Færsluflokkur: Dægurmál

Skiptir útlit kvenna máli þegar þær tala?

Ég hlustaði í dag á fyrirlestur Karenar Ross um stöðu kvenna í stjórnmálum. Hún hefur tekið viðtöl við fjölda kvenna í stjórnmálum, dregið saman niðurstöður og reifað þær, áreiðanlega víða.

Ég kom aðeins of seint og hélt að ég fengi varla sæti en það var öðru nær, salurinn í Norræna húsinu var rétt hálfsetinn, kannski vegna þess að margir stjórnmálamenn eru einmitt á tveim landsfundum. Kannski var þess vegna svona mikið pláss fyrir þá sem eru óflokksbundnir.

Karen flutti mjög líflegan fyrirlestur og tók fjölda dæma til að rökstyðja þá skoðun sína og fjölmargra annarra að konur eru frekar en karlar dæmdar af fötunum, hárgreiðslunni og hjúskaparstöðunni.

Það voru engin ný sannindi, en sannindi samt. Góða vísu má kveða oftar en einu sinni. Sjálf gef ég reyndar oft hálstaui sjónvarpsfréttamannanna (eða viðmælenda) gaum og met hvernig það passar við jakkafötin. Úps. Stundum hefur það meira að segja orðið hálfgerður samkvæmisleikur á heimilinu.

En mér finnst kjánalegt að taka ekki fram að fyrirlesturinn yrði fluttur á ensku. Titillinn var þýddur og þess vegna gátu einhverjir ályktað að Karen Ross kynni íslensku.


Og hvað vilja tæp 40%?

Mig minnir að rúmlega 70% hafi kosið um deiliskipulagið í Hafnarfirði um daginn sem var svipuð þátttaka og í sveitarstjórnarkosningunum þar í fyrra. Það þótti mjög gott. Yfirleitt er kosningaþátttaka í alþingiskosningum þó betri.

Og hvað segir þá þessi könnun Capacents okkur? Meirihlutinn vill hafa eitthvað um frekari stóriðju að segja. En hvað þýðir það? Á að vera þjóðaratkvæðagreiðslu um Helguvík, Keilisnes, Bakka á Húsavík?

Í Sviss er þjóðaratkvæðagreiðsla mjög oft og þar skilst mér að kosningaþátttaka sé almennt komin ofan í 60%. Þar er reyndar líka spurt um marga tiltölulega hégómlega hluti, eins og hvort opna eigi áfengisbúð á þessu horni, leyfa kanínuhald í hinni kantónunni eða hækka sektargjald fyrir of hraðan akstur um 1% (eða álíka). Þar er svolítið búið að gengisfella stórar atkvæðagreiðslur milli kosninga.

Ég velti fyrir mér hvað þessi tæpu 40% vilja. Hafa þau engar skoðanir yfirleitt eða bara ekki skoðanir á þessu máli? Eru þau kannski þvert á móti þeirrar skoðunar að við séum á réttri leið? Og hvaða leið er þá það? Eru þau á móti íbúalýðræði eða bara könnun um stóriðju?

Mér þykir þessi könnun segja mér fátt. Það kemur ekki einu sinn fram hversu margir voru spurðir!

En ég vildi gjarnan fá að segja skoðun mína oftar en sjaldnar. Og ég vildi fá 10 atkvæði í kosningunum 12. maí - hvaða sanngirni er í því að þurfa að greiða allt atkvæðið einu framboði?


mbl.is Rúmlega 60% þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á þetta að kosta (quadacosta)?

Þegar menn fara til Tyrklands og ætla í forbífartinni að kaupa sér mottu spyrja þeir hvað hún kosti og reyna svo að prútta. Eða reyna að reyna því að prúttið er Íslendingum ekki eiginlegt.

Þegar menn fara til New York kaupa þeir myndavélina þar vegna þess að hún er helmingi ódýrari en í Reykjavík (veit ekki með Sauðárkrók).

Áður en menn bóka flug til Rómar kynna þeir sér verðið hjá ólíkum ferðarekendum.

Þegar menn kaupa Nokia eða Samsung eða Sony Ericsson velta þeir fyrir sér hvaða fyrirtæki býður best.

Þegar menn fara hins vegar með símann með sér til útlanda, hringja úr honum, svara í hann eða senda sms hafa þeir ekki hugmynd um hvernig reikningur verður sendur þeim heima. Skrýtið. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar ég horfði á fréttirnar í kvöld.

Það sem ég er hins vegar fyrst og fremst að fara með fyrirsögninni er að nú er sléttur mánuður til kosninga og flokkarnir byrjaðir að bjóða í okkur. Ég hirði ekki um að tíunda kosningaloforðin því að þá myndi ég áreiðanlega mismuna einhverjum, en það leyfi ég mér að fullyrða að hundruð milljóna hanga á spýtunni.

Ég las merkilega færslu hjá hinum afar flinka penna Andrési Magnússyni þar sem hann kallar eftir kostnaðarmati með þingmálum. Mér sýnist hann reyndar helst vilja að nefndir afgreiði nefndarálit með kostnaðaráætlun en mér finnst að flutningsmaður máls ætti a.m.k. líka að bera ábyrgð og reikna út kostnað.

Menn leggja til hugmyndir og hafa metnað til góðra verka - en ef metnaðurinn kostar milljarð verður flytjandi líka að hafa metnað til að stinga upp á hvar eigi að taka milljarðinn.

Ef maður stingur upp á að skattleysismörkin hækki í 120.000 og útreikningar segja að það kosti 30 milljarða á ári þarf að tala um það grímulaust.

Ef menn vilja bæta við sendiráði í Mósambik mega menn ekki óttast að tala um kostnaðinn fyrirfram.

Ef menn vilja leggja suðurstrandarveg þarf að horfast í augu við kostnaðinn, og eins vegna Hellisheiðarinnar, eins vegna jarðganga.

Svo er sjálfsagt að reikna ávinninginn líka því að fjárlagagerðin er ekki einstefnuakstur.

Bakreikningar eru vondir og óþarfir. Kannski þarf kjark til að taka þá umræðu.

Þetta finnst mér gilda um bæði kosningaloforð og (þing)mál.

Og að lokum, mér skildist á Einari Mar í sjónvarpsfréttunum að konur væru meiri óvissuatkvæði en karlar. Það kann að vera rétt en mesta óvissuatkvæðið sem ég þekki er karlkyns. Hann fer á milli kosningaskrifstofa, spyr og hlustar og gerir svo upp hug sinn. Og hann er bæði heilbrigður og í fullri vinnu.


Þjónusta símafyrirtækjanna

Mér er runnin reiðin, en það er meira með handafli.

Ég er með heimasíma og adsl hjá Hive frá því í janúar. Um nýliðin mánaðamót fékk ég í fyrsta skipti reikning eins og hann kemur til með að líta út. Hann hljóðaði upp á kr. 5.728, gjalddaginn var 2. apríl og eindaginn 9. apríl.

Auðvitað hefði ég átt að hringja fyrir páska til að spyrja út í töluna, vissulega, en það varð út undan (og hvernig í andskotanum stendur á því að eindagi er á öðrum í páskum?) og ég hringdi í gær til að fá upplýsingar um það hvernig 3.990 + 1.390 yrðu 5.728. Þótt munurinn sé til þess að gera lítill á maður ekki bara að sætta sig við það, og allra síst þegar maður sér aldrei sundurliðunina.

Fyrir svörum varð hinn indælasti maður, það vantaði ekki, og svaraði með öllum frösunum sem hann hefur verið mataður á. Til viðbótar gjöldunum sem áður voru þekkt rukkar Hive mig um 199 kr. umsýslugjald og 149 kr. tryggingagjald fyrir beininn (routerinn). 

Þetta á að heita svo að gera gjöldin gagnsærri. Vei, þá rifjast nefnilega upp umræða úr blöðum um seðilgjöld sem fyrirtæki héldu áfram að rukka eftir að seðlarnir lögðust af. Og nú heita þau umsýslugjöld.

Og af því að mér láðist að hringja fyrir páska og vildi þess vegna ekki borga áður en ég vissi fyrir hvað var ég rukkuð um 482 kr. í vanskilagjald og dráttarvexti. Það hækkar áskriftina um 8,5% - en til að sanngirni sé gætt átti ég að hringja fyrir páska. Eða hefði Hive kannski svarað um páskana?

Til að kóróna ergelsi mitt rifjast upp fyrir mér að fjarskiptafyrirtækin átthagabinda mann í heilt ár til að geta boðið manni þessi kostakjör.

Meiri samkeppni á þennan markað, takk.


Þeir eldast sem lifa

Sumir fara bara verr út úr því ...

Es. Soldið klúðurslegt grín að afmælisbarninu. Gengur betur næst, humm hmm.


Ein lítil spurning

Forystumenn íslenskra stjórnmála eru enn með orðið í Kastljósinu (hvar eru annars baráttusamtök aldraðra og öryrkja?) og nú vaknar þessi spurning:

Ef það kostar (þ.e.a.s. fer út úr skattkerfinu) 50-60 milljarða að hækka skattleysismörkin úr 90.000 í 150.000 má ekki reikna með að sá peningur fari einhverja aðra leið inn í samneysluna? Þá væntanlega hefur fleira fólk efni á meiru, ekki satt? Þá eykst hagvöxturinn, ekki satt?

Þetta átti bara að vera ein spurning ...


,,Þetta fólk"

Óttaleg viðkvæmni er í þessu fólki sem kvartar undan orðalaginu þetta fólk. Orðið þetta er bara ósköp venjulegt ábendingarfornafn og ekki neitt gildishlaðið. Það er bara eins og að segja þetta sjónvarpsefni, þessir fréttatímar o.s.frv. um efni sem margbúið er að ræða.

Sko, nú var Jóhanna Vigdís að enda við að segja þessi skattaumræða í Kastljósinu - og hvert er vandamálið?

Þessi viðkvæmni í þessu fólki sem kvartar undan þessu orðalagi er óþörf. Segi og skrifa.


Ekki vanþörf á að birta söguna, hahha

Ég er búin að reyna að skilja hvað gerðist frá því að fréttirnar birtust fyrst en það eina sem ég sé alltaf þegar minnst er á þessa villuráfandi Breta er kona með sígarettu í munninum og slæðu um höfuðið. Það er ekki við íslenska fjölmiðla að sakast (og ekki mig!) því að þegar ég horfi á fréttina á Sky sé ég líka bara sígarettuna. Í mínu fagi, bókmenntum, er svona stundum kallað fleygur, eitthvað sem fangar alla athyglina.

Hún má reykja mín vegna og hún má klæðast því sem hún vill en það breytir því ekki að sígarettan hrópar á athygli mína. Og ég veit enn ekki hvað gerðist, held helst að breskir sjóliðar hafi stolist inn fyrir landhelgi Írana í þökk breskra stjórnvalda til að dreifa athyglinni frá einhverju ófýsilegra.

Smjörklípa?!

Og hver vill borga 33 milljónir fyrir sögubita af smjöri?


mbl.is Bresku sjóliðarnir fá að selja sögu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Stefán Baldursson hæfastur til að stjórna óperunni?

Kannski.

Ég skil bara ekki að auglýsingin um þetta starf hafi farið framhjá mér og enn síður skil ég að ég finn alls ekki hverjir aðrir sóttu um starfið. Er þetta ekki eftirsóknarvert starf? Voru ekki margir um hituna?

Það getur vel verið að Stefán Baldursson sé sá besti, en ég skil ekki umræðuleysið. Og skortinn á upplýsingum. Nógu oft hefur verið galað þegar stjórar hafa verið ráðnir að Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Ég man í fljótu bragði eftir Viðari Eggertssyni og Þórhildi Þorleifsdóttur sem ollu einhverjum usla. Ég man ekki betur en að Stefán hafi stýrt Borgarleikhúsinu um tíma, og Þjóðleikhúsinu þangað til Tinna Gunnlaugsdóttir tók við fyrir tveimur árum eða svo. Sú ráðning læddist heldur ekki með veggjum.

Er þetta kannski einhver sjálfvirkni í Íslensku óperunni, sjálfvirkur ráðningarbúnaður? Hverjir aðrir sóttu eiginlega um?


Keisaramörgæsir og önnur undur

Ég hélt að myndin sem RÚV sýndi á föstudaginn langa væri eitthvað sérstök og setti mig í stellingar til að horfa. Svo var hún aðallega um stóran hóp kjagandi mörgæsa, nógu krúttleg svo sem en ekki það stórvirki sem mér hafði skilist. Allt snýst þetta um væntingar.

Núna er hins vegar á BBC Prime mynd sem heitir Deep Blue, og ætla ég að það vísi til hafdjúpanna, og hún er snilldarlega gerð um mörgæsir, ísbirni, hvali, marflær, steinbíta - og korter eftir. Heppilegt að ég get skrifað blindandi.

Annars er líka handbolti á RÚV núna svo að samkeppnin er hörð, humm hmm. Ísland hlýtur að hafa Túnis, VIÐ erum yfir núna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband