Færsluflokkur: Dægurmál

Lítill áhugi á Síberíu

Ég hefði heldur ekki lesið þessa frétt nema vegna þess að Steingrímur (bloggvinur minn) hennar Marínar er á þessum slóðum. Margir fórust, þó engir Íslendingar og engir Bandaríkjamenn og engar litlar breskar stúlkur týndust á portúgölskum hótelherbergjum.

Ef ég hefði að vísu hlustað á hádegisfréttir hefði ég heyrt Hauk Hauksson með fréttaskýringu, þann sama rússneskumælandi Hauk og stendur fyrir Bjarmalandsferðunum.

En svona er fréttamatið, líf rússneskra námuverkamanna mega týnast og gefast tröllum tugum saman. Rússland kemur svo fáum við hérna megin.


mbl.is 38 létust í námuslysinu í Síberíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með harðsperrur í hausnum

Ég hlýt að hafa ofreynt á mér heilann undanfarið. Spurningin er: Við hvað?

Geisp, hvað það er erfitt og leiðinlegt að eiga erfitt með að reisa höfuðið af púðanum.


,,Sto cercando il colore per colorare le mie sopraciglie"

Þessa setningu sagði ég síðast í einhverri alvöru seint sumarið 1996 þegar ég hafði upplitast mjög í framan eftir sumardvöl í Róm. Ég þori ekki að sverja að rithátturinn sé óaðfinnanlegur lengur en framburðurinn er það örugglega, hehhe.

 

Og nú er búið að flytja ferðamálin milli ráðuneyta. Forvitnilegt.


Hjólhýsi hvað?

Úff, nú fannst mér Lóu Pind Aldísardóttur takast illa upp, eins mikið dálæti og ég hef á fréttamanninum í henni. Hún fjallaði um hjólhýsa-eitthvað eins og það væri frétt þegar ég sá bara auglýsingu út úr því í fréttatímanum, kl. 18:43-5 eða svo.

Fy.


Aðgát skal höfð í nærveru útlendinga

Ég er hugsi yfir dauðaslysinu í Reynisfjöru á laugardaginn. Ég vona að ég þurfi ekki að skrifa hvað ég er leið yfir þessu, það á að vera augljóst.

Ég hef oft komið þarna með útlenska gesti, það gefur augaleið. Ég er mest á ferðinni á sumrin, þ.e. í júní, júlí og ágúst, en reyndar hef ég miklu oftar farið með farþega upp í Dyrhólaey. Reynisfjara sem er samt æðisleg hefur verið dálítil varaskeifa þegar maður kemst ekki upp hrikalegan veginn í Dyrhólaey, næstum ófæran á köflum. Og ég veit ekki hvað maður á lengi að ganga fyrir spennunni við stórhættulegan veg.

Ég er sammála Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra um að auðvitað á fólk að hafa nokkurt vit fyrir sér sjálft. Ég er þó miklu meira sammála kollega mínum Stefáni Helga Valssyni sem vill fá betri aðbúnað á fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. við Geysi og Gullfoss. Kaðalómyndirnar sem eru við Strokk vísa fólki alls ekki veginn og stígurinn niður að Gullfossi er mikil slysagildra, ekki bara á veturna heldur get ég ímyndað mér hvernig hann muni vera í dag þegar haustveðrið helltist óforvarandis yfir okkur í maí. Svo er t.d. Gunnuhver á Reykjanesi sem hefur gjörbreytt um ásýnd og hegðun eftir virkjunina sem komin er þar á koppinn en aðeins er upphrópunarmerki við stíginn þar ásamt orðunum CLOSED og LOKAÐ.

Gunnuhver

Ég vona að mannshöndin fari samt ekki offari og verði látin taka alla upplifun frá túristanum, t.d. með of miklum stígum, köðlum, gleri eða öskubökkum hreinlega, en það er til millivegur. Á Þingvöllum held ég að ég megi segja að nokkuð snyrtilega hafi verið staðið að verki - hvernig væri að flikka upp á umhverfið við Dettifoss? Og væri í of mikið ráðist að vera með starfsmann á þessum fjölsóttustu stöðum?


Vonskuveður á norðursvölunum mínum

Ekki svo að skilja að ég hefði annars farið að grilla ... 

Never_tell_a_woman_she_can_t_cook


120 Flateyringar = 35.000 Reykvíkingar (hlutfallslega)

Á kannski að bjóða þeim áfallahjálp?

Ráðherragisk

Gerir enginn ráð fyrir að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem báðir hafa lýst yfir vilja til að stokka upp í Stjórnarráðinu ætli að standa við orðin um að fækka ráðuneytum?

Nú eru Björn Ingi og Óli Björn að giska í Kastljósi.


Eins dauði er annars brauð

Ég sá viðtal við Hinrik Kambsmann í fréttum Stöðvar tvö og hann bar sig aumlega. Kannski hefur mér einhvers staðar skotist yfir en mér fannst einhvern veginn á honum að heyra að hann hefði nánast borgað með vinnslunni í fjölda ára og gæti það ekki lengur. Kambur á 2.700 tonna kvóta, minnir mig að hafi komið fram, og nú velti ég fyrir mér hver fái það brauð. Fer Kambur með kvótann sinn á norðanverða Vestfirðina - eða selur suður til Reykjavíkur?

Hver fær brauðið?

Og allt í einu rifjast upp kveinstafir útgerðarmannsins í Grímsey sem gat ekki staðið undir þessu lengur. Fór það brauð ekki suður? Synti ekki þorskurinn að norðan og til Grindavíkur til að vera veiddur þar?

Maður sem ég þekki sem betur fer lítið sagði við mig nýlega: Ef menn geta ekki fundið sér eitthvað að gera á landsbyggðinni eiga þeir bara að flytja hingað (til Reykjavíkur).

Ég held að landsbyggðinni sé settur stóllinn fyrir dyrnar og ég held að þessum manni þætti miður ef landsbyggðin flytti öll á mölina og hann þyrfti t.d. að taka með sér allan mat, allan viðlegubúnað, allt eldsneyti þegar hann leggur land undir hjól - því að honum leiðist ekki að vísítera.

Og samt má hann ekki til þess hugsa að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Hvað ætlar hann að gera við flugvöll í Vatnsmýrinni þegar enginn verður lengur áfangastaðurinn á hinum endanum?

Og eitt enn, hvar er samkeppnin? Þegar öll réttindi eru meira og minna komin á fárra manna hendur hver tryggir þá samkeppni í faginu? Ráða handhafar t.d. veiðiréttarins ekki kílóverði þorsks - eða hví er það komið í tæpar 200 krónur? 


mbl.is 65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm dögum síðar - fall á uppstigningardegi

Maður situr í sakleysi sínu í hádegisbröns og ræðir fram á miðjan dag um yfirvofandi gæsun þegar allt í einu berast tíðindi með sms-i: Stjórnin er fallin.

Og maður rifjar upp að í gær voru leiðtogar stjórnarflokkanna spurðir hvort þeir ætluðu að funda í dag, og báðir sögðu - með undrunarsvip yfir spurningunni: Nei, á morgun er uppstigningardagur. Og þá rifjast upp fyrir manni að pólitíkin er einmitt 9-5 vinna og allir rauðir kirkjudagar haldnir háheilagir.

En svo óforvarandis heyrast þeir samt á uppstigningardag, líklega bara að spjalla, og svo er dagskrá útvarps rofin þegar ég er ekki á vaktinni og tilkynnt að stjórnin sé fallin.

Hvert féll hún? Klofnaði hún í herðar niður eins og Íslendingasagnahetjurnar forðum? Á hún sér viðreisnar von? Á uppstigningardegi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband