Færsluflokkur: Dægurmál

Umræðan í Silfrinu

Þetta er hugsað sem rapport fyrir Stínu sem býr í Kanada og er nýbúin að uppgötva Silfur Egils á netinu.

Fyrst voru (sitjandi frá vinstri) Lúðvík Geirsson (bæjarstjóri í Hafnarfirði), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (menntamálaráðherra, búsett í Hafnarfirði), Kristrún Heimisdóttir (lögræðingur, frambjóðandi Samfylkingarinnar) og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (frambjóðandi fyrir Vinstri græna). Þau ræddu íbúakosninguna í Hafnarfirði í gær um framtíð álversins.

Svo fór Lúðvík Geirsson, og Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull Hjallastefnunnar, kom í hans stað.

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, talaði við Egil um hitamálið útlendinga, ekki síst af því að í Fréttablaðinu er í dag auglýsing frá flokknum um það hvernig þeir vilja taka á fjölgun útlendinga til landsins.

Skáldin Gunnar Smári Egilsson, Þráinn Bertelsson og Guðmundur Andri Thorsson töluðu um ... úps, þarna datt ég út, og loks var einhver Slavoj Zizek að tala um róttækni.

Eins og sést er heilmikið puð að skrifa svona rapport þannig að, Stína mín í Kanada, þetta verður síðasta skiptið, hemm hmm.


Er þetta aprílgabb?

Æ, mér er bara orðið svo kalt eftir veturinn að það væri næstum hægt að trekkja mig upp í að fara hvert sem er. Og 12 gráður hljóma eins og hellingur. Og eru hellingur í morgunsárið. Við þangað! Seyðisfjörður er eðalstaður.

Annars er viðbúið að menn verði vel vakandi fyrir aprílgöbbum í dag.


mbl.is 12 stiga hiti á Seyðisfirði í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara hestar postulanna eftir

Jæja, þá var hjólinu nappað úr skotinu heima. Svona reytast af manni farartækin þangað til aðeins tveir jafnfljótir eru eftir. Gott að þeir eru í góðri æfingu. Og kannski gott að ég má ekki kjósa í Hafnarfirði, ég sæi mig á þrjóskunni ganga alla leið úr 101 í 220, öhm humm hmm.


Daglegar auglýsingar í Fréttablaðinu og Blaðinu

Hvað dvelur orminn langa? Ansi margir luku upp einum munni um nauðsyn þess að koma í veg fyrir klám um daginn. Við erum andvíg vændi. Því til viðbótar vil ég segja að ég vil almennt ekki að fólk þurfi að gera það sem stríðir gegn sannfæringu þess eða velferð, vinna mannskemmandi vinnu, fá of lág laun eða hrærast í óheilbrigðu umhverfi.

Úr því að það er ólöglegt að framleiða, flytja inn og dreifa klámi - hvers vegna er þá vændi auglýst átölulaust í blöðunum? Eða er símavændi í lagi? Ég er t.d. að horfa á blaðsíðu 40 í Blaðinu og sé þar auglýsingu um símakynlíf. Má það?


mbl.is Mikill meirihluti vill að kaup á vændi verði refsiverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pulsa

Segi og skrifa. Mér finnst það bara hræsni að segja og skrifa pylsa. Þoli öðrum þó auðvitað líka sérvisku.

Í dönsku er orðið pølse og ég stend í þeirri meiningu að ø geti breyst í hvort sem er u eða y.

Geri samt ekki ráð fyrir að Davíð Þór spyrji um þetta í Gettu betur sem ég get loksins loksins horft á. Viiií. Hef misst af öllum þáttunum eftir að keppnin færðist í sjónvarpið.


Fjáröflun íþróttafélaga og kóra

Já *grmpf*, ég veit að málstaðurinn er góður en ég vil ekki kaupa misgóðan klósettpappír fyrir okurverð af því að einhver í fjölskyldunni er að fara í leiðangur til Færeyja. Ég hef alveg gert það og setið uppi með vondar birgðir í langan tíma. Ég keypti líka einu sinni Heimaeyjarkerti og stóð í þeirri meiningu að þau væru góð - en meira að segja þau brunnu illa.

 


Mokveiði - af fiski

Jáh, þetta er ótrúlegt, í kvöldfréttum var bein útsending úr skipi þar sem fiski var mokað upp úr lestinni og allt í einu rifjaðist upp að endur fyrir löngu voru þorskaflatölur alltaf fyrsta frétt, nánast fyrir minni mitt reyndar. Og hvers vegna skyldi það hafa breyst? Ætli það sé vegna þess að aflinn hefur minnkað eða er það vegna þess að fiskifréttir eru ekki sexí? Kannski sitt lítið af hvoru.

Eru kannski uppgrip í þorski sexí frétt?

 

 


Ondúlering

Ég lifi í voninni að Davíð Þór Jónsson spyrji í Gettu betur hvað orðið merki. Og hafi svarið á reiðum höndum. Ég lifi líka í þeirri von að ég geti horft á lokaþáttinn, ég hef *skæl* misst af öllum þáttunum eftir að þeir komu í sjónvarpið. Svo rammt kveður að missinum að ég veit ekki einu sinni hvaða lið keppa - enda snýst þetta í mínum augum ekki um sigurvegara. Þetta snýst um keppnina sjálfa.

Og hvað þýðir ondúlering?


Hálendisvegur vs. Biskupstungnavegur

Af því að ég er leiðsögumaður sem bara kjafta (ólíkt þeim sem líka keyra) verð ég að segja hér og nú (þrátt fyrir að upphækkaður Kjalvegur sé dottinn (niður) úr umræðunni) að vanir bílstjórar hafa margir áhyggjur af því að vegir í byggð nálægt Kjalveginum bæru ekki þá umferð sem óhjákvæmilega færi þar um. Þeir vísa þá til þungaflutninganna sem myndu freistast þessa leiðina. Og nóg er níðst á vegunum samt.

Nú er mikil umræða um umhverfisvernd og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur og gjaldeyrisskapandi. Eyðileggjum ekki fyrir okkur með meintri styttingu vegalengdar fyrir lítinn hóp.

Að auki legg ég til að fólksbílar eftirláti rútunum miðbæ Reykjavíkur á háannatíma í ferðaþjónustunni. Til vara: að þeir sýni okkur tillitssemi. Til þrautavara: að þeir séu ekki tillitslausir ...


Talið barst að kvóta

Það verður að viðurkennast að ég skil ekki landbúnaðarkerfið okkar án leiðbeininga. Því til viðbótar hef ég ekki reynt mikið að setja mig inn í það, það borgarbarn sem ég er. Maður skyldi bara ætla að ef 16 milljarðar væru settir af almannafé í atvinnugreinina á nokkrum árum væri sami almenningur þar með búinn að borga hálfan slatta upp í afurðina.

Búvörusamningur, afurðasala, ærkvóti - þetta segir mér ekki neitt, og allra síst hvort t.d. samkeppni þrífst í greininni. Er samkeppni? Mega bændur vanda sig sérstaklega mikið og merkja svo afurðina þannig að kaupandinn viti að eitthvert tiltekið lambalæri sé betur alið en annað? Mega menn selja beint til neytandans við þjóðveginn? Mega menn slátra heima að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt? Nei, bændur skulu senda fénað sinn norður og niður af því að þar er sláturhúsið sem slátrar fyrir þá. Fá bændur að njóta hagræðingar sinnar, hugmyndaauðgi og vinnusemi?

Eða er kerfið allt bundið á klafa óhagstæðrar miðstýringar? Ég er of illa að mér til að svara en ég óttast það.

Ef ég hefði alið manninn á t.d. Bifröst gæti verið að ég væri í innilegra sambandi við landsbyggðina og bændamenninguna ... Þó man ég eftir einu skipti í fyrra í heita pottinum að Laugum þar sem ég lenti á miklu spjalli við tvo bændur. Þeir höfðu báðir fengið búið frá foreldrum sínum og þar af leiðandi gott start en annars skildist mér á þeim að nýliðun gæti engin verið.

Hefur ekki helsinu verið aflétt á t.d. Nýja-Sjálandi? Farnast þeim ekki vel þar?

Þarf þetta að vera svona? Stóð ekki landbúnaður undir þjóðinni öldum saman?

Af því að kvóti á að vera rauði þráðurinn minn í kvöld ætla ég að enda á því að segja að leigubílar eru í kvóta. Það er takmarkað hversu margir leigubílar mega vera á götunum. Af hverju fá þeir ekki bara að sanna sig í frjálsum atvinnurekstri? Hver myndi tapa á því?

Ég auglýsi eftir virkri samkeppni. Og ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég styð hana. Ég kaupi Mjólku-vörur þegar ég get og þegar ég bjó á Sauðárkróki flaug ég með Íslandsflugi sem var í samkeppni við Flugfélag Íslands, nýtt þá og nú farið (sennilega af því að ég flutti og hætti þar með að styrkja félagið).

En kannski er ég að gelta að röngu tré!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband