Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 21. febrúar 2021
Útskrift frá Háskóla Íslands
Ég útskrifaðist ekki í gær frá Háskóla Íslanda vegna þess að mér tókst ekki að klára ritgerð mína í þýðingafræði í tíma. Hins vegar er ég núna líka í öðru námi við HÍ, blaða- og fréttamennsku, og ákvað að gera sjónvarpsfrétt um þennan tímamótadag. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem nemendum er hleypt inn í Háskólabíó einum í einu til að sækja prófskírteinin sín og fá myndatöku, allt vegna sóttvarna.
Ég talaði við einn sem undirbjó daginn og svo þrjú sem voru að útskrifast og ég vona eiginlega að brautskráningarhátíðin verði eitthvað þessu lík framvegis. Hugsanlega væri hægt að eyrnamerkja einn klukkutíma í senn brautskráningarviðburði fyrir hvert svið. Ég hef þrisvar útskrifast frá HÍ, fyrst 1994, og hef aldrei mætt í brautskráningu vegna þess að mig langaði ekki að sitja í allt að fjóra tíma undir því að öllum útskriftarnemendum væru afhent prófskírteini sín. Hins vegar hefði ég ekki viljað missa af útskriftardeginum í menntaskóla vegna þess að það gerir maður bara einu sinni.
Svo heyrði ég nýlega að þótt útskriftarnemendur væru beðnir um að sitja sem fastast þangað til viðburðurinn væri búinn færu margir þeirra meðan kórinn væri að syngja og/eða settust ekki aftur þegar þeir væru búnir að sækja skírteinin sín upp á svið. Hvar er hátíðleikinn þá, spyr ég, ef mikil hreyfing er á salnum á meðan þeir síðustu sækja skírteinin?
Meðfylgjandi smáfrétt sem ég setti á YouTube í gær gerði ég 97% sjálf og þótt sitthvað megi laga jaðrar við kraftaverk að ég hafi gert hana næstum ein. Fyrir rúmri viku hélt ég að ég gæti ekki einu sinni stillt myndavélina á zebra og gula fókusinn, hvað þá stillt mér sjálf upp fyrir framan myndavélina og klippt svo allt aukaefni í burtu, lagt myndefni yfir talað mál, skrifað inn nöfn viðmælenda og búið til kreditlista, en þetta gerði ég samt í gær í Final Cut forritinu í Apple-tölvu í skólanum.
Háskóli Íslands er akkeri og mikið óskaplega er ég þakklát fyrir að vera á dögum núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 15. febrúar 2021
Umönnun fullorðinna
Ég horfði á magnaðan spjallþátt um umönnun foreldra og tengdi svo sterkt við umræðuna. Fólk segir söguna af því úrræðaleysi sem einkennir hreinlega öldrun. Ég ætla ekki að endursegja sögurnar sem aðstandendur segja en segi fyrir mína parta að þótt ég sé góð dóttir, nú án foreldra, sé ég mest í lífinu eftir að hafa ekki verið enn betri dóttir og unnið minni launavinnu meðan mamma og pabbi lifðu. Þau voru býsna hraust, og ég þakka fyrir það, en um leið og fólk er orðið áttrætt og þarf heilbrigðisþjónustu virðist sem kennitalan banni að nóg sé gert til að létta því lífið.
Mikið innilega vona ég að þetta breytist og það sem fyrst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. febrúar 2021
40% af ... hagnaði?
Staðreyndin er bara sú að sjávarútvegurinn hefur greitt á umliðnum árum um það bil 20 prósent af hagnaði sem sjávarútvegurinn hefur greitt í auðlindagjaldið.
Eitthvað í þessa veru heyrði ég líka framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segja í útvarpinu í dag, sem sagt að sjávarútvegurinn greiddi 20% af hagnaði. Ég hef reyndar líka heyrt talað um að sjávarútvegurinn greiði 10% en eins og við vitum er hægt að reikna út og suður þangað til maður fær ákjósanlega tölu.
Ef við látum okkur lynda að talan sé sú hærri, 20% af hagnaði, er hún samt til muna lægri en prósentan sem venjulegt launafólk greiðir af hagnaði sínum til að standa straum af kostnaði við að reka samfélag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 10. febrúar 2021
Það sem allir vilja verða en enginn vera
Við viljum flest verða gömul en ekki endilega vera gömul. Þessi speki rifjaðist upp fyrir mér vegna skólagöngu minnar. Ég þarf að opna vælugluggann. Ég er að læra til blaðamanns og það er óborganlega skemmtilegt - en svo er eitt lítilræði sem ég vil bara kunna en helst ekki læra. Ég á að taka sjónvarpsviðtal og hlakka bara til þess en svo þarf ég að hlaða því inn í tölvu (myndefninu) og klippa það með forriti sem heitir Final Cut. Kennaranum finnst það svo einfalt að hann getur ekki útskýrt það fyrir manneskju sem hefur aldrei notað makka.
Það er ekki óalgengt umkvörtunarefni að kennarar geti ekki komið því til skila sem þeim finnst svo auðskilið sjálfum.
Ef hann ætlaði að útskýra fyrir mér - eða ég fyrir honum - leyndardóminn um kennimyndir sagna væri ég á grænni grein - en hann ekki - þannig að ég ætla ekki að fórna hér höndum yfir því hvað ég sé vitlaus. Ég þarf bara að segja þetta einu sinni upphátt. Þegar ég verð búin að læra þetta með að importa í libraryið og transporta í galleríið og nota svo einhverja effekta til að fletta viðmælandanum á samskeytunum horfi ég til 10. febrúar 2021 í forundran en akkúrat núna langar mig að ... lemja teppið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 6. febrúar 2021
Lífið með moltutunnu
Ég vildi að ég gæti flokkað allt sem ég hendi. Ég vildi að ég gæti hent meiru en ég geri. Ástæðan fyrir því að ég hendi minna en ég vildi er tvenns konar. Ég er ekki viss um að það nýtist öðrum, t.d. Rauða krossinum eða umhverfinu. Hin ástæðan er að ég er tilfinningalega tengd því sem ég veit að ég mun samt á endanum þurfa að farga. Ég er með stafla frá mömmu og pabba sem koma út á mér tárunum; bréf, myndir, föt og persónulega muni.
Í haust fékk ég mér moltutunnu í eldhúsið, bokashi. Ég er enn ekki komin með neina nothæfa mold en það styttist í það. Mér líður betur með að henda lífrænu ofan í hana, svo sem kaffikorgi, eplakjörnum, eggjaskurn og bananahýði. Svo er hægt að flokka pappír og plast þótt það sé ekki alltaf nógu einfalt. Í gær heyrði ég t.d. að á kassastrimlum í búðunum væri eitur, þá í prentinu. Ég hef einmitt huggað mig við það að strimillinn sem Bónus prentar handa mér í hverri búðarferð fer þó í pappírstunnuna en nú veit ég ekki hvað ég á að halda.
En svo verð ég að hrósa Reykjavíkurborg hástöfum. Um síðustu helgi sendi ég, eftir óformlegan húsfund, beiðni um að önnur gráa tunnan við húsið yrði tekin. Eldsnemma á mánudagsmorgni fékk ég svar um að það yrði gert við fyrstu hentugleika og á þriðjudegi var hún farin.
En mikið vill meira, nú ætla ég að reyna að galdra til okkar tunnu fyrir lífrænan úrgang í stað þessarar gráu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. febrúar 2021
Sænska - eða er það skánska?
Ég kláraði loks að horfa á sænska sakamálaþáttinn Leitina að morðingja í spilara RÚV. Hann var ekki eins spennandi og DNA sem er nú horfinn úr spilaranum. Ég held reyndar að DNA eigi eftir að koma í línulega dagskrá.
Nema hvað, Jakten på en mördare hefur sér það helst til ágætis að sænskan er ósvikin. Mér finnst alltaf gaman að hlusta á norrænu málin og það er sérstakur bónus þegar ég þekki ekki leikarana. Tímabilið nær yfir árin 1989-2004 sem endurspeglast í ritvél sem breytist í frumstæða tölvu og svo fyrstu farsímunum. Faxtækin voru enn við lýði. Ég man þetta allt.
En það sem mér fannst skondnast var að rannsóknarlögreglufólkið var síreykjandi og alltaf að drekka kaffi, fyrst úr plastmálum sem voru sett ofan í harðplasthaldara og svo úr alvörupostulíni.
Annað sem mér fannst áhugavert var að sjá hvað þau lentu oft í blindgötum og áþreifanlegum hindrunum hjá yfirmönnum. Aðalgaurinn vildi bara einbeita sér að því að leysa málin en hann rakst hins vegar ekki sérlega vel á gildisorðadögum eða í að fylla út eyðublöð og skrá 30 símtöl sem 30 yfirheyrslur. Hann lét þó ekki slá sig út af laginu.
Ég las allt Dalalíf fyrir tæpum 10 árum, þ.e. ég las öll bindin, allar 2.200 síðurnar, á árinu 2011. Ég beið spennt eftir allri kaffidrykkjunni sem mér finnst fólk tengja við Dalalíf. Hún var af skornum skammti. Hér var hins vegar nóg af kaffidrykkju - nema þegar þau fögnuðu stóru áfögnunum með því að fá sér viskí úr kaffibolluunum.
Eftir á að hyggja er þetta býsna góður þáttur. Norrænu raðirnar láta ekki að sér hæða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. febrúar 2021
Fréttir Stöðvar 2
Ég vil hafa mikið fréttaframboð og geta valið á milli án þess að kaupa áskrift að afþreyingarstöð eins og Stöð 2 er að mestu leyti. Mér finnst hins vegar leiðinlegt þegar fólk talar fréttir Stöðvar 2 niður vegna þess að margt er þar ágætlega gert. Ég hlusta á Bylgjuna meðan ég sýsla í eldhúsinu og held að ég eigi eftir að koma mér upp nýjum og miklu betri siðum. Ég sakna þess þó að sjá ekki Víglínuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. febrúar 2021
YouTube-kynslóðin
Ég var búin að hugsa ýmislegt upphaf á þessari hugleiðingu um YouTube-kynslóðina, aðallega samanburð við hinar kynslóðirnar, t.d. kynslóð pabba sem lærði heilu ljóðabálkana utan að og kunni fram í andlátið. Pabbi hafði oft orð á því hvað honum fyndist dapurlegt að fólk lærði ekki lengur ljóð. En fólk veit sem er, að internetið geymir þau öll og að óþarft er að læra þau utan að.
Samt hef ég reyndar ekki fundið þessa ferskeytlu á netinu:
Hafragraut í heila stað
hefur þessi drengur,
gæna húfan hylur það
held ég ekki lengur.
Og þó! Ég gúglaði fyrstu línuna og fann hljóðdæmi! Neðsta línan er að vísu öðruvísi en kannski er mín útgáfa engu síðri.
Yngri kynslóðirnar kunna hins vegar að fletta upp og lesa sér til á augabragði um það sem mér finnst flókið tæknimál. Ef fulltrúi YouTube-kynslóðarinnar hefði ekki setið drjúga stund með mér um helgina að klippa þriggja kortera langa hljóðupptöku væri ég enn að reyta hár mitt - nema ég væri orðin alveg sköllótt.
Vonandi get ég núna sjálf notað Audacity við að klippa frétt fyrir föstudaginn. En ég þarf að gera fleira en að klippa fréttina ... ég þarf að finna mér viðmælendur, tala við þá og semja fréttina líka!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. janúar 2021
Skatturinn (3)
Nú er ég búin að eiga í miklum bréfaskiptum við Skattinn og maklegt að hrósa þeim tveimur einstaklingum sem hafa gert sér far um að svara mér.
Niðurstaðan er þá sú að ég skulda tekjuskatt vegna verktakalauna 2019. Ég var með laun frá vinnuveitanda fram í október en hefði átt að borga sirka 67.000 kr. 1. nóvember. 1. desember fékk ég desemberuppbót og launaseðil með henni og sirka 10.000 greiddar eftir að launagreiðandi hafði dregið af mér opinber gjöld. Mér finnst ég því hafa haft fulla ástæðu til að halda að ég væri skuldlaus, kannski andvaralaus en ég var sannarlega ekki að reyna að koma mér hjá því að greiða. Ég fékk engan greiðsluseðil.
Ástæðan fyrir því að ég fékk ekki greiðsluseðil var sú að launagreiðandi átti að tilkynna Skattinum að ég væri ekki lengur á launaskrá. Launagreiðandi gerði það ekki og því var Skatturinn í góðri trú, eins og ég.
Ég átti að fá rúmar 7.000 kr. í endurgreiðslu vegna viðgerða á bíl en var heldur ekkert með hugann við það. Þær voru teknar upp í skuldina.
Ég sendi því Skattinum áðan sáttatillögu um að ég myndi borga skuldina, sem ég gengst vitaskuld við þegar ég er búin að skoða álagningarseðilinn, með 1% vöxtum mínus 22% fjármagnstekjuskatt. Mér sýnist það vera 140,4 kr. en ekki 24.000 kr. eins og Skatturinn vill leggja ofan á skuldina.
Það er orðið algjört prinsippmál að fá sanngjarna niðurstöðu í þetta þar sem ég á ekki sök á klúðrinu.
Ég hef fulla trú á að Skatturinn gangi að þessari tillögu eða felli niður alla álagða vexti vegna þess að það er sanngjarnt.
Svo fæ ég greiðsluseðla frá 1. júní fyrir óinnheimtum tekjusköttum vegna verktakagreiðslna á síðasta ári. Ég tel að væntingar mínar um greiðsluseðla eða birtingu í heimabanka séu eðlilegar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. janúar 2021
Skatturinn - þjónusta? (2)
Í gærkvöldi fékk ég hnipp frá Skattinum sem ég bjóst ekki við en þegar það kom hélt ég að hann væri að láta mig vita af endurgreiðslu vegna viðgerða á bíl. En, nei, þetta var út af svokölluðum þing- og sveitarsjóðsgjöldum. Heildarskuldin (sem er ekkert brjálæðislega há) er sundurliðuð sem ... AB Þing- og sveitarsjóðsgjöld frá árinu 2020. Ég var engu nær fyrr en ég gúglaði. Þá fékk ég:
...
Aa, aðrir fá sendan greiðsluseðil á gjalddögum, stendur á síðu RSK. En ég fékk engan greiðsluseðil, enga tilkynningu, ekkert hnipp fyrr en búið er að kalla eftir greiðslu í blöðunum!
Ég sendi Skattinum fyrirspurn í gærkvöldi og fékk staðlað svar til baka:
Erindi þitt hefur verið móttekið og mun verða tekin afstaða til þess svo fljótt sem kostur er. Vegna mikils álags getur dregist að svara fyrirspurn þinni. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Vinsamlega sendið ekki sama póstinn oftar en einu sinni.
Svo reyndi ég að hringja kl. 9 í morgun og eftir 12 mínútur hafði ég ekki lengur tíma til að hlusta á símsvarann. Ég tek fram að ég hlustaði á símsvara Skattsins í mínum tíma, ekki tíma neins vinnuveitanda.
Ég er með óskilgreinda kröfu frá Skattinum um greiðslu fyrir eitthvað sem ég veit ekki hvað er og Skatturinn hefur engan tíma til að upplýsa mig. Meðan ég borga ekki safnast væntanlega dráttarvextir og eins og ég sagði í gær eru þeir ekki á pari við innlánsvexti venjulegs sparifjáreiganda.
Þrátt fyrir beiðni Skattsins um að senda ekki sama póstinn oftar en einu sinni sendi ég ítrekun með beiðni um svör við þessum tveimur spurningum:
- Fyrir hvað er verið að rukka mig?
- Ef ég skulda þetta, af hverju fékk ég ekki rukkun áður en gjalddaginn rann upp?
Svo lét ég vita að ég kæmist ekki í heimsókn fyrr en á mánudaginn og ef ekkert gerist í millitíðinni er ég búin að ákveða að helga Laugavegi 166 drjúgan part mánudagsins. Tek aftur fram að þar verð ég í mínum tíma en ekki tíma neins vinnuveitanda.
Eru þessi vinnubrögð ekki annars stór ástæða fyrir því að fólk skreppur svo mikið úr vinnunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)