Færsluflokkur: Dægurmál

Bókaránið mikla

Á síðustu öld lét háttsettur starfsmaður á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn greipar sópa um verðmætin í hillunum. Og nú er ég að lesa bók um glæpinn. Glæpamaðurinn var ótrúlega bíræfinn og komst - lengi - upp með allt vegna brotalamar í öryggis-, skráningar- og umgengnismálum.

Þau voru í ólestri. Hahha.

Síðar kom Svarti demanturinn til sögunnar.

Það er ekki frítt við að ég skilji bókina sem ádeilu á hroðvirkni opinberra starfsmanna.


Geitungur gerir stutt stopp

Þegar ég fór á fætur í morgun sá ég strax að geitungur hafði fundið rifu á glugga og smeygt sér inn. Ég opnaði gluggann betur, og alla glugga íbúðarinnar reyndar, og fór svo að sinna öðru. Næst þegar ég mundi eftir honum var hann horfinn á braut.

Er það ekki svona sem maður tekur á aðkomu...fyrirbærum, kvikindum, annarra manna skuldum og öðru sem heillar mann ekki? Býr til undankomuleið?


Bókabúð & bókabúð, bókabúð eða bókabúð

Mér varð áðan gengið framhjá nýrri bókabúð í fyrrverandi húsnæði SPRON. Röðin sást langt niður Skólavörðustíginn og ég fagnaði hinum nýtilkomna raunáhuga bókaþjóðarinnar. Þegar nær dró sá ég þó hvað hékk á spýtunni.

Grillið var í gangi.


Enginn álagningarseðill

Fyrst leitar maður að sök hjá sjálfum sér. Ég hef ekki fengið álagningarseðil sendan heim og því spyr ég mig: Hakaði ég (les: endurskoðandi minn) við einhverja beiðni við framtalið um að ég (les: ég) vildi ekki seðil með upplýsingum? Ef til vill.

En, fnæs, þótt ég sé umhverfisverndarsinni svo að jaðrar við væmni vil ég ekki að skattaskuldir mínar hverfi í óminni netsins. Og hvert ætti ég sossum að hringja?

Nei, ég fór bara til skattmanns og bað um að fá að gera upp. Ég þarf þá ekki að treysta bönkunum fyrir umframfénu á meðan. Vona bara að ríkiskassinn fari vel með peninginn sem ég aflaði á síðasta ári.

Meðan ég beið eftir afgreiðslu fletti ég álagningarskrám, A-E. Það er hægt að gleyma sér yfir náunganum ...


Brjálað að gera hjá bílaleigunum?

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði. Í fréttum Stöðvar 2 var stór frétt um að ef menn ætluðu að ná sér í bílaleigubíl fyrir næstu helgi - sem er áreiðanlega stór ferðahelgi með fiskideginum mikla og fleiru - yrðu menn að hafa hraðar hendur.

Hmm, síðast og þarsíðast þegar ég heyrði talað um bílaleigurnar svitnaði fólk yfir háu verði. Og ég er svo tortryggin að ég held helst að þetta hafi verið feit ókeypis auglýsing fyrir bílaleigurnar.

Svo náði ég alls ekki að hverjum gagnrýnin beindist. Bílaleiguviðmælandinn talaði um að 3 milljarðar hefðu tapast í gjaldeyristekjum af því að bíla vantaði. Hmm, hver átti að leggja þá til? Hlunnfór einhver hann um 500 bíla?

Ég er enn ekki vaxin upp úr því að finnast 3 milljarðar talsvert margir peningar - líka í krónum. Og ég trúi ekki á þessa frétt. Á Jón Jóhannesson kannski bílaleigu?


Ys og þys í bankanum

Ég hafði ekki tækifæri til að setja endapunkt á viðskipti mín við Skaupþing í dag. Röðin var of löng. Skyldu það vera mánaðamótin, allir að borga reikninga í holdinu ...?


Áhlaup hafið

Lengi hefur mér boðið við framkomu fyrrum yfirmanna Kaupþings, og Sigurður og Hreiðar ýttu mér persónulega yfir til sparisjóðs. Um daginn var ég svo flutt hreppaflutningum yfir í Kaupþing aftur og nytsami sakleysinginn ég ákvað að gefa núverandi yfirmönnum tækifæri til að sanna sig.

Ó svei.

S24 hefur ekki klikkað hingað til og nú set ég allt mitt traust á þann netbanka, endurnýja greiðslukortið og legg platínukortinu sem Kaupþing prangaði inn á mig. Ítreka þó það sem ég hef áður sagt að afgreiðslufólkið hefur verið lipurt.


Dybt at falde

Hvað gæti verið betra um verslunarmannahelgi en að sitja á svölunum og lesa danska sakamálasögu?

Dybt at falde

Það væri sossum hægt að fá sér kríu í Vestmannaeyjum - er ekki orðið svo lítið um lunda ...?


Hverjir eru tengdir aðilar?

Ég spurði hr. Google og hann gaf nokkur svör, m.a.:

Tengdir aðilar: Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg. 
 

Þarf að fara á milli mála hverjir eru tengdir aðilar? Getur sonur verið 20% tengdur af því að hann á 20% eignarhlut í fyrirtæki pabbans? Eða eru blóðtengsl sjálfkrafa 100%?

Mikið er ég orðin langeygð eftir að menn breyti rétt af því að það er rétt, óháð því hvað klásúlur segja, lagaromsur eða doktorar í hagvísindum.


Innherjaupplýsingar prófarkalesara

Fyrir nokkrum árum prófarkalas ég ársskýrslu símafyrirtækis. Nokkrum vikum síðar var ég beðin um að prófarkalesa ársskýrslu annars símafyrirtækis en þegar almannatenglinum varð ljóst að ég hefði lesið skýrslu hins fyrirtækisins var ég orðin að innherja og mátti ekki lesa síðari skýrsluna. Tek ég þó fram að báðar skýrslurnar voru á endanum til birtingar.

Einu sinni las ég líka ársreikning Búnaðarbankans. Þá var ég kyrrsett á auglýsingastofunni alla nóttina því að ekkert mátti mögulega leka út áður en hann yrði birtur.

Ég gæti ekki unnið mér til lífs að muna eitt einasta viðkvæmt atriði úr þessum lestri öllum.

Hvernig stendur á því að séð er til þess að smæstu peðin í taflinu steinhaldi kjafti en kóngarnir sjálfir leka öllum hagnýtu upplýsingum til sjálfra sín? Ef eitthvað er að marka fréttir vikunnar gerðu bankastjórar Glitnis áhlaup á bankann sinn á undan öðrum og létu sér þá í léttu rúmi liggja hversu sárir aðrir gengju frá (tafl)borði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband