Færsluflokkur: Dægurmál

You are fired!

Mér skilst að setningin You are fired sé einkennismerki raunveruleikasjónvarpshetjunnar sem við köllum núna fráfarandi forseta Bandaríkjanna. Og mér skilst að áhangendur hans kunni að meta þessa ákveðni og líti á Trump sem gáfaðan og réttsýnan mann.

Við hin sjáum ekki einu sinni það sem gæti verið gott við hann. Eitthvað hlýtur það að vera. Menn hafa sagt mér að efnahagslífið hafi náð sér á strik í Bandaríkjunum á hans tíma í embætti og að hann hafi kallað heri heim úr öðrum löndum. Það er gott ef satt er.

Ég sé mann sem niðurlægir - eða reynir að niðurlægja - andstæðinga sína, mann sem verður gjaldþrota en þvertekur fyrir það, mann sem lítur niður á konur og sigar lögreglunni á svarta menn. Hann neitar að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans í loftslagsmálum.

Hann er sjálfsagt góður við (sum) börn eins og sagt var um Hitler (þar með lýkur líkingunni) og auðvitað hefur hann einhverja óljósa kosti en hann skilur við bandaríska þingið í uppnámi og áberandi menn innan Repúblikanaflokksins hafa afneitað honum.

Um allt þetta eru áhugasamir um nokkurs konar pólitík búnir að lesa í ýmsum miðlum seinni part vikunnar. Ég fer hins vegar að bera þennan mann saman við bróður minn sem stal peningum af mér, stal peningum af mömmu og pabba, ásakaði systur okkar um skjalafals og hótaði henni málssókn, hreykti sér af því við bróður okkar að hann hefði fengið RAVinn hjá mömmu og pabba fyrir ekkert og selt hann svo fyrir 1,8 milljónir, réð sér lögfræðing sem er óþverri en fann einhverja klausu um fyrningu -- og enn er fólk sem heldur að Gummi bróðir sé í lagi. 

Ég áfellist ekki fólk, sem hefur ekki orðið fyrir barðinu á honum, þótt það umgangist hann og trúi honum. Ég áfellist ekki dætur hans þótt þær umgangist hann. Ég get ekki áfellst fyrrverandi yfirmann hans á Sólheimum sem varð að reka hann fyrir mistök (segir hann sjálfur á Facebook) þótt hún hafi ekki viljað hlusta á mig þegar ég benti henni á að hann væri ekki á vetur setjandi. Við virðumst mörg þurfa að reka okkur sjálf á þegar svona ómerkilegir menn ganga lausir.

gummi_juli_2020

Ég fylgdist ekki með kosningabaráttu Trumps og Clinton 2016 umfram það sem íslenskir fjölmiðlar buðu upp á og kannski ekki einu sinni nógu vel með því sem íslenskir fjölmiðlar buðu upp á. Ég var of upptekin af launavinnu og einhverju öðru persónulegu. Ég þekkti ekki fortíð Trumps og hefði aldrei giskað á að svona mikill siðblindingi yrði kosinn af helmingi bandarísra kjósenda.

En sennilega eru það mestu siðblindingjarnir sem vaða upp á sviðið uppfullir af sjálfsdýrkun og slá þannig ryki í augun á ótrúlegum fjölda fólks.

Þótt Gummi sé hvorki valinn né útvalinn og leiði enga hópa er hann fíkill. Hann hætti að drekka áfengi fyrir 30 árum en kannski er hann á einhverju öðru sem ég þekki ekki. Ég get alltént vottað að hann var fíkinn í læk á Facebook eins og sagt er um unglingsstúlkur. Hann setur sennilega daglega inn alls kyns statusa um gæði sjálfs sín og heilræði frá mestu hugsuðum og spekingum mannkynssögunnar sem hann þykist fara eftir.

Hér er Instagram-færsla frá nóvember 2019:

Færsla á Instagram 11. nóvember 2019

Þakklæti! Heyr á endemi, hann hefur alltaf tekið og ekkert gefið og aldrei þakkað fyrir sig nema í yfirborðslegum internetfærslum.

Ég er ekki alltaf að hugsa til hans, sem betur fer. Mikil orka hefur farið í að bölva honum og ergja mig yfir að ég hafi ekki séð í gegnum hann. Hann hefur engu áorkað í lífinu en honum hefur alltaf fundist hann hafa efni á að setja sig á háan hest og gera lítið úr öðru fólki. 

Ég lít niður á hann fyrir það sem hann hefur gert mér, hinum systkinum okkar, foreldrum okkar, viðskiptavinum þegar hann rak sjoppuna í Víðigerði og bændunum í Húnaþingi. Þegar ég spurði gagnrýninna spurninga á Facebook lokaði hann á mig. Hann hefur engin málefnaleg rök fyrir neinu sem hann gerir. Þegar ég spurði gagnrýninnar spurningar á Instagram lokaði hann síðunni. Hann á engin svör, hann á engan málstað, hann á engin rök. Hann á bara sjálfsupphafningu sína og hann er Trumpinn í minni fjölskyldu.


Nýir siðir

Munið þið hrákadallana? Nei, auðvitað ekki, ekki frekar en ég. En hrákadallar voru mikið til siðs svo menn hræktu síður á gólfið sem áður hafði verið til siðs. Ég tengi hráka og hrækingar við sóðaskap en ástæðan fyrir því að mönnum var uppálagt að hætta hrækingum í tíma og ótíma var sýkingarhætta.

Eftir einhver ár eða áratugi verður kannski litið á handabönd eins og ég lít á hrækingar núna. Sem sóðaskap.

Merkilegir tíma sem við lifum.

hrákadallur


DNA (erfðaefni) - aðgengilegt til 16.1.2021 í spilara RÚV

Ég hámhorfði á dönsku þáttaröðina DNA í spilara RÚV um helgina (8x40 mínútur). Efnið er auðvitað skáldað og ég skil það ekki sem heilagan sannleika en (ég spilli engu fyrir væntanlegum áhorfendum) spilling í dönsku lögreglunni og yfirgangur í kaþólsku kirkjunni hljómar ekkert ósennilega, ekki frekar en spilling innan lögreglu og yfirgangur kirkjunnar þjóna yfirleitt. Ég alhæfi ekki, ég segi bara að ég trúi því miður á skemmd epli í starfsemi sem að mörgu leyti er samt góð.

Ég mæli eindregið með þáttunum ef fólk hefur, eins og ég, smekk fyrir dönsku (svo sem evrópsku) spennuefni sem stingur á kýlum. Pólska og franska eru líka talaðar í þáttunum og þá þurfti ég alfarið að treysta á textann.

Svo er auðvitað kostur að geta horft í 5-6 tíma eftir hentugleikum og tekið sér matarhlé þar sem manni sýnist. 

Það voru smáatriði eins og endalausar ósýnilegar ferðir milli Kaupmannahafnar og Parísar á núll einni og að nýborin móðir sé stökkvandi yfir girðingar sem gengu ekki upp en mér fannst mjög auðvelt að horfa framhjá því.

DNA


Áramótaskaupið 2020

Mér fannst skaupið í ár mjög skemmtilegt. Mér finnst það oft og er búin að átta mig á að þegar leikarar eru margir finnst mér það betra. Þá eru valdir leikarar sem henta hverri rullu.

Ég tók nokkur skjáskot af atriðum sem mér þóttu hitta í mark.

Öll endurvinnsluatriðin voru æði. Hálf þjóðin fór í endurbætur heima hjá sér og sumir þurftu að losa sig við mikið spilliefni.

Spilliefni

Vilhelm Neto heldur niðri í sér andanum ... þangað til hann getur það ekki lengur.

Halda niðri í sér andanum

Hrikalegt álag að ferðast innan lands, allir búnir að fara í Stuðlagil, á Rauðasand og auðvitað Fimmvörðuhálsinn.

Ferðast innan lands

Falsaða skjalið sem var ekki til.

Samherji

Veggjakrotið. Og Þorsteinn Bachmann átti stjörnuleik eins og venjulega.

Nýja stjórnarskráin

Og við klárum þetta saman!

Kórinn syngur árið út

Svo er stóra Þorláksmessukvöldinu bætt við aftan máls.

Ásmundarsalur

Ég skellihló oft og þess á milli kumraði í mér. Frábært skaup. Hvað vantaði? Örugglega margt en ég horfði líka á fréttaannálana og það er ekki hægt að troða öllu inn í þriggja kortera þátt.


Mamma 31.12.1927-13.1.2018

Það er gott að sakna. Það er gott að syrgja.

Nú eru næstum þrjú ár síðan mamma dó en hún er samt sínálægt mér. Allt það hversdagslega sem maður gerir með sínum nánustu verður að minningu sem maður á áfram. Sem betur fer vorum við góðar vinkonur og gátum bæði tekist á og hlegið saman.

Við mamma og Kolbrún á áttunda áratugnum

Þarna erum við Kolbrún systir einhvers staðar í heimsókn með mömmu á áttunda áratugnum.


Eldum björn eftir Mikael Niemi

Feiti hreppstjórinn, fróði presturinn, pervisni unglingurinn, fjarlæga systirin og allar aukapersónurnar. Dýrleg bók. Dýrsleg bók. Sagan gerist fyrir næstum 200 árum en mennskan - eða ómennskan - er söm við sig. Valdsmenn slá um sig, smælingjarnir taka skellinn. 

Mig langar ekki að rekja söguþráðinn en vil segja að sagan er nokkuð þunglyndisleg og myrk, full af fátækt og eymd en jafnframt fróðleiksþorsta og sanngirni. Ég á bágt með að skilja að svona aumt hafi lífið verið nokkurn tímann hjá nokkrum manni en ég óttast að svo hafi samt verið og sé sums staðar enn, að undanskilinni upplýsingunni. Þótt rangar upplýsingar og fréttafals rati út á internetið er þar líka að finna svo mikið gagnlegt að stóru hóparnir láta ekki lengur kúga sig til hlýðni og undirgefni í sama mæli. Og bókin er einmitt öðrum þræði um viljann til að verja fjármunum sínum í upplýsingar frekar en skammvinna gleymsku ofdrykkjunnar.

Bókin er 450 blaðsíður og komst almennilega á skrið eftir svona þriðjunginn. Á köflum langaði mig sannarlega ekki að halda áfram en er fegin að ég gafst ekki upp.

 


28. febrúar 2020

Daginn sem fyrsta smitið greindist á Íslandi, 28. febrúar 2020, lenti ég í Keflavík eftir vikudvöl í Egyptalandi. Ég viðurkenni að þannig fór ég vel nestuð inn í þetta 10 mánaða einangrunartímabil á Íslandi. Fríið var vel heppnað og meðvitund um Covid frekar lítil. Ég man samt frá því áður en við fórum að mér fannst óþarfi að allir fréttatímar í byrjun árs hæfust á umræðu um þetta óskaplega fjarlæga vandamál, svona eins og að allir fréttatímar æskuára minna byrjuðu á upptalningu á aflatölum þorsks, a.m.k. í minningunni.

Í dag, 10 mánuðum síðar, eru vísindamenn búnir að leggja krafta sína svo saman að fyrsti skammtur af vonandi nothæfu og gagnlegu bóluefni er lentur í Keflavík.

Ég trúi á þetta vandamál og ég trúi á lausnina. Og nú trúi ég því að næsta sumar geti ég leikið lausum hala. Þangað til mun ég stilla væntingum mínum í hóf.


Mótlæti og úthald

Ég hef forðast fullt af fólki og allar hópamyndanir í 10 mánuði. Fyrir mig er það ekkert brjálað mótlæti í stuttan tíma þar sem ég hef fengið ríflegan skammt af félagsskap í gegnum tíðina. Það reynir samt á og kostar staðfestu. Ég hef á þessum tíma mest vorkennt framhaldsskólanemum á lokaári og nýnemum í háskóla sem fara á mis við myndun tengslanets og ævilangrar vináttu og ég hef líka fundið til með fólki sem hefur ekki mátt mæta í vinnuna, orðið fyrir tekjutapi en útgjöldin ekki dregist saman.

Ég finn til með og dáist að fólki sem hefur staðið í framlínunni og hlaupið hraðar en ætti að vera hægt til að vinna bug á sameiginlega óvininum.

Ég finn mikið til með fólki sem er einangrað heima hjá sér, fullorðnu fólki á hjúkrunarheimilum sem sumt hvert skilur ekki af hverju ættingjarnir koma ekki nema í mýflugumynd. Ég á 95 ára föðursystur sem leiðist alla daga og ég fór til reglulega til að stytta stundir en má ekki hitta núna.

Saga mín er saga margra. Ég trúi á sóttvarnirnar og trúi því að veiran sé bráðsmitandi. Heldur einhver að frásagnir af dauðsföllum 1918 þegar spænska veikin geisaði séu lygasögur?

Ég skil ekki af hverju fólk í fullu fjöri sem býr með öðru fólki í fullu fjöri en má mæta á vinnustað, borða góðan mat, lesa, fara út að ganga og hlaupa og mátti ferðast býsnin öll um Ísland í sumar getur ekki sleppt því að koma við í góðu hófi á heimleið. 

Eina skiljanlega ástæðan væri ef viðkomandi tryði á engan hátt á gildi þess að fækka smitleiðum. Er það málið? Þá ætti viðkomandi nefnilega ekki að vera í framvarðarsveit þeirra sem brýna smitvarnir fyrir okkur sem viljum hlúa að okkar viðkvæmustu hópum.

Ég er ekki uppreisnarseggur. Ég leyfi fólki að njóta vafans. Ég vil að fólk fái tækifæri til að svara fyrir gjörðir sínar. Ég mun áfram fara varlega en ég óttast að margir muni á næstu vikum hópast saman og segja: 

hvað höfðingjarnir hafast að
hinir meina sér leyfist það

eins og Hallgrímur Pétursson orti. Allt 10. erindi 21. Passíusálms hljóðar svo:

Yfirmönnunum er því vant,
undirsátarnir hnýsa grannt
eftir því sem fyrir augun ber;
auðnæmast þó hið vonda er.
Hvað höfðingjarnir hafast að,
hinir meina sér leyfist það.

Fyrir mág minn, föðursystur mína og allt heilbrigðisstarfsfólkið ætla ég að hafa mig hæga þangað til við erum komin fyrir vind.


Ég virði sóttvarnir

Ég er að hlusta á Segðu mér af því að jólin eru róleg í ár.

Gleðileg jól.

 

jól 2020


Að skrifa og senda jólakort

Þegar mest lét sendi ég líklega um 50 jólakort og fékk svipað. Ég hef heyrt langtum hærri tölur þannig að ég veit að þetta voru engin býsn hjá mér. Ég hætti öllum kortaskrifum fyrir a.m.k. 15 árum og ástæðan er sú að flest kortin sem ég fékk voru fyrirfram prentuð og skrifuð af skyldurækni. Flest voru persónuleikalaus þótt á því væru heiðarlegar undantekningar. Öll mín kort voru hins vegar stíluð persónulega á viðtakandann, einhver tilvísun í minningar mínar með honum. Kannski ekki frábær kort en sannarlega persónuleg og ég hætti að nenna að fá ópersónulegu kortin. Eins og við vitum sér gjöf æ til gjalda þannig að ég datt út af jólakortalista flestra.

Nú eru margir hættir að skrifa og senda jólakort í pósti og nota í staðinn rafrænar kveðjur. Eins og gefur að skilja sakna ég ekki kortanna ... en kannski saknar Pósturinn sendinganna úr því að verð á einu innanlandsfrímerki er komið í 195 kr. Og svo fór ég að hugsa hvort fólkið sem ætlar sko ekki að versla við sjálfsafgreiðslukassana af því að þá missir starfsfólkið vinnuna haldi ekki örugglega áfram að senda jólakort til að starfsfólkið missi síður vinnuna við að bera þau út.

Þetta er ekki sérlega jólalegt hjá mér en ég sendi samt hér með allar mínar hugheilustu jólakveðjur út í kosmósið. kiss


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband