Færsluflokkur: Dægurmál

Annað og þriðja líf

Nú er liðinn heill mánuður sem ég hef ekkert reiðhjól átt. Og í dag byrjaði átak ÍSÍ, Ísland á iði. Ég tek náttúrlega þátt af því að það nægir að fara fyrir eigin vélarafli, og ég geng.

Ef ég væri ekki upptekin á laugardaginn eftir hádegi myndi ég fara upp á Eldshöfða þar sem lögreglan geymir óskilahjól og gefa einu reiðhjóli framhaldslíf, annað eða þriðja eða þess vegna það fjórða. Af myndinn að dæma eru þau bara gæðaleg.

Ég gæti alveg keypt mér nýtt hjól úr kassanum en mig langar eiginlega meira til að umkomulausu hjólin fái að nýtast áfram. Er einhver við það að brenna inni með aukahjól?


Líka varðandi afnám launaleyndar?

Ég held að Bjarni Ármannsson hafi síðast komið mér á óvart fyrir hálfum mánuði þegar hann lýsti yfir eindregnum vilja sínum til að afnema launaleynd, sem stjórnandi væri hann búinn að átta sig á að hún væri fyrirtækinu óhagstæð og að afnám hennar væri forsenda launajafnréttis.

Er sú stefna líka óbreytt?


mbl.is Stefna Glitnis óbreytt þrátt fyrir eigenda- og forstjóraskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt kók á nýjum belgjum

Ég fór á fund undir kvöld. Þar voru veitingar í lok fundar. Ég sá á borðum kók nokkurt zero, ákvað að láta mig hafa það að bragða á drukknum - og hann reyndist eins og aðrir þeir sykurlausu kókdrykkir sem ég hef bragðað. Ég hlýt að hafa lélegt bragðskyn.

Miklu eftirminnilegra er það létta hjal sem við tókum upp við gosdrykkjuna um tungumál hinna ýmsu þjóða, þýðingar þar á milli, Wuthering Heights og pólitísk þrætuepli.

Ég set stefnuna á aðalfund Bandalags þýðenda og túlka aftur að ári. Og obbolitlu veitingarnar dugðu ...


YouTube-tilraunin mín - áhyggjur Dana af samskiptaleysi sínu


Engifer

Ég ætla ekki að borða í heila viku, í hádeginu borðaði ég svo góðan mat með engifer. Í forrétt fékk ég kjúklingasalat Bláa lónsins með engifer og í aðalrétt túnfisksteik - með engifer.

Félagsskapurinn var að vísu ekki eins áhugaverður og á föstudaginn þegar ég spjallaði við breskan gáfumann um Tony Blair, breska dagblaðaútgáfu og útlendinga í Bretlandi - yfir öndinni.

Ég þakka Laufeyju fyrir að kynna mig fyrir engifer á sínum tíma.         http://wwwchem.uwimona.edu.jm:1104/lectures/ginger.html


West Ham vs. Bolunga(r)vík

Hvernig má það vera að fréttinni af sekt West Ham er skipað mörgum skörum hærra á Stöð 2 en að fjölda manns hafi verið sagt upp í Bolunga(r)vík?

Eftir að heyra í útvarpinu nýlega að margir bolungar hefðu verið í víkinni held ég ekki lengur að maður eigi að skrifa Bolungarvík - en ég get ekki látið undir höfuð leggjast að geta þessa.

Björgólfur Thor er ábyggilega gæðablóð en skaðinn hjá honum - ef einhver - er brot af því sem skaðinn er fyrir Bolvíkinga að missa lífsviðurværið sitt. Eða var þetta aukavinna fólksins?


Er menntun kosningamál?

Ég tók áskorun í hádeginu og mætti á stefnumót við flokkana í Háskóla Íslands. Þau voru fimm og ekkert þeirra stóð sig illa. Þetta er náttúrlega vant fólk.

Spurningin sem skólafólk spyr sig - ekki síst ef draumurinn um að komast á listann yfir 100 bestu háskólana í heimi á að vera raunhæfur - er hvort efla eigi menntun. Og hvernig er hægt að tryggja meiri og betri menntun en nú er?

Ég held að Kristinn Már Ársælsson hafi átt giska góða spurningu úr sal að framsögum loknum: Nú eru um 50 nemendur um hvern kennara en almennur gæðastuðull kveður á um 14-18 nemendur - stendur til að breyta þessu?

Ef það á að breyta þessu verður það aðeins gert með meira fjármagni þannig að hver kennari hafi meiri tíma til að sinna hverjum nemanda umfram „messuformið“ eins og einn frambjóðandi kom að í svari sínu.

Háskóli Íslands hefur þá sérstöðu að vera meiri þjóðskóli, universitet frekar en höjskole eins og annar komst að orði, og þess vegna er ekki hægt að skipa honum til sætis með skólum sem leggja ofurkapp á greinar sem hægt er að kenna með fyrirlestrum einum saman, eða svo gott sem.

Nú stunda ég þýðingafræðinám til meistaraprófs í téðum skóla. Ég sótti fyrsta tímann haustið 2004 og þá gat Gauti Kristmannsson, ljósfaðir námsins, auðveldlega lært nöfnin á okkur öllum. Nú er námið búið að slíta barnsskónum og fjölgun nemenda hefur orðið gríðarleg. Úrval í námskeiðum hefur ekki aukist, kennurum hefur eiginlega ekki fjölgað og ég veit vel að Gauti sér ekki út úr því sem hann vill gera - vegna þess að akademía er meira en að mæta í eigin kennslustundir og fara svo yfir ritgerðir og verkefni.

Ég var í íslenskunni þarna líka forðum daga. Öll árin vann ég næstum 100% vinnu og fór létt með. Ég er auðvitað dugleg, hehe, en þetta segir samt meira um kröfurnar sem voru gerðar.

Á þeim sama tíma þekkti ég auðvitað fólk í öðrum deildum, t.d. raungreinum, sem þurfti að mæta alla daga og vinna verklegar æfingar út í eitt. Ég var ekkert í sama skóla og það fólk þótt öll værum við í Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er vaðandi í fjölbreytileika og það þarf að hlúa að honum. Ætli það standi til?


Raunvera millistjórnenda

Það er svo sem of seint að agitera fyrir Eilífri hamingju Andra Snæs Magnasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar þar sem ég var á lokasýningunni í kvöld.

Annars hefði ég gert það.

Sjálfsagt er hugmyndin sprottin upp úr vissum fordómum gagnvart hugmyndafræðingum auglýsingamennskunnar og markaðshyggjunnar. En þeir fordómar eru næstir raunveruleika okkar sem þekkjum ekki til. Engu að síður telur maður sig þekkja sum einkennin, kannast við manngerðirnar, samtrygginguna og togstreituna.

Er peningavitið stóriðja 21. aldarinnar?

Missir sá gjaldgengið sem skrifar sig út úr teymisvinnunni?

Eru konur settar til hliðar? Eru þær viðföng? Rjúfa þær samtrygginguna?

Einn millistjórnandinn var sprelligosi og algjörlega laus við viðkvæmni, einn var yfirmillistjórnandi og axlaði ábyrgð á tveimur börnum, einn var sigurvegari og vísaði stöðugt í gengna spekinga og einn virtist vilja bera klæði á vopn.

Tilsvörin voru oft ófyrirsjáanleg og handritið lagað að tíðarandanum og líðandi stundu. Það skemmtir mér. Og skemmdi ekki mikið fyrir þótt uppgjörið í lokin rynni svolítið út í sandinn. Allir eiga sitt Everest-fjall ... 

Eilíf hamingja

Mér þótti hlutverk Ingvars sigurvegara sýnu verst skrifað, mér þótti gegnheilt pirrandi þegar hann svaraði næstum alltaf með því að vitna í orð Gandís og annarra vísra manna. Hinar persónurnar þóttu mér margbrotnari og gátu kallað fram ólíkar tilfinningar hjá mér. En kannski vildu höfundar teikna Ingvar svo skýrt að ég myndi aldrei ráða hann í vinnu.

Nafnið sem ég ætla að leggja á minnið er tvímælalaust Jóhannes Haukur Jóhannesson því að hann hefur ekki sagt sitt síðasta orð.

Ég er mjög ósátt við að hafa tvö löng atriði bara á ensku án þess að láta þess getið í kynningu. Það breytir því samt ekki að bæði Jóhannes og Orri fóru firnavel með þau hlutverk sín líka.


Hlutleysi fjölmiðlunga, eða ekki

Sóley Tómasdóttir og Agnes Bragadóttir lögðu orð inn í umræðuna um fjölmiðlalög í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég varð mér ekki strax meðvituð um það þótt ég horfði af áhuga. Það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Hjartar í morgun sem ég sá samhengi hlutanna skýrar. Það má segja að þær tvær hafi skattyrst (hér hefði Hjörtur skrifað skattyrzt og kannski er það áferðarfallegra) stuttlega um hlutleysi. Agnes lýsti yfir vandlætingu á hugsanlegri vinstristjórn og Sóley undraðist að hlutlaus blaðamaður hefði svo afdráttarlausa skoðun. En Agnes sagðist ekki vera hlutlaus og hefði ekki verið fengin í þáttinn til að þegja.

Ég get ekki spurt hvort Agnes sé hlutlaus, en ætti hún að vera það? Úr því að hún er ekki hlutlaus, kannast menn við að hlutlægni hennar sjái stað í skrifum hennar? Skrifar hún fréttaskýringar eins og skrif hennar heita eða eru þær e.t.v. bara skoðanir sem beri að lesa sem slíkar?

Hvað með aðra frétta- og þáttagerðarmenn? Ég nefni af handahófi nokkra sem eru misáberandi. Sigmar Guðmundsson sem stjórnaði stjórnmálaumræðum rétt áðan bloggar fyrir 5-6.000 manns á dag. G. Pétur Matthíasson, sem er reyndar farinn til Vegagerðarinnar en var hjá RÚV þangað til það breyttist í ÚV ohf., bloggar stundum. Ég man eftir Höllu Gunnarsdóttur, blaðamanni Moggans, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sömuleiðis blaðamanni á Mogganum, enn fremur Davíð Loga Sigurðssyni. Það má nefna líka Lóu Pind Aldísardóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur, Svanhildi Hólm, Eddu Andrésdóttur, Styrmi Gunnarsson, Arnþrúði Karlsdóttur, Jóhann Hauksson, Þorstein Pálsson, Sigurjón M. Egilsson, Trausta Hafliðason, Björgvin Guðmundsson, Svanborgu Sigmarsdóttur, Kolbrúnu Bergþórsdóttur - og læt ég nú upptalningu lokið.

Allt þetta fólk meðhöndlar upplýsingar og hefur, meðvitað og ómeðvitað, áhrif á viðtakendur. Það skiptir okkur máli að við getum treyst því að það fari með upplýsingar af sanngirni og heiðarleika. Ég vil alls ekki láta leiða í lög að fólk skuli vera trútt starfi sínu, ég ætlast bara til þess að fólk sé siðlegt, en þetta með öðru var mikið rætt fyrir tæpum þremur árum þegar fjölmiðlalög voru sett og svo dregin til baka.

Er utanumhald utan um fjölmiðla nú bara orðið að algjörri eyðimörk sem stendur ekki til að vökva? Dugir kannski umræðan manna á meðal?


Leiðsögumenn, ó, gædar

Ætti maður ekki annars frekar að tala um gæta, sbr. læti?

Þar sem 30 leiðsögumenn koma saman, þar er ekki einn hugur! Ég sat framhaldsaðalfund Félags leiðsögumanna í gærkvöldi sem snerist að mestu leyti um lagabreytingar þær sem við frestuðum að taka afstöðu til á aðalfundi félagsins í febrúar.

Þær tvær breytingar sem samþykktar voru og eru mér núna eftirminnilegastar kveða á um að formaður félagsins skuli vera fagmenntaður (fagfélag sett ofar stéttarfélagi) og að fundargerðir stjórnar skuli birtar innan 10 daga frá fundum. Margar aðrar breytingar voru þó gerðar og má vænta nýju laganna á netinu innan langs tíma.

Óvæntur bónus undir liðnum önnur mál var kynning kjaragerðar. Samningar eru lausir í lok ársins og ef ekki verður gerð ansi hraustleg lagfæring á samningunum má búast við talsverðum atgervisflótta - nema leiðsögumenn séu farnir að semja betur en taxtarnir kveða á um. Því miður held ég að það sé lítil vegna þess að ferðaskrifstofur skáka í skjóli kjarasamninganna og vorkenna öllum öðrum í ferðaþjónustu meira en leiðsögumönnum. Finnst a.m.k. okkur.

Kröfugerðin er skynsamleg og sanngjörn og ég er mjög vongóð um að nefndinni takist að landa leiðréttingu handa okkur. Mér er náttúrlega engin vorkunn, treysti ekki á þetta starf eða þessar tekjur, en fólk á að geta lifað af þessu starfi. Og hvaða önnur stétt býr við það að klukkan 10 á mánudagskvöldi sé hægt að hringja í hana og segja: Ég þarf þig ekki á morgun, þriðjudag, skipið kemst ekki að bryggju?

Einhver?

Svo lýsi ég því yfir að ég saknaði Steingerðar á fundinum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband