Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 23. apríl 2007
Umræðugrundvöllur skoðanakannananna
Þegar ég var í uppeldis- og kennslufræði var okkur einu sinni raðað í hópa og svo áttum við að teikna tré. Fyrirmælin voru ekki önnur. Ég kann ekki að teikna og, það sem verra er, ég hef ekki sérlega gaman af að þykjast teikna þannig að ég greip bara til grunnskólateiknikennslufræða Sigfúsar Halldórssonar og teiknaði stórt brúnt tré eins og fyrirfinnst ekki einu sinni í Hallormsstaðaskógi, setti ofan á það mikið laufskrúð, gilda grein út úr því miðju, á hana krakka með iðandi fótleggi - og þar sem tíminn ætlaði aldrei að klárast setti ég fólk í útikroppi við rót trésins.
Þegar loks mátti hætta að teikna kom á daginn að sumir höfðu nostrað við æðar hinna ýmsustu laufa trjánna, gert alíslenskar birkihríslur með smákræklóttum greinum og sumir höfðu jafnvel teiknað stöðuvötn og sumarbústaði.
Svo kom leiðbeinandinn, sálfræðingur minnir mig, og bað okkur að rýna í teikningar hvert annars. Það sem ég sem sagt vissi ekki var að þetta ætti að verða umræðugrundvöllur og við áttum að ráða í og láta ráða í persónuleika okkar út frá þessum teikningum. Ég fékk sem sagt þann vitnisburð að ég væri mjög traust og laðaði til mín fólk.
Ég mátti hrekja umsögnina ef ég vildi.
Mér þótti þetta allt hið skemmtilegasta, einkum þegar upp var staðið, en almáttugur minn hvað þetta var mikill samkvæmisleikur. Og það sem ég vildi sagt hafa var það að þegar ég horfði í dag á þáttinn um Suðurkjördæmi helltust yfir mig leiðindin þegar frambjóðendur voru spurðir út í afstöðu til nýjustu talna og um hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf. Ég er skolli mikill áhugamaður um framvindu mála í vor en mig langar að heyra um stefnumálin, ekki hver teiknaði feitasta tréð.
Ég vildi gjarnan lenda í úrtaki og vera spurð hvort ég vildi fækka skoðanakönnunum. En ég er með bannmerki í símaskránni og lét taka mig út af lista Hagstofunnar. Þá er gott að hafa bloggsíðu, téhéhé.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Vantar ekki starfsfólk á Akranesi?
Að sumu leyti vildi ég að ég væri ekki svona kaldhæðin - og mér finnst virkilega leiðinlegt að það skyldi brenna á miðvikudaginn - en 100 stöðugildi í Reykjavík eru eins og 1 á 100 sinnum minni stað. Hvað búa margir á Flateyri? Í hversu marga daga var fjallað um það þegar níu misstu vinnuna hjá Kambi þar um síðustu mánaðamót? Ég þekki ekki til en man eftir að hafa lesið eina mbl-frétt hálfum mánuði síðar. Það var náttúrlega mannleg ákvörðun sem bruninn í Austurstræti var ekki.
Hvernig er brugðist við þegar fólk á Stöðvarfirði missir vinnuna - vegna mennskra ákvarðana? Mönnum er sagt að fara í næsta fjörð. Og því spyr ég í kaldhæðni minni: Er ekki góður veitingastaður á Akranesi sem getur bætt við sig fólki? Strætósamgöngur eru alltént góðar þangað. Um það er ég alltaf að lesa hjá Gurrí sem fer næstum daglega á milli.
Ég samhryggist öllu því fólki sem sér fram á óvissu og tekjumissi.
![]() |
Störf hátt í hundrað einstaklinga í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Skyldu nöfnin verða lesin upp á Sky og aðstandendum send blóm?
Nei, Vesturlandabúum stendur á sama um sómalísk nöfn og ástæður þess að nafnhafarnir eru sendir yfir móðuna miklu. Ef við höfum bumbuna okkar og pláss fyrir poppskálina látum við okkur 100 Mógadisja til eða frá í léttu rúmi liggja.
Sumir kalla þetta velmegun.
![]() |
Rúmlega hundrað óbreyttir borgarar fallnir í Mogadishu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. apríl 2007
Af hverju beygir enginn Prövdu?
Ég er vinur litla stafsins (lágstafsins?), eignarfalls-s (Tonys Blairs) og beyginga. Mér finnst fráleitt að tala um (eigendur) Pravda, jafn fráleitt og að menn hafi áður verslað í Karnabær eða farið til París eða til Róm.
En mér sýnist ég vera ein um þessa skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Hver er fórnarlamb?
Á Sky er núna verið að fjalla um fjöldamorðið í Bandaríkjunum, þann hræðilega atburð. Ég er hvarflandi burt og um íbúðina, samt er ég tvisvar búin að sjá myndbandið sem maðurinn sendi NBC. Eins og glæpurinn sé ekki nægur eins og hann var framinn er núna aðstandendum fórnarlamba núið því um nasir að morðiinginn setur sjálfan sig í hlutverk píslarvotts og segist deyja eins og Jesús.
Ég þakka þó fyrir að íslenskir fjölmiðlar hlífa okkur við þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
,,Hagvöxtur - úlfur í sauðargæru"
Dr. Tóta er uppáhaldsleikritahöfundurinn minn í kvöld. Ég fór að sjá Epli og eikur í Möguleikhúsinu og veinaði úr hlátri. Það þykir mér gaman. Það er reyndar ekki fráleitt að hugsa sér að Oddur Bjarni Þorkelsson leikstjóri hafi líka haft eitthvað um málið að segja.
Við sögu koma hjónin Vala og Jóhannes fangelsisprestur, hann alltaf á hlaupum á eftir glæpakvendinu frú Stefaníu og Vala alltaf á hlaupum á eftir Jóhannesi, börn þeirra Baldur hinn óframfærni og Rakel sem er mest miður sín yfir að geta ekki framið glæp. Og fleira fólk.
Þetta er söngleikur og farsi um glæpi með skynsamlegri framvindu og góðum tímasetningum, fínum endalokum fyrir alla (nema Baldur, á honum var framinn galdur) og svo húmorískum og ófyrirsjáanlegum texta að ég sem sagt hló eins og ég væri í vinnu við það.
Skemmtilegast fannst mér að sjá þarna fínt nýtt fólk, Andreu Ösp Karlsdóttur, Baldur Ragnarsson og Hilmar Val Gunnarsson. Ég ætla að leggja þau nöfn á minnið - framtíðarleikarar hafa stundum byrjað ferilinn í Hugleik.
Til að allrar sanngirni sé gætt tek ég fram að Hugleikur er leikfélagið mitt. Og ég hafði ekki smekk fyrir Legi þótt það væri eftir Hugleik Dagsson.
Es. Lokasýning er í kvöld, fimmtudaginn sumardaginn fyrsta.
Dægurmál | Breytt 19.4.2007 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Kemur núna ,,kippur á fasteignamarkaðinn"?
Víst hljómar þetta vel með óverðtryggða erlenda lánið, en það er ekki jafn gott að fasteignasölurnar eru núna vísar með að vísa til þessa og tala um kipp á fasteignamarkaði eins og hann sé æskilegur. Kaupendur vilja stöðugleika og ég þori að hengja mig upp á að seljendur vilja líka stöðugleika. Seljendum finnst grætilegt þegar þeir hafa selt - og SVO kemur kippur. Annars vill ekki sanngjarnt fólk græða á vondum tímasetningum annarra, er það nokkuð?
Þessir kippir eru farnir að minna á jarðskjálfta og mér finnst nóg að gert.
![]() |
Glitnir býður nýja tegund húsnæðislána með 4,5% vöxtum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. apríl 2007
8.618 bílar pressaðir í fyrra
DV segir að tæpir 9.000 bílar hafi lent undir pressunni á síðasta ári. Úrvinnslusjóður tekur á móti, borgar úrvinnslugjald og telur.
Ef rétt er munað er bílaeign landsmanna um 700 á hverja 1.000 íbúa og þá eru um 215.000 bílar í landinu. Þannig eru 9.000 stykki um 4% þeirra allra.
Þegar ég sá töluna á forsíðu DV fannst mér hún svakalega há og ég hef ekki skipt um skoðun. Meðalaldur bílanna var 13 ár. Fólk hendir bílunum sínum af því að það kemur nýrra módel og það hefur peningaleg efni á að kaupa sér nýjan.
Er ekki eitthvað vitlaust við þetta?
Tvennt rifjast upp fyrir mér. Ellamaja seldi bílinn sinn fyrir tveim árum, módel 1998, og prísaði sig sæla að hann seldist yfirleitt, 7 ára gamall og vel meðfarinn. Hún sagði að það væri byrjað að pressa bíla einu ári eldri.
Og Kjartan ætlar að kaupa gamlan óséðan pallbíl á 50.000 kr. af því að hann langar að gefa honum framhaldslíf.
... reyndar ekki bíllinn - og gæti þó verið, hann er enn óséður, hahha.
Gott að eiga svona meðvitaða vini.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 16. apríl 2007
Atferli fólks í sundi ... er misgott
Ég er með hugmynd að lausn: Fjölgum sundlaugunum, en byrjum á því að stækka sundlaugina við Barónsstíginn. Fáum útilaug til viðbótar við innilaugina. Þar er pláss og þar vantar tilfinnanlega fleiri sundbrautir. Vilhjálmur Vilhjálmsson má eiga hugmyndina með mér.
Þegar ég er búin að láta svona í ljósi gremju mína yfir atferli fólks í laugunum þetta er nefnilega ekkert óalgengt verð ég að segja að mér fannst laugin á Dalvík mjög skemmtileg þegar ég fór í hana fyrir löngu. Þar var spiluð tónlist! Mér finnst sérlega gaman að fara í sund þegar ég er utan Reykjavíkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Kvöl og pína
Stundum verður maður að þjást tilhlýðilega. Það er ágætlega við hæfi skömmu eftir páska. Ég fór í fermingu í dag.
Þetta er greinilega vinsæll dagur því að það voru um 30 krakkar sem sögðu já við prestinn sem byrjaði á því að biðja fólk um að taka ekki myndir uppi á sviði (eða sagði hún það ekki, sviði?). Svo sagði hún að eftir athöfnina mætti skjóta eins og menn vildu!
Þetta er orðið helmingi meira sjónarspil en var þegar ég var fermd. Meint trú er a.m.k. lítt sýnileg. Ég verð þó að segja Svavs bróðurdóttur minni sem fermdist fyrir fjórum árum það til hróss að hún hugsaði vandlega um það hvort hún ætti að fermast, fermdist svo ári síðar en jafnaldrarnir - og sér reyndar eftir því. Ég tek kannski hrósið til baka, hehe. Systir hennar á að fermast á næsta ári og hugsar nú stíft sinn gang.
Hvernig á maður að geta virt kirkjuna og þjóna hennar þegar þeir rífast hátt og í hljóði, bera hver aðra sökum og ganga ekki á undan með góðu fordæmi og frið að leiðarljósi? Fríkirkjan er í mínum augum ekkert öðruvísi en þjóðkirkjan og Hjörtur Magni prestur eins og Dalla eða Flóki eða Bjarni eða Jóna Hrönn. Svo er hann kærður fyrir að hafa skoðanir á trúsystkinum sínum og stofnuninni sem þau starfa fyrir.
Ég nenni ekki að rifja upp öll þau skipti sem þjónar kirkjunnar hafa komist í fjölmiðla vegna óeiningar. Ég ætla heldur ekki að rifja upp spillta presta bókmenntanna eða blóði drifna slóð trúarinnar. Ég ætla heldur ekki að telja allar milljónirnar sem fara í þetta allt af skattfé. Þetta er gömul saga og sígild, því miður. Sjónarspilið er hins vegar að aukast, myndavélar ráða ferðinni og þessi þarna Jesús víkur æ lengra til hliðar. Hógværð er náttúrlega kostur ...
En hvað er ég að þenja mig? Ég gekk í Ásatrúarfélagið fyrir tveimur árum eftir að hafa verið utan trúfélaga í nokkur ár og þar sitja náttúrlega heldur ekki allir á sátts höfði.
Es. Fyrirgefðu, Addý frænka mín, að ég skuli nota fermingardaginn þinn til að úttala mig. Til hamingju með daginn, hmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)