Færsluflokkur: Dægurmál

Ég öfunda sjómenn

Sjómenn eiga sjómannadag, og af honum öfunda ég þá. Sá dagur er í dag.

Ég óttast hins vegar að hann nýtist ekki sem skyldi, að dagurinn sé að verða hvorki hátíðardagur né baráttudagur. Og af hverju er það? Er búið að taka allan slagkraft úr sjómönnum? Ræna þá allri náttúru? Allri baráttugleði?

Í Reykjavík er hátíð hafsins. Ég heppin, ætla að líta á furðufiskana á hafnarbakkanum á eftir. Ég var sjálf störfum hlaðin í gær sem leiðsögumaður.

Ég er náttúrlega ekki síður öfundsverð en sjómenn. Ég fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Í gær var ég sérlega öfundsverð því að þá fór ég ásamt Inga ökuleiðsögumanni í sleðaferð á Langjökul með tvo farþega. Við brunuðum upp og niður brekkur, æfðum hallann og sneiddum hjá grjóthnullungum. Dúndrandi dekur og ekkert annað.

Jökull er takmörkuð auðlind og verður æ hverfulli. Maður þarf að keyra lengra til að komast í öruggan snjó. Þetta er kikk fyrir farþegana - og okkur hin. Jamm, maður er öfundsverður.

En mikið vildi ég að við hefðum okkar dag þar sem framlag ferðaþjónustunnar væri heiðrað, metið, rætt og endurskoðað. Vissulega er 21. febrúar alþjóðadagur leiðsögumanna og vissulega hefur Stefán Helgi Valsson bryddað upp á ýmsu með fulltingi Félags leiðsögumanna - en við þurfum að bera saman bækur okkar og kynna starfið betur. Af hverju er jökullinn t.d. blár sums staðar? Af hverju er himinninn blár?

Það verður spennandi að sjá hvort nýjum ráðherra ferðamála dettur eitthvað í hug.

Svo vona ég að sjómenn nái vopnum sínum á ný því að a.m.k. ég geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Til hamingju með daginn.


Borgarbókasafn svarar ákalli mínu

Ég skrapp á bókasafnið í hádeginu og sá að búið er að setja upp sjálfsafgreiðslu í aðalsafninu, veit ekki með önnur útibú. Gleðitilfinning ógurleg hríslaðist um mitt sjálfbjarga geð. Ég neita að kalla þetta félagsfælni en mikið óskaplega hefur mér leiðst að bíða í röð til þess eins að láta einhvern annan mynda bækurnar sem ég tek til láns.

Og nú verða bókasafnsferðir mínar áreiðanlega enn tíðari.


Aðkoma og úrelding Kvennalistans

Í ljósi þrálátrar umræðu um kynjaskiptingu ráðherra ríkisstjórnarinnar velti ég fyrir mér hvort mönnum finnist almennt að Kvennalistinn hefði betur setið heima.

Skiptir máli að hafa þingmenn úr sem flestum landshlutum? Skiptir máli að aldursdreifing sé nokkur? Bakgrunnur? Menntun? Fjölskyldustaða?

Er ekki gott að hafa fjölbreytni? Af hverju urðu feðraorlof ekki almenn fyrr en fyrir sjö árum? Eru þau kannski ýkt? Vilja menn frekar að feður séu ekki heima hjá hvítvoðungunum? Taka feður fæðingarorlof og vinna svart? Það hefur maður heyrt.

Og var ekki gott að Kvennalistinn pakkaði saman og fór þegar honum fannst hann hafa áorkað því sem fyrir honum vakti?


Ég er mátulega búin að gleyma Esju-nafninu

Hótel Íslandi var í fyrra breytt í Park Inn og það lá við að ég fyndi það ekki þegar mér var stefnt þangað að sækja farþega. Einu sinni var ég með hóp á Radisson SAS Íslandi en við bílstjórinn fórum óvart á Radisson SAS Sögu með nýlenta farþega af því að upplýsingarnar voru ónógar.

Það er gott að Hilton ætlar að splæsa í veglega kynningu á nafninu. Skyldi John Cleese verða fenginn til að klæmast á íslenskri útgáfu? Hann gæti rifjað upp að hótelið hét í árdaga Essschja.

Nordica Hotel Reykjavik


mbl.is Nordica verður Hilton hótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver man ekki eftir Joey í Friends?

Ég sá ekki þættina Friends fyrr en þeir voru sýndir á ókeypis stöð (Skjá einum?) þannig að það er ekkert svo langt síðan ég sá Joey sem er tákngervingur karlmennskunnar bögglast með tösku sem honum fannst henta vel ýmsu fylgidóti sínu en hafði áhyggjur af hvernig liti út.

Það var bara snyrtilegur djókur um staðalmyndir.

Kannski var Ewa að reyna að kveikja umræðu, hmmm?

 Það er alls óvíst hvort umboðsmaður barna í Póllandi fái...


mbl.is Umboðsmaður barna í Póllandi dregur ummæli sín um Stubbana tilbaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfundnaland vs. Ísland

Merkilegur þáttur var í sjónvarpinu áðan. Nýfundlendingurinn Lísa kom til Íslands til að lesa úr bók sinni í Norræna húsinu og virðist hafa ákveðið að hamstra myndefni og talaðar upplýsingar í leiðinni. Svo hefur hún gert úr efninu heimildarmynd sem gengur, merkilegt nokk, út á það að lofa og prísa Ísland fyrir að hafa náð og haldið í sjálfstæði sitt.

Hún ber löndin mikið saman og segir að hér sé svo miklu meira sjálfstæði; læsi í Nýfundnalandi er bara 66%, atvinnuleysi 25% og þau ofboðslega háð Kanada í öllu tilliti þótt þau eigi miklar auðlindir, bæði nikkel, olíu og þorsk, sem Ottawa nýtur góðs af.

Þegar ég gáði að því sá ég að boðið er upp á skipulagðar ferðir til St. John's sem er höfuðborgin þeirra í landinu sem er eyja litlu stærri en Ísland.

Og svo rifjaðist upp fyrir mér að ég ákvað í síðustu viku eftir spjall við Högna að lesa Ævisögu þorsksins. Nú er komin enn brýnni ástæða til þess.

Es. Hefur Stína enga skoðun á þessu ...? Mér skildist á Lísu að Kanada mergsygi Nýfundnaland, hömm hmm.


Hinn heilagi veikindaréttur

Formaður verkalýðsfélags var í fréttum RÚV rétt í þessu að lýsa því yfir að hann væri mótfallinn því að vinnuveitendur greiddu þeim starfsmönnum sem ekki veikjast einhverja umbun fyrir að veikjast ekki. Hann sagði að veikindarétturinn væri með því mikilvægasta sem verkalýðsfélög hefðu náð fram. Eitthvað í þessa veruna sagði hann.

Jah, heyr á endemi.

Ég er svo heppin að ég veikist helst ekki. Og ef ég lasnast er það í klukkutíma í senn, yfirleitt utan vinnutíma. Ég hef fengið heiftarlega ristilkrampa nokkrum sinnum um mína daga, ugglaust vegna rangs mataræðis, en ég hirði ekki upp umgangspestir.

Ég er heppin og geri ekki lítið úr því. En ef vinnuveitandanum finnst hluti af þessu láni slæðast til sín í því formi að hann getur treyst á mig sé ég ekkert að því að hann umbuni mér ef hann svo kýs. Er eitthvað tekið frá hinum? Er eins mikil hætta á að fólk mæti veikt í vinnuna til að fá bónusinn ef kalla mætti umbunina svo? Eða gæti verið að fólk yrði ekki eins oft lasið af þeirri ástæðu að það á veikindarétt?

Ég bíð spennt eftir að sjá verkalýðsforkólfinn segja þetta líka í sjónvarpsfréttum.

 

child sick in bed


Jöklaferðir takmörkuð auðlind

Í þeirri von að viðskiptalögfræðingurinn ógurlegi detti einhvern tímann aftur inn á síðuna mína ætla ég að skrifa þessa tillögu:

Hvernig fyndist mönnum að setja jöklaferðir með túrista í kvóta? Það mætti úthluta kvótanum eftir ferðareynslu, þeir sem þegar hafa starfað í faginu í x ár fá daga í samræmi við söguna. Eftir einhvern tíma, hálfan mánuð eða hálfan áratug, gæti ferðaþjóninum dottið í hug að draga sig í hlé og selja dagakvótann sinn hæstbjóðanda.

Hver vinnur?

Hver tapar?

-Spyr Berglind sem er rjóð í gegn eftir vel heppnaðan dag á Langjökli. Ég fór að vísu ekki á sleða að þessu sinni en spilaði jöklagolf og renndi mér á slöngu.

Mynd:Islande Langjokull.jpg


Ordnung muss sein

Á morgun er það sleðaferð á Langjökli á þýsku, vei. Und Ordnung muss sein! Þess vegna fór ég í sund og hugsaði um flekakenninguna á þýsku, den Goldenen Wasserfall, den Gletscher ... og já, nú er ég búin að undirbúa mig vel fyrir þessa dagsferð.

Hoffentlich bleibt das schöne Wetter, ich bin ja aberglaübisch, hehhe.


Sendum Dönum íslenska vinnusjúklinga

Eða hefur það kannski þegar verið reynt?

Mér finnst fréttin kátleg, í bestu merkingu, en líka óhemju óljós. Ætlar Thor Pedersen að borga meira? Hversu langur er vinnudagurinn? Vilja Danir vinna meira, yfirleitt, eða væru þeir til í að vinna meira ef þeir fengju betur borgað? Þessum spurningum svarar Moggafréttin ekki.

Það sem ég þekki til dansks samfélags æpir allt fjölskylduvinsemd, þ.e. Danir leggja meira upp úr frítíma en efnislegum gæðum sem kaupa má fyrir peninga. En ég er svo sem ekki hagvön um alla Danmörku.

Nýútskrifaðar íslenskar ljósmæður neita að vinna fyrir það kaup sem Landspítali - háskólasjúkrahús vill borga þeim. Kannski er þarna lag?

Kæmi annars almennt til greina að nýta vinnutímann betur ...? Líka hér?

-Meðan ég skrifaði þetta gæddi ég mér á den go' Haribo vingummi. Skyldi þurfa að lengja daginn í þeirri verksmiðju líka?


mbl.is „Opinberir starfsmenn í Danmörku þurfa að vinna meira"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband