Færsluflokkur: Dægurmál

Lögfræði er mannanna verk

Lög eru sett af mönnum. Lög eru gagnrýnd af mönnum. Sjálf tel ég ýmislegt í lögum ósanngjarnt en ég virði þennan samfélagssáttmála eins og flestir gera.

Þegar dómar eru felldir eru sumir dómarar með sératkvæði. Stundum er meiri hluti og minni hluti vegna þess að þrír túlka lögin á einn veg og tveir á annan veg. Þannig er augljóslega ekki einn réttur skilningur og ein rétt túlkun.

Svo er lögum breytt í samræmi við tíðaranda. Einu sinni var þrælahald álitið eðlilegt, stéttskipting og misnotkun. Afstaða breytist og við getum vonað að við þokumst í rétta átt.

Jón Steinar Gunnlaugsson var frægur fyrir sératkvæði sín sem hæstaréttardómari. Nú hefur Tobba Marinós sagt frá því hvernig lögmaðurinn Jón Steinar beitti sér í máli sem varðaði hana og miðað við hvernig Jón Steinar hefur talað áratugum saman er þar ekkert sem kemur mér á óvart. Hann svaraði áðan með grein sem lýsir áfram hans gegnheilu og einlægu forherðingu.

Lög eru mannanna verk. Þau eru umdeilanleg. Túlkun þeirra er margbreytileg. Jón Steinar hefur iðulega túlkað brotamönnum í hag og farið gegn samdómendum sínum. Þeir geta hafa verið brigðulir en svo tala verkin sínu máli.

Ég get ekkert mark tekið á umkvörtunum Jóns Steinars.


Verndari réttarríkisins?

Eitt er að segja, annað að gera. Ég hlustaði á viðtalið við manninnn sem kallar sig verndara réttarríkisins. Mér fannst hann rugla saman blindu og sýn. Mér fannst hann forhertur í einhverjum rétttrúnaði. Honum finnst að ekki eigi að dæma fyrir kynferðisglæp nema hægt sé að sanna hann. Ég er á því að ekki eigi að refsa fyrir annað en glæp, en hver veit ekki að aðgangsharðir lögfræðingar geta þyrlað upp þvílíku ryki að venjulegt fólk gleymir hvað það heitir sjálft (afsakið myndmálið)? 

Mér finnst JSG hafa verið að verja rykþyrlið og rétt manna til að afvegaleiða umræðuna. Í nafni trúar! Jesús minn, þvílík hræsni.


1,2 milljónir á mánuði?

Hvað kostar að reka einstakling? Hvað kostar matur, lyf, húsnæði, rekstur þess og annað það sem veikburða fólk á efri árum þarf? Víglínan hefur eftir forstjóra Grundarheimilanna að það séu 1,2 milljónir króna. Á mánuði.

Ég hefði viljað sjá sundurliðun og kannski verður hún í boði ef einhver spyr Gísla Pál Pálsson.

Hvað kostar maturinn? Lyfin? Húsnæðið? Laun umönnunarfólksins? Launin hans Gísla? Laun annarra millistjórnenda? Er greiddur arður og þarf að fjármagna hann? Ég er ekkert að fullyrða, ég spyr bara.

Ef rekstur eins einstaklings er verðlagður á 1,2 milljónir ímynda ég mér að hægt sé að hagræða án þess að þjónustan skerðist. Á Hrafnistu var þvotturinn sendur i Fönn þótt fullbúið þvottahús væri á staðnum. Á Hrafnistu var sirka helmingi matarins hent þegar ég fylgdist þar með. Á Hrafnistu var umboðsmaður sjúklinga sem var ekkert nema elskulegheitin. Þá meina ég ekkert annað. Hvernig er það á Grund? Eru þar starfsmenn upp á punt?

Og í hvað fara skattarnir sem við borgum alla starfsævina? Velferðarkerfið, ekki satt? Erum við þá aldrei búin að leggja inn fyrir kostnaðinum af okkur þegar við verðum minna sjálfbjarga?

Ef þessi reikningur yrði að veruleika myndu flestir koma sér í skuldir til að þurfa ekki að borga reikninginn. Ég hef metnað til að vera skilvís en ég hef engan metnað til að láta arðræna mig.


(M)ein

Ég var spennt að byrja á (M)ein þegar ég sá hana á bókasafninu fyrr í vikunni. Ég vissi að hún gerðist á covid-tímum í heimaþjónustu og ég var áhugasöm. Mér fannst líka að ég hefði lesið jákvæða dóma.

Í stuttu máli gerist ekki neitt nýtt og hún varpar heldur ekki nýju ljósi á neitt gamalt. Eini kosturinn er að hún var fljótlesin.

Hins vegar á ég eftir að lesa fyrri bækur höfundar og ég býst við meiru af þeim.


Ringelmann-áhrifin

Ég var að klára bókina Samskiptafærni sem er kennd í MPM-námi í Háskólanum í Reykjavík (án þess að ég sé í því námi). Margt er þar forvitnilegt og ýmislegt kannaðist ég við. Það sígildasta er um virka hlustun en svo eru mörg verkefni sem ganga út á að hámarka gæði hópastarfs þannig að ekki sé einhver einn látinn draga vagninn og svo sé einn dragbítur sem skemmi fyrir hópnum. Ég er svo þakklát fyrir að sjá umræðu um það vandamál sem ég þekki alltof vel á eigin skinni.

Það alforvitnilegasta af því nýja fannst mér Ringelmann-áhrifin. Ringelmann nokkur kannaði gildi þess að hafa marga í hóp að vinna að því sama. Ólíkt því sem búast hefði mátt við minnkuðu afköstin með fjöldanum, þ.e. í stað þess að átta menn afköstuðu áttföldu á við einn mann var það u.þ.b. fjórfalt. Hver og einn var þá að meðaltali með 50% afköst í samvinnunni.

Og innan á augnlokunum sé ég á augabragði starfsmenn í unglingavinnunni sem sitja nokkrir saman í kringum eitt lítið beð og reyta arfann. Það er kannski ýkt dæmi vegna þess að unglingavinnan er mjög óvenjulegur vinnustaður en ef átta manns fara í reiptog eru þeir ekki átta sinnum sterkari en einn maður.

Og þá rifjast upp fyrir mér sagan af Abilene.

Út af með meðvirknina!


Óviðeigandi klæðaburður?

Ég hlustaði á tvo þingmenn á Bylgjunni í morgun. Annar er hlynntur formlegum klæðaburði í vinnunni, hinn óformlegri. Sá fyrri upplifir sig hálfnakinn ef hann er ekki með bindi og honum finnst að allir eigi að vera þannig til fara. Hinum finnst undarlegt að vera á skónum innan húss en skiptir sér ekkert af því þótt aðrir séu á útiskónum inni.

Fyrri þingmaðurinn sagði ítrekað: *Ég vill ... og fyrir utan hvað það er undarleg hugsun að hans vilji eigi að ráða smekk annarra truflar orðalagið málstaðalinn í mér. Ég hef haft lífsviðurværi mitt af því að leiðrétta málfar eða rithátt þeirra sem biðja mig um það en er löngu hætt að missa svefn yfir því að aðrir fari ekki eftir útgefnum málstaðli (því sem hefur verið ákveðið að sé „rétt“). Samt leyfi ég því að trufla mig þegar menn reiða upp hnefann yfir því sem þeir vilja.


Jarðhræringar

Ég bý í rammgerðu húsi í tryggri götu og óttast ekkert. Ég vaknaði þó í nótt við 4,9 á Richter og nú finnst mér nóg komið. Við hvern á maður að tala? Sigríði Hagalín Björnsdóttur? laughing Og, já, ég held að ég væri óróleg ef ég byggi á Reykjanesinu þannig að ég tek ofan fyrir fólki nálægt skjálftauppsprettunni sem er enn alveg pollrólegt.


Vaxta-fokkings-munur bankanna

Er eitthvað óeðlilegt við arðgreiðslur fyrirtækja? Oft mætti ætla að svo væri af umræðunni að dæma.

Svo var spurt í leiðara Fréttablaðsins í gær.

Leiðarahöfundi finnst umræðan ósanngjörn og segir:

Við þær aðstæður sem nú eru í hagkerfinu, þar sem eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé er takmörkuð, hafa bankarnir skiljanlega ekki hvata til að ýta undir útlánaþenslu. Það gilda sömu lögmál um banka og önnur fyrirtæki í atvinnurekstri. Ef þeir geta ekki ávaxtað það eigið fé sem er langt umfram kröfur eftirlitsstofnana, þá standa góð rök til þess að fjármagnið komi að betri notum í höndum hluthafa í stað þess að það sé læst inni í bönkum. Við þurfum nefnilega á því að halda að beina þolinmóðu fjármagni í fjárfestingu og neyslu.

Áður er hann búinn að segja að hluthafar séu einkum íslenskir lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir.

Ég spyr: Ef bankarnir eru að sligast undan fé sem þeir geta ekki komið í vinnu, væri þá ekki rétti tíminn til að hætta að ofrukka viðskiptavini bankanna? Ég veit að fasteignavextir hafa lækkað og geri ráð fyrir að það sé tímabundið, bara nógu lengi til að krækja í marga nýja viðskiptavini sem sitja síðan uppi með þungar skuldabyrðar eftir nokkur ár, en á mörgum sparifjárreikningum eru innlánsvextir 0,05% og útlánsvextir (yfirdráttarvextir) 8,50%, sbr. mynd:

 

vaxtamunur febrúar 2021

 

Ég nenni ekki að reikna út hversu mörg þúsund prósent vextir þetta eru. Bankarnir eru því að svína á þeim sem höllustum fæti standa, lágtekjufólki og sjálfsagt barnmörgu fólki. En leiðarahöfundur vorkennir bönkunum og hluthöfunum.


Skatturinn og dráttarvextirnir hans

Fyrir mánuði fékk ég „hnipp“ frá Skattinum um að ég skuldaði honum peninga og hann lét að því liggja að þetta væri ítrekun. Upphófust þá miklar skriftir, leitir og útskýringar með tveimur starfsmönnum Skattsins. Skuldin og skýringin fannst en Skatturinn gekkst við því að hann hefði ekki innheimt hana eins og hann átti að gera og ég sagðist ekki tilbúin að borga hámarksdráttarvexti heldur lagði til að ég borgaði venjulega innlánsvexti, „gróðann“ sem ég hafði af því að draga greiðsluna.

Þá heyrði ég ekkert meir og hugsaði að þau hefðu séð sóma sinn í að fella skuldina niður. Ég er óheyrilega skilvís manneskja og borga alltaf það sem mér ber á réttum tíma. Einhver gæti hugsað og sagt að ég hlyti að hafa vitað af þessum ógreiddu opinberu gjöldum en ég skýrði það í fyrri færslum.

Nú hagar svo til að ég opna heimabankann minn á hverjum degi. Og núna rétt áðan blasti þetta við:

dráttarvextir

 

 

 

Ókei, upphæðin er lág og ég ætla að játa mig sigraða í þessu stríði af því að ég á við ofurefli að etja en ykkur að segja hef ég ekki fengið þessa markaðsvexti á upphæðina sem ég skuldaði. En hey, ríkissjóð munar um 2.129 kr. og þá er það mín ákvörðun að aumka mig yfir hann og henda út líflínu.

Hins vegar finnst mér undarlegt og ámælisvert að senda mér rukkunina með sama gjalddaga og eindaga OG sama dag og bæði gjalddagi og eindagi er. Rukkunin var nefnilega ekki þarna í gær.

Góða helgi.


Lífslokameðferð að vali lækna

Ég fæ svo mikinn hroll þegar ég les og heyri um dánartilfellið á Suðurnesjum. Ég þekki ekki til þess atviks en votta aðstandendum samúð mína og finn til með þeim.

Fyrir rúmum þremur árum dó mamma mín á Landspítalanum. Hún var eldhress til 28. október 2017. Þá skall hún á hnakkann á Kjarvalsstöðum þar sem hún var að kjósa til þings. Henni blæddi mikið. Ég var með henni og fór með henni á spítalann. Afsakið að ég segi það hreint út en sjúkraflutningamönnunum var eiginlega sama um hana, læknunum á bráðamóttökunni líka og næstum öllum í ferlinu sem fylgdi. Ég man ekki eftir neinum heilbrigðisstarfsmanni sem sýndi umhyggju eða neina natni en ég man að þegar hún fór að missa meðvitund í janúarbyrjun eftir millilendingu á Landakoti - sem var andstyggilegur staður - og fór á kvennadeild Landspítalans (þar sem skásta starfsfólkið var) var hún einfaldlega afskrifuð. Tvær konur með lækningaleyfi sem ég átti fund með á mánudegi sögðu af algjöru skeytingarleysi við mig og bróðurómyndina mína sem ég umgekkst þá enn að þetta væri búið og voru byrjaðar að jarða hana en þá var dýrleg kveðjuvika framundan. Svo missti hún endanlega meðvitund á föstudeginum og dó undir kvöld á laugardegi, 13. janúar 2018.

Ég fæ enn gráthviður þegar ég rifja upp síðustu mánuðina hennar mömmu en sem betur fer áttum við dýrlega síðustu viku á kvennadeildinni þar sem ég var næstum stöðugt hjá henni. Við stefndum til hennar öllu mögulegu fólki sem kvaddi hana af því að við vissum samt að lífið var að fjara út. 

En svei þessum læknum sem töluðu um hana eins og hlut.

Og svo þegar fólki í þessari stöðu er vikið í leyfi meðan verið er að rannsaka siðlaus vinnubrögð er það vafalaust á fullu kaupi hjá skattgreiðendum. Fólki er umbunað fyrir að fúska.

Svei.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband