Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 1. janúar 2008
Mamma mín er sætust
Mamma átti stórafmæli í gær í góðum félagsskap. Trausti bróðir, elstur systkinanna, benti á hið augljósa - að hún er best - og ég tók myndir af því augljósa - að hún er sætust! Hverjum finnst það ekki um mömmu sína?
Svo er hún rökleg (að öðru leyti en því hvernig hún x-ar á kjördegi) og hvetur börnin sín þegar þau þurfa á að halda. Hún var heimavinnandi húsmóðir (sér til lítillar gleði) meðan við uxum úr grasi, menntuð sem kennari en með enga almennilega barnagæslu fyrr en ég kom til sögunnar. Þá var það Brákarborg, ekki ég sem passaði eldri systkini mín ...
Ég held að hennar helsti harmur sé að vera ekki lengur á vinnumarkaði því að hún er kjarnorkukerling og gæti vel dugað til ýmissa verka. Ég get svo sem spurt hana en stundum þekkir maður foreldra sína betur en þeir sjálfir, hmm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði við Guðna Ágústsson í Kryddsíldinni sem ég sá í endurflutningi í dag að hann vissi meira um hann en hann sjálfur.
Ég er afskaplega heppin með foreldra og get ekki nógsamlega þakkað hvað þau halda góðri heilsu - líka geðheilsu, hehe.
Eiginlega verð ég að nota tækifærið og þakka góðum gestum fyrir heimsóknina í gær. Þá má alla finna í albúminu sem ég stofnaði utan um gærdaginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 30. desember 2007
Öfund út í auðmenn
Nú er Silfur Egils í endurflutningi í sjónvarpinu mínu. Jón G. Hauksson vænir okkur um að öfundast út í auðmenn þegar þeir auðgast en vorkenna þeim ekki þegar þeir tapa.
Þetta er misskilningur. Þegar menn auðgast miklu meira en venjulegir launþegar breikkar bil. Þeir sem verða mjög ríkir hafa efni á meiru og missa kannski skilninginn á verðgildi venjulegra hluta. Þegar þeir hafa efni á að kaupa hús fyrir 100 milljónir, rífa það allt og byggja nýtt fyrir 200 milljónir er hætt við að hinir í götunni vilji líka gera góða sölu. Og ég fullyrði að þetta hefur átt þátt í að hnika verði fasteigna upp á við. En ég er ekki greiningardeild banka.
Þegar menn vita ekki aura sinna tal er ekki hvati til að fara vel með fé, a.m.k. ekki sitt eigið.
Ég öfunda hvorki Hannes, Jón né Björgólf. Ég óska þeim bara góðs en ég sé enga ástæðu til að vorkenna þeim þótt þeir tapi kannski í einu vetfangi 30% af gróða eins árs. Og segi mér þeir sem vit hafa á: Er það ekki vegna þess að þeir taka áhættu? Og er það ekki einmitt áhættan sem stundum færir þeim skjótfenginn gróða?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 29. desember 2007
Nú styttist í ráðningu nýs ferðamálastjóra
Að vonum er ég spennt að vita hver af 50 umsækjendum um starf ferðamálastjóra fær hnossið. Samkvæmt fréttatilkynningunni verður ráðið í starfið á þriðjudaginn. Ég hefði vitaskuld viljað sjá Marín vinkonu mína, menningar- og ferðamálafulltrúa Hafnarfjarðar, meðal umsækjenda - en hún sótti því miður ekki um.
Ég er það sem ég kýs að kalla hobbíleiðsögumaður og mjög spennt að vita hver leysir Magnús Oddsson af hólmi. Sumarið 2006 var ég í miklum hugleiðingum um framtíð stéttarinnar:
Það sem veldur mér ugg núna er að Magnús Oddsson ferðamálastjóri trúir því, a.m.k. á opinberum vettvangi, að ferðamönnum á Íslandi muni á næstu 10 árum fjölga upp í eina milljón. Lengi hafa heyrst áform um að ferðamenn verði komnir í þá tölu árið 2015. Og það sem meira er, Magnús Oddsson virðist fagna þessari meintu mögulegu staðreynd.
En hvernig er staðan núna?
Háönnin í ferðaþjónustu er júlímánuður. Júní og ágúst eru líka annasamir. Maí og september taka til sín stærri og stærri hluta en vetrarmánuðirnir eru lágværari. Að vonum. Það er ekki bara á Íslandi sem sumarfrí eru almennt yfir sumarið, sumarið er ferðamannatíminn, sá tími sem menn leggja land undir fót, taka flugið til annarra landa. Samt vitum við að jaðartímabilin koma æ sterkar inn, hvatahópar koma hingað í janúar og febrúar til að skunda á jökul, láta misvindana umvefja sig og myrkrið heilla. Heita vatnið er dularfullt í myrkri gufunni, fossadynurinn óræður, álfarnir ósýnilegir að vanda, samferðafólkið skemmtilegt og stundum gerir leiðsögumaðurinn gæfumuninn með frásögnum, þekkingu og glensi.
Yfir sumarmánuðina eru hótel og aðrir gististaðir að springa af fólki, veitingastaðir margir stútfullir, rútur duga hvergi nærri til, skortur er á leiðsögumönnum og rútubílstjórum, hvalaskoðunarbátarnir drekkhlaðnir og önnur afþreying nýtt í þaula. Nú, þegar gestir landsins eru komnar á fjórða hundrað þúsund, er öllum þeim sem um landið fara ljóst orðið að ekkert af þessu dugir til. Í mörgum landshornum opna gististaðir ekki fyrr en langt er liðið á júnímánuð, m.a. vegna þess að sama húsnæði þjónar skólastarfsemi. Af sömu ástæðum er ekki hægt að manna staðina fyrr því að það er skólafólkið sem stendur vaktirnar.
Og í sumar hafa vaktirnar sem aldrei fyrr verið mannaðar fólki sem ekki talar íslensku. Margir staðir, einkum utan höfuðborgarsvæðisins, hafa ekki tök á að ráða til sín fólk sem talar íslensku, og í sumum tilfellum ekki einu sinni ensku. Þess eru dæmi að starfsfólk í gestamóttöku skilji ekki leiðsögumenn sem koma með rútufarm af gestum.
Atvinnuleysi kvað nú vera 1,3% og mér skilst að hagfræðingar telji það of lítið atvinnuleysi, það bjóði ekki upp á nauðsynlega hreyfingu á fólki. Öllum ber saman um að þensla sé mikil og að sums staðar sé hvergi nærri nógur mannskapur til að sinna verkunum. Í ferðaþjónustunni get ég staðfest að vandinn er til staðar.
Og þá hlýtur maður að spyrja sig: Er ástæða til að setja markið á heila milljón ferðamanna þegar við ráðum ekki við 350 þúsund, þegar við höfum ekki mannskap til að þjóna þessum hópi? Og þá er ég ekki einu sinni byrjuð að tala um hvernig náttúran lætur á sjá þegar fleiri og fleiri göslast um landið, fólk sem dáist að ósnortnum víðernum og stígur á sígarettuna sína úti á víðavangi af því að engir eru öskubakkar eða ruslafötur, hvernig stígar sem hrófað var upp til bráðabirgða þola ekki áganginn, þegar leiðsögumenn sem ekki eru aldir upp hér og ekki hafa búið hér leiða hópana yfir mosaþemburnar eða upp að svefnherbergisglugga forsetans og þegar innfluttir rútubílstjórar keyra vegleysur og stofna lífi fólks í hættu.
Nei, það er ekki nóg að auglýsa snilldarlega í útlöndum og laða þúsundir Kínverja til landsins. Við þurfum að hafa efni á að auka gjaldeyristekjur okkar af ferðamönnum, við þurfum að hafa þjónustu allt árið, við þurfum að hafa menntað fólk og áhugasamt fólk og nógu vel launað fólk til að sinna forvitnum og áköfum gestum af natni. Við þurfum að hafa vegi sem ekki eru stöðugar slysagildrur, við þurfum að eiga rútur, kojur og lambakjöt til að gera dvöl ferðamanna eftirminnilega og sérstaka.
Og hver er þá lausnin?
Ég held að við eigum að flýta okkur hægt, byggja okkur upp innan frá, tryggja farþegunum aðgengi áður en við tryggjum okkur farþegana. Ég held líka að við eigum að verðleggja hraustlega það sem er sérstakt - náttúruna, óvissuna, víðáttuna, staðarþekkinguna og fróðleiksbrunnana - og að við eigum að létta okrinu af því sem er hægt að fá hvarvetna, ruslfæði og drykkjarföng. Norðurljósin eru fágæti, brennisteinsilmurinn, björtu næturnar, miðnæturgolfið, veran norðan við heimsbaug, 33 ára hraun sem enn er hægt að baka brauð í, útsýni ofan af jökli, sigling á milli ísjakanna, hraunbreiðurnar baðaðar í dögg, þjóðsögur, Íslendingasögur, næturlífið sérþekking heimamanna.
Ég veit ekki hversu miklar gjaldeyristekjur eru áætlaðar á þessu ári af ferðaþjónustu en ég veit að þær eru ærnar. Það er gott, auðvitað, en við eigum að hugsa næstu leiki og ég held að við gröfum eigin gröf ef við hægjum ekki aðeins á og reynum að tryggja þjónustuna áður en lengra er haldið. Besta auglýsingin er ánægður viðskiptavinur. Látum okkur nægja 360 þúsund ánægða viðskiptavini 2007 frekar en eina milljón ferðamenn sem ber okkur út heima hjá sér vegna þess að við verðum farin að sinna þeim 60% í stað 90%.
Þetta krotaði ég í ágúst 2006. Ég er enn uggandi um framtíð ferðaþjónustunnar.
Es. Ég breytti lítillega orðalagi í byrjun færslu í ljósi þess hvernig mér fannst eftir á að hyggja að hefði mátt misskilja.
Dægurmál | Breytt 2.1.2008 kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 29. desember 2007
Ítalía sveik ekki
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. desember 2007
Í hæfilegu jólageimi fyrir slétt rúmri viku ...
Ég er ekki frá því að Egill hafi pósað.
*Púff, best að ögra ekki myndablogginu með of miklum texta, ég held að ég hafi hent einni mynd út.*
Loks ein af undirritaðri í vönduðum félagsskap.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 27. desember 2007
Nú er friðurinn úti
Ég friðargekk á þorláksmessu að vanda. Ég hlustaði á Höllu Gunnarsdóttur, blaðamann á Mogganum, flytja friðarboðskapinn á Ingólfstorgi. Hver einstaklingur skiptir máli, hver einasti sem tekur afstöðu með friði tekur afstöðu gegn ófriði og ofbeldi. Ég vel að trúa því og vera sammála Höllu. Og það er ÖMURLEGT að Benasír Búttó skyldi vera myrt, ekki út af Pakistan fyrst og fremst heldur vegna hennar sjálfrar, fjölskyldu, þjóðar, annarra þjóða - og mín.
Þetta eru mannanna verk, einstaklinga eins og við erum líka sjálf. Þessu getur linnt. Og einhvern tímann linnir ófriði. Ég hlýt að trúa því að við viljum lifa með friði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. desember 2007
Góði samverjinn (samúræinn?) Gummi
Á ferðalagi um Þingholtin ... hnutum við Gummi um fólk á spariskæddum bíl og Gummi hafði verið svo klókur að spariklæðast ekki þrátt fyrir jól á dagatalinu og snaraðist út á bomsunum og rétti bílinn við.
Svo þurfti hann auðvitað að spjalla svolítið líka því að auðvitað þekkti hann tilfallandi fólkið ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 26. desember 2007
Ragnar Bragason eftir tæpa viku
Ekki kvíði ég áramótaskaupinu ef Ragnar Bragason fer jafn vel með húmor og hann fer með mannlega eymd. Börn er nístandi mynd, handritið ekki fyrirsjáanlegt og leikararnir - Nína Dögg, Gísli Örn x2, Ólafur Darri, Margrét Helga og aðrir sem ég veit ekki hvað heita - spiluðu á tilfinningarnar eins og ekkert væri.
Átakanlegust var staða Karitasar sem sameinaði óviðjafnanlega kokhreysti og uppburðarleysi. Ég svitna við upprifjunina á því þegar henni varð ljóst að lyfjadópið hafði ratað ranga leið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. desember 2007
Prrrrrrrrr
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. desember 2007
Voðalegur þvergirðingsháttur er þetta í Samtökum atvinnulífsins
Ég þykist ekkert geta vefengt hugsanlegan kostnað við að grafa raflínur í jörð en ég sé sannarlega engin rök í umfjöllun SA fyrir kostnaðinum. Og mér finnast þau bregðast undarlega harkalega við tillögu um að skoða málið. Ég held ekki endilega að útlendir ferðamenn yrðu hrifnari af að ferðast um landið án mastranna en mér finnst það alveg koma til greina. Og mér finnst sjálfri verulega spennandi tilhugsun að losna við raflínurnar úr augsýn.
Setjum sem svo að 300 milljarðar séu rétta talan og árin 50, þá erum við í einhverju samhengi að tala um 6 milljarða á ári. Hvað áttu Héðinsfjarðargöng að kosta? Einhvern tímann var talað um 6 milljarða. Svo stóðst það ekki. Hver er endanleg tala?
Hver eru fjárlög ríkisins á einu ári? 300 milljarðar eða svo. Hvað varð mikill afgangur núna? Ég man ekki lengur hvort það voru 40 eða 80 milljarðar, þ.e. hver tölulegur afgangur varð af fjárlögum og hver af fjáraukalögum.
Svo minnist ég þess ekki að notendur í Reykjavík hafi notið þess í lækkuðu orkuverði sumarið sem veður var hér ólíkindalega gott og orkunotkun minnkaði til muna. Getum við ekki innheimt þann ávinning næstu 100 árin?
Ég segi aðallega: Það má leika sér með tölur og það er algjör óþarfi fyrir Samtök atvinnulífsins að verða svona gnafin.
Ef umbeðin skoðun leiddi í ljós að það væri vont fyrir umhverfið að grafa línurnar í jörð værum við hins vegar komin með allt annað umfjöllunarefni.
![]() |
Dýrt að grafa raflínur í jörðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)