Færsluflokkur: Dægurmál

Vilja Íslendingar ekki spila á harmonikku?

Nei, ég hef ekki mikla skoðun á komu Rúmenanna, ég held að ég skilji bara ekki hvernig þeim datt í hug að það væri eftir einhverju að slægjast hér í kuldanum.

En menn tala um að Íslendingar vilji ekki vinna við umönnunarstörf, ekki í fiski, ekki í þjónustustörfum - þannig að miðað við það hlýt ég að álykta að við viljum ekki spila á hljóðfæri á götuhornum Laugavegarins og þess vegna fylli útlendingar það meinta skarð.

En svo undarlegt sem það er hefur enginn heyrt að menn vilji ekki vinna við að taka frá okkur ruslið. Er það svona frábært starf - eða bara nógu vel borgað og með hentugan vinnutíma?


Ég ættleiddi hjól!

Þorgeir ljósritunargoði sá aumur á mér eftir bloggfærsluna þar sem ég skældi yfir hjólleysi mínu og hringdi í mig. Nú er ég komin með nýtt hjól og ég tók mynd af því í morgun í góðum félagsskap annarra hjóla.

Menn mega giska á gripinn ...   Náin hjól í átakinu „Ísland á iði“

Nú verð ég að gæta þess betur en ég hef áður gert að pússa og smyrja.


Fjórir metrar eftir

Eins og einhver fjölmiðlamaðurinn sagði eru fjórir metrar til kosninga á laugardaginn. Umhverfismál og efnahagsmál voru til umræðu í kosningasjónvarpi ÚV ohf. núna áðan. Þótt ég sé miðbæjarmús að upplagi kemur mér landsbyggðin við og ég var öll á iði yfir sjónvarpinu.

Ég var svo sein að sjá samhengi landsbyggðarinnar að það var ekki fyrr en ég fór í Leiðsöguskóla Íslands árið 2001 sem ég fór að hafa raunverulegan áhuga á henni.

Ég vann sko í fiski á Dalvík 1988 og entist ekki lengi.

Ég kenndi á Sauðárkróki 1997-8 og áttaði mig samt ekki, prísaði mig sæla þegar ég fór burt um vorið.

Ef ferðamenn eiga að halda áfram að fara um landið, njóta fegurðar náttúrunnar og fá allrahanda þjónustu verður að tryggja byggð í landinu. Svo einfaldur er sá þáttur.

Og ég horfði á síðasta Kompás með það í huga. 


Aðallega mynd af Vestmannaeyjum ...

Þegar leiðsögumenn telja farþega sína segja þeir stundum að siðareglur leyfi 10% brottfall í ferðinni þannig að ef maður leggur af stað með 40 manns er allt í lagi að fjórir týnist ofan í gjótu eða hverfi í hveri. Nú fóru 34 leiðsögumenn í leiðangur um síðustu helgi og 38 skiluðu sér í bæinn. Þetta stríðir auðvitað gegn öllum lögmálum en ég hef engar skýringar á tölunni.

Ég tók á annað hundrað myndir um helgina á sex ára klumpinn minn með lélegu upplausninni. Hér er mynd af Vestmannaeyjum sem Þórhildur tók af mér á göngunni ofan af Mýrdalsjökli. Núna tveimur dögum síðar æja og óa kálfarnir mínir óskaplega, og það þótt ég hafi hjólað á „nýja“ hjólinu mínu nokkurra kílómetra leið í morgun og nokkurra metra leið í hádeginu.

Berglind og hennar hugfólgnu Vestmannaeyjar


Litlaus kosningabarátta?

Ég heyri bæði frambjóðendur og stjórnmálaskýrendur tala um daufa kosningabaráttu. Ég treysti mér ekki til að meta það, mæti á enga fundi en fylgist vel með í útvarpi, sjónvarpi og blöðum. Reyndar leiðist mér alltaf orðið kosningabarátta - eins og þetta séu slagsmál og átök.

Hins vegar þykja mér orðin dauft og litlaust passa ágætlega við grafíkina sem birst hefur með auglýsingatextum í blöðunum. Einhvern veginn eru allir frambjóðendur hinir dauflegustu á að líta. Ég keyrði framhjá stóru spjaldi á Selfossi í gær og þar litu efstu menn út eins og aðframkomnir sjúklingar. Það þykir a.m.k. mér. Að maður tali ekki um þær auglýsingar sem birtast á bestu síðum dagblaðanna.

Væri ekki ástæða til að poppa grafíkina upp og nota litaspjaldið betur, taka a.m.k. ekki burtu þann lit sem er náttúrulegur ...?


Í sól og blíðu daginn eftir hríðarbylinn

Guðrún Fred. og góður vinur

Það er eins og Guðrúnu Frederiksen sé ekki enn orðið alveg hlýtt. Fleiri myndir síðar.


Nú þótti okkur týra á tíkarskarninu

Ég er stödd skammt frá Sandfoksstöðum þeim sem mér heyrist á Runólfi að einkenni alltaf rjómablíða. Kann að vera að hann segi satt - en kannski lætur hann bara litlu veðurstöðina ljúga að sér ...

Því hef ég mál mitt svona að við lögðum af stað, nokkrir leiðsögumenn, úr Reykjavík í vorlegri bongóblíðu á föstudag og vöknuðum í Vík í snjó í gærmorgun. Og öllum gærdeginum vörðum við svo í Hafursey og á Hjörleifshöfða, þræddum einstigi, vitjuðum grafa og sungum í hellum - í slyddu og meiri slyddu. Þetta er sko ekki kvart af minni hálfu, við upplifðum okkur sem hetjur, teljum okkur skilja lífið til forna (hmmm) og þóttumst setja okkur í spor túrista sem koma frá sólríkari löndum.

Þórir í Víkurskála leiddi okkur um allar þorpagrundir enda þekkir hann deili á öllum steinum, þúfum og letri því sem rist hefur verið í gljúpa steina. Það er ómetanlegt að njóta uppfræðslu hjá heimamönnum sem ekki einasta hafa lifað atburðina og verið á staðnum, heldur eru uppfullir eldmóðs, hugmynda og athafnagleði. Og Þórir er slíkur maður, skokkar með gestabækur á leynilega staði og biður okkur um að koma við og segja okkur ferðasöguna ef við förum um án hans. Hann er búinn að setja stálkeðjur við erfiða stíga til að auðvelda lofthræddum að komast á þeim annars óaðgengilega staði o.s.frv.

Og svo veit hann hvernig á að bregðast við næst þegar Katla gýs.

Og um það snýst nú þessi ferð, Kötluslóðir, næsta eldgos, hvað hvarf 1721, hvað lagðist í eyði 1660 - og hvað gerist 2007 eða síðar?

Leiðsögumenn vilja halda landinu í byggð, heimamenn vilja halda landinu í byggð, ferðamenn vilja halda landinu í byggð. Hvað þarf til?

Þótt ekki týri mikið á Kötlu í augnablikinu á eftir að kvikna á henni - og ég held að við vonum pínulítið að við lifum það. Síðast gaus hún almennilega 1918, bylti sér eitthvað 1955 en nú fer að bresta á með gosi - spái ég. Hef sjaldan þótt spámannlega vaxin þó.

En kannski er ekki Katla mesta ógnin við byggðina í landinu ...

 

 


Tal um stjórnarkreppu/r

Ég var ekki svikin af málþingi um stjórnarmyndanir sem ég sótti í dag. Þar fóru saman staðreyndir og spekúlasjónir; fortíð, nútíð og framtíð, stjórnarmyndanir og tilraunir til stjórnarmyndana, uppflos stjórna og þar fram eftir götunum.

Forvitnilegt og skemmtilegt heilt yfir. Verr sótt en ég hefði fyrirfram giskað á. Vika til kosninga, spennan eykst.

Á svona samkomum er stundum sagt frá spaugilegum atvikum eða forvitnileg sjónarhorn kynnt sem verða minnisstæðari en önnur, alveg óháð mikilvægi. Guðni sagði okkur dásamlega sögu af Kristjáni Eldjárn forseta sem var einhverju sinni kátur með hversu vel gekk að mynda ríkisstjórn og mælti inn á hljóðsnældu:

Oh, what a beautiful morning,
Oh, what a beautiful day,
I've got a wonderful feeling,
Everything's going my way.

Svo lánsamir geta sagnfræðingar orðið í grúski sínu að rekast á svona glaðværð.

Og svo viðraði Agnes sömu áhyggjur af hlutdrægni núverandi forseta lýðveldisins til að láta réttlátlega af hendi stjórnarmyndunarumboð og Ásta Möller er búin að draga í land með. Andlitið lengdist á sumum þegar Agnes flutti þann hluta fyrirlesturs síns og umræðurnar á eftir spunnust ekki síst um aðkomu forseta að stjórnarmyndun á hverjum tíma.


Ómalbikaðir malarvegir - hmmm

Ég heyrði útundan mér að einhverjir dómar hefðu fallið í gær. Að þessu sinni hljómuðu þeir reyndar ekki upp á óskilorðsbundna mánuði, heldur einmitt skilorðsbundna.

Mér finnst fangelsisdómur bara vera fangelsisdómur. Ef menn þurfa ekki að sitja inni er dómurinn skilorðsbundinn. Að tala um óskilorðsbundinn fangelsisdóm er eins og að tala um ómalbikaðan malarveg. Ekki satt?

 


Bjarni Ármanns gæti einn og sér hækkað skattleysismörkin um 7.000 kr.

Ég er svo mikill talnaspekingur að ég sé glögglega að ef fráfarandi forstjóri Glitnis gæfi eftir kaupréttina sína og starfslokalaunin, samtals tæpa 7 milljarða eins og sagan hermir, væri hægt að hækka skattleysismörkin úr 90 þúsund kr. í 97 þúsund. Menn hafa keppst við að reikna það út að hver 10 þúsund kr. hækkun skattleysismarka nemi um 8-10 milljarða kostnaði fyrir ríkissjóð. Því þykir mér tíðindum sæta að einn maður geti gengið út úr einu fyrirtæki með þessa fjárhæð, 6-7 milljarða. Og hvaðan er hún aftur tekin? Jú, alveg rétt, HAGNAÐURINN VERÐUR TIL ERLENDIS. Undarlegt að þjónustugjöldin og vaxtamunurinn þurfi að vera svona mikil blóðtaka fyrir launamenn ef allur hagnaður bankans verður hvort eð er til ERLENDIS. 

Er ekki vitlaust gefið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband