Færsluflokkur: Dægurmál

37 milljónir nettó á ári

Ja, ekki heillaði Bjarni mig í Kastljósinu.

Í allri smeðjunni sem rann viðstöðulaust upp úr honum sagði hann alveg skýrt að hann hefði fengið 37 milljónir á ári þessi 10 ár sem hann vann hjá Glitni, áður Íslandsbanka, líka Fjárfestingarbanka atvinnulífsins [og bráðum aftur Íslandsbanka]. Og ekki hvarflar að mér að hann hafi reiknað inn í sporslur og kauprétt, þetta voru launin á launaseðli - eftir skatta.

Ástæðan fyrir að hann fór fram á yfirverð fyrir hlutina sína við brottför úr bankanum var einfaldlega sú að hann gerði það. Les: græðgi, enda sagði hann líka að græðgi í hófi væri drifkraftur. Og þannig náði hann til sín milljörðum íslenskra króna, óumdeilt. Vissulega er ástæða til að spyrja stjórn bankans hvers vegna hún lét fíflast en það er ekki síðri ástæða til að spyrja bankastjórann fyrrverandi hvers vegna hann gerði það sem hann gerði. Og svarið var undir rós: Taumlaus græðgi.

Alveg er ég viss um að mamma hefur fallið fyrir sakbitnu engilsásjónunni og að þessi góði maður hafi borgað Glitni til baka 370 milljónir - þótt hann hafi haldið eftir nokkrum milljörðum, milljörðum sem hvorki hann né Sigmar spyrill réðu við að telja.

Svo sér þessi gáfaði framsýni [gva!] maður að hann gerði mistök í REI- og GGE-málinu - og roðnaði létt þegar Sigmar bar á hann mistök hins stórkostlega viðskiptajöfurs.

Markaðströllið getur haldið áfram að hekla og stinga upp kartöflur - það heillar mig ekki. Han får prøve å snakke norsk.


Deila um keisarans skegg

Ég er búin að lesa yfir mig af skoðunum fólks, andstæðum skoðunum, ýmsum málefnalega fram settum, mörgum nafnlausum, sumum flokkadregnum og ég skil ekki af hverju pínulítið 315.000 manna þjóðríki, jafn mannmargt og Árósar í Danmörku, getur ekki sameinast um að vinna að því að leysa vandann.

Vandinn er að hér stefnir í talsvert atvinnuleysi, rýrnandi kaupmátt, minni lífsgæði, mikla skuldsetningu og vonleysi hjá einhverjum hópi fólks.

Hvað veldur?

Er það ekki spilling? Er það ekki? Er það ekki spilling þegar menn fá að kaupa fyrir lágt verð eignir sem eru miklu meira virði? Er það ekki spilling þegar menn eru ráðnir til starfa þegar aðrir miklu hæfari bjóðast? Er það ekki spilling þegar logið er að manni til þess að fá mann til að trúa einhverju allt öðru en sannleikanum?

Og hefur þetta ekki viðgengist? Er það ekki?

Ef einhver segir að Jón Jóhannesson eigi að sjá sóma sinn í að sýna rétta breytni og hætta að svína á okkur segir einhver annar að Björgólfur Björgólfsson sé engu skárri og hafi skuldsett okkur í gegnum Icesave. Og þá kemur sá þriðji og segir að Bjarni Ármannsson hafi sloppið best, alla leið til Noregs.

Já, þeir hafa allir skarað eld að eigin köku. Þetta er ekki keppni í spjöllum. Þeir eru allir gráðugir og síngjarnir, en hafa á stundum á sér yfirbragð saumakonunnar eða lyftaradrengsins. Og listinn er ekki tæmdur þar með.

Þótt ég hafi farið til ágæts háls-, nef- og eyrnalæknis í dag - og hrósi honum - þýðir það ekki að aðrir séu lélegir. Eins er ekki endilega Mogginn gott blað þótt ég gagnrýni Fréttablaðið.

Hvaða fólk tapar engu á þessu þráðbeina bankahruni? Óháð heimskreppunni, óháð sakbendingu.

Ekkert fólk. Allir tapa. Meiri verðbólga og minni lífsgæði gera vart við sig hjá öllum. Öllum.

Hverjir mega við því?

Helst þeir sem áttu skuldlausar eignir og annað hvort engan pening eða tilfallandi bara á innlánsreikningum eftir setningu neyðarlaganna 6. október. Mjög blankir mega væntanlega samt varla við kreppunni sem felur í sér minni kaupmátt. Ég á við að þeir sem eru í vinnu og eiga ekki skuldsettar eignir lenda varla í heimiliskreppu til viðbótar.

Það fer ekki eftir endilega eftir því hvar fólk setur krossinn á kjördag.

Það er svo hryggilegt að hér stefni í átök um þann sjálfsagða hlut sem það hlýtur að vera að rétta af kúrsinn. Vilja ekki allir að við náum siglingu og svo landi? Og allir um borð? Vill einhver láta einhvern drukkna meðan hann tryggir sjálfum sér þriðja eftirréttinn við borð skipstjórans á efsta dekki?

Jöfnuður getur aldrei verið fullkominn. Sumir fæðast fallegir, sumir fæðast gáfaðir og sumir fæðast fyndnir. Svoleiðis getur maður aldrei jafnað. Það sem hægt er að tryggja öllum jafnt er tækifæri til menntunar og áhrifa. Suma langar ekki að verða ríkir og það er óþarfi að hía á þá. Það hefur verið gert. Sumir vilja ekki fara í langt nám og það er óþarfi að gera lítið úr þeim. Suma langar að eyða sumarfríinu á sólarströndum, aðra á fjöllum, einhverja í garðinum sínum og kannski vilja sumir geyma sumarfríið til næsta árs og fara þá í lengra frí. Þetta er allt alveg skiljanlegt.

Af hverju í andskotanum mega ekki bara öll helvítis blómin vaxa í friði? Af hverju eru svona margir þess umkomnir að gagnrýna og vanda um við aðra?

Að lokum legg ég til að menn sammælist um að uppræta spillinguna. Og þá þarf að finna hina seku og láta þá gjalda keisaranum það sem keisarans er - skítt með helvítis skeggið.


Yousave - hverjum?

Tikktakk, tikktakk, tíminn líður hratt á gervigróðaöld. Eftir tvo daga rennur upp hinn örlagaríki 7. janúar, dagurinn þegar þrír mánuðir eru liðnir frá tímasettu upphafi katastrófunnar milli Darlinganna á Íslandi og í Bretlandi.

Skömmu fyrir jól samþykkti þingheimur að kosta einhverju fé upp á málshöfðun á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna sem svo hafa verið kölluð, þegar eignir Landsbankans í Bretlandi voru kyrrsettar. Ég þarf ekki að rifja svo minnisstæða atburði upp fyrir fólki, svo er Friðrik Þór þjóðfélagsrýnir líka búinn að því.

En ég spyr: Hvað dvelur orminn langa? Varnarsveitirnar reyna að standa vörð um orðspor okkar en forsætisráðherra liggur ekki á.

Eru maðkar í mysunni? Hver ... seifar hverjum? Eiga menn von á því að eitthvað komi upp úr dúrnum sem ekki þoli dagsins ljós?


Fjölvarpið

Ég ákvað fyrir helgi að segja fjölvarpinu upp. Það er hýst hjá Stöð 2 og mér skilst að hún sé í eigu Jóns Jóhannessonar.

Margur myndi segja að ég væri ágætlega meðvituð um peninga og kostnað. En áskriftin er skuldfærð beint á kortið og mér yfirsáust TVÆR HÆKKANIR á árinu. Í júlí kostaði fjölvarpið mitt 4.009 kr., í ágúst kostaði áskriftin 4.266 kr. (og ég man ekki eftir að hafa fengið tilkynningu) og núna er hún komin í 4.741 kr. Það er 18% hækkun á tæplega hálfu ári.

Ég get vel látið BBC Prime, BBC Food, CNN, Discovery, National Geographic, Cartoon Network, dönsku, sænsku og norsku stöðvarnar á móti mér. Mér fannst gaman að hafa þær en nú eru þeir dagar liðnir.

Ég er hins vegar mjöööög stúrin yfir að Silfur Egils skuli ekki vera á dagskrá í dag.


Klemensson eða Klemenzson

Nú hefur heimsóknum á vef Seðlabankans ugglaust fjölgað í kvöld. Hingað til hef ég aðallega litið þar inn til að fylgjast með genginu en nú er ég búin að komast að því að þar kennir ýmissa grasa. Ég fann t.d. þetta um helstu verkefni:

  • Seðlabankinn skal stuðla að stöðugu verðlagi
  • Seðlabankinn skal stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu
  • Seðlabankinn gefur út seðla og mynt
  • Seðlabankinn fer með gengismál
  • Seðlabankinn annast bankaviðskipti ríkissjóðs og er banki lánastofnana
  • Seðlabankinn annast lántökur ríkisins 
  • Seðlabankinn varðveitir og sér um ávöxtun gjaldeyrisforða landsmanna 
  • Seðlabankinn safnar upplýsingum um efnahags- og peningamál, gefur álit og er ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál

Meginmarkmiðið er þó auðvitað að stuðla að stöðugu verðlagi. Sem minnir mig á að undanfarið hefur allt sem ég kaupi hækkað um 30% eða meira.

Ég fann ekki hvort Ólafur er Klemensson eða Klemenzson, sá hins vegar að vefritstjóra hefur ekki unnist tími til að uppfæra breytingar á varastjórn bankaráðs. Halla Tómasdóttir hætti 20. desember og í hennar stað var kosin án atkvæðagreiðslu Fjóla Björk Jónsdóttir. Alltént sýnist mér sem Fjóla taki strax við af Höllu, sbr. 26. gr. sem vitnað er til:

26. gr. Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.

Þetta sýnir bara hvað maður hefur hégómleg áhugamál. Er það zeta eða ekki ...? Og af hverju hætti Halla? Hmm.


Þriggja milljóna tekjutap

Í dv.is er haft eftir Sigmundi Erni að tekjutapið vegna eyðileggingar nemi þremur milljónum króna. Það er dapurlegt.

Við Stöð 2 segi ég: Velkomin í hópinn. Eini munurinn á þér og mér er að ég má ekki persónugera og ekki leita að sökudólgi.


Tímaskekkja krosseldanna

Væri Stöð 2 ekki í lófa lagið að endurtaka umræðurnar í breyttri mynd? Undanfarinn klukkutíma hef ég hlustað á fréttir og lesið fréttir og skoðanaskipti fólks um ágreininginn við Hótel Borg í gær. Það eina sem ég vissi um boðuð mótmæli var það sem ég hafði lesið á moggabloggi sem hafði verið lyft upp í umræðuna. Ég geri þó ráð fyrir að fleiri miðlar hafi verið notaðir.

Nú kvarta ýmsir yfir því að hafa ekki fengið að heyra og sjá forystumennina fara yfir málin og skiptast á skoðunum. Skiljanlegt. En er nokkuð sem bannar sjónvarpsstöðvunum að hafa almennar stjórnmálaumræður annars staðar og kannski tóna íburðinn svolítið niður eins og líka var kallað eftir?

Þá gefst nú aldeilis gott tækifæri til að heyra framhaldið, ekki satt?

Ég man eftir varaþingmanni sem varð kjaftstopp í jómfrúrræðu sinni á þingi, mjög leið yfir því eins og gefur að skilja en svo var tekið við hana fréttaviðtal þar sem hún sagðist hafa svo mikið að segja - lét þó undir höfuð leggjast að nota það góða tækifæri sem þar gafst til að segja það sem henni lá svo mikið á hjarta.

Þótt ég hafi til margra ára horft á Kryddsíldina - enda líklega úrvalsófaskartöflumús - hefur mér aldrei fundist gamlaársdagur dagurinn til þess. Má ég stinga upp á þrettándanum?


Auglýsingar voru í aðalhlutverki

Þá á ég allt í einu fimm korter, krosseldinum (kryds-ild) lauk fyrirvaralaust vegna athafna mótmælenda. Ég hjó samt eftir því að Rio Tinto Alcan var styrktaraðili þáttarins - að vanda. Var því ekki mótmælt í fyrra og jafnvel hitteðfyrra?

Lítil fyrirtæki sem Jón Ásgeir á ekki

Ég fór í bakarí í dag og spurði: Á Jón Ásgeir nokkuð þetta bakarí? Konan hló við og sagði að hann ætti það aldeilis ekki.

Geta ekki verslanir gert það fyrir mig að merkja sig sjálfstæðar, óháðar og ekki í eigu kaupahéðnanna sem ég vil ekki styrkja með innkaupum mínum?


Völva DV

Stútfull af óskhyggju. Til vara: Jafn áreiðanleg og veðurspádeild bankanna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband