Færsluflokkur: Dægurmál

Með vigtum?

Og þegar ég fletti feitletrun minni upp á google kom á daginn að fleiri hafa látið vigtina hlaupa með sig í gönur. Það er kannski von, kvenkynsorðið virkt er hóflega brúkað í dagsins önn.


Innlegg í umræðuna

Hin spekúlatífa bók Sofandi að feigðarósi er æsispennandi lesning. Verst hvað það er líklega margt satt í henni, betur færi á því að hún væri lygisaga.

 

Mér súrnar í augunum við lesturinn en sú sýra leiðir þó hugann um stund frá hinum sáru 10-km-harðsperrum sem hafa heldur en ekki færst í aukana á þeim eina og hálfa sólarhring sem liðinn er frá hinu ÁRVISSA 10 km skokki ...


menningarnott.is

Gargandi fín gagnvirk síða sem hjálpaði mér að velja mína viðburði. Vantar bara maraþonskokkið.

Spekileki eignarfallsins

Langreyndir og elskuverðir fréttamenn eru farnir að nota þágufall í stað eignarfalls á eftir forsetningunni vegna. Þykir mér það miður.

Öllum þykir áreiðanlega óeðlilegt að segja *vegna Agli eða *vegna Grími (og t.d. líka Aglison eða Grímison). Eins er rétt að segja: vegna breytingar.


Að biðjast eða biðjast ekki afsökunar

Alveg er mér slétt sama hvort Hreiðar eða annar peningabúbbi biður mig afsökunar eða ekki. Ég vil bara að hann skili ofteknu fé. Og ekki til mín, heldur þeirra sem hann hirti það af. Og það sama á við um alla hina.

Hvað varð um 500 milljarða lánið sem Kaupþing fékk í október 2008? Af hverju sagði HMS að ekkert af því láni félli á okkur? Hvað á hann sjálfur mikið eftir af ofurlaunum, kaupréttum, bónusum og kúlum? Hvernig væri að hann skilaði því til þeirra sem öfluðu þess fjár?

Ég hætti í viðskiptum við Búnaðarbankann skömmu eftir að HMS og SE byrjuðu með kaupaukana sína. Þótt þeir væru reknir með þá til baka í eitt skipti var það bara skammgóður vermir. Árið eftir nennti enginn lengur að ybba gogg, bara nokkrir nytsamir sakleysingjar hættu í viðskiptum við bankann. Ég var ekki átthagabundin með íbúðarlán og gat gefið þeim langa nefið sem ég hef séð í öðrum bloggfærslum í kvöld.

En ég þori að hengja mig í hæsta gálga upp á það að allmargar fullorðnar konur hafa hrifist af einbeitninni sem skein úr augunum. Hann er svo laglegur.

Sigmar var ágætur. Hvernig talar maður við sjálfumglaðan vegg sem varpar öllum spurningum til baka með yfirlýsingum um eigið ágæti?


Peningar eru ekki verðmæti

Peningar eru ávísun á verðmæti, s.s. góðan mat, falleg föt, ljót föt, hraðskreiða bíla, glæstar þyrlur, einkaþjálfara, megrunartöflur, gleðitöflur, ótakmarkaðar lendur - og t.d. fiskveiðikvóta.

Hvenær mun það ljós renna upp fyrir fjármálagúbbunum og meintum kvótaeigendum að illa fengið handbært fé ávinnur þeim ekki sálarró, eilíft líf og óskoraða aðdáun hinnar vinnandi handar? Menn þurfa að vera a.m.k. dálítið siðlausir til að líða vel með það að hagnast stórkostlega á vinnu og/eða óförum annarra og ég held að menn þurfi að vera öllu siðlausari til að snúa alls ekki af villu síns vegar.

Meðan peningum er ekki til að dreifa eru þeir nauðsyn, eftir það eru þeir ofmetnir. Til hvers þarf nokkur maður mörg hundruð sinnum meira en hann þarf?


Tekst ekki að manna frístundaheimili

Frétt í útvarpinu hljóðaði upp á að enn vantaði um 100 manns í störf á frístundaheimilum borgarinnar. Ú! Svo þarf spjallþátt í útvarpinu eða blogg til að benda á hvers vegna fólk á atvinnuleysisskrá sækir ekki um - það er verr borgað að mæta í þá vinnu en að vera á atvinnuleysisbótum og atvinnulausir missa að auki hlunnindi, s.s. sundkort og leikhúsmiða.

Svo er dálítið gremjulegt að fólki skuli finnast að það að annast um börn í frítímum þeirra sé svo lítilsiglt starf að hægt sé að dubba hvaða sótraft sem er upp í það. Það er mjög krefjandi starf, alveg áreiðanlega ekki metið að verðleikum og hreint ekki heppilegt fyrir einhverja fjármálagúbba sem eru ekki einu sinni næmir á líðan fólks á pappír [Jón Sigurðsson á seðlinum], hvað þá í raunheimum.

Og eitthvað segir mér að þetta sé ekki nýtt.


Sex dagar til stefnu

Á laugardaginn er maraþonskokkið og ég er búin að finna strigaskóna mína. Veit samt ekki enn í hverju ég ætla að skokka mína hefðbundnu 10 kílómetra. Fer kannski í búð á föstudaginn.


RÚV - *geisp*

Er ekki lágmark vikurnar eftir að RÚV-nefskatturinn er tekinn upp að vera með myndir um helgar sem ekki eru bæði B-myndir og 25 ára gamlar?

*geisp*

Svo minni ég á að Þráinn er í aukaföllunum: um Þráin, frá Þráni, til Þráins.


Smartphone

Í dag var ég beðin að venda tveimur línum um síma úr ensku yfir á íslensku. Maður gæti haldið að það væri lítið mál, og stundum er það lítið mál. Í þessari litlu orðahrúgu var orðið smartphone sem ég ímynda mér að vísi til einhvers ákveðins við símann, útlits hans eða notkunarmöguleika. Mér datt snjallyrðið snjallsími í hug og leitaði á síðum Vodafones og Símans en fann ekki. Gafst ekki upp og fann TÖLVUORÐABÓK. Vei. Það dugði.

smartphone = snjallsími


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband