Færsluflokkur: Dægurmál
Laugardagur, 10. apríl 2021
Jafnaldrar manns
Stundum segir gamalt fólk, t.d. einhver um nírætt, að það nenni ekki að umgangast gamla fólkið. Unga fólkið, kannski um sextugt, híar og lætur eins og gamla fólkið viti ekki að það sé gamalt.
Ég hef aldrei skilið þetta. Mér finnst svo eðlilegt að mann langi ekki endilega að umgangast jafnaldra sína öllum stundum. Sumt gamalt fólk er lúið og sumt var aldrei mannblendið en sumt gamalt fólk er sprækt og vill vera þar sem fjörið er.
Það er ekkert meira um þetta að segja þannig að ég reikna bara með að þið kinkið kolli meðan þið ljómist upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. apríl 2021
Sykur Katrínar
Af því að ég les blöðin og miðlana, skólabækur og skýrslur, hljóðbækur og allrahanda prófarkir er ég alltaf voða þakklát fyrir fljótlesnar skáldsögur sem vekja samt til umhugsunar. Sykur er tvímælalaust í þeim hópi. Karakterinn Óttar finnst víða, bara mismunandi áhrifamikill og áberandi. Segi ekki meir til að skemma ekki fyrir lesendum bókarinnar sem verða vonandi margir.
Án þess að ljóstra neinu upp um söguþráðinn get ég þó sagt að Sigurdís lögreglukona finnst mér sannfærandi karakter og ég sé hana fyrir mér á fleiri blaðsíðum á komandi árum. Hún er ástríðufull í starfi og lætur sannleikselskandi nefið leiða sig áfram.
Helsti gallinn á bókinni þótti mér löngu eintölin. Fólk talaði svo lítið saman, það sagði frá og notaði á köflum dálítið ritmálslegt orðfæri. Og ég ætti nú að þekkja það!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. apríl 2021
Engin alvörusamkeppni í bankaviðskiptum
Ég væri alveg sátt við lága innvexti til langs tíma ef útlánsvextir yrðu líka lágir til frambúðar. Nú eru útlánsvextirnir lágir og fólk kaupir fasteignir eins og upp sé runnin gósentíð sem muni vara um aldur og ævi. Ég óttast að svo sé ekki. Sjálf á ég mína fínu íbúð og er ekki á förum.
En ég er með sparifjárreikning hjá Arion banka sem er ekki í notkun. Hann býður mér 0,05% vexti en ef ég skyldi fara yfir (á fit, hvernig sem maður gerir það á svona reikningum) er mér gert að borga 3,89% í svokallaða yfirdráttarvexti. Ég var ekkert að koma auga á þetta en ég finn hvergi banka í alvörusamkeppnisrekstri. Hver er skárri en Arion? Auður býður 1% innlánsvexti (sem er auðvitað 20 sinnum meira en 0,05 - en rúmlega 0 margfaldað með slatta er samt ákaflega lág upphæð).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. apríl 2021
Lögvarðir hagsmunir
Ég skil alveg að lögvarðir hagsmunir umbjóðenda Ómars R. Valdimarssonar eru fyrir borð bornir ef dómur fellur ekki í máli þeirra fyrr en eftir að kvöðinni er aflétt!
Nei.
Jú, ég skil það víst. Mér finnst samt að fréttamenn ættu ekki að lepja upp lagatæknilega hugtakið án þess að segja nokkru sinni hvað lögvarðir hagsmunir eru.
Ókei, ég les ekki allt. Ég væri alveg til í að sjá/heyra fréttamann segja þetta einu sinni með eigin orðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 5. apríl 2021
Með kápuna á báðum öxlum
Afsakið umburðarlyndi mitt en mér finnst eins og ég skilji bæði sjónarmiðin, bæði þeirra sem vilja með lögum og reglugerðum skikka alla mögulega sóttbera í sóttkví sem koma til landsins og líka þeirra sem vilja fá að taka sóttkvína út heima hjá sér. Við viljum hefta útbreiðslu faraldurs og hér er sannarlega farin vægari leið en sú sem við heyrum af í öðrum Evrópulöndum, eins og útgöngubanni frá kvöldi til næsta morguns, alls ekki fara fjær heimilinu en 10 km, bara fara út til að sækja nauðsynjar o.þ.h.
En ég skil sannarlega líka að fólk upplifi ekki lúxus að vera lokað inni á hóteli, þótt það sé gott og aðbúnaður góður, þegar það getur ekki gert neitt nema hafa ofan af fyrir sér. Þegar fólk er heima getur það ... já, verið eins og heima hjá sér án þess að brjóta endilega á neinum.
Ég geri ráð fyrir að sóttvarnateymið sé hins vegar dálítið fast fyrir af því að það er búið að upplifa að fólk svíkist um að gera það sem það á að gera og það sem það lofar að gera. Sjálf er ég svo ári löghlýðin að ef ég álpaðist til útlanda og þyrfti að bíta í þetta súra hótelepli myndi ég gera eins gott úr því og ég gæti án þess að mögla. Og annað, þótt 10.000 kr. (sem verður byrjað að rukka fyrir nóttina eftir tæpa viku) séu hóflegt gjald fyrir hótelgistingu með fullu fæði munar margt fólk um 50.000 gjald fyrir að missa frelsi sitt.
Ég skil ekki æsinginn í umræðunni, það eru svo augljóslega a.m.k. tvær jafngildar hliðar á málinu. Afsakið sum sé umburðarlyndi mitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. apríl 2021
Þagnarmúr Arnaldar
Mér finnst að svona lofaður höfundur eigi að koma mér meira á óvart. Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar náði ekki að koma mér á óvart nema ponsulítið í lokin. Söguþráðurinn var fyrirsjáanlegur og því miður var stíllinn heldur ekki upp á marga fiska. Ég hef lesið mjög fínar bækur eftir Arnald, t.d. Dauðarósir og Grafarþögn, en þótt spennusögur séu formúlubækur verður að prjóna við þær aðeins meiru en tveimur ólíkum timaskeiðum, sirka 1963 og 2019, einum lygnum lögreglumanni, spilltum skartgripasala og sifjaspelli.
Konráð er alveg áhugaverður fyrir það að vera fyrrverandi lögga að grufla í afdrifum smáglæponsins, pabba síns. En 50 ára gamalt heimilisofbeldi sem spilar á réttlát viðbrögð hinna saklausu finnst mér ekki hægt að nota aftur og aftur. Það virkaði í Grafarþögn en nú er það bara að verða klisja.
Bókin var þó fljótlesin og alveg bærileg á löngum páskadegi í sófanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. apríl 2021
Hver vill gefa frá sér sameignina?
Skoðanakannanir eru skrýtin skepna og stundum illa mark takandi á þeim. Í þeirri sem Vísir vitnar í er spurt hvort svarendur séu hlynntir eða andvígir núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi.
Ef ég hefði lent í úrtakinu hefði ég örugglega sagst vera andvíg. Við vitum af fréttaflutningi að mönnum var gefinn kvóti til að veiða úr sameiginlegri auðlind. Við vitum að sumir þeirra seldu sameignina með ólýsanlegum hagnaði fyrir sjálfa sig á kostnað eigenda hennar samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða:
1. gr.
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Ef fréttaflutningur síðustu áratuga stenst ekki hefur kvótahöfum mistekist hrapallega að færa hið sanna fram.
Ég trúi því að þessum gæðum sé misskipt. Hins vegar er ég líka sannfærð um að margir fiskveiðendur og lítil sjávarútvegsfyrirtæki sem halda sig í héruðunum þar sem stutt er á miðin eru hið mætasta fólk sem hefur ekki makað krókinn á kostnað þorra fólks.
Ef dálkarnir með upplýsingum um þá sem eru andvígir eru skoðaðir sést að 56,2 segjast andvíg kvótakerfinu en miðað við fyrstu tvo dálkana eru 17,1% hlynnt. Hvaða fólk er á bak við þá tölu? Eru það hinir auðmjúku þjónar Þorsteins Más?
Hver vill gefa frá sér sameignina? Væntanlega þeir sem þiggja hana sem séreign.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. mars 2021
Laun (leiðsögumanna)
Ég skal segja ykkur það að ég sótti um almennt starf í farsóttarhúsi. Ég er líklega laus þennan álagstíma og mér finnst ég hafa sloppið svo vel við farsóttina að mér líður eins og ég eigi að taka þátt í þessu samfélagsverkefni. Það er launað, en auðvitað sinnir Rauði krossinn líka miklu sjálfboðnu starfi.
Ég fór í vídeóviðtal í gærkvöldi sem er áhugaverð nýjung og í dag fer ég í framhaldsviðtal á Rauðarárstígnum. Ég hafði glugga í tvo daga til að svara sjö spurningum og Rauði krossinn - eða Alfreð - brást strax við svörum mínum.
Fyrir mig sem áhugamann um gervigreind var sérstakur bónus að fá að sjá hvernig tæknin getur stytt okkur leið og létt okkur störfin. Hún tekur þau ekki frá okkur.
Ein spurningin var: Sættirðu þig við launin sem eru boðin?
Ykkur að segja eru þau 2.312 kr. fyrir dagvinnutíma, 3.140 á kvöldin, 3.366 á næturnar og stórhátíðartaxti er 4.936 kr.
Ég sagði, sem satt er, að ég væri ekki vön að vinna fyrir svona lágt kaup en væri til í það vegna eðlis starfsins og þessara tíma sem við lifum. Svo datt mér í hug að skoða taxta leiðsögumanna þar sem krafa er gerð um alhliða þekkingu á landi og þjóð, sérþekkingu á tungumáli, einstaka þjónustulund, mikla bindingu, ömurlegan vinnutíma, óvissu um verkefni, og þar með tekjur, en stórskemmtilegt starf þegar allt leggst með því.
Og hæsti taxtinn er svona:
Stóru ferðaþjónustufyrirtækin borga nákvæmlega eftir taxtanum en einhverjir leiðsögumenn hafa getað samið um hærra verð hjá öðrum enda ekkert sem bannar yfirborgun. Ef ég margfalda dagvinnutaxta í farsóttarhúsi með 176 losar mánaðarkaupið (fyrir skatta) 400.000 kr.
En ég hætti líka sem leiðsögumaður árið 2013, ekki vegna launanna per se heldur vegna þess að innviðir sprungu það sumar, vegna þess að ég gat ekki veitt þá þjónustu sem ég vildi, vegna græðgi í sumum ferðaþjónustuaðilum - og ég hef aldrei litið um öxl. Þá var ég búin að vera leiðsögumaður í eitt dúsín sumra og hafði þangað til þetta sumar haft stórgaman af því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 30. mars 2021
Gæskur
Ég þekki ekki störf siðanefnda en þykist vita að þær geti illa skyggnst inn í huga fólks. Eða eiga þær að lesa háð, kaldhæðni og kerskni út úr orðum þeirra sem kvartað er undan?
Ég hef ýmsar skoðanir á sönnuðum glæpum, ósiðlegum lögum, meðvirkni og trúverðugleika sem ég ætla ekki að úttala mig um hérna. Ég ætla bara að segja tvennt: Þegar aðili mér óskyldur og ótengdur með öllu segir: Hérna, gæskan eða: Nú er komið að þér, vinan, finnst mér sem verið sé að tala niður til mín.
Ég á bjánalega vonda minningu úr banka fyrir örugglega 20 árum þegar bankagjaldkeri sagði einmitt þetta: Jæja, nú er komið að þér, vinan, og mér fannst hún ekki hafa rétt til þess.
Hitt sem ég ætla að tjá mig um hér og nú er að samfélagið er skelfilega meðvirkt með misskiptingu og glæpum í skjóli laga. Við heyrum alltaf í einhverjum sem andæfa og fara upp á afturlappirnar, en komast hvorki lönd né strönd, en langtum stærri hópur þegir bara þunnu hljóði og vonast til þess að lenda aldrei í hakkavélinni, halda einhverjum fengnum hlut og verða ekki fyrir barðinu á misillskeyttum auðmönnum.
Ég er ekki búin að lesa margumtalað álit siðanefndar en mig grunar að ég verði ekki sérlega sammála því - nema kannski þessu með gæskinn. Ég frétti nýlega að á Akureyri sitji flestir og standi eins og foringinn frá Dalvík fer fram á, bukki sig og beygi eins og sumir myndu orða það. En ég heyrði það bara í Geldingadölum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. mars 2021
Geldingadalir
Nú er ég búin að fara og skoða gosið í Geldingadölum. Það er tilkomumikið sjónarspil og aðgengi var vel stýrt af björgunarsveitum, ekki bara Þorbirni heldur björgunarsveitum víða að. Ég var búin að sjá ógrynni mynda og var í gær alveg orðin viðþolslaus að fara sjálf og sjá með eigin augum.
Ég skil ekki alla þá neikvæðu umræðu sem ég hef séð um gosið og fólkið sem fer að skoða það. Fólk var almennt vel búið, glatt og kurteist. Bílum var frekar vel lagt í skammtímastæðunum og kurteislegum miða með reikningsupplýsingum um Þorbjörn var smeygt undir rúðuþurrkuna.
Í heilt ár höfum við búið við allrahanda takmarkanir. Þarna skartar Ísland sínu fegursta. Smitið sem var tengt gossvæðinu skilst mér að hafi síðan verið í þyrlu sem lenti aldrei. Hættum að naga skóinn af þeim sem leggja á sig 10 km göngu, þar af nokkuð bratta brekku, og samgleðjumst þeim sem kjósa að fara og þeim sem komast á áfangastað. Nú er að koma sumar ... en fyrst páskar!
Gleðilega páska.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)