Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 8. apríl 2007
Kenna má fyrr en klipið er til beins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. apríl 2007
Vorboðinn hrjúfi
Nú er ég að hlusta á spurningakeppni fjölmiðlanna frá því rétt eftir hádegi (af því að hér var á flutningstíma langur bröns) og Ævar Örn spurði um vorboðann hrjúfa. Þessi keppni er snilld, og þá eru keppendurnir ekki síðri.
Og fyrir vorboðanum stendur til að eitra á hreiðri sínu ... Mér finnst það vond hugmynd sem myndi hafa það í för með sér að fuglarnir dræpust hingað og þangað, og ekki endilega rúmliggjandi humm hmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 6. apríl 2007
Barnamatseðill og unglingadrykkja
Ég er svo laus við kristilega þanka að mér er alveg sama þótt einhverjir ætli að vera með uppistandskeppni á föstudaginn langa og sjálf ætla ég hér og nú að gera grín að orðinu barnamatseðill sem sést iðulega á betri veitingastöðum. Mig langar t.d. alltaf að spyrja úr hvernig barni barnahamborgarinn sé gerður.
Svo heyrði ég nýlega einhvern benda á orðið unglingadrykkju til samanburðar við kaffidrykkju. Ekki orð um það meir.
Það er nú svo bjútífúl við tungumálið að það er lifandi og ekki alltaf rökrétt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. apríl 2007
Heilög stund á Rás 2
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. apríl 2007
Skírdagur þénugur dagur til verðlagseftirlits
Ég man ekki hvar ég heyrði það eða nákvæmlega hvenær en einhvers staðar var sagt að lágvöruverðsverslanirnar hefðu lækkað verð hjá sér um 11% vegna lækkaðs virðisaukaskatts.
Nú er ég með samanburð á þremur vörutegundum sem annars vegar voru keyptar rétt fyrir miðjan febrúar og hins vegar nú í dymbilviku.
Spínat kostaði 267 en kostar nú 248 (niður um 7%).
Pólarbrauð kostaði 159 en kostar nú 158 (niður um 0,5%).
Lúxusíspinnar kostuðu 337 en nú 315 (niður um 5,5%).
Og svo á maður að trúa útreikningum til þess bærra aðila. Þetta er nefnilega eins og með bankana, það er allt reiknað út frá einhverju meðaltali sem enginn lifir eftir. Við erum nefnilega vaðandi í frávikum.
Hnuss. Og hér kemur ný mynd af Grumpy til að útskýra gremju mína:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Minnir mig á Andrés önd og félaga
*Bubbi byggir* hefur svo litla viðkomu haft hjá mér upp á síðkastið að ég get með sanni sagst ekkert vita um verðlagið hjá Byko og Húsasmiðjunni. Það sem Múrbúðin hefur nú gert er að vekja fólk til meðvitundar - og það er jákvætt.
Og þá rifjast upp teiknimyndasagan góða þegar Jóakim aðalönd auglýsti gott verð á kjólum í kjólabúðinni sinni, 119 danskar krónur (danska útgáfan í gamla daga). Konurnar sýndu engan áhuga. Þá auglýsti hann roknaútsölu og sagði að kjólarnir hefðu áður kostað 259 krónur en væru nú á aðeins 159 krónur.
Ég þarf ekki að segja neinum hvernig teiknimyndasagan endaði - en hvernig endar verðstríð dagsins í dag? Við fylgjumst spennt með framhaldinu.
![]() |
BYKO segir ásakanir Múrbúðarinnar tilhæfulausar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. apríl 2007
Undarlegar eru fyrirsagnir bankanna
Glitnir segir, Glitnir segir ... að heimilin eigi núna meiri eignir en skuldir. Áreiðanlega er þetta eitthvert meðaltal og meðaltalsheimilismaðurinn er ekki til, ekki frekar en meðalneminn sem skólakerfið hnitast svolítið um.
Þetta með að eignir hafi aukist umfram skuldir - sem kemur að einhverju leyti til af því að íbúðir hafa hækkað í verði án þess að eigandinn hafi selt eða keypt, fjölskyldustærð breyst eða handbærum krónum fjölgað - minnir á þá fjöldamörgu sem bjuggu eitt árið allt í einu í stærri íbúðum en þeir keyptu AF ÞVÍ AÐ FARIÐ VAR AÐ REIKNA UTANMÁL ÍBÚÐA EN EKKI LENGUR INNANMÁL. Veggir voru þannig komnir inn í fermetrafjöldann - og fólk bjó þannig í stærra húsnæði. Ja, fjandinn fjarri mér.
Aðrar fréttir af fjárhagsstöðu heimilanna hafa undanfarið hermt að fólk nýti yfirdráttinn í botn á ný (eftir að íbúðalán bankanna komu til skjalanna 2004 og fólk tók þau frekar en neyslulán), íbúðir hafi verið settar á uppboð og að heimsóknum hafi fjölgað á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
En Glitnir segir að eignir heimila hafi aukist umfram skuldir. Og hefur reiknað það út ...
![]() |
Segja eignir heimila hafa aukist meira en skuldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Launin í ferðaþjónustunni
Í síðustu viku lenti ég á spjalli við Steina Briem í athugasemdakerfi Ómars Ragnarssonar um laun í ferðaþjónustunni. Ég þekki ekki Steina en það rifjaðist upp fyrir mér launasaga (raunasaga) úr ferðaþjónustunni.
Árið 1998 sótti ég um sumarstarf í gestamóttöku hjá hótelkeðju (Cabin minnir mig). Ég var kölluð í viðtal í mars (já, svo snemma) og í kjölfarið var mér boðið sumarstarf í gestamóttökunni á Valhöll á Þingvöllum. Mér var bent á að nálgast launataxtana hjá VR hvað ég og gerði. Skv. þeim átti ég að fá 88.000 kr. í grunnlaun. Ég átti að vinna dæmigerðar hótelvaktir, tvo daga, frí tvo, vinna þrjá o.s.frv. Ég átti að keyra á milli á mínum bíl, fyrir mitt bensín og í mínum tíma. Ég átti að fá gistingu ókeypis (hahha) milli vaktanna og ókeypis að borða á vaktadögunum.
Á níu árum byrjar auðvitað að fenna í minningarnar en ég held að ég muni rétt að ég hafi reiknað út að heildarlaunin fyrir júní hefðu orðið 118.000 (og þá var 17. júní inni í planinu). Þá átti ég eftir að draga frá (skatt, auðvitað) ferðakostnað og reyna einhvern veginn að verðleggja ferðatímann. Aðstandendur hótelsins sögðu að þetta væri 20 mínútna keyrsla, en ég er mjög lélegur lögbrjótur þannig að það stóðst engan veginn.
Ég hætti við sumarstarfið, seldi bílinn, fór til Danmerkur og lagðist upp á nána vini. Það lukkaðist ágætlega og ég fékk engar kvartanir (engin laun heldur en það verður ekki allt metið til peninga, humm hmm).
Laun í ferðaþjónustu eru ekki svona hroðalega léleg lengur, en þau eru léleg samt. Og til að kóróna söguna spurðist um haustið að starfsfólkið á Valhöll hefði ekki einu sinni fengið útborgað. Huggun harmi gegn var náttúrlega að þurfa ekki að borga tekjuskatt ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Orlof og verkefni
Um helgina heyrði ég Kolbrúnu Bergþórsdóttur segja frá því í útvarpsviðtali að henni væri illa við samfellt orlof. Hún biður vinnuveitandann um að fá að taka eina viku hér og aðra viku þar því að henni er meinilla við samfellt fjögurra, ég tala nú ekki um fimm eða sex, vikna frí.
Og viðmælandinn skellti sér á lær í forundran.
Ég er hins vegar ekkert hissa á Kolbrúnu. Henni hlýtur að þykja gaman í vinnunni, hún skrifar, les og fylgist með. Þegar hún er heima hjá sér (ef það er eitthvað að marka pistlana hennar í Blaðinu) og hlustar á t.d. Sjostakóvits (sem Sigurður G. Tómasson spilar alltaf í þáttunum sínum á Útvarpi Sögu) verður það henni líka uppspretta vinnupistla. Hún hefur áhuga á vinnunni sinni.
Er ekki óþarfi að gefa sér alltaf að fólk sé í vinnu bara af því að hún borgar laun? Þegar maður er svo heppinn að fá að vinna við áhugamál sitt, vinna við eitthvað sem maður hefur valið að mennta sig til að gegna, er bara heimsins eðlilegasti hlutur að maður hlakki til að mæta í vinnuna.
Mér finnst hvimleið þessi tilhneiging sumra til að tala um vinnuna sem skyldu eina saman.
Og þó að maður hafi yndi af vinnunni sinni er ekki þar með sagt að manni þurfi að leiðast utan hennar.
Ég hef oft spurt fólk í nærumhverfi mínu hvað það myndi gera ef það eignaðist sisona x milljónir (segjum hálfan milljarð). Yfirleitt ætlar fólk að hætta að vinna. Yfirleitt segist það ekki ætla að gera eitthvað ákveðið, það ætlar bara að hætta að vinna.
Er svona skelfilegt að mæta í vinnu? Ekki finnst mér það.
Dæs. Stundum þyrmir svo yfir mig þegar ég hugsa um hvað fólk hlýtur að lifa leiðinlegu lífi ef það ætlar að kollvarpa öllu við það að eignast pening.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 1. apríl 2007
Setjum sem svo að Mjólkursamsalan hafi rétt fyrir sér
Ég hef ekki neinar forsendur til að giska á verð í ostakvóta eða hvort menn noti hann eða ekki. En setjum sem svo að Mjólkursamsalan ljúgi engu - ekki dettur mér í hug að væna hana um lygar - eigum við þá bara að vera glöð með að borga um og yfir 1.000 kr. fyrir kílóið af allrahanda ostum? Fyrir mig sem neytanda er Mjólkursamsalan ekki vandamálið, heldur ALMENNUR SKORTUR Á SAMKEPPNI.
Er hægt að auka samkeppnina? Eða verðum við vegna smæðar markaðar alltaf undirseld fákeppni?
![]() |
Mjólkursamsalan segir rangt að tilboð fyrirtækisins í ostakvóta hleypi upp verði á kvótum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)