Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 21. desember 2007
Voðalegur þvergirðingsháttur er þetta í Samtökum atvinnulífsins
Ég þykist ekkert geta vefengt hugsanlegan kostnað við að grafa raflínur í jörð en ég sé sannarlega engin rök í umfjöllun SA fyrir kostnaðinum. Og mér finnast þau bregðast undarlega harkalega við tillögu um að skoða málið. Ég held ekki endilega að útlendir ferðamenn yrðu hrifnari af að ferðast um landið án mastranna en mér finnst það alveg koma til greina. Og mér finnst sjálfri verulega spennandi tilhugsun að losna við raflínurnar úr augsýn.
Setjum sem svo að 300 milljarðar séu rétta talan og árin 50, þá erum við í einhverju samhengi að tala um 6 milljarða á ári. Hvað áttu Héðinsfjarðargöng að kosta? Einhvern tímann var talað um 6 milljarða. Svo stóðst það ekki. Hver er endanleg tala?
Hver eru fjárlög ríkisins á einu ári? 300 milljarðar eða svo. Hvað varð mikill afgangur núna? Ég man ekki lengur hvort það voru 40 eða 80 milljarðar, þ.e. hver tölulegur afgangur varð af fjárlögum og hver af fjáraukalögum.
Svo minnist ég þess ekki að notendur í Reykjavík hafi notið þess í lækkuðu orkuverði sumarið sem veður var hér ólíkindalega gott og orkunotkun minnkaði til muna. Getum við ekki innheimt þann ávinning næstu 100 árin?
Ég segi aðallega: Það má leika sér með tölur og það er algjör óþarfi fyrir Samtök atvinnulífsins að verða svona gnafin.
Ef umbeðin skoðun leiddi í ljós að það væri vont fyrir umhverfið að grafa línurnar í jörð værum við hins vegar komin með allt annað umfjöllunarefni.
![]() |
Dýrt að grafa raflínur í jörðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 20. desember 2007
Félag leiðsögumanna heldur áfram að puðast við að reyna að semja
Kjaranefndin hefur komið gistingu, símanotkun, afboðun ferða o.fl. á tal við SA og mun hitta viðsemjendur aftur á nýju ári, þann 3. janúar, en þá verða því miður samningar runnir út. Svoleiðis er það líka í stóru kjaraviðræðunum hjá ASÍ og það er eins og mönnum finnist það algjörlega eðlilegt. Þannig hefur það líka verið þegar kennarar eru að semja.
Mér finnst ekki eðlilegt að kjarasamningar renni út trekk í trekk og fólk sé kjarasamningslaust mánuðum saman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. desember 2007
Neikvæð áhrif auglýsinga
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 19. desember 2007
Þýðingaprófið í morgun
Margt spaklegt gæti ég sagt um prófið sem ég tók í morgun í þýðingafræðinni en af því að mér finnst að ég gerði umsjónarmanni námsins grikk með því læt ég duga að halda og hugsa í hljóði að þessi samningur við Bosníu og Hersegóvínu hafi verið eins og atvinnutilboð!
Auðvitað vona ég að mér hafi gengið vel, held það reyndar líka og veit að þessir þrír klukkutímar voru stórskemmtilegir. Orðaglíma er skemmtileg. Verst að ég er ekki skráð í fleiri próf.
Allt hefur sinn tíma ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. desember 2007
Svona margir fínir leikarar í nýja REI-myndbandinu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16. desember 2007
Horgrannur Harðskafi
Nú er ég bara að snúa út úr nafninu á nýjustu bók Arnaldar og því að á bls. 135 er horgrannur maður. Er hann svo grannur að hann er næstum horaður, hmm? Þetta orð, það að nafnið Harðskafi væri útskýrt í bókinni og sagt frá örlögum bróður Erlendar var það eina sem ég hafði heyrt um þessa sögu áður en ég byrjaði að lesa.
Mér finnst Harðskafi spennandi þótt mér finnist ennþá Grafarþögn besta bókin og Dauðarósir vanmetnasta. Þegar ég leit inn á Gegni sá ég reyndar að sagan Dauðarósir hefur verið endurprentuð oft, kannski kann þá fólk að meta hana en segir mér bara ekkert frá því, hmm.
Mér finnst nafnið Harðskafi ekki gott og ekki sérlega táknrænt fyrir söguna af mæðgunum og dauðahyggjunni. Ef Arnaldur væri ekki búinn að nota Kleifarvatn hefði ég stungið upp á Sandkluftavatni. Hafa ekki allar bækurnar hans borið bara eitt nafn? Þá verðum við að halda okkur við það og ég sting upp á að bókin hefði átt að heita Lausmælgi eða Trúnaðarbrestur.
--- Horgrönn, horgrannt ... notar einhver þetta orð í einhverri mynd? Eða ætlaði Arnaldur að skrifa holdgrannur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 15. desember 2007
Aðventuhittingur mennt(ó/a)klúbbsins 6. desember 2007
Ella ofurkona bauð okkur heim í síðustu viku. Framlag mitt var að taka myndir og svo er ég í heila viku búin að skussast við að ganga frá þeim. En koma laugardagar ...
Við byrjuðum hittinginn í Skaftahlíðinni hjá Ingu og lögðum í aðventugönguna á fimmtudagskvöldi. Þarna vorum við fjórar og settum (gps-)stefnuna á Engihjallann.
Hér erum við enn við Miklubrautina (Kringluna) og Inga var óstarfhæf um stund vegna aðskotahlutar í skó. Hún kippti því snarlega í liðinn í kringum þessar súlur.
Ég gerði heiðarlega tilraun til að kasta mér í veg fyrir sjúkrabíl, tókst ekki. Að öðru leyti var ferðalagið dásamlega tíðindalaust fyrir utan góðar og gegnar slúðursögur og heilbrigð skoðanaskipti í bland við stöðutékk af og til. Nei, er þetta ekki Þverbrekkan? Ella sagði að Bústaðakirkja væri í beinni sjónlínu. Það hlýtur að vera líka stígur næst.
Gangan tók rúman klukkutíma og hún var DÁSAMLEG, fyrirgefið væmnina. Við erum búnar að þekkjast síðan í menntaskóla og böndin hafa bara styrkst hin síðari ár.
Stutt stopp á leiðinni til að tína blómin .. og þarna eru kokhraustar gönguhrólfur á ganginum fyrir framan hjá Ellu. Við Sólveig rifjuðum upp þegar við fórum langleiðina inn í íbúðina við hliðina af því að Ella er svo framkvæmdasöm að okkur fannst bara sjálfsagt að hún væri búin að koma sér upp aukainngangi. Okkur var snúið við í dyrunum, ræræræ.
En þessi tók vel á móti okkur. Og ekki bara í orðum, heldur ÓG var hún búin að kokka og dekka og lekkera allt svo vel.
Eldhúsið er lítið en þaðan kemur svo margt og það rúmar með góðu móti Ellu og Karen. Og ef mér skjöplast ekki eru jólaveinarnir einn og átta á gardínunni. Og það var hún Ella sjálf sem saumaði í.
Sunddeild Ármanns?? Ég tók ekki einu sinni eftir að Erla væri í þessum bol. Nema hvað, hér er hún Rut sem býr í Vestmannaeyjum en var samt komin á undan okkur. Og þar með lýkur frásögninni af aðventugöngunni sem er trúlega orðin árviss. Við söknuðum sárt Kristínar, Rannveigar og Árdísar - sem forgangsröðuðu öðruvísi, ræræræ.
Bara ein mynd í lokin af veitingunum:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. desember 2007
Metafgangur
Mér er ógleymanleg stundin á fundinum í bæjarfélaginu sem ég starfaði fyrir 2000-2001 þegar fjármálastjóri lýsti yfir ánægju með að leikskólarnir nýttu ekki allan peninginn sem þeim hafði verið skammtaður og leikskólastjóri sagði festulega að það kæmi ekki til af góðu, kaupið væri svo lágt að ekki fengist starfsfólk sem þýddi að peningurinn gengi ekki út en starfsfólkið sem fyrir væri ynni yfir sig.
Einhvern veginn öðruvísi orðað svo sem.
Þarna lærðist mér hið sjálfsagða, að ekki eru alltaf góð tíðindi að skila miklum afgangi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. desember 2007
Terry Gunnell með fyrirlestur um jólasveinana í Þjóðminjasafninu
Ég nota flest tækifæri til að segja frá jólaveinunum þegar ég er leiðsögumaður, *hóst*. Ég er áreiðanlega nýbúin að nefna hvað ég er efins um enskt yfirheiti, eru þeir Fathers Christmas(es) (verður að vera fleirtala), Christmas Lads, Santa Clauses - eða Yule Lads eins og bókin mín heitir sem Brian Pilkington myndskreytti?
Á morgun gefst gullið tækifæri til að heyra hvernig Terry Gunnell nálgast viðfangsefnið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. desember 2007
Ég lét það eftir mér - ,,tökum Shackleton á þetta"
Ég fór á fyrirlestur Finnans sem útflutningsráð bauð mér á í morgun. Skemmtigildi hans var ótvírætt og ég er ekki frá því að stjórnendur og fólk í viðskiptalífinu gætu hafa haft gagn af sumu sem hann sagði. Hann Pata Degerman ákvað að klífa fjall sem enginn hafði klifið, þ.e. marka spor, sýna frumkvæði, brjóta í blað, taka á sig krók, voga sér að vera öðruvísi og kannski dálítið skrýtinn.
Hann fékk félaga sinn í slagtog og svo hófust þeir handa við að skipuleggja fjallgöngu á Suðurskautinu. Þeir puðuðu við eigið hugarfar og ýmsar aðrar hindranir í þrjú ár - og fóru samt hvergi. Þá ákváðu þeir að snúa við blaðinu, eiginlega öllu heldur henda blaðinu sem þeir höfðu sett allt sitt traust á og nálgast viðfangsefnið upp á nýtt, þó með fullri meðvitund um mistök þriggja ára.
Svo fóru þeir.
Lærdómurinn sem ég get dregið af þessu er að stundum þurfa sumir að sveigja af leið til að stækka heiminn - sem er eftirsóknarvert - og að ekki er alltaf skynsamlegt að skilja nei sem nei. Rökin rokka!
Og af því að samt er ekkert nýtt undir sólinni rifjaðist upp fyrir mér landkönnuðurinn ágæti Ernest Shackleton sem þurfti í landkönnunarleiðangri sínum með 30 karla að takast endalaust á við hindranir og finna nýjar leiðir út úr ógöngunum. Í vissum umgangshópi mínum flýgur stundum fyrir setningin: Við tökum bara Shackleton á þetta!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)