Færsluflokkur: Dægurmál

Skatturinn rukkar einstakling um þing- og sveitarsjóðsgjöld

Ég fæ ekki lengur fastar launatekjur þar sem ég sagði starfi mínu lausu í fyrra og fór í skóla. Þar af leiðandi eru ekki dregin sjálfkrafa af mér viss gjöld.

Í kvöld, já, í kvöld, fékk ég tölvupóst frá Skattinum um að ég skuldaði þing- og sveitarsjóðsgjöld og áskorun um að borga. Þegar eru fallnir dráttarvextir á skuldina, ef hún er skuld, vegna þess að gjalddagi var í desember og eindagi í byrjun janúar. Í bréfinu kom fram að almenn greiðsluáskorun/auglýsing hefði verið birt í dagblöðum 16. janúar.

Það er ekki ofsögum sagt af flækjustigi Skattsins. Ég var með verktakatekjur á síðasta ári og hef gert ráð fyrir að borga skatt af þeim eftir á en ég hefði alltaf reiknað með að fá rukkun fyrir gjalddaga og löngu fyrir eindaga. Og vitið þið hvað? Manni er bent á að hafa samband „við viðeigandi umsjónarmann til að fá frekari upplýsingar um stöðu og innheimtu“ en hvorki gefið upp nafn né símanúmer, hvað þá netfang.

Ástæðan fyrir því að það sýður strax á mér er sú að ég átti að fá endurgreiðslu vegna viðgerðar á bíl í fyrra og þegar hún skilaði sér kom peningurinn hvergi fram. Ég sendi kurteislegt bréf og spurði um hana. Eftir dúk og disk fékk ég (að mínu mati hranalegt) bréf um að ég skyldi hringja í númerið sem var gefið upp. Ég gerði það og talaði við þrjár - ÞRJÁR - reyndar mjög almennilegar manneskjur og loks fékkst fram í dagsljósið að greiðslan hafði farið inn á reikning í banka sem ég lít næstum aldrei inn í. Ég hafði gefið upp allt annan bankareikning en þessi hafði einhvern tímann verið færður inn í kerfið hjá Skattinum. 

Ég er alveg borgunarmaður fyrir þessari skuld en ég veit ekki fyrir hvað er verið að rukka mig af því að skýringin er eingöngu þing- og sveitarsjóðsgjöld. Getur einhver venjulegur launþegi sagt mér hvað það er? Mér finnst ég venjulegur launþegi þótt ég hafi verið með 500.000 kr. í verktakagreiðslur á síðasta ári.

Og ég get líka sagt ykkur að dráttarvextirnir eru ekki neitt nálægt 0,05% sem eru venjulegir innlánsvextir á lausu fé.


Amanda Gorman, fædd 1998

Ég ætla að leggja hana á minnið. Hún flutti innblásið ljóð við innsetningu Bidens og Harris í embætti aðalforseta og varaforseta Bandaríkjanna í vikunni. Flutningurinn minnti mig á íslenskan (karl)rithöfund, segi ekki hvern! 

Ég fletti aðeins í Instragram-síðu Amöndu og sé að hún hefur auðvitað komið um langan veg og er sem betur fer stútfull af sjálfsöryggi og framtíðarsýn.


Ári síðar

Fyrir u.þ.b. ári átti ég fund með lögmanni bróður míns um skuld bróður míns við mig. Gummi bróðir viðurkennir skuldina en kallar hana fyrnda. Ég á tölvupóst þar sem hann viðurkennir hana en henni var aldrei þinglýst af því að hún var greiði systur við bróður.

Þetta lán og aðrir greiðar við hann eru önnur af stærstu mistökum lífs míns.

Árið 2008 var ég ekki búin að átta mig á að Gummi bróðir væri ómerkingur. Sumir aðrir í kringum okkur voru búnir að sjá það og ef grannt er skoðað vissi ég það líka. Ég fann nefnilega fyrir tveimur árum bréf sjálfrar mín til hans þar sem ég sagði honum til syndanna, en sendi ekki bréfið, og ég fann líka í dánarbúi mömmu bréf sem hún hafði skrifað honum en ekki sent þar sem hún sagði honum til syndanna.

Við vorum báðar meðvirkar og héldum áfram að gera honum greiða. Mistök sem ég hef goldið fyrir og sér ekki fyrir endann á.

Fyrir ári fórum við systir mín á fund lögmannsins sem veit upp á hár hvernig í landinu liggur. Gummi fékk margar milljónir að láni hjá mér og hann skuldar mér þær. Á fundinum byrjaði lögmaðurinn á að segja: „Hann ætlar ekki að borga þér neitt nálægt höfuðstólnum.“

Sjálfsagt voru það mistök að spyrja ekki hvað hann vildi þá borga en ég stóð upp og sagði að þá væri ekkert meira að ræða. Mikið hlýtur lögmaðurinn, sem rukkaði Gumma auðvitað hraustlega fyrir alla þjónustuna, að hafa fagnað þessum þægilegu úrslitum. 

Ég vil rifja upp að ég hef sagt og skrifað að þegar Gummi skilar mér peningunum sem hann skuldar mér en ég er ekki í brýnni þörf fyrir muni ég láta handveðið renna til Kvennaathvarfsins

Til viðbótar við það sem hann fékk lánað hjá mér fékk hann bæði stór lán og miklar peningagjafir frá mömmu og pabba sem hann yppti líka öxlum yfir á sínum tíma. Pabbi gerði sömu mistök og ég, að treysta því að Gummi kynni mun á réttu og röngu.

Ég hugsa æ sjaldnar til Gumma sem er mikið lán en ef hann hefði ekki verið svona forhertur með lögmanninum sínum er ómögulegt að vita hvernig málinu hefði verið lent. Stærsta ástæðan fyrir því að ég get alls ekki lagt málið til hliðar er að hann hundsaði pabba allan tímann sem hann var á Hrafnistu, síðustu tæpu tvö árin sem hann lifði, og að hann hótaði systur okkar málssókn. Einu skiptin sem hann kom til pabba var til að biðja hann um pening. Pabbi var með sjálfum sér alveg fram í andlátið og hann var leiður yfir því hvernig rættist (ekki) úr Gumma eftir alla greiðana sem þau mamma gerðu honum. Systir okkar var með umboð frá pabba til að sinna peningamálunum hans og Gummi var alveg hoppandi pirraður yfir því. Þess vegna hótaði hann henni málssókn á Facebook því að þangað sækir hann huggun, til vina sinna á Facebook sem hafa margir hverjir aldrei hitt hann sjálfan, bara séð glansmyndina sem hann dregur upp af sér með tilvitnunum í Gandí og aðra talsmenn mannúðar í heiminum. Svei honum. 

Gummi var ekki óduglegur að koma til mömmu og pabba þegar þau bjuggu í Mánatúninu og ég hélt að hann væri almennilegur sonur en nú er ég búin að átta mig á að hann var alltaf að betla og sníkja peninga og greiða af þeim. 

Þetta verður arfleifðin hans.

Síðan ég mætti á síðasta fundinn með lögmanninum í janúar 2020 er búið að reka Gumma frá Sólheimum þar sem hann starfaði í tæp tvö ár sem meintur garðyrkjufræðingur og hann er búinn að skipta um föðurnafn

Þegar ég spurði hann gagnrýninnar spurningar á Facebook blokkaði hann mig og þegar ég spurði annarrar spurningar á Instagram lokaði hann Instagram-síðunni sinni. Og ég játa að ég hef ekki treyst mér til að hringja í hann. Það hefur nefnilega aldrei verið hægt að tala við hann, hann æsir sig yfir öllu, verður óðamála, grípur fram í og réttlætir sig. 

Gummi er maðurinn sem upphefur sjálfan sig enda er hann fársjúkur óvirkur alkóhólisti sem ég var meðvirk með alltof lengi.


Tryggingar

Tryggingafélagið mitt sendi mér póst um tryggingaiðgjöld næsta árs. Fyrir sömu tryggingar, sömu þjónustu, sömu eignir eiga nú tryggingar að hækka um 9,3%. Er það verðbólgan? Eru það launahækkanir? Nei, ég held ekki. Ég held að svarið sé:

FÁKEPPNI.

FÁMENNI.

VIÐSKIPTASIÐFERÐI (eða skortur á því).

ANDVARALEYSI (m.a. mitt).

Ég sendi póst í fyrra og nei, því miður, félagið gat ekki lækkað iðgjaldið sem hækkaði þá líka ómaklega milli ára. Ef ég fer með viðskiptin annað lækkar einn liður en annar hækkar. Mér er misboðið en úrræðin eru engin. 

 


Matarsóun og gámar fyrir utan verslanir

Ég er í blaðamennskunámi í HÍ og okkur var bent á þætti sem nemendur fyrri ára hafa gert undir lok skólaársins. Fyrir tveimur árum fjallaði hópurinn um loftslagsmál í víðu samhengi, mest samt um matar- og fatasóun. Þátturinn er gerður undir styrkri stjórn kennara og ég hefði sjálf verið mikið til í þetta efni. Í þættinum er m.a. talað við mann sem tekur úr gámum fyrir utan verslanir algjörlega óskemmdan mat sem verslanirnar hafa HENT, fólk sem hefur starfa af því að stýra okkur í betri neyslu og háskólanemendur um viðhorf þeirra til nýtingar. Ég er alveg hugfangin af því hvernig til tókst.

Þátturinn er tæpur klukkutími og hann hefði átt að fá meiri útbreiðslu - en það er ekki of seint! 

Um hvað ætti minn hópur að fjalla? Hvað gerðist 1921 sem ætti þá 100 ára afmæli á þessu ári?


Lögsókn(ir) á hendur Trump

Í fréttum er ég búin að heyra aftur og aftur talað um aðra (2.) ákæru á hendur Trump sem var rædd og greidd atkvæði um í bandaríska þinginu í gær. Ég fylgist ekki nógu mikið með bandarískum stjórnmálum frá degi til dags og ég mundi alls ekki eftir ákærunni frá þarsíðasta ári. Já, ég má alveg skammast mín en hefði ekki verið upplagt að nefna þetta einu sinni eða tvisvar þegar fréttamenn tala um 2. (eða seinni) ákæruna?


13. janúar

Í dag er minn persónulegi blúsdagur sem ég vil nota í að minnast minnar uppátækjasömu mömmu. Hún var fædd 1927 í sveit, flutti til Reykjavíkur, lærði til kennara og kynntist svo pabba. Barnagæsla var það takmörkuð þegar fyrsta barnið fæddist, 1950, að hún varð að hætta að kenna og var heimavinnandi þangað til ég var orðin sjálfbjarga. Hún var aldrei nein sérstök barnagæla, beið frekar spennt eftir að geta átt við okkur vitsmunalegar samræður.

Hún átti einstakar minningar úr kennslu en fór aldrei aftur í það starf heldur vann í bókabúðum og við afgreiðslu á verkstæðinu hjá Velti þegar hægt var að skilja mig eftir heima án pössunar. Meðfram húsmóðurstarfinu og uppeldi á fjórum börnum var hún svo símsvari Rafvirkjaþjónustunnar sem pabbi rak og fór með honum að draga í rafmagn þegar svo bar undir.

Hún var svo innilega til í að sprengja þægindarammann eins og hún gerði t.d. þegar hún kom í heimsókn til mín í Þýskalandi 1987 þegar ég var þar au-pair. Hún lærði tungumál aldrei vel en kom til mín í gegnum nokkra flugvelli og þegar við fórum þaðan saman í rútuferðalag til Garda-vatns talaði hún meira við fararstjórann en nokkur annar. Hann var samt þýskur og bílstjórinn líka en það truflaði hana ekkert að ráði.

Myndina sem ég legg hér með færslunni tók ég 2017, hálfu ári áður en hún dó. Þá var hún nýbúin að prjóna nokkra svona pottaleppa (þetta eru kindur!) og gaf mér þá með þessum svip. Hún var alveg ófeimin við að grallarast þótt hún væri orðin 89 ára.

Við rifumst stundum hástöfum, aðallega um loftslagsmál, bílaeign og einstaka stjórnmálamenn en við jöfnuðum þann ágreining. Ef frá eru taldir nokkrir mánuðir þegar ég var 17 ára uppreisnarseggur bar engan skugga á vináttu okkar. 

Hún dó 13. janúar 2018, vitsmunalega í fullu fjöri og fór alltof snemma frá mér sem er yngsta barn, en við áttum innilega kveðjustund í heila viku á Landspítalanum þar sem ég gat komið, farið og verið eins og ég vildi. 

Ég veit ekki hvernig henni hefði reitt af þessi þrjú ár þar sem hún átti orðið svo erfitt með að nærast vegna slæmsku í hálsi en ég er 100% á því að hún væri enn flissandi yfir ýmsu og opin fyrir alls kyns sprelli. 

Mamma 2017


Ulven kommer - dönsk þáttaröð um barnavernd

Barnaverndarmál eru hörmuleg. Ég tala reyndar ekki af eigin reynslu þar sem ég þekki þau eingöngu örlítið sem túlkur á fundum fyrir allmörgum árum. Nei, þegar barni er misboðið á einhvern hátt er það hörmulegt, allir hljóta að vera sammála um það. Barnaverndarnefndir mega ekkert segja en það má gera leikna mynd um málið.

Úlfur, úlfur er átta klukkutíma maraþonþáttur sem ég horfði á í nokkrum skömmtum í spilara RÚV. Þáttaröðin er aðgengileg fram undir næstu jól og ég mæli eindregið með að fólk horfi. Kynningin á þáttunum er svona:

„Leiknir þættir um félagsráðgjafa sem hefur aðeins nokkrar vikur til að átta sig á því hver segir satt og hver ekki í fjölskyldu sem mögulega býr við alvarlegt ofbeldi. Segja börn alltaf sannleikann? Og hversu mikið er hægt að leggja á eina fjölskyldu? 

Hvað er orsök og hvað er afleiðing? Af hverju flytur fjögurra manna fjölskylda fjórum sinnum milli landshluta á átta árum? Af hverju er félagsráðgjafinn svona ákafur í að leysa málið? 

Ég hamast hér við að segja ekki of mikið en get þó sagt að myndin er æsispennandi þótt einhverjum gæti þótt lopinn teygður. Mér finnst tímaásinn dálítið óljós en ekkert sem kom að sök og tónlistin, maður minn, er stórfengleg. Og auðvitað er röðin einhvers konar norrænt samstarfsverkefni á því herrans ári 2020.


Endalok fréttastofu Stöðvar 2

Ég hélt að ég yrði fyrst með tilgátuna um að 18. janúar verði stigið fyrsta skrefið í að leggja niður fréttastofu Stöðvar 2 en sé á athugasemdunum við fréttina að fleira fólki hefur dottið það í hug. Ég hef aldrei verið með áskrift að Stöð 2 en hef einstaka sinnum séð eitthvað af dagskránni og hún höfðar ekki til mín. Ég hef hins vegar verið nokkuð dyggur áhorfandi fréttatímans og þar með einhverra auglýsinga. Nú fækkar þeim sem vilja kaupa auglýsingar og þar með verður enginn rekstrargrundvöllur fyrir rekstri fréttastofu.

Ég gíska á að henni verði lokað í janúar 2022.


Sumarið '85

Spilari RÚV heldur áfram að gefa. Nú er ég búin að horfa á sænsku seríuna Sumarið 1985 sem gerist einmitt 1985 í sænsku krummaskuði en var framleidd á síðasta ári. 240 mínútur af rakalausri skemmtun, vessgú. Mér skilst að þættirnir komi í línulega dagskrá seinna en mér finnst gaman að geta horft í beit og stoppað í miðjum þætti ef svo vill verkast.

Þarna eru saman komnar þrjár kynslóðir kvenna í mismikilli uppreisn, pylsuhátíð, geðsjúkrahús, sumarfrí ef sumarfrí skyldi kallast, hómófóbía (aids var nýtt um þetta leyti), ljósabekkir, peningaleysi och det underbara språket, svenska. Sumir Svíarnir eru eins lokaðir og Finnar en aðrir með allt á útopnu og svei mér ef ég endurlifði ekki Nordjobb-sumarið mitt í Finnlandi 1988.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband