sem yrðu fljótt öreigar ef þeir þyrftu að kaupa nætursvefninn - hvort sem seljandinn yrði íslenskur .... eða japanskur þess vegna. Átti ég annars ekki eftir að nefna lyfjafyrirtækin ...?


Austurvöllur vs. Lækjartorg

Ingólfstorg í sól vs. Ingólfstorg í skugga.

Ég má ekki mæla. Ég er að horfa á Kastljósið.


Er Gylfi hættur?

Gylfi er með litla símabúð í Mjódd. Ég sá hans fyrst getið á lista dr. Gunna yfir þær verslanir sem gerðu vel við kúnnann og væru með vörur á sanngjörnu verði. Þá var Gylfi í Grafarvogi. Svo flutti hann sig milli hverfa í vetur. Og svo var frétt í sumar um það hvernig hann endurynni síma og gæfi þeim framhaldslíf.

Það var mikil vinna í kringum þetta, skildist mér, en hvatinn var að endurnýta hluti sem fólk hafði tilhneigingu til að skilja eftir í glatkistunni. Og nú spyr ég: Gafst Gylfi upp á limminu - eða fékk Síminn bara sömu snilldarhugmyndina tveimur mánuðum síðar?

Gott að menn vilja endurvinna, endurnýta og gefa hlutum framhaldslíf í stað þess að farga þeim. Og ég ætla sannarlega áfram að versla við Gylfa þegar mig vantar eitthvað símatengt.


mbl.is Notaðir farsímar öðlast framhaldslíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirsýn úr miðjum skóginum er heldur bágborin

Eins og við er að búast getur bók sem er skrifuð í atburðarásinni miðri ekki varpað ljósi á alla atburðarásina. Ég var núna loks að klára spennusöguna Sofandi að feigðarósi. Á bls. 214-5 stendur:

Það er einnig fjarstæða að halda því fram að íslensku bankarnir hafi bólgnað út vegna lántöku og þeir fjármunir farið annars vegar í ónýtar eignir og hins vegar inn á leynireikninga eigenda þeirra. Exista keypti Símann af íslenska ríkinu fyrir eitthvað á sjöunda tug milljarða. Þessir peningar voru að hluta til teknir að láni erlendis. Við vitum hvert þeir fóru. Þeir runnu í okkar eigin ríkissjóð.

Ef það er eitthvað að marka fréttir - kannski er það ekki - áttu þessir peningar mjög stutt stopp í ríkissjóði. Existu láðist að borga af láninu. En kannski er þetta bara gróusaga ...

Það sem ég veit þó að er satt er að ég skráði mig fyrir hlutabréfi í gegnum Almenning hf. sem fékk svo ekki að kaupa. Kjölfestu-fjölfestu ... Ef allur almenningur hefði fengið að kaupa hefði a.m.k. ég reitt fram eigið fé og ekki tekið staka krónu að láni. Það er ekki snefill af gróusögu, heldur sannleikurinn og ekkert nema sannleikurinn.


Hvað eru fjármagnstekjur?

Segjum að ég leggi milljón inn á reikning með 10% ársvöxtum. Eftir ár stendur milljónin í 1.100.000. Á sama tíma hefur verðbólgan mælst 11%. Eru fjármagnstekjur mínar þá raunverulega 100.000 krónur? Eða eru þær þvert á móti neikvæðar af því að ég fæ minna fyrir 1,1 milljón en ég fékk fyrir milljón árinu áður?

Skattur af raunverulegum fjármagnstekjum má mín vegna hækka, en ég vil fá skýra skilgreiningu á fjármagnstekjum.


Lynghaginn rokkaði og poppaði á laugardaginn

Sigga Lára hafði vit á að hrósa íbúum Lynghagans fyrir að örva hlaupagenið í okkur sleðunum á laugardaginn var. Ég ætlaði líka að gera það en úr því að mér láðist það í næstum heila viku verð ég að gera betur. Ætli ég verði ekki bara að kaupa íbúðina sem er þar til sölu?

Fimm árum síðar

Alveg er mér ógleymanlegt þegar viðskiptabankarnir gerðu sig gildandi á íbúðalánamarkaði eftir mitt ár 2004. Eins man ég gjörla að ég hugsaði - og sagði - að gjörningurinn myndi hækka íbúðaverð. Ekki er ég heldur búin að gleyma að hinir meintu lágu vextir (4,15% TIL VIÐBÓTAR verðtryggingu sem margir gættu ekki að) áttu að koma til endurskoðunar eftir fimm ár. Og svo ætlaði ég einu sinni að gera tilboð í íbúð með þessum svaðalegu fínu KB-vöxtum en hætti við þegar til stóð að fjötra mig við Hreiðar Má og Sigurð (launareikningur, greiðslukort, viðbótarlífeyrissparnaður; tvennt af þrennu). Kannski eins gott því að annars ætti ég nú e.t.v. íbúð með suðAUSTURsvölum ...

Og nú er komið að hausti fimm árum síðar. Einhver bankinn (mig minnir Íslandsglitnir) er búinn að gefa það út að hann muni ekki nýta sér ákvæðið. Hvað með hina? Er þeim mögulega hugsanlega með nokkrum hætti kleift að hækka vexti?

Varla.

En það virðist enginn reyna að fjarlægja undirskálar í augna stað, bankarnir gera ekki hið sjálfsagða - svo gapandi hissa varð ég á fréttinni um golfmót MP. Ég hef ekki fundið neitt um þessa einstaklingsþjónustu ... enda var ég líka flutt hreppaflutningum úr SPRON í KB í sumar.

Og ég góni í forundran.

Ég góni.

Og augun minnka ekki.

En nú byrjar mín heilaga sjónvarpsstund ...


Hummer í stæði

Efahyggja mín er svo sterk að þegar frétt barst af því um liðna helgi að jeppi hefði fengið yfir sig málningardobíu, mynd verið tekin og send fjölmiðlum í tölvupósti með skilaboðum um hver ætti og hvar lagt efaðist ég strax um sannleiksgildi fréttarinnar. Alltént var ég algjörlega sannfærð um að fjölmiðlungar hefðu ekki gengið úr skugga um sannleiksgildið.

Á BTB Hummer?

Var Hummernum lagt hjá HR við Höfðabakka?

Af hverju? Labbaði BTB kannski heim? Til London? Eða Kýpur?

Auðvitað kemur mér þetta ekki við en samt er verið að segja mér frétt og þá læt ég eftir mér að spyrja þessara spurninga.

Og svarið var mér sagt að fyndist á netinu. Ég fann samt ekki svörin við spurningum mínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband