Talið barst að kvóta

Það verður að viðurkennast að ég skil ekki landbúnaðarkerfið okkar án leiðbeininga. Því til viðbótar hef ég ekki reynt mikið að setja mig inn í það, það borgarbarn sem ég er. Maður skyldi bara ætla að ef 16 milljarðar væru settir af almannafé í atvinnugreinina á nokkrum árum væri sami almenningur þar með búinn að borga hálfan slatta upp í afurðina.

Búvörusamningur, afurðasala, ærkvóti - þetta segir mér ekki neitt, og allra síst hvort t.d. samkeppni þrífst í greininni. Er samkeppni? Mega bændur vanda sig sérstaklega mikið og merkja svo afurðina þannig að kaupandinn viti að eitthvert tiltekið lambalæri sé betur alið en annað? Mega menn selja beint til neytandans við þjóðveginn? Mega menn slátra heima að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt? Nei, bændur skulu senda fénað sinn norður og niður af því að þar er sláturhúsið sem slátrar fyrir þá. Fá bændur að njóta hagræðingar sinnar, hugmyndaauðgi og vinnusemi?

Eða er kerfið allt bundið á klafa óhagstæðrar miðstýringar? Ég er of illa að mér til að svara en ég óttast það.

Ef ég hefði alið manninn á t.d. Bifröst gæti verið að ég væri í innilegra sambandi við landsbyggðina og bændamenninguna ... Þó man ég eftir einu skipti í fyrra í heita pottinum að Laugum þar sem ég lenti á miklu spjalli við tvo bændur. Þeir höfðu báðir fengið búið frá foreldrum sínum og þar af leiðandi gott start en annars skildist mér á þeim að nýliðun gæti engin verið.

Hefur ekki helsinu verið aflétt á t.d. Nýja-Sjálandi? Farnast þeim ekki vel þar?

Þarf þetta að vera svona? Stóð ekki landbúnaður undir þjóðinni öldum saman?

Af því að kvóti á að vera rauði þráðurinn minn í kvöld ætla ég að enda á því að segja að leigubílar eru í kvóta. Það er takmarkað hversu margir leigubílar mega vera á götunum. Af hverju fá þeir ekki bara að sanna sig í frjálsum atvinnurekstri? Hver myndi tapa á því?

Ég auglýsi eftir virkri samkeppni. Og ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég styð hana. Ég kaupi Mjólku-vörur þegar ég get og þegar ég bjó á Sauðárkróki flaug ég með Íslandsflugi sem var í samkeppni við Flugfélag Íslands, nýtt þá og nú farið (sennilega af því að ég flutti og hætti þar með að styrkja félagið).

En kannski er ég að gelta að röngu tré!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Ég vill fá þig í Neytendasamtökin Berglind.

Sigfús Sigurþórsson., 28.3.2007 kl. 10:18

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En ég var að opinbera hvað ég er illa að mér í þessu máli! Humm humm.

Berglind Steinsdóttir, 28.3.2007 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband