Færsluflokkur: Dægurmál

Páskaspurningakeppni fjölmiðlanna verður á RÚV í kringum hvítasunnuna!

Ég get sætt mig við það. Ég er varla þrýstihópur þar sem ég skirrist m.a.s. við að skrá mig á flettismettið en þar söfnuðust saman stærri hópar en ég get talist. Ég fagna þó á við hóflegan hóp.

Einbeiting óskast

Hin gríðarspennandi bók Karlar sem hata konur er á náttborðinu. Ég les tvær blaðsíður í senn og sofna út frá henni. Konur eftir Steinar Braga er komin í bunkann og að bestu manna yfirsýn er hún í senn ógeðsleg og samt ekki hægt að slíta sig frá henni.

Ég er genetískur bókabéus. Ég er með háskólagráðu í bókelsku. Er það pólitíkin sem rænir mig rónni og einbeitingunni? Er sjónin að gefa sig? Er það aldurinn?

Mig vantar sól og svalir.


Víst verður spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana!

Það styttist reyndar í páskana þannig að nú má fara að eyða óvissunni. Fleiri en ég voru með böggum hildar þegar spurðist að RÚV ætlaði ekki að hafa hina árvissu páskagleði og nú heyri ég að Bylgjan íhugi að vera með spurningakeppni og að Útvarp Saga ætli að vera með svoleiðis með eigin sniði. Skyldu vera fuglahljóð í því sniði?

Ég tek gleði mína á ný.


DO á pari við HH

Davíð leiðist varla að mér þyki hann eins flinkur ræðusmiður og ræðuflytjandi og Hallgrímur. Einkum hafði ég mikið gaman af Útvarpi Manhattan á sínum tíma og hefði áreiðanlega haft gaman af Útvarpi Matthildi hefði ég haft aldur til.

Synd ef ekki verður af spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana

Í Fréttablaðinu sá ég að RÚV verður víst ekki með spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana. Ég leitaði að fréttinni á vef RÚV en fann ekki. Vonandi fór Ævar Örn Jósepsson spyrill bara fram úr sér eða misskildi eitthvað - nema þetta sé bara kynningarbrella.

Enn er langt í páska og enn getur RÚV snúist hugur ef þetta stóð yfirleitt til. Það er nefnilega góð skemmtun að hlusta á spurningakeppni í útvarpinu. Og fjölmiðlamenn vita margt þótt fréttamenn spyrji ekki alltaf réttu spurninganna.


Makaskipti

Það var mikið að einhver fréttveita sagði hið augljósa. Meira að segja Glitnir gat ekki lengur horft framhjá því að makaskiptasamningar í fasteignum hafa gefið rangar vísbendingar um verð. Samkvæmt Fasteignaskrá Íslands var meðalupphæð á samning á höfuðborgarsvæðinu 42,8 milljónir króna.

Hver trúir að það sé meðalverð seldra íbúða? Kannski Ásgeir og Edda?


Evra og evra

Í árslok 2007 stóð evran í rétt rúmum 90 krónum en í árslok 2008 rúmum 170 krónum. Það er næstum helmingsmunur.

Títtnefndur Grandi er farinn að gera upp í evrum eins og lesa má í ársreikningi hans. Í skýringum á blaðsíðu 9 stendur þetta:

Samstæðuársreikningur félagsins er nú í fyrsta sinn settur fram í evrum, en stjórn félagsins hefur ákvarðað að evra sé starfrækslugjaldmiðill félagsins frá og með árinu 2008. Samanburðarfjárhæðum hefur verið breytt með þeim hætti að allar fjárhæðir voru umreiknaðar með gengi evrunnar í árslok 2007. Allar fjárhæðir eru birtar í þúsundum evra, nema annað sé tekið fram.

Ef ég væri blaðamaður spyrði ég mig - eða frekar einhvern sem gæti svarað - hvers vegna 16 milljóna evruHAGNAÐURINN var reiknaður á ársgömlu gengi. Ef hagnaðurinn hefði verið 2.720.000.000 (2,7 milljarðar) í stað 1.440.000.000 kr. (tæplega 1,5 milljarður) hefðu hluthafar fengið greiddan hærri arð sem 8% - af hagnaði, ekki satt? Kannski hefði verið ráð að fara milliveginn og nota gengi júnímánaðar 2008, 125 kr.

Hvers vegna notaði stjórn Granda gengið frá árslokum 2007 þegar krónan átti eftir að veikjast svona mikið?

Er verið að hlunnfara hluthafana? Vill stjórnin ekki berast á? Á hagnaðurinn að verða stærri síðar?

Ef ég væri blaðamaður spyrði ég t.d. stjórnina þessara spurninga, a.m.k. í ljósi nýjustu tíðinda. Og fengi e.t.v. Vilhjálm Birgisson með mér.


Langholtið mitt

Borgin áformar að rífa gömlu skólastofurnar mínar þar sem ég stundaði bæði grunn- og framhaldsskólanám. Ég veit að þær eru trúlega varla nothæfar lengur en ég fékk netta fortíðarþrá við að lesa fréttina.

Sniff.


Fjárhagsleg heilsa

Skelfing leiddust mér alltaf auglýsingar Byrs um fjárhagslega heilsu. Fyrir síðustu áramót átti ég í miklum tölvupóstssamskiptum við einhverja undirdeild Byrs sem ég, sem sparifjáreigandi í SPRON, lenti í viðskiptum við - lenti, ítreka það - og ég híaði á þessa fjárhagslegu heilsu. Og þrátt fyrir að Byr hafi fundist tilhlýðilegt að hirða 29% af sparnaði mínum - og annarra sem lentum í klónum á honum - dugði það honum ekki til að rétta úr eigin kút og annarra sparisjóða.

Og ég spyr mig hvort einhverjum innan dyra, t.d. í Byr, hafi ekki ofboðið líka, bæði fyrir og eftir almenna vitneskju um gríðarlegan lasleika fjárhagsins. En eins og aðrir tek ég fram að viðmót starfsmanna var aldrei annað en lipurt.


Spjallið hans Sölva

Þorleifur Arnarsson er giska góður leikari. Nú er ég búin að sjá hann leika tvo viðmælendur hjá Sölva á Skjá 1 (sem ég nenni allajafna ekki að horfa á, þ.e. stöðina). Um daginn kynnti Sölvi hann sem Jón Hannes Smárason áhættufjárfesti og þótt ég vissi mætavel að þetta væri Þorleifur féll ég í smástund og undraðist hvað þessi leynigestur í íslensku samfélagi kæmi ótrúlega mikið upp um sig.

Áðan kynnti Sölvi hann sem þingmann og ég afvegaleiddist ekki eina sekúndu enda veit ég hvernig þau öll 63 líta út. Talsmátinn hefði líka komið upp um hann - aftur.

Hver á annars Skjá 1?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband