Færsluflokkur: Dægurmál

Gerendameðvirkni

Ég hata meðvirkni

Það getur verið erfitt hvort sem er að þegja eða segja en allt byggist það á að samfélagið sé sæmilega heilbrigt. 


6 milljarða hagnaður hjá Arion

Ég er með kenningu um þennan góða hagnað hjá bankanum. Ég er sjálf viðskiptavinur hans og hef sannreynt að innlánsvextir eru niðri í gólfinu á sama tíma og hann rukkar myndarlega fyrir útlánsvexti. Allir bankar á fákeppnismarkaði græða í því umhverfi.

Af hverju fáum við ekki samkeppni í peningalífinu? Og ekki segja mér að stofna banka, fólk með viðskiptavit og fyrirtæki í maganum ætti að gera það.


Sakir - engar sakir

Ég er alltaf síðust til að frétta slúðrið. Nú ber Sölvi Tryggvason af sér sakir sem ég hef aldrei heyrt bornar á hann. Páll Óskar sýndi myndir af sér um daginn og skilaði skömminni. Þá höfðu þær myndir víst verið á floti í eitt og hálft ár og ég hafði ekki séð þær. Svo man ég eftir viðskiptaráðherra eitt árið sem sagðist ekki vera spilafíkill eins og menn væru að hvísla um en ekkert hafði ég heyrt.

Hvaða miðla er ég ekki að lesa eða hlusta á?! ... Nei, ég ætla ekki að leita þá uppi.


Ekkert Fréttablað

Á laugardaginn kom ekkert Fréttablað inn um lúguna, ekki á mánudaginn heldur og ég var að átta mig á því að nú hefur það ekki borist mér í heila fjóra daga. Sakna ég þess? Tjah, ég fletti því alltaf á endanum vegna þess að yfirleitt er eitthvað í blöðunum sem er ekki á vefnum en ég mun ekki kalla eftir því.

Svona er fjölmiðlaheimurinn minn að breytast.


Pítsurnar

Ég er ekki mikill kokkur en ég get bakað pítsur heima hjá mér. Í pítsum er deig, yfirleitt sósa, krydd, álegg og ostur. Í þessu hráefni eru ýmsar breytur, svo sem hvort maður kaupir tilbúið deig eða lætur það hefast í skálinni, hvernig sósan er, hvort osturinn er undir álegginu eða ofan á, rifinn eða sneiddur, og svo náttúrlega hvort maður hefur jalapeno og ætiþistla eða pepperóní og sveppi/ananas ... listinn er endalaus.

En ÞETTA sem í eðli sínu er afgangamatur er maturinn sem fólk kaupir tilbúinn og lætur jafnvel senda sér! Og nú rífast tvær misstórar keðjur um markaðshlutdeild og aðgang að matardiskum landsmanna.

Keðjunum getur staðið á sama um mig vegna þess að þessi matur kemur úr skúffunum mínum og ísskápnum en í ljósi vinsælda þessa skyndifæðis skil ég ekki af hverju menn geta ekki bara umborið hver annan á markaðnum. Ég hef alveg fylgst með Þórarni og baráttu hans til að lækka verð, t.d. með áherslum sínum í IKEA, en ef maður ætlar að koma samkeppnisaðila sínum á kné ætti það bara að gerast með því að bjóða betri vöru á sambærilegu eða lægra verði.

Og þeir eru rífast um PÍTSUR!


Dauðinn er alvörumál

Ég er mikill áhugamaður um styttingu vinnuvikunnar í krafti brjálæðislegra tækniframfara þau 50 ár sem eru að verða liðin síðan lög voru sett um 40 stunda vinnuviku. En þótt vinnuvika verði stytt um fjórar stundir heilt yfir er ekki lögmál að hún sé tekin út eftir hádegi á föstudögum. Í öllum ákvæðum hélt ég að talað væri um samkomulag milli starfsstöðvar og starfsmanna. Og nú birtist hér einhver furðufrétt um að ekki verði hægt að jarða á föstudögum

Prófið að spyrja fólk hvort það vilji ekki taka styttingarfríið út á mánudegi eða miðvikudegi eða breytilega. Ég held að það sé reginmisskilningur að allir vilji lengja helgina á þennan hátt. Auðvitað vilja það einhverjir en ef styttingin á m.a. að nýtast í alls konar útréttingar væri út í bláinn að allir færu í þær útréttingar eftir hádegi á föstudögum þegar - með þessum bollaleggingum - allir ætluðu að vera í fríi!

Ég er ekki í föstu starfi en ég skal byrja og segja: Ég myndi vilja taka mína styttingu út í miðri viku. Ég fer ekki í bústað um hverja helgi. Víða eru föstudagar notaðir til uppbrota á vinnustöðum og ekki myndi ég vilja missa af öllum fyrirlestrum eða viðburðum sem hafðir eru í lok vikunnar á vinnustöðum sem ég þekki til.

Og svo finnst mér dónalegt að tala í fréttinni sem ég vísaði í eins og það að deyja eða jarða sína nánustu sé eitthvert spaug.


Hver fer ekki í sóttkví?

Ég fylgdist lauslega með upplýsingafundi Almannavarna í gær, kannski bara nóg til að sjá að Víðir er áfram yfirvegaður og laus við dómhörku. Ég þekki ekkert til á þeim vinnustöðum þar sem fjöldinn allur hefur þurft að fara í sóttkví og veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur kinokað sér við að fara í sóttkví eftir ferð til útlanda.

Hver fer til útlanda á tímum heimsfaraldurs og hver fer ekki í sóttkví við heimkomu?

Kannski eru sumir í þessum hópi sem hafa farið til heimalandsins að vitja um aldraða foreldra eða ömmur og afa eða veika ættingja. Dauðinn biður ekki um leyfi til að sækja fólk þótt nú standi illa á. Þótt ég þurfi ekki að fara til útlanda í bráð dettur mér ekki í hug að fordæma alla sem gera það. Ég veit ekki um aðstæður allra.

Og af hverju fer fólk ekki í skyldusóttkví þegar það kemur heim ef það hefur þurft að fara til útlanda? Sjálfsagt hefur það ekki talið sig veikt en það eru engin rök. Við stoppum við rautt ljós þótt enginn sé að fara yfir á græna ljósinu. Við spennum beltin þótt við ætlum að keyra á löglegum hraða. Við búum í samfélagi og flest hlítum við þeim reglum sem samfélagið hefur komið sér saman um. 

Þess vegna er ég að velta fyrir mér ástæðum þess að einhver fari ekki í sóttkví við heimkomu, sérstaklega eftir alla umræðuna sem spannst um dóminn sem féll um páskana

Hver gerir það? Einhver starfsmaður leikskóla? Af því að hann ætlar að smita börn, foreldra og samstarfsfólk?! Nei, pottþétt ekki. Ef um er að ræða starfsmann á leikskóla detta mér tvær ástæður í hug og þær eru tengdar: 1) Það er mannekla og viðkomandi getur ekki verið lengur í fríi og 2) viðkomandi er ekki í sóttkví á launum og hefur ekki efni á að vera í launalausu fríi í þrjá til fimm daga.

Ég sá yfirvegað viðtal við Þóru Björgu Gígjudóttur sem á barn á Jörfa. Yfirvegun er hins vegar ekki orðið sem á við um viðbrögðin við fréttinni.

Ef ég hefði sjálf verið í útlöndum hefði ég öll tækifæri til að halda mér til hlés í fimm daga en ég myndi ekki dæma þá sem geta/gera það ekki fyrr en ég vissi málavexti. Ég hata meðvirkni en mér finnst ekki vera meðvirkni að vilja vita hvað gekk á áður en ég dæmi. Og ég trúi því að sá sem braut af sér hafi einhverjar málsbætur þangað til annað sannast.

Það hvarflar ekki að mér að nein heilvita manneskja vilji senda sirka 100 manns á spítala og 2.700 manns í sóttkví eins og franska ferðamanninum frá því í fyrrasumar er ætlað. Ef það sannast hins vegar að brot hans hafi verið af ásetningi á að sleppa silkihönskunum og taka á honum og hans broti sem ásetningsbroti.


Stofnunin Skatturinn

Ég held að Skatturinn sé með þann einbeitta vilja að flækja málin fyrir skattgreiðendum. Í dag fékk maður sem ég þekki bréf um hærri álögur fyrir síðasta ár en hann hafði búist við. Af bréfinu mátti skilja að hann skuldaði 342.358 kr. en viðbótin var samt upp á 23.639. Ég las bréfið og það var mjög auðvelt að skilja það þannig að hann ætti að borga 342.358 kr. Við teljum okkur hvorugt eiga að stríða við almennan skort á lesskilningi.

Nú les ég að fyrirtækið BPO innheimta hafi verið rekið til baka með innheimtukröfur vegna smálána. Ég hata smálánin eins og pestina og fagna því með látum að menn komist ekki upp með þennan gjörning, en ég get sagt ykkur að Skatturinn hefur nefnilega gert þetta líka. Og komist upp með það.

Skatturinn sendi mér harðorða ítrekun um greiðslu skuldar í lok janúar án þess að hafa nokkru sinni sent mér rukkun. Þegar ég fór að grufla í þessu kom hið sanna í ljós. Tveir eða þrír starfsmenn Skattsins gengust við mistökunum en samt fékk ég senda rukkun um dráttarvexti með gjalddaga og eindaga sama dag og skuldin var birt í heimabankanum.

Já, krafan var birt í heimabankanum einhvern dag og sama dag var gjalddagi og eindagi kröfunnar. Algjör dauðans tilviljun að ég sá það í tíma. Annars hefði ég fengið dráttarvaxtakröfu á ólögmæta dráttarvexti ríkisstofnunar.

Skuldin var ekki há og dráttarvextirnir ekki heldur þannig að ég nennti ekki að eltast við þetta lengur, en út frá prinsippi hefði ég átt að gera það. Skatturinn er í mínum augum óbilgjörn stofnun sem hefur ekki sannleikann eða réttmæti krafna í öndvegi. Með bréfinu sem ég sá í morgun sannaði hún enn frekar að hún hefur meiri áhuga á flækjustigi en því að einfalda ferlið og auðvelda fólki að skilja refilstigu innheimtunnar.


Vextir

Fasteignir seljast eins og heitar lummur og mér hefur skilist að það sé vegna þess að nú eru útlánsvextir lágir. En það gæti orðið skammgóður vermir. 

Fjármálastöðugleikanefnd sendi frá sér yfirlýsingu í dag og þar segir m.a.:

Í núverandi vaxtaumhverfi er nauðsynlegt að lánveitendur sem og lántakendur séu meðvitaðir um að töluverðar breytingar gætu orðið á greiðslubyrði óverðtryggðra lána.

Vísir túlkar þetta svona eftir að hafa fylgst með vefútsendingu í morgun:

Seðlabankinn varar við að lágir vextir vari ekki að eilífu og því gæti greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum breyst töluvert. Ef verðbólga haldist lengi yfir markmiði bankans sé eitt af úrræðum hans að grípa til vaxtahækkana.

Minn einbeitti grunur er að viðskiptabönkunum gangi aldrei gott til og þess vegna vona ég að húsnæðiskaupendur reisi sér ekki hurðarás um öxl og fái svo brjálæðislegar vaxtahækkanir í bakið þegar þeir keppast við að borga af háu húsnæðislánunum sínum.

Ég get bætt við að ég átti gott spjall við fasteignasala í vikunni sem fullyrðir að aldrei hafi nýir kaupendur átt auðveldara með að komast inn á fasteignamarkaðinn. Viðkomandi færði ágæt rök fyrir máli sínu en þetta byggist allt á því að menn eyði ekki um efni fram og taki svo lán fyrir öllu, bæði húsnæðinu og neyslunni.


Uppsagnir á Hrafnistu?!

Nú er ég svolítið ringluð. Fréttir berast af því að allt að 40 manns hafi verið sagt upp á Hrafnistu – en þó er varla mánuður síðan ríkið ætlaði að SKAPA 7.000 störf.

12. mars var því slegið upp þegar forsætisráðherra og félagsmálaráðherra kynntu  atvinnuátakið Hefjum störf.

Eru hjúkrunarheimilin ekki á forræði ríkisins?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband