Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Verst í heimi: að bíða í röð að óþörfu
Ég fór í sund og lenti fjórða í röðinni í afgreiðslunni. Ein manneskja að afgreiða og allt útlit fyrir að hún yrði korter að afgreiða fremsta manninn. Hvað gerir maður þegar maður vill bara fá að borga og fara svo í laugina að synda?
Ég var heppin núna, átti bara eina ógataða tölu þannig að ég lagði kortið á borðið hjá henni og sagðist fara inn. Hún leit ekki upp. Ég fór samt - og leit aldrei til baka.
Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að ég vil sem minnst af þjónustu vita? Ég vil sjálfsafgreiðslu sem víðast, dæla bensíninu sjálf, tína sjálf í körfuna í búðinni, tékka mig inn í vél í Leifsstöð - og fara í sund í gegnum götunarvél.
Ég get alveg beðið - en ekki að óþörfu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Af hverju ekki rafræn atkvæðagreiðsla?
Tæknin leyfir að menn greiði jafnvel atkvæði úr heimatölvunum sínum, væntanlega með lykilorði og/eða kennitölu. Hvað bannar snögga og örugga atkvæðagreiðslu af þeim toga? Myndu menn sakna þess að frambjóðendur rúntuðu inn og út af þingi á kosninganótt? Óttast menn misnotkun? Er það óöruggara?
Ég held ekki. Og hvað sem mönnum finnst um flugvallarkosninguna forðum daga brúkuðu menn þar tölvur og létu að liggja að slíkar aðferðir væru handan við hornið.
Hvað dvelur orminn langa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Fótbolti er fyrir tilfinningaverur
Það sagði alltént Eggert Magnússon hjá West Ham í viðtali á Rás tvö í morgun. Það skemmti mér ógurlega því að hingað til hefur hann virst heldur fálátur. Í umræddu viðtali var hann virkilega skemmtilegur og sagði sem sé með öðru að hann væri svo mikill fótboltakall af því að í íþróttinni fengju menn útrás fyrir tilfinningar sínar. Og hann sagði að á leikjum mætti lesa í andliti sér hvort leikurinn gengi vel eða illa.
Hmmm, man ég það ekki rétt að hann hafi haft það orð á sér að vera mjög alvörugefinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 14. maí 2007
Áhætta spáhætta
Ég trúi því staðfastlega að kjósendur kjósi fyrst og fremst eftir málefnum, stefnuskrám og svo afrekum fortíðar. Engu að síður skipta frambjóðendur líka marga máli. Sjálf vildi ég eiga 10 atkvæði til skiptanna á kjördag og ég veit ekki betur en að í Þýskalandi séu þau á einhvern hátt tvö. Maður hefur óhjákvæmilega skoðun á fólki líka, dugnaði og eftirfylgni, ekki bara loforðum og skrúðmælgi.
Ég hef aldrei kosið í prófkjöri og þannig hef ég engin áhrif á uppröðun á lista.
Mér finnst óþolandi að Reykjavík skuli skipt í tvö kjördæmi og eiginlega finnst mér þénugast að hugsa mér landið allt eitt kjördæmi. Væru þá ekki 126 í framboði hjá öllum listum, bara í stafrófsröð? Eða færri, og maður fengi að velja einn lista og raða frambjóðendum þess lista í sæti? Ég hef ekki séð neinn útfæra þessa hugmynd (kannski hef ég ekki lesið réttu gögnin) en yrði það kannski eins og allsherjarprófkjör?
Mér heyrast menn vera sammála um að þeir fái ekki alltaf upp úr kössunum það sem þeir kjósa - væri eitt kjördæmi ekki bara risastór áskorun til allra í framboði?
D'Hondt hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Fimmvörðuháls
Ég man ekki betur en að Garún hafi verið að auglýsa eftir ferðafélögum á Fimmvörðuháls 22.-24. júní. Hún flæktist upp á Hvannadalshnúk í síðasta mánuði þannig að hún er komin í góða æfingu. Hún er lika orðin þjálfuð í að draga skussa með sér þannig að ég sé marga í mínum vinahópi sem ættu erindi. En ég stefni að því að standa undir sjálfri mér ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Kosningavakan mín
Ég er lúin eftir helgina, sár og móð, og svolítið mædd líka.
Kosningavakan mín hófst í gærmorgun þegar ég fór í Ráðhúsið að kjósa. Þaðan fór ég að forvitnast um beð risessunnar og svo í Bónus að kaupa djús og fleira fyrir síðdegisbrönsinn hjá Habbý. Í Bónusi hitti ég hana Garúnu og hún er svo skemmtileg, alltaf, að í þetta skipti hélt ég að ég yrði of sein heim til að vera komin á undan Kjartani áður en við færum í kosningavöku miðdegisins.
En Kjartan kann illa á klukku þannig að ég bakaði brauð meðan ég beið. Gott að Garún frétti það.
Í Efstasundinu var heldur betur skipst á skoðunum, enda kusu þar menn eina fjóra eða fimm flokka (ekki gefa sig allir upp). Þar var gaman í marga klukkutíma.
Ég er óhuggandi þegar ég hugsa um framhaldið.
Ég mókti, vakti og svaf yfir kosningasjónvörpunum, svo illa haldin að ég skipti í sífellu milli Stöðvar tvö og RÚV og hafði líka vefina uppi. Þess vegna er ég ekki enn búin að læra endanleg úrslit, svo margir flökkuðu út og inn, fögnuðu eða báru harm sinn í hljóði.
Eins og fífl hafði ég tekið að mér að fara Gullhring með Breta í dag þannig að nú er ég nokkuð rotinpúruleg að horfa á RÚV+ til að missa ekki af stjórnarmyndun ... ef ske kynni - þar sem ég var boðin í þrítugsafmæli í millitíðinni.
Erill er skemmtilegur, sólríkur erill skemmtilegri ... *geisp*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. maí 2007
Samkeppnin talar
Samkeppnin hefur bara því miður ekkert annað að segja en: dittó dittó dittó.
Lítill fugl hefur hvíslað því að mér að tryggingafélögin afskrifi í sjóði sem fitna og dafna. Annar lítill fugl er að hvísla núna að þess verði skammt að bíða að hin tryggingafélögin - þessi sem eru í harðri samkeppni - muni hækka sín iðgjöld á næstu dögum.
Nema ég hafi tekið athyglishlé og þau séu þegar búin að því.
![]() |
Tryggingamiðstöðin hækkar iðgjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 11. maí 2007
Risessan mætt á listahátíð
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 11. maí 2007
Spennan í gærkvöldi ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Misjafnt hafast menn að
Fyrsta frétt á Stöð 2 í gærkvöldi var um kvótakerfið og játningar Jakobs Kristinssonar um kvótasvindl. Fyrsta frétt á RÚV var um fyrsta gervihjartað sem grætt hefur verið í manneskju á Íslandi.
Þessar fréttir voru báðar bara á annarri stöðinni.
Róður manns þyngist sífellt, maður verður augljóslega að fylgjast með á báðum vígstöðvum - og víðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)