Færsluflokkur: Dægurmál

Litlu og meðalstóru fyrirtækin

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi, rekur fyrirtæki sem er(u) með rúmlega 100 manns í vinnu. Hann var gestur í þættinum Harmageddon í gærmorgun og talaði alveg umbúðalaust um nýjustu sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda sem þýða að veitingastaðir geta ekki lokað og fengið lokunarstyrki (sem hann vill heldur ekki) heldur er starfsemin takmörkuð mjög mikið en samt þarf fyrirtækið að borga sömu launin og sama rekstrarkostnaðinn við að halda fyrirtækinu gangandi með langtum minni tekjur.

Ég er oft búin að hlusta á Simma upp á síðkastið og hann er einfaldlega rökfastur og algjörlega laus við væl. Hann bendir á fílinn í postulínsbúðinni sem er að Icelandair (aðaldæmið en þau eru fleiri) fær gríðarlega meðgjöf frá skattgreiðendum til þess að skerða þjónustu. Samt skildist mér á honum að flugi væri haldið áfram til Boston án þess að fólk mætti fara þangað. Þegar ég hef kíkt á flugáætlun í Keflavík (án þess að vera neitt á förum) hefur megninu af fluginu verið frestað eða hreinlega aflýst. Ég veit þess dæmi að maður hafi verið kominn til Oslóar til að fara í flug en verið sendur til Frankfurt og mér skilst að það sé til þess að safna öllum farþegum frá Evrópu í eina vél. En er flogið til og frá Boston með tómar vélar á kostnað skattgreiðenda? Ég fullyrði ekki neitt en væri til í að fá svör við ýmsum spurningum um rekstur Icelandair.

Peningar eru ekki allt en þeir eru samt hreyfiafl margra hluta. Ef eigendur fyrirtækja fara á hausinn missa starfsmenn vinnuna og Ábyrgðasjóður launa hleypur undir bagga en það tekur ábyggilega tímann sinn.

Ég er ekki með svörin, enda hef ég ekki aðgang að öllum upplýsingum, en hyggjuvit mitt segir mér að fyrirtæki sem missir helming veltu sinnar kemst að öllum líkindum í fjárhagsvandræði.

En við höldum áfram að borga forstjóra Icelandair fínu launin sín -- og svo voru launin hækkuð hjá manninum sem er með 2,5 milljónir á mánuði fyrir að stýra fyrirtæki sem er með fákeppnisstöðu á orkumarkaði.

Það er stórkostlega vitlaust gefið í sanngirnismálum.


Tvísaga

Nú er ég búin að lesa Tvísögu sem kom út árið 2016. Ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum með skáldsöguna (M)ein um daginn en skildist að þessi reynslusaga væri miklu betri. Hún er það. Það er himinn og haf á milli sögunnar af lífshlaupi mömmu Ásdísar Höllu sem hefur sannarlega marga fjöruna sopið og svo skáldsögunnar um heimaþjónustu í heimsfaraldri.

Ásdís Halla segist hafa verið tvístígandi með að segja söguna. Vá, hvað ég skil það. En hún gerir það vel. Stundum fæ ég reyndar á tilfinninguna að hún segi minna en hana langi af því að þátttakendur eru svo ótrúlega margir og einstigið vandratað. Lífshlaup hugsanlegra feðra ÁHB, lífshlaup bræðra hennar og frændsystkina, maka og barna blandast allt inn í frásögnina.

Og hvað varð um Sam?

ÁHB segist hafa skrifað söguna af því að „ef til vill er þráður sem þessi algengari en marga grunar“ (bls. 355). Sjálfsagt er hann það en mín hugsun eftir lesturinn er: Mikið hef ég sloppið vel. Og þá er ekki til einskis af stað farið.


Vöflur

Ég er núna með böggum hildar. Í gær var ég í verkefnavinnu með samnemendum mínum í HÍ. Í fyrsta lagi er grátlegt að fá ekki að klára verkefni sem var næstum búið. Við áttum að taka síðustu viðtölin í dag en nú má enginn koma inn í háskólabygginguna. Heimsbyggðin líður ekki skort þótt við klárum ekki þáttinn sem var á verkefnaskránni en það bitnar á okkur sjálfum.

Ein setningin sem ég hafði skrifað í sameiginlega textaskjalið var að vöflur hefðu komið á viðmælendur okkar. Tvö úr hópnum rak í rogastans yfir þessu orðalagi og þau spurðu hvað vöfflur kæmu málinu við. Ég er hér aðeins að færa í stílinn en niðurstaðan varð að breyta vöflunum í að viðmælendur hefðu verið hikandi.

Sem grunn- og framhaldsskólakennari þurfti ég oft að útskýra orðalag sem mér var tamt en markmiðið var að stækka orðaforðann. Nú hef ég áhyggjur af því að þeir sem treysta sér ekki til að bæta við orðaforða sinn nái yfirhöndinni og að við verðum öll alltaf hikandi.

Þetta er ekki heimsósómafærsla hjá mér, þetta kom allt bara dálítið flatt upp á mig. Ég tek samt hatt minn ofan fyrir þeim að nenna að ræða þetta og fá mig ofan af orðalagi sem þeim þótti óþjált.

Og þau eru sannarlega búin að stækka reynsluheiminn minn í vetur!


Sumarlokanir leikskóla

Í Hafnarfirði stendur núna til að loka leikskólunum ekki í sumar til að koma til móts við foreldra sem geta ekki tekið frí á þeim tíma sem leikskólarnir væru ella lokaðir.

Ákvörðun um þetta var tekin í fyrra en á að koma til framkvæmda í sumar. Félag leikskólakennara leggst gegn þessari hugmynd og rétt í þessu heyrði ég mann á Bylgjunni tala gegn þessu með þeim rökum að sumaropnun bitnaði á faglegu starfi leikskólanna.

Ha?

Leikskólar hafa oft verið undirmannaðir, mannaðir ófaglærðu starfsfólki og börnin send heim vegna veikinda starfsmanna. Leikskólar eru fyrsta skólastigið og þar er víða(st) sem betur fer metnaðarfullt starf en börn þurfa ekki endalausa þemadaga. Börn þurfa umhyggju, umönnun og að læra að leika sér. Öllum er hollt að leiðast stundum því að þá fer sköpunin í gang.

Viðmælandinn á Bylgjunni sagði að þessi ákvörðun bitnaði á faglegu starfi og þess vegna hefðu 19 leikskólakennarar sagt upp!

Ha?

Og er það faglegt?

Heimir og Gulli margspurðu hvort ekki vægju neitt sjónarmið foreldra sem geta ekki tekið frí þegar leikskólinn fer í frí og eru þá með endalausir reddingar fyrir barnið í skyldufríi frá leikskólanum. Þeir spurðu líka hvort þessir 19 leikskólakennarar hefðu ekki bara sagt upp til að skapa þrýsting.

Það geta verið rök fyrir því að hafa leikskólann lokaðan í fjórar vikur fyrir öll börn á hverju sumri en þeim var ekki teflt fram í þessu viðtali sem ég hlustaði á áðan.


Gos í Geldingadölum

Ég þykist ekki flytja mönnum nein tíðindi en staðkunnugir eru sumir alveg að fara á límingunum yfir nafngiftinni Geldingadalur. Nafnið er víst í fleirtölu.

En mig langar aðallega að leggja hér skjáskot úr fréttatíma Stöðvar 2. Ég er ekki áskrifandi en fréttastofan sendi beint út á vef Vísis. Mér finnst mikið til þessarar þjónustu koma.

Geldingadalir 20. mars 2021


dr.dk

Danska ríkisútvarpið er fljótara að segja frá eldgosinu við Fagradalsfjall en RÚV. Mér skilst samt að aukafréttatími verði í sjónvarpinu innan skamms. Mér skilst líka að gosið sé hóflegt og að fólk bruni núna suður eftir til að sjá bjarmann með eigin augum.

En þetta verður allt skýrt betur út á eftir í sjónvarpinu þegar allir eru búnir að lesa um það á netinu.


Exit II

Það er freistandi að afgreiða nýju norsku þáttaröðina sem ógeðslega. Fjórmenninganir eru það, ógeðslegir. Mér finnst það. En eins og oft finnst mér ástæða til að líta á það umhverfi sem leyfir þetta.

Ég þekki ekkert til í Noregi en mér skilst að þættirnir byggi á viðtölum við menn sem komast upp með allt og gera þar af leiðandi allt, stunda innherjaviðskipti og auðgast brjálæðislega á afköstum, hugmyndum og vinnusemi annarra, líta á fólk sem leikföng, brjóta þau í stundaræði og henda svo, fá leiða á lífinu af því að það er of hægt. 

Mér skildist að þessi þáttaröð væri meira út frá eiginkonunum. Tjah, sjónarhornið var kannski aðeins meira hjá þeim en mér fannst viðtalið við Henrik varpa mestu ljósi á söguefnið. Eiginkonurnar voru fórnarlömb en sumum leið samt vel í gullbúrunum sínum. Og veruleikinn virðist vera sá að munurinn á milli stétta er gegndarlaus. Ég þekki hvorugan endann í mínu makindalega millistéttarlífi, hvorki neinn forríkan né sárafátækan, en af hverju ættu þessir siðspilltu ekki að vera til í íslensku samfélagi, rétt eins og í nágrannalandinu?

Fyrir 20 árum vann ég með brjálæðingi sem var sagður nota smjörsýru. Hann var ómögulegur en ég undraðist oftar og meira hvernig yfirmenn litu framhjá stjórnlausri og óviðeigandi hegðun hans. Það verður alltaf til klikkað fólk, hamslausir stjórnmálamenn, gráðugir kaupsýslumenn, óhæfir starfsmenn - fólk sem fer alltaf eins langt og það kemst. Samfélagið á að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. 

En ég held að við gerum það ekki.


Hvernig skilur þú sjálfvirknivæðingu?

Ég fór í HR í dag og spurði slembivalda nemendur um skilning á og afstöðu til sjálfvirknivæðingar. Ég er alveg heilluð af því hvað þetta unga fólk hefur heilbrigða sýn og á aðvelt með að tjá sig.

Framtíðin er björt, sjálfvirknivædd eða ekki. Og nú þarf ég aldeilis að velta fyrir mér hvort ég muni skipta um skoðun á styttingu vinnuvikunnar.


Málsmeðferðarhraði

Í fyrradag var ég með bollaleggingar um sköpun starfa. Nú er ég búin að sjá þetta átak auglýst hjá Vinnumálastofnun þannig að þetta er ekki orðalag fjölmiðils heldur stjórnvalds. Ég er enn þeirrar skoðunar að yfirvöld skapi ekki störf heldur ráði fólk í þau störf sem ástæða er til að sinna.

Ég er sannfærð um að stofnanir sem eru hvattar til að taka þátt í að skapa 7.000 störf“ séu ekkert ofsælar af því hlutskipti. Þegar þær vantar fólk til að sinna ákveðnum verkum eiga þær að fá að auglýsa eftir fólki og ráða á eigin forsendum en ekki þeim að félagsmálaráðuneytið ætlar að skapa störf.

Í Víglínunni, sem ég sé ekki af því að ég er ekki áskrifandi að Stöð 2, sé ég að rætt hafi verið um málsmeðferðartíma í dómsmálum. Við erum búin að vita það lengi leeeengi að mál velkjast of lengi í kerfinu og að refsing sé dæmd minni fyrir þær sakir en ella hefði verið. Kannski þarf ekki löglærða einstaklinga til að telja dagana sem mál frestast heldur þyrfti að nota þá til að fara yfir málin og mögulega þyrfti að fjölga þeim sem gætu unnið að lúkningu mála í stað þess að fresta, tefja og dvelja við keisarans skegg.

Ég er sem sagt enn sannfærðari í dag en ég var í gær um mikilvægi þess að ráða fólk í verk sem liggur á frekar en að skapa störf“ sem eru einkum til þess að hafa gert það.

Með semingi rifja ég upp eitt sumar þar sem ég var í vinnu og tvær vænar konur voru ráðnar í skapandi starf og þær sátu og prjónuðu megnið af starfstímanum.

Styttum frekar vinnuvikuna og nýtum vinnutímann betur.


Skapa 7.000 ný störf?

Ég skil ekki umræðuna um að skapa störf. Ég skil umræðuna um atvinnuleysi og þörf fólks fyrir að hafa eitthvað fyrir stafni og að hafa framfærslu.

Ég fer reglulega í sjósund. Við erum mörg þar sem skiljum ekki af hverju lokað er tvo daga í viku, föstudaga þegar vinnuviku margs fólks lýkur og það hafði vanið sig á að fara í sjóinn og svo heita pottinn fyrir helgina og svo sunnudaga þegar flest fólk er í fríi. Ég hef enga trú á að það sé vegna álags vegna þess að með því að hafa lengur opið myndi álagið dreifast. Það er varla farandi lengur á laugardögum vegna þess að það er röð allan daginn. Ástæðan hlýtur því að vera sú að spara laun starfsmanna þegar opið væri.

Það er mannekla á leikskólum. Vegna styttingar vinnuvikunnar er plan B hjá leikskólastjórum að senda börnin heim ef starfsmenn veikjast. Hvernig væri að plan A væri að hafa leikskólann alltaf fullmannaðan, t.d. með því að vera með starfsfólk á afleysingaskrá sem myndi rótera?

Það er talsvert auglýst eftir grunnskólakennurum. Vinir mínir í kennarastétt segja mér að launamunurinn á grunn- og framhaldsskóla sé um 100.000 kr. Ef fólk á kost á því að flytja sig úr grunnskóla í framhaldsskóla gerir það væntanlega einmitt það. 

Ég hef séð inn á hjúkrunarheimili og mér hefur runnið til rifja hversu illa er hugsað um fólk þar. Jú, það fær mat, lyf og oftast þvott einu sinni í viku en litla félagslega örvun ef það fer ekki í blaða- eða biblíulesturinn. 

Núna er kreppa og þá er góður tími til að ráðast í vegabætur og aðrar samgönguframkvæmdir.

Í stað þess að skapa ný störf fyndist mér upplagt að ráða fólk í störf þar sem vantar fólk. Til viðbótar því sem ég hef þegar talið upp er mikil nýsköpun í gangi - fjórða iðnbyltingin og gervigreind - og þess vegna mætti gjarnan ráða fólk til starfa við að þróa nýjungar og auðvelda öll störfin sem fólk vill helst ekki vinna, eins og að þrífa. Nú þegar erum við með þvottavélar, bíla, hraðbanka, stafrænar myndavélar, mjaltaþjóna, jarðskjálftamæla, internetið, ryksuguþjarka og brauðvélar. Hvað með vélmenni sem þrífa klósett eða brjóta saman þvott?

Mér finnst aumkunarvert að tala um að „skapa störf“ þegar hugvitið er allt í kringum okkur og þarf bara að virkja það. Ég fann ekki tilkynningu um þessa sköpun á vef Stjórnarráðsins þannig að kannski er orðalagið bara frá Vísi komið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband